Steinn Steinarr svarar spurningum um ljóð ungra skálda

Jón Óskar tók viðtalið. Birtist áður í Birtingi 2. tbl. 1955


Um jól í vetur kom út Árbók skálda, sýnishorn af því hvernig yngstu skáldin yrkja á Íslandi nú á dögum. Okkur langaði mjög til að fá umsögn einhvers sem vit hefur á um bók pessa. Okkur datt þá það snjallræði í hug að hitta að máli Stein skáld Steinarr og spyrja hann nokkurra spurninga um skáldskapinn í þessari bók. Honum treystum við til að láta allt flakka sem honum byggi í hug, hvort sem það væri okkur til hnjóðs eða lofs. Þá fýsti okkur og að fá að heyra álit hans á þróun ljóðagerðar á Íslandi nú síðustu árin, t. d. eins og hún speglast í árbókinni. Þess vegna kom ég að máli við Stein. Hann tók mér alúðlega eins og hans var von og vísa og var undireins fús til að gera okkur þennan greiða. Er nú ekki að orðlengja það nema ég lagði fyrir hann spurningar og hann svaraði af mikilli hreinskilni. Hér er sem sé um spurningar og svör að ræða, en ekki eiginlegt samtal.

Hann spyr aldrei. Hann svarar. Ég mótmæli aldrei, þó að ég sé á öðru máli. Ég spyr einungis. Auðvitað hljóta margir að vera ósammála Steini. En hann þykist ekki heldur vera neinn dómari. Hann segir einungis álit sitt og það verðum við að hafa.

Finnst þér þetta safn vera gott eða slæmt sýnishorn af ljóðagerð yngstu skáldanna á Íslandi?

Ég held að það sé nokkuð gott, enda er Magnús Ásgeirsson allra manna líklegastur til að inna slíkt verk vel af hendi.

Sýnist þér eftir lestur bókarinnar að íslenzk ljóðlist sé á hnignunarskeiði?

Það held ég ekki, en fljótt á litið sýnist mér ekki bóla þar á mörgum stórmennum. Enginn Matthías er þar og ekki heldur Einar Ben., eins og gamla fólkið segir. En hvað um það, þetta er sjálfsagt það sem koma skal, og þegar til kastanna kemur er maður víst ekki fyllilega dómbær um þá hluti sem standa svo nálægt manni sjálfum í tíma og rúmi.

Álítur þú að skáld, sem vikið hafa að nokkru eða öllu frá stuðlum, höfuðstöfum og rími, hafi tekið skakka stefnu?

Ég held að það sé aukaatriði hvort ljóð er rímað eða órímað. Enginn verður skáld fyrir það eitt að sleppa stuðlum, höfuðstöfum og endarími, á sama hátt og enginn verður skáld fyrir rímið eitt saman. Þetta eru að vísu gömul og viðurkennd sannindi, en þó held ég að sumir höfundar þessarar bókar mættu taka það til nýrrar athugunar. Afturámóti hefur mér ævinlega fundizt ljóðformið krefjast sérstaks máls eða orðbragðs eða hvað það nú heitir, táknræns, konsentreraðs, „upphafins” máls. Einkum og sér í lagi hið svokallaða moderne ljóð. Það er hverju orði sannara að rímið bjargar miklu í þeim andlegu bágindum, sem gömlu mennirnir eiga við að stríða, en rímleysan verður að berjast upp á eigin spýtur. Hún stendur eða fellur með sér sjálfri án utanaðkomandi hjálparmeðala. Henni er, þótt undarlegt megi virðast, raunverulega miklu þrengri stakkur sniðinn.

Sýnist þér yngstu skáldin yrkja um annað en það, sem skáld næstu kynslóðar á undan ortu um?

Það veit ég ekki með vissu, en sennilega eru yrkisefnin ávallt hin sömu, nefnilega skáldið sjálft.

Virðist þér að þeir taki yrkisefnin öðrum tökum, sjái þau ef til vill á annan hátt, skynji þau öðruvísi?

Það gera þeir að vísu eða það ætla þeir sér að minnsta kosti. Annars virðist mér inntak og áætlun allrar nútímalistar stefna að æ innhverfari túlkun persónuleikans. Það er sjálfsagt gott, en það á sjálfsagt einnig eftir að springa í loft upp eins og allar aðrar stefnur og kenningar. Er lífvænlegur skáldskapur í bókinni? Ég á erfitt með að dæma um það. Sjálfsagt eiga efnilegustu skáldin í þessari bók eftir að gera betur. Það vona ég að minnsta kosti. Þetta er ekki sagt ljóðunum til lasts, heldur höfundum þeirra til lofs og dýrðar. Er hann jafnlífvænlegur og skáldskapur næstu kynslóðar á undan? Ég á líka dálítið erfitt með að dæma um það. Sú skáldakynslóð, sem þarna kemur fram, er að mestu leyti óráðin gáta. Næsta skáldakynslóð á undan er afturámóti löngu ráðin gáta. Í fljótu bragði virðist mér vanta lífsháskann í þessa bók, ef ég mætti orða það svo. Menn verða ekki mikil skáld nema því aðeins að þeir komist í mikinn lífsháska, séu leiddir út undir högg eins og Þórir Jökull eða flæði á skeri suður í Kópavogi eins og Jón gamli í Digranesi. Við gömlu mennirnir erum kannski ekki mjög mikil skáld, en það litla sem við erum, erum við sökum þess að við vorum eitt sinn í háska staddir.

Hvað viltu annars segja um einstök skáld bókarinnar?

Ég er vitanlega ekki þess umkominn að fella dóma yfir þessum ungu skáldum, enda naumast tímabært að öllu leyti. Þó get ég, ef þú óskar þess, sagt þér mitt álit á fáeinum þeirra, en ég tek það fram að það er aðeins skoðun mín eftir lauslega athugun og eins og nú standa sakir. Og skal þá fyrst frægan telja Jón úr Vör. Mér virðist hann hafa nokkra sérstöðu meðal þessara skálda. Hann er þeirra elztur sem slíkur og hefur ekki orðið fyrir áhrifum frá neinum nema sænsku öreigaskáldunum svokölluðu, sem nú eru löngu gleymd og grafin. Þrátt fyrir það er hann allgott skáld og býsna nýtízkulegur. En hann er varla til eftirbreytni. Það er naumast á nokkurs annars manns færi að þræða það einstigi milli skáldskapar og leirburðar sem hann fer.

Hannes Sigfússon er einkennilegur hæfileikamaður. Kvæði hans, Dymbilvaka, virðist runnið upp úr skáldskap Eliots eða öllu heldur misskilningi á honum, en þessi misskilningur Hannesar eða hvað það nú er á The Waste Land hefur á einhvern dularfullan hátt orðið til þess að skapa þetta sjálfstæða, mikilúðlega og dulmagnaða kvæði. Ég veit engan lærisvein Eliots hafa sloppið svo vel. Ennfremur yrkir hann á meira máli en flestir aðrir í þessari bók: Hann verður að teljast í allra fremstu röð hinna ungu skálda, hvað sem síðar verður.

Hannes Pétursson er „vonarstjarnan“ í þessari bók. Ég hef aldrei vitað íslenzkan mann á hans aldri yrkja jafn vel. Það er að vísu engin trygging fyrir glæsilegri framtíð. Þó má það undarlegt heita ef þar er ekki gott skáld á ferðinni. Það er ekki úr vegi að leiðrétta hér þann misskilning, sem ég hef mjög orðið var við, að Hannes Pétursson sé lærisveinn Snorra Hjartarsonar. Það er hann ekki í þessum kvæðum að minnsta kosti. Afturámóti hefur hann lært mikið af Jóni Helgasyni og er gott til þess að vita.

Einar Bragi er víst mikill áhugamaður um skáldskap, en ekki verður ennþá séð hvert sá áhugi leiðir hann. Gunnar Dal minnir mig allmikið á Ásmund frá Skúfstöðum — og má það undarlegt heita. Ljóð Stefáns Harðar eru skrítin og skemmtilega gerð, þegar bezt lætur. Það má vel vera að frá honum sé nokkurs að vænta. Þorstein Valdimarsson hef ég aldrei kunnað að meta. Mér finnst kveðskapur hans óekta, þruglkenndur og lífvana tilbúningur, uppblásinn af einhvers konar gamaldags og umfram allt leiðinlegri rómantík. Kristján frá Djúpalæk hélt ég að væri gott skáld, allt að því þjóðskáld. Ég hef að vísu ekki lesið bækur hans, en eftir þessum kvæðum að dæma virðist mér ekki mikils frá honum að vænta.

Um Thor Vilhjálmsson þori ég lítið að segja. Hann er fullur af skáldlegum belgingi eins og ungum mönnum er tamt. Það kæmi mér að vísu ekki allskostar á óvart að hann yrði einhverntíma í framtíðinni talinn til spámannanna, en eins og nú standa sakir finnst mér alvara hans dálítið innantóm og jafnvel allt að því brosleg á stundum.

Jón Óskar er kannski alvarlegasta skáldið í bókinni, en ef til vill hefur hann valið sér óheppilega lærimeistara, Eluard og Neruda. Ekki er ég samt að lasta þá mætu menn, en þeir eru nokkuð fjarskyldir okkur eins og kannski frönsk og rómönsk menning yfirleitt. Þegar allt kemur til alls erum við ekki annað en barbarar, germanskir, engilsaxneskir og norrænir barbarar. Þar stendur fé okkar fótum. Þar er sjálf uppspretta okkar, sem ekki lætur að sér hæða.

Að lokum langar mig til þess að minnast á Sigfús Daðason, „heiðursgestinn sem ekki er viðstaddur“, eins og Björgvin sýslumaður sagði forðum. Margir munu sakna þess að sjá hann ekki í þessum skáldahópi, því að við hann eru tengdar miklar vonir margra góðra manna.Jón Óskar

Jón Óskar (Ásmundsson) (F. 18. júlí 1921. D. 20. október 1998) var skáld og rithöfundur, einn af frumkvöðlum módernisma í íslenskri ljóðagerð og í hópi atómskáldanna svonefndu. Hann samdi einkum smásögur og ljóð, en einnig eina skáldsögu, ferðahugleiðingar og rit sagnfræðilegs eðlis. Á árunum 1969–1979 komu út í sex bindum æviminningar hans um líf skálda og listamanna í Reykjavík á árunum 1940–1960. Jón var einnig afkastamikill þýðandi úr ítölsku og frönsku og þýddi m.a. ljóð eftir Baudelaire, Verlaine og Rimbaud auk verka í óbundnu máli eftir Albert Camus, Carlo Levi, Ignazio Silone, Simone de Beauvoir, George Sand og fleiri.

Nokkur orð um líf og ljóð Steins Steinarr

eftir Helga J. Halldórsson. Birtist áður í Jólablaði Þjóðviljans 1958


Á öndverðu þessu ári hvarf okkur af sviði lífsins einn sérstæðasti persónuleiki og frumlegasta skáld þessarar kynslóðar: Steinn Steinarr skáld. Vinum hans og ljóðaunnendum er það hins vegar mikil huggun, að hann er enn hjá þeim í ljóði sínu. Það er þess vegna ekki úr vegi að láta hugann á þessum jólum dvelja um stund við líf hans og ljóð.

Steinn Steinarr var fæddur á Laugalandi í Nauteyrarhreppi í Norður-Ísafjarðarsýslu 1908, sonur Kristmundar Guðmundssonar og Etilríðar Pálsdóttur. Hann fluttist á barnsaldri suður í Saurbæ í Dalasýslu og ólst þar upp til 15 ára aldurs, fyrst eitt ár í Bessatungu og síðan þar til hann var 13 1/2 árs í Miklagarði hjá Steingrími Samúelssyni og móður hans, Kristínu Tómasdóttur. Eftir það var hann 2 ár á Hvoli í Saurbæ og eitt sumar á Tindum í Geiradal. Þá var hann einn vetur á Núpsskóla i Dýrafirði, og er það öll framhaldsmenntun Steins, en í barnaskóla var hann hjá Jóhannesi úr Kötlum, sem var barnakennari í Saurbænum, þegar Steinn var þar að alast upp. Að loknu eins vetrar námi í Núpsskóla kom Steinn til Reykjavíkur 1924, þá á 17. aldursári og átti þar heima síðan. En nú fóru erfiðir tímar í hönd. Steinn var lítt fallinn til erfiðisvinnu, en átti ekki annarra kosta völ. Hann vann almenna hafnarvinnu í Reykjavík, við bústörf á Korpúlfsstöðum, síldarvinnu á Siglufirði og í síldarverksmiðjunni á Sólbakka, vegavinnu í Bröttubrekku og aftur við sveitastörf í Dölum vestur.
Eftir 1930 fór Steinn tvívegis til Danmerkur og Þýzkalands, 1933–34 og ‘36. Varð hann þá gjarnan að vinna sér til lífsuppeldis, var tvívegis í vinnumennsku á Sjálandi, annað skiptið við garðyrkjustörf, en hitt skiptið við hænsnarækt. Fyrsta ljóðabók Steins, Rauður loginn brann, kom út 1934, gefin út á kostnað höfundar. Framan við hana er svofelld tileinkunn:

Þessi bók er tileinkuð félögum mínum og kunningjum í Reykjavík, sem árum saman hafa barizt eins og hetjur við hlið mína fyrir lífsnauðsynjum sínum — og enn ekki sigrað.

Í þessari ljóðabók Steins ber mest á heimsádeilu og byltingarljóðum. Fyrsta kvæðið, Öreigaæska, er greinilega ort undir áhrifum frá Jóhannesi úr Kötlum, en flest eru kvæðin ljóðræn að formi. Steinn er á þessu stigi líkt og Jóhannes rómantískur raunsæismaður. Annars má vera, að Stefán frá Hvítadal hafi átt meiri ítök í huga Steins, þegar hann hóf ljóðaferil sinn. Steinn ólst upp í heimabyggð Stefáns og var honum persónulega kunnugur. Ljóðævi Stefáns og lífsævi var og öll, áður en Rauður loginn brann kom út, því að Stefán andaðist ári áður eða 1933 og síðasta ljóðabók hans, Helsingjar, kom út 1927.

Stefán frá Hvítadal og Davíð frá Fagraskógi voru þau Ijóðskáld íslenzk, er ákafast drógu að sér hugi ungra ljóðunnenda á æskuárum Steins. Sá ástríðueldur og tilfinningahiti, sem brann í ljóðum þeirra, mun að vísu ekki hafa látið Stein ósnortinn í fyrstu, en hann brann ekki upp til ösku í þeim loga, eins og henti sum ljóðskáld á þessum tíma.

Steinn Steinarr er að því leyti í tengslum við þann skáldaskóla, sem reis með Stefáni og Davíð, að flest kvæði hans eiga upptök sín í tilfinningalífi skáldsins. Hann eignaðist hlutdeild í lífsharmi Stefáns, en ekki lífsþorsta og lífsnautn.

Að sjálfsögðu veldur þessu að miklu leyti ólík skapgerð, en þetta er einnig tímanna tákn. Stefán og Davíð hófu ljóðferil sinn í lok heimstyrjaldarinnar fyrri, um leið og Íslendingar endurheimtu fullveldi sitt. Þeir sigldu hraðbyri í því hafróti, sem komst á hið áður kyrrstæða líf hér heima — á styrjaldarárunum og í lok þeirra. Íslendingar fengu meiri fjárráð en áður, þeir urðu stórhugaðri og bjartsýnni á framtíðina. Skáldin kunnu vel að meta og hagnýta sér hið breytta lífsviðhorf. Þau urðu hrifnæmari, geðsveiflur þeirra sterkari, lífsþorsti þeirra ákafari. Þau verða stærri bæði í gleði og sorg. En þetta öldurót stóð ekki nema rúman áratug, og Steinn lenti í útsoginu. Þegar ljóðferill hans hófst, var heimskreppan skollin yfir Ísland, bjartsýnin farin að dvína, lífsmöguleikarnir að þverra. Þess vegna varð ljóðtónn hans annar. Lífsbarátta hans var hörð. Fátækur sveitadrengur vestan af landi með visinn handlegg átti fárra kosta völ í Reykjavík kreppuáranna. En þráin til skáldskapar var öllum örðugleikum yfirsterkari. Hann hafði hrundið ljóðafari sínu á flot, og áfram skyldi haldið.

Ég hef getið þess, að í fyrstu ljóðabók Steins megi greina nokkur áhrif frá Jóhannesi úr Kötlum, en þau áhrif urðu ekki varanleg. Strax í annarri ljóðabók Steins, Ljóðum 1938, eru verkamenn og stéttabarátta ekki lengur aðalyrkisefnið, heldur er meginhluti kvæðanna um hann sjálfan og lífið. Þessar heimspekihugleiðingar ágerast í næstu ljóðabókum, Sporum í Sandi 1940 og Ferð án fyrirheits 1942, og verða heilabrot um fánýti lífsins eða háspekileg tómhyggja eins og Magnús Ásgeirsson komst að orði í ritdómi. Þannig siglir Steinn burt frá sveitunga sínum, Stefáni frá Hvítadal, og kennara sínum, Jóhannesi úr Kötlum, einn á báti.

Þegar fyrsta ljóðabók Steins, Rauður loginn brann, kom út, skrifaði Halldór Kiljan Laxness um hana ritdóm og fór um hana mjög lofsamlegum orðum. Um þriðju ljóðabókina, Spor í sandi, ritaði hann einnig og segir þar m. a. svo:

Höfundur þessara ljóða er sterkt, upprunalegt og persónulegt ljóðskáld, að vísu nokkuð fábreyttur í efnisvali, en vandaður listamaður innan þeirra takmarka, sem hann velur sér. Hann nær lengst í túlkun sinni á þeim kenndum ömurleika og fánýtis, sem grúfa yfir sál hins snauða, rótlausa einstæðings. Mörg kvæðanna eru lifandi túlkun vorrar aldar á anda sálmanna frá 17. öld um forgengileik heimsins og fallvaltleik mannlegs lífs, og snilldarverk bókarinnar eru heimsádeilukvæðin eins og „Það bjargast ekki neitt,“ og „Svo óralangt þú einn og hljóður gekkst,“ þótt þau séu, ef til vill, fullnakin í tjáningu sinni og segi of berum orðum þá hluti, sem betur fara í rósamáli og tákna.

Frá listrænu sjónarmiði er greinilega um framför að ræða með hverri nýrri bók. Steinn leggur sífellt meiri rækt við formið, fágar og slípar. Hann yrkir sjaldan löng kvæði. Stundum er eins og hann leggi metnað sinn í að segja sem mest með sem fæstum orðum, en bregða þó upp skýrri mynd. Gott dæmi þess er smákvæðið „Bær í Breiðafirði“.

Grænt, rautt og gult.

Og golan þýtur
í þaksins stráum.

Tvö fölleit andlit
með augum bláum
á eftir mér stara
í hljóðri spurn:

Hvert ertu að fara?

En styrkur Steins er mestur í harminum, þróttleysi hans og viðnámi í senn — máski ekki í nakinni og beizkri umkvörtun svo sem í kvæðinu Að fengnum skáldalaunum, heldur miklu fremur í ljóðunum Hin mikla gjöf, Heimferð og Til hinna dauðu, þar sem persónan rís upp úr harminum, eldskírn þjáninganna, öllu og öllum óháð, frjáls og sterk í veikleika sínum og einveru. Form og efni falla hvort að öðru í fullkominni sátt.

Í síðari ljóðabókunum Sporum í sandi og þó einkum í Ferð án fyrirheits er háðið, fyndnin og hin markvissa ádeila í orðknöppu formi orðin mjög ríkjandi í ljóðum Steins. Ádeila þessi er í senn meinyrt og nöpur svo sem í Imperium britannicum eða kaldhæðin og glettin svo sem í ljóðunum Að sigra heiminn, Að frelsa heiminn og Passíusálmi nr. 51. Hið síðasttalda er napurt háðkvæði, einfalt en þó sterkt, og skeytið hittir beint í mark. Varla verður betur túlkað hið algjöra skilningsleysi fólksins á því, sem er að gerast í kringum það, hið algjöra kæruleysi fyrir þjáningum mannsins að fornu og nýju. Í kvæðinu er nákvæmlega lýst öllu hinu ytra: veðrinu, sjónum, ytra útliti mannsins, sem verið er að krossfesta, augum stúlkunnar, sem af einskærri forvitni hefur tekið sér far með strætisvagni til þess að horfa á athöfnina. Og svo kemur þessi kæruleysislega spurning langt utan úr órafjarska skilningsleysisins: Skyldi manninum ekki leiðast að láta krossfesta sig? Þó að bölsýn heimsádeila, háð og skop séu mjög ríkjandi í ljóðum Steins, bregður þó stundum fyrir bjartsýni og jafnvel stolti: Má þar benda á þrjú kvæði í Sporum í sandi: Gömul vísa um vorið, Stökur og Chaplinvísan, model 1939. Einnig er víða að finna tærar og ósviknar ljóðperlur, svo sem smákvæðið Vor og Það vex eitt blóm fyrir vestan.

Ég hef orðið var við þann misskilning hjá ýmsum, sem lítt eða ekki hafa lesið ljóð Steins, að hann yrki yfirleitt ekki rímað og sé ósýnt um fornar bragreglur. En sannleikurinn er sá, að órímuð ljóð teljast til algjörra undantekninga í kvæðabókum Steins, meira að segja þeirri síðustu Tímanum og vatninu, sem annars hefur algjöra sérstöðu. Og það mætti segja mér, að Steinn hefði orðið afburða rímnaskáld í líkingu við Bólu-Hjálmar, ef hann hefði verið uppi einni öld fyrr. Máski hefði hann ort sízt ómergjaðri rímur en Göngu-Hrólfs rímur. Í þá átt bendir Mansöngur úr Hlíðar-Jóns rímum, sem birtist í Sporum í sandi, og einhversstaðar mun vera til slitur úr þeim rímum þó að þær hafi ekki birzt ennþá. Í sömu bók er einnig Brúðkaupskvæði í gömlum stíl, þar sem allt stendur í föstum skorðum, stuðlar, rím og hrynjandi. Og ekki vantar rímið í kvæðið Hugleiðingar um nýja heimsstyrjöld.

En Steinn er uppi öld síðar en Bólu-Hjálmar, og íslenzkt þjóðfélag er orðið annað en það var á dögum hans, þó að það eigi sér enn nokkrar hliðstæður. Þess vegna bera ljóð Steins á sér annan svip en ljóð Bólu-Hjálmars. Steini er ljóst, að nýr tími krefst nýrrar tjáningaraðferðar.

Í upphafi ritdóms Halldórs Laxness um Spor í sandi, sem ég vitnaði áður í, segir svo:

Af allri þekktri starfsemi er einna minnst íþrótt að yrkja ljóðræn kvæði á íslenzku nú á dögum. Sá Íslendingur, leikur eða lærður, er varla til, að hann geti ekki ort lýtalaust ljóðrænt kvæði eftir vild. Ljóðrænn kveðskapur íslenzkur er á tuttugustu öld sams konar rennsli í föstum farvegi og sálmakveðskapur eða rímur voru áður fyrri — tungan er í nokkrar kynslóðir vanin á einu sviði, unz hún er orðin sjálfvirk: hugmyndir og yrkisefniföst, blærinn fyrirfram ákveðinn og ævinlega samur, orðin yrkja sig sjálf, starf „skáldsins“ er að skrúfa frá nokkurskonar krana; og oft er rennslið þeim mun jafnara og misfellulausara sem maðurinn við kranann er hugsunarlausari og sljórri.
Því meira allra-meðfæri sem „list“ þessi verður, þeim mun sjaldgæfara að hitta skáld. Þó markmiðið sé rómantísk dýrkun tilfinninganna, eru mannlegar tilfinningar í hefðbundnum skáldskap venjulega allfjarri, því miður.
Mitt í þessari almennu, sjálfvirku starfsemi, getur manni orðið hverft við að heyra upprunalegan hreim í ljóði, skynja einhvern innri veruleik bak við orð, ég tala nú ekki um eitthvað, sem á rót sína í örlögum kynslóðarinnar, eða þó ekki sé nema í trega eins manns.

Hér er nokkuð fast að orði kveðið, en í þessu er þó sannleikskjarni. Hættan á stöðnun vofir yfir sérhverju listformi. Engum er þetta ljósara en listamönnunum sjálfum, og ég hygg, að Steini hafi tekizt vel, er hann reif sig frá meginstraumi ljóðræns kveðskapar á fyrri hluta 20. aldar. Með ljóðabókunum Sporum í sandi og Ferð án fyrirheits reis Steinn upp sem listrænn ljóðasmiður, sérstæður en þó í senn sammannlegur. En formbyltingin er algjörust í Tímanum og vatninu. Segja má, að þessi ljóðabók, sem kom út 1948 marki tímamót í ljóðagerð Steins, ekki þó fyrst og fremst vegna rímleysis, því að mörg kvæðin eru bæði rímuð og stuðluð, heldur af allt öðru, sem nú skal nánar vikið að. Í bókinni eru 13 smáljóð, og höfðu þau birzt áður í tímaritum og þá undir ýmsum heitum, en mynda í þessari bók samstæðan flokk.

Þess er áður getið, að Steinn sé undir nokkrum áhrifum frá Jóhannesi úr Kötlum í fyrstu ljóðabók sinni, en þau áhrif hverfa strax með annarri bók, og því lengra sem líður á skáldferil Steins, verður hann sífellt persónulegri, sérstæðari og óháðari bæði fyrirrennurum sínum og samtímaskáldum innlendum. Í fjórum fyrstu ljóðabókum hans eru kvæði ýmislegs efnis, eins og ég hef þegar vikið að, en eitt hefur undantekningarlaust verið Steini ástríða: það er að nota sem orðknappast form. Og það er í rauninni orðið honum lokatakmark í Tímanum og vatninu. Hann hefur aðgreint listina frá hinni hversdagslegu lífsbaráttu og gert hana að sjálfstæðri höfuðskepnu, losað sig við alla óþarfa mælgi, tínt burt allt óþarfa skraut, meira að segja lesmerki, og fer vel á því í þessu formi. Í kvæðunum er engin ádeila, engin kímni, ekkert háð. Eftir stendur lyrikin ein, lífsheimspekin um mig og þig og hið skynjanlega umhverfi í myndrænu formi.

Fyrstu kvæði Steins í þessu nýja formi munu hafa birzt í Tímariti Máls og menningar 1945. Þar eru þrjú örstutt kvæði, kvæði, sem heita svo: dagur og nótt, hvítur hestur í tunglskini og þögn. Hvert kvæði er aðeins þrjú erindi og hvert erindi er þrjár ljóðlínur. Formið er þanníg mjög þröngt og greinilega byggt upp með hliðsjqn af málverkum. Kvæðið hvítur hestur í tunglskini er þannig:

hvítt
hvítt eins og vængur
míns fyrsta draums
er fax hans

eins og löng ferð
á línhvítum fáki
er líf manns

og feigðin heldur sér
frammjóum höndum
í fax hans

Hér er brugðið upp skýrri mynd, svo skýrri, að við sjáum málverkið fyrir okkur, sjáum feigðina, sem heldur sér frammjóum höndum í hvítt faxið á hinum línhvíta fáki. Jafnframt er komið fyrir í myndinni nokkurri lífspeki um líf mannsins. Í kvæðinu þögn er dirfska skáldsins ennþá meiri. Í því tekur skáldið þögnina og gefur henni bæði lit og lögun, svo að hægt er að sjá hana og jafnvel þreifa á henni. Það kvæði virðist gert með hliðsjón af óhlutlægu málverki:

þögnin rennur
eins og rauður sjór
yfir rödd mína

þögnin rennur
eins og ryðbrunnið myrkur
yfir reynd mína

þögnin rennur
í þreföldum hring
kringum þögn sína

Sama árið og ljóð þessi birtust í Tímariti Máls og menningar eða 1945 fór Steinn til Svíþjóðar og dvaldist þar um 10 mánaða skeið. Mun hann þá hafa kynnt sér nokkuð skáldskap förtitalistanna sænsku og kynntist sumum þeirra persónulega. Væntanlega hefur hann þó verið farinn að lesa ljóð þeirra áður, því að ljóðabók Gunnars Ekelöfs Sent på jorden kom út 1932 og ljóðabók Eriks Lindegren Mannen utan väg kom út 1942. En ljóðabækur þeirra eru fyrstu ljóðasöfnin í Svíþjóð, þar sem ljóðin eru byggð upp sem abstrakt eða máske öllu heldur súrrealisk málverk.

En enda þótt erlendar fyrirmyndir hafi máski orðið Steini hvöt til að gera tilraunir með nýtt ljóðform, er síður en svo, að hann hafi tileinkað sér hinar erlendu fyrirmyndir óbreyttar, heldur bera ljóðin fyrst og fremst svip af skapgerð skáldsins og lífsviðhorfi. Þó að margt komi okkur ókunnuglega fyrir sjónir í Tímanum og vatninu, má, ef betur er að gáð, finna ýmsar hliðstæður í eldri ljóðum skáldsins. Ég minni á Vor í annarri ljóðabókinni 1938 og Bæ í Breiðafirði í Ferð án fyrirheits.

Einnig heldur áfram og reyndar ágerist heldur tómleikatilfinning sú, einverukennd og lífsharmur, sem eru svo ríkjandi í eldri ljóðabókunum:

Frá vitund minni
Til vara þinna
Er veglaust haf

En draumur minn glóði
í dulkvikri báru
Meðah djúpið svaf

Og falin sorg mín
Nær fundi þínum
Eins og firðblátt haf

Tíminn og vatnið er síðasta ljóðabók Steins. 1949 komu út 100 kvæði, úrval úr eldri ljóðum, og heildarútgáfa af ljóðum hans kom út 1956. En eftir að Tíminn og vatnið kom út 1948, birtist nær ekkert af nýjum ljóðum eftir Stein. Unnendum ljóða hans var þetta mikið áhyggjuefni. Þegar menn hafa fengið eitthvað gott, vilja þeir gjarnan meira af slíku. Engum getum skal að því leitt þessu sinni, hvað hafi valdið. Það virðist eins og Steinn hafi með Tímanum og vatninu ort sig í þá sjálfheldu, sem hann losnaði ekki úr, ort sig burt frá amstri daglegs lífs, og ekkert mun hafa verið honum fjær skapi en eiga það á hættu að yrkja sig niður. En þótt hann gæfi okkur fá ljóð síðustu árin og þótt hann sé horfinn af sviði lífsins, var ljóðgjöf hans samt svo stór og vönduð, að vegna hennar mun hans minnzt, meðan íslenzk ljóð eru einhvers metin.Helgi J. Halldórsson

Helgi J. Halldórsson (F. 1915. D. 1987) lagði stund á íslensk fræði við Háskóla íslands og lauk þaðan cand. mag.-prófi 1945. Sama ár tók hann við starfi kennara í íslensku og ensku við Stýrimannaskólann í Reykjavík og gegndi því starfi þar til hann varð sjötugur árið 1985. Auk kennslunnar stundaði Helgi ritstörf. Hann tók saman Enska lestrarbók handa sjómönnum sem kom út árið 1954. Meðal annarra verka hans eru Þættir úr sagnfræði Íslandsklukkunnar og lögmál skáldverksins, sem birtist í Á góðu dægri árið 1951, og Skýringar við Gerplu sem komu út árið 1956. Af þýðingum Helga má nefna skáldsöguna Smaragðinn eftir Josef Kjellgren, Hús skáldsins, rit um skáldverk Halldórs Laxness eftir Peter Hallberg, og Gift og Götu bernskunnar eftir Tove Ditlevsen.

Hugleiðing um óbundið mál Steins Steinarr

— eftir Þórdísi Gísladóttur. Birtist áður í Lesbók Morgunblaðsins 28. mars 1992


Í grein þeirri er hér fer á eftir mun ég fjalla vítt og breitt um óbundið mál Steins Steinars. Ég geri mér ekki vonir um að finna greinum Steins stað innan ákveðinnar bókmenntastefnu enda ekki ætlunin með þessari umfjöllun. Að mínu viti er óbundið mál Steins ekki þannig vaxið sem bókmenntir að þörf sé á túlkun þar sem ákveðin stefna er höfð til viðmiðunar. Steinn Steinarr var merkur frumkvöðull nýjunga í módernískri ljóðagerð en hinar stuttu greinar hans eru ekki að því er ég best fæ séð skrifaðar í anda módernisma þó einhversstaðar komi fram efi um sjálfsvitund höfundarins og hugmyndir Steins um sjálfan sig sem mann án ákveðins tilgangs komi engu síður fram í óbundnu máli hans en ljóðunum.

Sé athyglinni beint að öðru og viðameira efni og undirrituð efist í raun ekki um gildi bókmenntafræða, má líka spyrja sig að því tii hvers bókmenntatúlkun sé og jafnvel hvað hún sé. Ef hlutverk hennar er eingöngu það að finna einhverja stefnu sem passar við einhvern texta, þá hljóta bæði fræðin og textinn eða að minnsta kosti annaðhvort að vera nauðstatt í blindgötu og verr farið af stað við að túika en heima setið.

Hvað sem þessu líður mun ég hér á eftir reyna að bregða ljósi á það óbundna mál sem eftir Stein Steinarr liggur.

Það sem Steinn Steinarr lét eftir sig af lausamáli er ekki mikið að vöxtum. Um er að ræða nokkrar ósamstæðar greinar, ritdóma og fleira, sem birtist á árunum 1940–1958 í Hádegisblaðinu, Helgafelli, Alþýðublaðinu og Þjóðviljanum. Einnig ýmislegt sem aldrei fór á prent, oft brot sem ekki hefur verið lokið við eins og upphaf ferðasögu og upphaf erindis um daginn og veginn.

Í óbundna málinu koma allir bestu kostir skáldsins vel fram og list hans og málfar nýtur sín til fullnustu. Textarnir eru allir stuttir og margir myndu vísast kalla þá rýra að efni en Steinn gerir hversdagslegustu hluti, brot úr samtölum sem hann heyrir fyrir tilviljun úti á götu og fleira sem fyrir augu og eyru ber í amstri hvunndagsins, þannig úr garði að lesandinn hrífst og finnst það jafnvel stórmerkilegt.

Steinn er óragur við að segja skoðun sína umbúðalaust á mönnum og málefnum. Ýmsir sem nutu mikillar virðingar á sinni tíð og gera enn, eins og Sigurður Nordal og Helgi Hjörvar, fá það óþvegið.

Í greinunum ómar óneitanlega sami tónn og í ljóðunum. Það sem gengið hefur í berhögg við skoðanir almennings hefur vafalaust ekki verið form ljóðanna fyrst og fremst eins og oft er látið. Inntakið er vel til þess fallið að hrista upp í almenningsálitinu og það á einnig við um óbundið mál skáldsins. Kaldhæðnin sem oft skín í gegn í ljóðunum er einnig til staðar að hluta til í óbundna málinu, Steinn bregður gjarnan um sig hjúpi háðs og glettni en oft skín í gegn að þetta er varnarhjúpur. Undir niðri býr eitthvað sem vel mætti kalla hlýju. Steinn er og léttlyndari í óbundna málinu en ljóðunum, meira ber á spauginu. Hann talar alltaf í fyrstu persónu í greinum sínum og er fundvís á hið spaugilega í hversdagslífi Reykjavíkur. Þegar hann fjallar um „ástandið“ og sjálfan sig í Hádegisblaðinu 1940 segir hann:

Það eru annars ljótu vandræðin með kvenfólkið okkar, síðan brezki herinn komst í spilið. Guð hjálpi mér, að slíkt skuli geta skeð. Ég hef að vísu ekki úr háum söðli að detta í kvennamálum, og þær fáu kærustur sem ég hef eignazt um dagana, hafa í raun og veru alltaf verið í hers höndum, hvernig sem á því stendur.

(Kvæðasafn og greinar bls. 249.)

Sé kveðskapur og óbundið mál Steins enn borið saman má athuga formála Kristjáns Karlssonar að ritsafninu Kvæðasafn og greinar. Þar segir:

Annars er málfar ljóðanna ekki það sérkennilegt og sérvizkulegt nema í vísvituðum stælingum að það brjóti í bága við algengan smekk. Í þeim skilningi er það sígilt. Það hefur meira almennt gildi en persónulegt eða þjóðlegt; í raun og veru bregður oft fyrir persónulegri tón og hrynjandi í pistlum Steins í óbundnu máli. (Kvæðasafn og greinar bls. VIII.)

Máli sínu til stuðnings tekur Kristján dæmi úr áður óprentuðum pistli Steins um Reykjavík og bendir á að af honum megi margt læra um stíl, málfar og lífsviðhorf höfundarins. Hann bendir m.a. á hvernig Steinn beitir svo meistaralega fyrirvara og eykur þannig þunga merkingarinnar. Undirrituð er vissulega sammála Kristjáni en meira sé ég í óbundnu máli Steins. Það er eitthvað við stílinn sem minnir á köflum á annan stílsnilling, þó mótun þess meistara hafi verið öllu innlendari en mótun Steins, nefnilega Þórbergur Þórðarson. Sá fyrrnefndi er ekki alltaf jafn einlægur og Þórbergur en því má ekki gleyma að hinn síðarnefndi sagði ekki alltaf alla söguna þó oft vildi hann láta sem svo væri.

Steinn er ekki jafn persónulegur og Þórbergur en leið hans til að færa samtöl sem „hleruð“ eru úti á götu og umbreyta hversdagslegri orðræðu og dægurþrasi í skáldlegan búning, minnir óneitanlega töluvert á aðferðir Þórbergs. Báðir láta líka ýmislegt flakka í hálfkæringi til að skemmta sjálfum sér og lesandanum. Þetta leiðir hugann að því hvers vegna Steinn hafi ekki skrifað meira af óbundnu máli, persónulegur stíll hans hefði notið sín vel í lengri verkum.

Upphafið og jafnvel öll greinin „Haustharmur“ minnir mikið á Þórberg þegar hann beitir skemmtistíl sínum og einnig dettur undirritaðri Þórbergur í hug þegar Steinn segist hafa uppgötvað skáldskapargáfuna í sér sem ungur maður liggjandi á gólfinu á Hverfisgötu 16 og hafi þá kveðið vísuna „Kvenmannslaus í kulda og trekki“. Reyndar minnist Steinn í annarri grein, „Haustharmar“, á Þórberg, segir sér hafa liðið eins og Þórbergur segir „að algengt hafi verið hér á landi sumarið 1912“. (Kvæðasafn og greinar bls. 242.)

Hannes Pétursson segir Stein umfram allt vera skáld hinna smærri forma og því nái hann svo góðum tökum á smágreinum (Við opinn glugga bls. 5). Ég er sannfærð um að þó Steinn hafi einbeitt sér að smærri formum sé hann ekki endilega míníatúristi. Mörg ljóða hans eru að vísu knöpp og myndrík en efni þeirra sem og óbundna málsins er víðfeðmt.

Stíll einstakra greina Steins er nokkuð misjafn þó þær beri ákveðinn heildarsvip. Í greinunum „Haustharmur“, „It’s a long way“ og „Sjö gegn Þebu“, notar hann það sem mér finnst vel að kalla megi „Steinslegan skemmtistíl”. Í greinunum um Þorvald Skúlason, „Svar til Jóhanns Briem“, „Hin íslenzka lestrarbók Sigurðar Nordal“, „Svar til Björns Sigfússonar“ og fleiri ritdómum er hann málefnalegur í gagnrýni sinni og mjög hnitmiðaður. Í afmæliskveðju til Jóhannesar úr Kötlum og greininni „Kalevala“ notar hann aftur skemmtistíl sem þó er ekki jafn kaldhæðinn og í fyrrnefndum greinum heldur fremur hlýlegri.

Áður óprentuðu þættirnir, „Vestur á firði“, „Um skáldskap“, „Upphaf erindis um daginn og veginn“ og „Reykjavík“ eru vel skrifaðir. Steinn er skemmtilegur og fyndinn á sinn sérstaka og persónulega hátt en textarnir eru listasmíð sökum stílsins og þeirrar sýnar sem höfundurinn hefur á viðfangsefni sín. Reykjavík hefur tæpast verið lýst á einlægari hátt en Steinn gerir:

En hún er að einu leyti frábrugðin London, París og Róm, hún á sér enga sögu. Hún varð skyndilega til úr ekki neinu og að því er virðist án nokkurs tilgangs, hvorki góðs né ills, hvað svo sem það á að þýða.
Og við hittumst hér á svona glannalegum morgni, erum börn þessarar borgar, raunar stjúpsynir og tökubörn, en það skiptir ekki miklu máli, því að Reykjavík er öllum góð, hvernig svo sem þeir eru til komnir. Hún hefur að vísu ekki gefið okkur neitt sem auga sér eða hönd á festir. En hún hefur gert okkur að mönnum, drykkfelldum og peningalausum mönnum með ofurlítið brot af samvisku heimsins í hjörtunum. Hún veitti okkur þegnrétt í mannheimum.

(Kvæðasafn og greinar bls. 313.)

Ef flokka á greinar Steins um daglega lífið og jafnvel dóma um bækur og myndlist líka undir einn hatt, myndi ég kalla þær frjálsar esseiur. Stíllinn og efnismeðferðin eru persónuleg og listræn án þess að vera mjög rökföst umræða.

Hjá Steini verða atburðir og upplifanir í hvunndagslífinu uppsprettur íhugunar. Heimspeki og sálfræði teldu efniviðinn kannski fánýtan og ómerkilegan við fyrstu sýn en þegar betur er að gætt er svo ekki. Esseiur Steins gefa hversdagsleikanum dýpt sem við höfðum ekki áður veitt athygli. Og hvað er smávægilegt og hvað er merkilegt?

Stílleg rök stjórna framvindu texta Steins fremur en fræðileg og hann kann að koma á óvart. Fyrstu persónu frásögn skapar nálægð, eins konar trúnaðarsamband við lesandann.

Þegar Steinn fer ómildum orðum um ákveðnar persónur og segir frá hnyttnum tilsvörum sínum eða annarra, nálgast hann anekdótuna eða örsöguna æði mikið. Þar er ekki um að ræða fléttu eða ákveðna þróun, t.a.m. í greinunum „It’s a long way“ og „Sjö gegn Þebu“.

Umfram allt finnst mér Steinn Steinarr vera skemmtilegur og hlýlegur stílisti sem kann vel að fara með kaldhæðni og skop. Stundum heyrist talað um ákveðinn biturleika í ljóðum Steins. Sé hann á annað borð fyrir hendi finn ég ekki þann biturleika í óbundnu máli hans þrátt fyrir að skáldið sé langt frá því að vera mildur í máli um ýmsa menn og málefni.

Það er hverjum lesanda mikils virði að eiga trúnað Steins og óbundið mál hans, þó lítið sé í blaðsíðum talið, varpar skemmtilegu ljósi á eitt af okkar betri skáldum.Þórdís Gísladóttir

Þórdís Gísladóttir (F. 1965), ljóðskáld, þýðandi og rithöfundur, hlaut bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar árið 2010 fyrir sitt fyrsta verk og hefur síðan hlotið fjölda viðurkenninga, meðal annars þrjár tilnefningar til Íslensku bókmenntaverðlaunanna, nú síðast (2016) fyrir bókina Doddi-bók sannleikans. Þórdís hefur þýtt fjölda bóka, sent frá sér ljóðasöfn, barnabækur og námsefni. Horfið ekki í ljósið er hennar fyrsta skáldsaga.Heimildaskrá

Hugtök og heiti í bókmenntafræði; Jakob Benediktsson ritstýrði. Rvík 1983.
Steinn Steinarr: Kvæðasafn og greinar, formáli eftir Kristján Karlsson, Rvík 1982.
Steinn Steinarr: Við opinn glugga. Hannes Pétursson ritstýrði og skrifaði fomiála, Rvík 1961.
(Fyrirsögnin á greininni er sótt í grein Steins, „Um skáldskap“, bls. 304 í Kvæðasafni og greinum.)

Ljóðagerðin varð uppreisn hans

Jón Óskar segir frá kynnum sínum af Steini Steinarr. — Úr bókinni Borg minna drauma


Það var einn maður í Reykjavík, lítill vexti, sem gekk alltaf í frakka og hafði hann jafnan frá sér hnepptan. Þannig minnist ég hans á stríðsárunum, að hann kom á Ingólfskaffi og settist við borð, fékk sér kaffi og rabbaði við menn í makindum, en hann fór ekki úr frakkanum. Hann kom inn á Skálann, settist við borð, sat lengi, fór með vísur fyrir menn sem sátu í kringum hann frakkalausir, drakk mikið kaffi, talaði við menn sem komu og fóru, dró dár að hinu og þessu hægum hreim, en hann fór ekki úr frakkanum. Það var ekki þykkur vetrarfrakki og ekki heldur næfurþunnur sumarfrakki, heldur frakki sem hægt var að nota bæði sumar og vetur, of þykkur í hlýju sumarveðri, of þunnur í köldu vetrarveðri, grár eins og flestir slíkir frakkar á þeim tíma. Seinna hugsaði ég með mér að rétt kynni að vera það sem sumir sögðu, að hann hefði ekki viljað láta sjá föt þau sem hann var í innanundir frakkanum, því frakkinn var ekki neinn frakki til að státa af eins og frakkinn í sögu Steinars Sigurjónssonar um listamanninn sem komst í svo mikinn vanda af því að eignast frakka með loðkraga. Nei, þessi frakki var farinn að láta á sjá, og eigandi hans hafði varla meira en svo ráð á að setja hann í hreinsun, enda engin brýn þörf á því meðan eigandinn leitaði ekki á fínni og háborgaralegri staði en Skálann, Ingólfskaffi, Heitt og kalt eða minniháttar kaffistaði Hafnarstrætis, þar sem hann var þó ekki mikið. Hann var of sterkur til að fara í hundana, sögðu sumir, en aðrir sögðu að það þyrfti sterk bein til að fara í hundana, og þá hefur hann líklega verið of veikur til þess. Hann hét Aðalsteinn Kristmundsson, þessi lágvaxni maður, en þekktur í Reykjavík og jafnvel víðar undir nafninu Steinn Steinarr.

Hann var kaldlyndur maður, að því er ætla mátti af hátterni hans, því hann dró dár að allri tilfinningasemi, var nokkurskonar Óskar Wilde okkar Íslendinga, maður sem gekk um stræti Reykjavíkur, þau stræti sem þá voru lifandi jafnt á kvöldi sem degi, Austurstræti, Aðalstræti, Bankastræti, Lækjargata, og tók menn tali, ef hann kannaðist við þá, gerði grín að borgurunum og varpaði fram skemmtilegum athugasemdum, stundum nokkru galli blöndnum, og hann tamdi sér ákveðna samtalslist eins og Óskar Wilde eða eins og Stefán frá Hvítadal, en þaðan taldi Jóhannes úr Kötlum gallið komið í orðræður Steins, sagði kjaftasögur sem stíll var í, talaði alla jafna mjög hægt og hafði undarlega seiðandi áhrif á viðmælendur sína og áheyrendur, svo sumir losnuðu ekki úr þeirri sefjun ævilangt. Hann var fremur væskilslegur og stundum hálf slyttislegur í hreyfingum, enda visinn annar handleggurinn. Hann gat rætt um hvað sem var, að heita mátti, við hvern sem var, eins og hann hefði langa skólagöngu að baki. Hann hafði það sem í þá daga var kallað lexíkonþekking, en svo var nefnd kjaftaþekking þeirra manna, sem höfðu verið iðnir að fletta upp í alfræðiritum eða fara á hlaupum yfir fræðibækur og skáldverk. Slíkir menn koma fljótt upp um takmarkanir sínar, en Steinn hafði gott vit á að nota þekkingu sína þannig að ekki bæri á því að hann hafði aldrei gengið í skóla umfram það að læra lestur og skrift og reikning í barnaskóla vestur í Dölum, en síðan einn vetur á alþýðuskólanum að Núpi í Dýrafirði.

Sú kaldhæðni sem Steinn Steinarr var búinn að tileinka sér í umgengni við menn og tali um menn, þegar ég kynntist honum á stríðsárunum, kom sjálfsagt ýmsum til að halda að hann væri sá tómhyggjumaður sem sum kvæði hans virtust benda til, hann væri i rauninni ekki uppnæmur fyrir nokkrum sköpuðum hlut. Það var þó tvennt sem hann gat ekki dulið þá sem hann þekktu, að hann var viðkvæmur fyrir. Annað var hans visna hönd „sem vann sér ei til matar“ eins og stendur í kvæði hans, hitt var sjálf ljóðagerðin.

Mér var sögð sú saga, að eitt sinn á kreppuárunum hefði Steinn ráðið sig í erfiðisvinnu. Framan af degi vann hann líkt og aðrir, en bráðlega tók verkstjórinn eftir því að farið var að draga af honum. Spurði hann Stein þá hvort hann væri veikur, en Steinn kannaðist ekki við það. Verkstjórinn sá þó að meira dró af Steini eftir því sem á daginn leið en eðlilegt mátti heita, og að loknu dagsverki gekk hann á hann og komst þá að raun um að annar handleggur þessa verkamanns var visinn. Brá honum í brún og sagði:

Hversvegna sagðirðu mér ekki frá þessu?

Af því að þá hefðirðu aldrei ráðið mig, svaraði Steinn.

Hvort sem þessi saga er uppspuni eða sönn að hálfu eða öllu leyti, þá lýsir hún vel aðstöðu þessa lágvaxna manns á liðnum tímum fárra tækifæra. Ljóðagerðin varð uppreisn hans og sigur yfir örbirgðinni. Enginn annar en sá sem hafði hlotið afburðagáfur í vöggugjöf hefði getað náð slíku valdi á ljóðinu við þau skilyrði fötlunar og kreppu sem hann bjó. Þessvegna sætti hann sig undir niðri illa við þá lítilsvirðingu sem hann hlaut í stað viðurkenningarinnar á meðan hann lifði, og þessvegna var honum nokkurs virði að hljóta viðurkenningu ungra skálda sem töldu sér heiður að vináttu hans. Það var einhverju sinni að við Steinn sátum tveir saman inni á Skála. Þá var Snorri Hjartarson nýbyrjaður að birta kvæði eftir sig, þá starfsmaður í Bæjarbókasafninu við Ingólfsstræti, hafði birt kvæðið fræga „í Úlfdölum“ og fleira. Steinn spurði:

Hvernig líst þér á Snorra?

Mér finnst hann svolitið gamaldags, svaraði ég, en lét annars vel yfir.

Mér þótti Steinn hafa nokkra velþóknun á því, að ég skyldi ekki lýsa yfir óblandinni hrifningu á kvæðum Snorra. Ég vildi hafa meira nýjabrum á íslenskum kveðskap. Snorri hlaut hinsvegar einróma viðurkenningu bókmenntamanna, svo sem hánn átti skilið, því hann orti snilldarvel með sinni gamaldags aðferð.

Steini var greinilega ekki fyllilega rótt, þegar hann minntist á Snorra við mig. Hann sá það sem ég sá ekki, að með svona einróma fylgi bókmenntafræðinga og annarra bókmenntamanna gat svo farið, að Snorri yrði tekinn fram yfir hann, og gengi þá næstur Tómasi, sem ég held óhætt að segja, að gengið hafi næstur Davíð frá Fagraskógi. Þetta held ég hafi valdið Steini nokkrum áhyggjum. Vafalaust hafði hann gert sér vonir um meiri frama, þó Davíð Stefánsson hlyti áfram að fá að sitja í heiðurssætinu á skáldabekk.

Það var öðru sinni, að við sátum tveir saman inni á Skála, einnig þá í rangalanum meðfram garðinum, þar sem oft var gott að sitja og þægilegt að horfa út í garðinn, ef manni leiddist að horfa á fólkið við næstu borð sem þó var jafnan gaman að skoða, og sátu þar oft hrífandi ungar stúlkur sem nutu þess að vera kvenkyns. Þá sagði Steinn:

Hver heldur þú að sé mesta skáld á Íslandi í dag?

Ætli þú hafir ekki vinninginn, svaraði ég. Og ég þurfti raunar ekkert að hræsna, því Tómas var nú heldur að falla í skuggann, að mér þótti. En mér féll ekki vel að þurfa að svara þessu. Hvernig gat Steinn Steinarr látið sér detta í hug að toga slíka yfirlýsingu út úr kunningja sínum? Hvernig gat hann verið að fara í slíkan meting um heiðurssæti á skáldabekk? Hver átti að vera fær um að dæma honum eða öðrum slíkt sæti? Ég get reyndar vel ímyndað mér að sumir aðdáendur hans hafi óbeðnir látið hann heyra, að hann væri mesta skáld á Íslandi, en að hann skyldi fara að spyrja mig um þetta, það þótti mér fremur niðurlægjandi, ekki aðeins fyrir mig, heldur fyrir okkur báða. Hinsvegar skildi ég það betur seinna meir, að Steinn hlaut að vera viðkvæmur gagnvart stöðu sinni í skáldahópi, þar sem hann öðlaðist aldrei þá viðurkenningu bókmenntapáfa þeirra tíma sem honum bar, enda kom það fram við ýmis tækifæri hver hugur hans var til bókmenntaspekinga samtíðarinnar. Eitt dæmið um það er athugasemd frá honum sem birtist i Þjóðviljanum í júnímánuði 1952 (endurprentuð að honum látnum í Kvæðasafn og greinar), en hún hófst á þessa leið:

Sökum þess, að mér er hlýtt til Sósíalistaflokksins, vil ég hér með mótmæla eindregið skrifum þeim um „skáldskap“, sem birtast öðru hverju í blaði hans, Þjóðviljanum, undir nafninu Bjarni Benediktsson. Þau skrif eru sem sé af þeim toga spunnin, að erfitt mun reynast, bæði nú og í náinni framtíð, að kenna þau til menningarlegrar baráttu af nokkru tagi — aðeins virðist höfundur þeirra fá þar persónulega útrás fyrir sjúklega drýldni, mikla vanþekkingu og jafnvel hálfgerðan dónaskap…

Þessari athugasemd svaraði Bjarni á þann hátt í Þjóðviljanum, að vera mætti sígilt dæmi um viðbrögð gagnrýnenda, þegar á þá er hallað, og virðist sem fullyrðing Steins um dónaskap hafi ekki verið með öllu úr lausu lofti gripin, þar sem Bjarni gefur jafnvel í skyn að Steinn hafi nokkra hneigð til þess að verða að skynlausri skepnu. Svar Bjarna var á þessa leið:

Það er ástæða til að fagna hinni endurfæddu umhyggju Steins Steinars skálds fyrir Sósíalistaflokknum og blaði hans. Ég hef lesið í bókum að sá eiginleiki sem umhyggja nefnist muni hafa átt drjúgan þátt í því að forfeður vorir tóku forðum þann kost að fækka fótum sínum um helming, og létu sér nægja tvo upp frá því. Ber að skilja þetta andlegri skilningu, sem engu skáldi má vera ofvaxin. En sé þetta rétt ætti téð umhyggja að geta komið hverjum þeim manni í góðar þarfir sem jafnframt kann að bera í brjósti sér einhverjar tilhneigingar til að fjölga fótum sínum á nýjan leik.

Annað dæmi um hug Steins til bókmenntaspekinganna er það, hversu uppsigað honum var við Sigurð Nordal, enda veitti Nordal honum aldrei verðuga viðurkenningu. Steinn tók upp á því að lýsa sérstakri velþóknun sinni á kveðskap Steingríms Thorsteinssonar af því að Nordal hafði látið þau orð falla í lestrarbók sinni, að Steingrímur væri bæði ófrumlegur í kveðskap sínum og skorti hagmælsku, og var að sönnu engin furða þó ungt skáld vildi andmæla slíkum fullyrðingum, en raunar álitu sumir að Steini hefði einkum sárnað það, að ekkert skyldi birt eftir hann í endurútgáfu á lestrarbókinni, þar sem þó var tekinn kveðskapur eftir Jón prófessor Helgason sem ekki hafði gefið út ljóðabók fyrr en 1939, og má hver lá Steini sem vill. Það gerði Björn Sigfússon magister, þegar Steinn skrifaði gagnrýni um þessa endurútgáfu, og Steinn svaraði honum af rökvísi, en fullri kurteisi í Alþýðublaðinu 27. október 1942. Þá var Steinn búinn að gefa út fjórar ljóðabækur. Þetta var virðingin sem lærðu mennirnir báru fyrir honum.

Á þeim tíma var Davíðsdýrkunin í hámarki, og engin furða þó Steini blöskraði, þar sem gersamlega sama var hvaða bull sást á prenti eftir skáldið frá Fagraskógi, allt var það lof að hástöfum og bækur Davíðs seldust í stærri upplögum en bækur nokkurs annars ljóðskálds, ef ekki nokkurs annars höfundar á Íslandi. Hvernig átti Steinn, sem vissi sig stórlega vanmetinn á sama tíma, að geta stillt sig um að leggja orð í belg? Í bókinni Kvæðasafn og greinar, sem gefin var út eftir lát hans, eru prentuð eftir honum þessi orð sem virðast vera brot úr skrifum sem aldrei hafa áður verið prentuð (frá 1952):

Okkur hefur einnig verið kennt það, að Davíð Stefánsson frá Fagraskógi sé mesta núlifandi skáld íslensku þjóðarinnar. Það má vel vera, að svo sé, en þá vil ég leyfa mér að fullyrða það, að hinir séu býsna lélegir. Og sé nokkur einstakur maður ábyrgur fyrir eymd og niðurlægingu kveðskaparins á seinustu 20–30 árum, þá er það hann.

Orð Steins minna mig á það, að eitt sinn á þeim árum þegar Elías Mar vann fyrir sér með prófarkalestri fyrir Ragnar í Smára og öðru þessháttar, svo sem þýðingum, til þess að geta haldið áfram að skrifa bækur, sátum við að kaffidrykkju á Gildaskálanum, og Elías hafði meðferðis prófarkir að ljóðabók sem hann las úr fyrir mig og bað mig að geta upp á höfundinum. Mér blöskraði svo leirburðurinn sem Elías las þarna yfir mér að ég lenti í stökustu vandræðum að finna höfund að slíku og þvílíku, en það reyndist þá vera Davíð frá Fagraskógi. Ég ætlaði varla að geta trúað þessu, en auðvitað hafði Elías ekki lesið úr einhverju af þekktustu ljóðum hans.

Steinn Steinarr bar ekki virðingu fyrir nema örfáum mönnum. Einn þeirra var Kristinn E. Andrésson, og sú virðing átti fyrir sér að þverra, en sérstaklega bar hann virðingu fyrir Magnúsi Ásgeirssyni, og sú virðing hélst meðan báðir lifðu. Ég held auk þess að hann hafi orðið fyrir áhrifum frá þýðingum hans og Magnús beint huga hans að annarra þjóða skáldum. En hvað hann las á erlendum málum veit ég harla lítið um. Ég hygg þó, að það hafi aðallega verið norðurlandakveðskapur. Ég veit ekki til að Steinn hafi haft neina þekkingu á frönskum skáldskap, þótt hann vildi stundum láta menn halda það, og þótt hann gæti í ræðu sinni á umræðufundinum um atómkveðskapinn frætt samkomuna um André Breton og súrrealismann. Ég efast um að hann hafi vitað neitt sem heitið getur, jafnvel um það atriði, fyrr en hann undirbjó sig fyrir fundinn. Ég hef áður sagt frá því, þegar ég mætti honum með bók eftir Louis Aragon undir hendinni, og hann hélt að það væri mesta núlifandi skáld Frakka. En Aragon var mikilsháttar kommúnisti í Frakklandi og það var almenn skoðun meðal bókmenntamanna erlendis, þeirra sem róttækastir voru, að Aragon væri mesta samtíðarskáld Frakka. Varla mun Steinn hafa vitað, þegar hann flutti ræðu sína, að Aragon hafði að vísu verið súrrealisti á yngri árum, en gersamlega afneitað þeirri stefnu og kveðskap sínum í anda hennar, þegar hann snerist og tók að yrkja baráttukvæði og predika hefðbundið form í kvæðagerð. En Steinn fór sparlega með nöfn í ræðu sinni. Og víst er um það, að þegar frá er dregið dæmið um Aragon, heyrði ég hann aldrei minnast á frönsk skáld eða franskan kveðskap, aldrei minnast á Arthur Rimbaud sem nú er svo mikið skrifað um í heimsbókmenntaskrifum að bæði íslenskur bókmenntafræðingur (Kristján Karlsson) og ungur íslenskur höfundur (Hrafn Gunnlaugsson) hafa fengið þá flugu í höfuðið að þarna væri kominn ljóðasmiðurinn sem Steinn Steinarr hefði gengið í smiðju til þegar hann orti Tímann og vatnið. En sérfræðingar bókmenntanna gerðu ekki eins mikið úr Rimbaud á þeirri tíð sem Steinn var að yrkja fyrrnefndan ljóðaflokk. Menn átta sig ekki á því, að timarnir hafa breyst. Ljóðaflokkurinn Tíminn og vatnið er auk þess í grundvallaratriðum gerólíkur þeim kveðskap (prósaljóðum) eftir Rimbaud sem talinn er undanfari „módernismans“. Það er alls ekki smáatriði, að Steinn heldur þar dauðahaldi í gamalt, hefðbundið form, en Rimbaud gerði nákvæmlega þveröfugt í sínum endurnýjunarverkum, átti það einungis til að setja fáein hefðbundin erindi inn í órímuðu flokkana eins og minnisvarða um það sem var eða til áréttingar því, að fortíðinni hefði ekki verið afneitað, þó nýtt hefði verið upp tekið, horfið yrði til hennar aftur, ef því væri að skipta. Ég held menn ættu að athuga það, að ýmislegt í Tímanum og vatninu minnir á málaralist (hugsum okkur til dæmis hornrétta flötinn, hringinn og keiluna), en Steinn var mikill aðdáandi Þorvalds Skúlasonar og fleiri málara og mikill myndaskoðari. Þá hefur Steinn t. d. minnst á Veda-bækurnar í sambandi við Tímann og vatnið, og ég held menn ættu að taka orð hans sjálfs um þetta efni ofurlítið alvarlegar en þeir hafa gert og þverskallast ekki við að reyna að telja til módernisma það sem hann sjálfur hvað eftir annað tók fram að væri allt annars eðlis.

Steinn Steinarr var enginn tungumálamaður. Hann gat að vísu eitthvað lesið ensku, en ekki varð ég þess var að hann skildi hana talaða né væri fær um að gera sig skiljanlegan á því máli. Hann virtist aldrei hafa lagt það á sig að tileinka sér neitt erlent mál sérstaklega. Dönsku, norsku og sænsku býst ég hinsvegar við að hann hafi getað lesið sér að góðu gagni, auk þess að geta talað skandinavísku. En hann hafði lag á því að gera sig dularfullan framan í mönnum og láta þá halda að hann vissi meira en hann vissi. Það gera raunar allir, sjálfrátt eða ósjálfrátt, en hjá Steini varð þetta að sérstakri list sem ekki var á hvers manns færi að leika eftir, enda þurfti hann á því að halda, þar sem hann var óskólagenginn að brjóta sér braut innan um lærðu mennina í höfuðstaðnum, og hafði ekkert nema ljóð sín. Hann sagði: „Og ég var aðeins til í mínu ljóði.“ Ég veit ekki til þess að hann snerti nokkurntíma við því sem venjan er að nefna ærlegt handtak frá því ég kynntist honum kringum 1940 og til dauðadags. Hann var hinsvegar á ferli í höfuðborginni dagsdaglega og hitti menn að máli.

Steinn hafði snemma orðið kommúnisti og verkalýðssinni, enda tileinkar hann fyrstu bók sína, Rauður loginn brann, „félögum mínum og kunningjum í Reykjavík, sem árum saman hafa barist eins og hetjur við hlið mína, fyrir lífsnauðsynjum sínum — og enn ekki sigrað.“ En smám saman fór hann að linast í trúnni, og eftir það naut hann takmarkaðrar hylli meðal sumra sósíalista.

Ég minnist þess, þegar verið var að steypa Reykjavíkurflugvöll, þá barst talið stundum að bókmenntum, því þarna var blandað lið við vinnu og bókmenntir sennilega meira lifandi með þjóðinni en síðar meir. Þá var þar einn verkamaður miðaldra sem var ótrauður að segja sitt álit um bókmenntir, ekki síður en annað sem tekið var til umræðu, mikill sósíalisti (þ. e. kommúnisti samkv. málvenju þeirra tíma) og hann sagði, eins og til að sýna, að hann kynni að meta yngri höfunda:

Ólafur Jóhann Sigurðsson er skáld, en Steinn Steinarr er ekkert skáld.

Slík viðhorf til Steins heyrðust úr ýmsum áttum. Það var á þeim árum sem út komu tvær helstu ljóðabækur hans, Spor í sandi og Ferð án fyrirheits. Einungis fámennum hópi manna þótti útkoma þeirra nokkur viðburður. Smám saman varð þó fleiri mönnum ljóst að ekki mundi fært að halda áfram að láta sem Steinn væri ómerkingur, og þegar tímar liðu var farið að sækjast eftir blaðaviðtölum við hann og jafnvel nota hann fyrir skemmtikraft í útvarpinu, þar sem Sveinn Ásgeirsson, hagfræðingur og skemmtiþáttamaður á þeim tíma, lét nokkra menn keppa í vísnagerð. Það var nokkuð gaman að þessum þáttum, en þeir voru raunar vel til þess fallnir að hagyrðingar gætu notið sín frammi fyrir alþjóð á kostnað Steins, því þeir voru jafnan fljótir til að kasta fram vísum sínum, en Steinn fór sér hægt. Með honum í þáttunum voru Helgi Sæmundsson, Guðmundur Sigurðsson og Karl Ísfeld, og var Helgi sérstaklega hraðkvæður. Hitt verður að segjast eins og er, að Steinn mun einnig hafa vaxið í áliti við þessa skemmtiþætti, og vitanlega urðu þeir til þess að fleiri könnuðust við hann eftir en áður.Jón Óskar

Jón Óskar (Ásmundsson) (F. 18. júlí 1921. D. 20. október 1998) var skáld og rithöfundur, einn af frumkvöðlum módernisma í íslenskri ljóðagerð og í hópi atómskáldanna svonefndu. Hann samdi einkum smásögur og ljóð, en einnig eina skáldsögu, ferðahugleiðingar og rit sagnfræðilegs eðlis. Á árunum 1969–1979 komu út í sex bindum æviminningar hans um líf skálda og listamanna í Reykjavík á árunum 1940–1960. Jón var einnig afkastamikill þýðandi úr ítölsku og frönsku og þýddi m.a. ljóð eftir Baudelaire, Verlaine og Rimbaud auk verka í óbundnu máli eftir Albert Camus, Carlo Levi, Ignazio Silone, Simone de Beauvoir, George Sand og fleiri.

Þú og ég sem urðum aldrei til

Existensíalismi í verkum Steins Steinarr – eftir Silju Aðalsteinsdóttur. Birtist áður í Skírni 1981


Steinn steinarr er að mati margra eitthvert merkasta skáld þessarar aldar á landi hér. Hann varð ekki langlífur (1908–58), en virðist raunar hafa verið hættur að yrkja svo nokkru næmi rösklega áratug fyrir lát sitt. Steinn gaf út fimm ljóðabækur sem allar rúmast vel í einu bindi ásamt úrvali úr greinum hans. Fyrstu bókina, Rauður loginn brann, gaf hann út 26 ára (1934), þá Ljóð (1937), Spor í sandi (1940), Ferð án fyrirheits (1942) og loks Tímann og vatnið (1948). Aftan við ljóðabækurnar í heildarútgáfunni eru prentuð Ýmis kvæði sem sum höfðu birst áður á bók í ljóðaúrvalinu Ferð án fyrirheits frá 1956.

Steinn er fjölbreytilegt skáld þótt alltaf sé hann sjálfum sér líkur. Allt frá fyrstu bók fer hann frjálslega með hefðbundna stuðlasetningu og rím, framan af einkum í prósakenndum langlokum eins og Gönguljóði í Rauður loginn brann, síðar í stuttum, hnitmiðuðum og myndrænum ljóðum eins og Landnámsmanni Íslands í Ferð án fyrirheits eða Veginum og tímanum í Ýmsum kvæðum. Langflest ljóða hans eru þó með hefðbundnu sniði hið ytra, en þau geta verið afskaplega ólík á svip. Meinfyndin íronísk kvæði undir ýmsum háttum, krydduð þjóðfélagsádeilu, setja alla jafna svip sinn á ljóðabækurnar nema Ljóð, í bland eru náttúrustemningar og ljóðræn smákvæði, ástarljóð verða fyrirferðarmikil í Ferð án fyrirheits en þau renna að nokkru leyti saman við sjálfrýn og innhverf ljóð sem finna má í öllum bókunum og þar sem Steinn veltir fyrir sér hlutskipti mannsins og tilveru á heimspekilegan hátt.

Dálítið virðist mismunandi hve mikið er gert úr áhrifum Steins á ljóðagerð í landinu. Sveinn Skorri Höskuldsson prófessor segir í Að yrkja á atómöld: „Það hygg ég ótvírætt, að þeirri kynslóð ljóðskálda, er komið hefur fram á Íslandi síðan í lok heimsstyrjaldarinnar síðari, hafi orðið fordæmi Steins Steinars áhrifaríkara en verk nokkurs annars íslensks skálds.“1Sveinn Skorri Höskuldsson: Að yrkja á atómöld. Rvk 1970 (25).

Jón Óskar ljóðskáld segir hins vegar í tímaritinu Birtingi 1968 að Steinn hafi ekki haft áhrif á atómskáldin nema um smámuni. Einnig minnist ég þess að Einar Bragi skáld tók í sama streng í óprentuðu viðtali við stúdenta í íslenskum bókmenntum vorið 1973, og sagði að skáld mótuðust ekki af mönnum sem kæmu fram rétt á undan þeim, auk þess hefði Steinn lengst af verið hefðbundinn.

Hvað sem framtíðin kann að ákvarða um áhrif Steins á íslenska ljóðagerð er víst að hann hefur um langa hríð verið vinsælli en önnur skáld meðal ungs fólks. Það eru ekki gamanljóð hans og háðkvæði þótt aðgengileg séu sem hafa haldið áhuga á Steini vakandi (eins og t.d. Tómasi Guðmundssyni) heldur þau ljóð sem fengu miklu misjafnari undirtektir gagnrýnenda á sínum tíma, innhverfu ljóðin eða svonefnd heimspekileg ljóð Steins. Í þeim hafa leitandi ungmenni fundið huggun og jafnvel hjálp við að finna sér persónu og stað í veröldinni, enda er Steinn einmitt að bjástra við það sama í þessum ljóðum.

Ef það ætti að flokka ljóð Steins í heimspekileg og ekki heimspekileg ljóð yrðu vafaatriðin mörg. Gagnrýnendur virðast þó nokkuð sáttir á að kenna einmitt þessi innhverfu og myrku ljóð við heimspeki, ljóðin þar sem hann veltir fyrir sér tilveru sinni, þau þungu og þjáningarfullu sem oft er ekki auðvelt að skilja röklegum skilningi, ljóðin þar sem hann rýnir inn á við og líst ekki á blikuna eða sér heiminn umhverfis í undarlegum, jafnvel afskræmilegum myndum. Jakob Jóh. Smári segir í dómi um Ferð án fyrirheits í Eimreiðinni: „Það má finna ýmislegt að sumum þessara ljóða eftir Stein Steinarr, svo sem það, að ýmis þeirra eru lítt skiljanleg og hinn heimspekilegi „nihilismus” höfundarins verður þreytandi til lengdar.“2Eimreiðin. Jan.–mars 1943 (91). Magnús Ásgeirsson talar einnig í ritdómi um Ferð án fyrirheits um „Hamletkvæði“ Steins sem hann nefnir svo, þar sem Steinn velti fyrir sér spurningunni um að vera eða ekki: „Í þessari tegund ljóða sinna /…/ tekst Steini að vísu að túlka eins konar háspekilega tómhyggju á áhrifamikinn hátt…“3Helgafell. 1942 (430). Kristinn E. Andrésson segir í íslenskum nútímabókmenntum: „En þótt hann geti verið bardagaskáld, er heimspekihneigðin ríkari og grefur jafnt og þétt undan trú hans á gildi þeirrar baráttu er liann heyr, og í öðru hverju kvæði fellur hann niður í heilabrot um heiminn og sjálfan sig.“4Kristinn E. Andrésson: Íslenskar nútímabókmenntir 1918–1948. Rvk 1948 (147). Og Ólafur Jónsson segir í grein í Dagskrá að Steini látnum: „Steinn Steinarr var fyrst og fremst heimspekilegt skáld. /…/ tilvera sjálfs hans og rök hennar eru honum hugstæðust yrkisefni, vandi sem hann veltir fyrir sér allan skáldferil sinn.“5Dagskrá. 2. hefti 1958 (3).

Þótt gagnrýnendum sé þannig tamt að nefna Stein og heimspeki í sömu andrá (og mörg fleiri dæmi mætti nefna), ræða þeir fæstir hvaðan Steinn hefur fengið heimspekilegar hugmyndir sínar eða hvaða stefnu hann er skyldur. Einn gagnrýnenda og það helsti gagnrýnandi Steins, Kristján Karlsson, kveður þó fast að orði um rætur heimspekiþanka Steins, einkum í grein í Nýju Helgafelli 1958:

„Gildi mannsins er, í andstæðum skoðað, það að hann er einskis virði, og Steinn fer æ meir að tala í nöktum andstæðum, þegar á líður. Tómhyggja er þetta að vísu, en fyrst og fremst harðsnúin, heimatilbúin sjálfshyggja, sem stæðist ekki dagsins ljós í prósa.. .“6Nýtt Helgafell. 2. hefti 1958 (80).

Seinna í greininni segir hann, að Steinn hafi haft „ríka tilhneigingu eða ríkan metnað til að verða lært og heimspekilegt skáld, þó að svo yrði ekki vegna þess að ævikjör hans meinuðu honum það, en þó ef til vill miklu fremur vegna þess að gáfa hans var annars eðlis.“7Sama (81). Kristján er ekki svona afdráttarlaus í formála að Kvæðasafni og greinum Steins (1964), en hann hefur ekki skipt um skoðun. Hann segir þar að heimspeki geti „lagt skáldi upp í hendur ákveðið hugmyndakerfi“ sem spegli samtímann, en heimspeki Steins geti það ekki, því hún sé heimatilbúin: „Hún á ekki stoð í menningarlegri hefð eða hugmyndakerfi.“ (xvii)

Tveir bókmenntafræðingar hafa bent á annan grundvöll að heimspeki Steins en sjálfshyggju og bölsýni hans sjálfs, að maður segi ekki naflaskoðun. Sveinn Skorri Höskuldsson talar um að hjá Steini birtist það endurmat allra gilda sem einkenni verk ungra skálda síðan í heimsstyrjaldarlok: „Að mínu viti er dýpstur tónn í ljóðum Steins, þegar hann horfist í augu við algjört tilgangsleysi mannsins, firringu hans og framandleik í heiminum. Ekki veit ég, hvert rekja skal upphaf þessarar kenndar, sem sett hefur dýpra mark en flest annað á evrópskar nútímabókmenntir. Stundum finnst mér eins og upphaf hennar liggi hjá Nietzsche með kröfu hans um endurmat allra lífsgilda.“8Sveinn Skorri Höskuldsson (31–2).

Síðar nefnir Sveinn þetta „tilgangsleysisheimspeki Steins“ og segir að hann yrki sig frá henni í Tímanum og vatninu.

Heimir Pálsson tengir Stein í bókmenntasögu sinni við þá stefnu sem dýpst spor hefur markað á þessari öld ásamt marxismanum, þó með hálfum huga. Heimspeki Steins, segir Heimir, „stakk reyndar mjög í stúf við þann félagslega skilning sem mörg skáld samtíðar hans aðhylltust. Hvort sem er um að ræða anga erlendra heimspekikenninga (í ætt við existentialisma, tilvistarstefnu) eða ekki, er augljóst að maðurinn sem einstaklingur (ekki félagsvera) er settur í miðdepil heimsins.“9Heimir Pálsson: Straumar og stefnur í íslenskum bókmenntum. Rvk 1978 (173).

Mig langar að ganga skrefinu lengra en Heimir og fullyrða að Steinn sé existensíalískur í ljóðum sínum, ekki bara í „Hamletkvæðunum“ þótt mest sé gaman að skoða þessa þætti í þeim heldur að lífsskilningi yfirleitt. Áhugaefni hans eru þau sömu og existensíalistar hampa: einstaklingurinn og leið hans til þroska í brotakenndum heimi; hugsunarhátturinn sá sami, að ekkert sé algilt; lausnir úr tilvistarkreppunni einnig þær sömu. Ég álít að með því að skoða Ijóð hans í ljósi tilvistarstefnu fáist mjög nothæfur lykill að kjarna þeirra — ekki síst þeirra Ijóða sem þykja myrk eða órökleg.

Nú fer kannski einhver strax að malda í móinn líkt og Kristján Karlsson og segja að ómenntaður maður eins og Steinn hafi engar spurnir haft af heimspekistefnu úti í löndum, þess vegna sé fráleitt að ræða þetta mál frekar. En þá ansa ég því til að það geri ekki ýkja stórt strik í reikninginn. John Macquarrie, breskur fræðimaður um tilvistarstefnu, leggur í bók sinni um hana áherslu á, að rithöfundar geti við ákveðnar sögulegar og persónulegar aðstæður orðið boðberar existensíalisma án þess að hafa orðið fyrir beinum áhrifum frá heimspekingum, og þessa rithöfunda megi telja til stefnunnar ef efnisval þeirra og úrvinnsla sé í anda hennar.10John Macquarrie: Existentialism. Harmondsworth 1977 (257, 262–3). Engin leið er fyrir mig að komast að því hvort Steinn Steinarr hefur lesið eða kynnt sér á annan hátt rit tilvistarstefnu, en boðskapur hennar var tímanna tákn meðan Steinn iðkaði skáldskap. Philip Mairet, sem skrifar formála að ensku útgáfunni á fyrirlestri Jean-Paul Sartres um tilvistarspeki og mannúðarstefnu, segir þar að existensíalismi hafi sprottið upp eins og af eigin rammleik í Evrópu samtímans.11Hann talar um existensíalisma sem „spontaneous movement in contemporary European thought”. Jean Paul Sartre: Existentialism and Humanism. London 1957 (15). Aðstæður buðu upp á góð skilyrði fyrir stefnuna, svipuð hugðarefni hafa löngum bært á sér þegar álíka hefur verið umhorfs í mannlegum samfélögum og í Evrópu á tímabilinu milli heimsstyrjaldanna tveggja. Aukinheldur rekja menn existensíalískar hugmyndir allt aftur til grískra goðsagna — með viðkomu hjá Marteini Lúter, heilögum Ágústínusi, Páli postula og Kristi — þannig að þær eru engin ný bóla.

Danmörk var ekki fjarri Íslandi á þessum árum og hún hafði fóstrað Søren Kierkegaard sem talinn er (t. d. af John Macquarrie) faðir nútímalegrar tilvistarstefnu. Ævisaga Kierkegaards eftir Kort K. Kortsen kom út í íslenskri þýðingu Jakobs Jóh. Smára 1923 og má þar fræðast um kenningar og líf þessa merkilega heimspekings, sem lifði viðburðaríkara innra lífi en ytra. Veruleiki hans varð „fölleit endurtekning undanfarinna mynda úr dagdraumunum.”12Kort K. Kortsen: Sören Kierkegaard. Jakob Jóh. Smári íslenskaði. Rvk 1923 (30). Ef til vill má svipað segja um það skáld sem hér um ræðir.

Hér á eftir verða athuguð merki um hugðarefni tilvistarstefnu í ljóðum Steins Steinarr, og í lokakafla verður reynt að skoða manninn sjálfan lítillega í ljósi þeirrar umfjöllunar. Í tilvitnunum er vísað til heildarsafns verka hans, Kvæðasafns og greina frá 1964.13Til glöggvunar má geta þess að Rauður loginn brann byrjar þar á bls. 3, Ljóð á bls. 45, Spor í sandi á bls. 87, Ferð án fyrirheits á bls. 123, Tíminn og vatnið á bls. 165 og Ýmis kvæði á bls. 181.


Angistin


Steinn Steinarr sveiflast öfganna milli í ljóðum sínum, hann er sjálfumglaður eða fullur efasemda, kátur eða örvæntingarfullur milli þess sem hann er ögrandi og kærulaus. Ekki er gott að segja hvort ein stemning er þarna öðrum sannari enda er það samspil þeirra sem er forvitnilegast: hvernig skáldið þolir kvíðann sem fylgir því að vera manneskja og efann um að hann hafi staðið sig eins og maður og sé til í raun og veru, og hvernig hann finnur leið út úr vandanum ýmist með því að firra sig allri lífsbaráttu, reyna að sannfæra sig um að hið eina rétta sé að vera ekki neitt, eða með því að hætta að efast og taka á sig ábyrgð á sjálfum sér og öðrum. Þetta margslungna og tilfinningaríka samspil sýnir fyrst og fremst hvað Steini var mikil alvara með ljóðagerð sinni alla tíð, líka þegar hann var kæringarlausastur.

Kvíðinn og angistin eru rauður þráður í ljóðum Steins, einkum þeim sem snerta einsemd og einmanaleika mannsins. Það er ekki félagslyndur maður sem yrkir í þessum ljóðum og hefur áhyggjur af hungruðum heimi eða arðráni auðstéttanna. Kvíðinn er einstaklingsbundinn, maðurinn stendur einn uppi og nær engu sambandi við aðra:

Og hugsun sjálfs þín bylti sér og brann
sem banvænt eitur djúpt í þinni sál.
Þú bærðir vör, til einskis, angist þín
fékk aldrei mál.

segir í ljóðinu Andvaka (56). Þar kemur einnig fram hvað angistin er tilgangslaus:

Nei, þjáning þín bar aldrei ávöxt neinn,
og engan tilgang hafði lífs þíns nauð.
Hún lagðist yfir þreytu hjarta þíns
þung og dauð.

Tilgangslaus þjáningin er þó það eina sem lifir okkur í kvæðinu Hamlet (70), á þverstæðukenndan hátt virðist það í rauninni vera hún sem gerir okkur að manneskjum:

En upp úr liðins tíma mold og myrkri,
þótt máð og glötuð séu öll vor spor,
gegn dagsins björtu ásýnd ungri og styrkri
rís andlit dimmt og brjálað: Þjáning vor.

Það er erfitt að höndla þennan kvíða. Við finnum til hræðslu þegar bíll stímir beint á okkur, en kvíðinn sprettur ekki af neinu svo áþreifanlegu. Einhversstaðar í sál okkar er uppsprettan, Steinn kallar hana Myrkur (75):

Ég er myrkrið,
myrkrið í djúpinu,
hið eilífa myrkur,
sem ekkert ljós getur lýst.

Það er ég,
sem læt ykkur skjálfa
í lamandi angist
andspænis einhverju,
sem þið vitið ekki hvað er.

Það er ég,
sem læt ykkur flýja
i framandi lönd
og fjarlægar heimsálfur,
í fánýtri von
um að losna undan farginu.

En þið komist ekki undan,
því ég bý í sál ykkar sjálfra,
dularfullt, geigvænlegt, ógnandi.
Hið eilífa myrkur,
sem ekkert ljós getur lýst.

Úr þessari þjakandi kvöl hafa existensíalistar reynt að bæta síðan á dögum Kierkegaards eða lengur með því að reyna að skýra af hverju kvíðinn stafar. Kierkegaard áleit að undirrót kvíðans væri hvað manninum gengi illa að finna guð, og trúaðir existensíalistar fara að dæmi hans. Hinir trúlausu geta ekki notfært sér þá lausn og verða að halda áfram að leita.

Maðurinn er yfirgefinn og dæmdur til að vera frjáls, segir Sartre í áðurnefndum fyrirlestri. Við ákveðum ein og sjálf hvað við gerum úr okkur, segja existensíalistar, hver er sinnar gæfu smiður. Þeir hafna mikils til þeirri skoðun marxista að uppeldi, umhverfi, tími og aðstæður móti manninn, ábyrgð einstaklingsins á lífi sínu vegur miklu þyngra og hún veldur okkur kvíða. Svo ein stöndum við með ákvarðanir okkar að enginn getur komið okkur til aðstoðar, þess vegna berum við kvíðann líka alein eins og Steinn lýsir í Sjálfsmynd (75):

Ég málaði andlit á vegg
í afskekktu húsi.
Það var andlit hins þreytta og sjúka
og einmana manns.
Og það horfði frá múrgráum veggnum,
út í mjólkurhvítt ljósið
eitt andartak.

Það var andlit mín sjálfs,
en þið sáuð það aldrei,
því ég málaði yfir það.

Svo máttugur er kvíðinn að „lífið“ verður stundum eins og samheiti hans í ljóðum Steins. í ljóðinu Flóttinn (79) er skóhljóð lífsins tákn þess kvíða sem sprettur af ábyrgðartilfinningu mannsins:

Það var aðeins skóhljóð, sem elti mig.
Og ég hrópaði, skjálfandi röddu:
Hvað hef ég þá gert?
Mér var svarað með lævísum hlátri,
lengst úti í myrkrinu:
Ég er lífið sjálft. Og þú kemst ekki undan.
Ég elti þig.

Það þýðir ekkert að reyna að bjarga sér á flótta, þetta myrkur angistar býr í sálinni og er hjá okkur ævinlega eins og Steinn lýsir í Mazurka eftir Chopin (118):

Mín þjáning er svo dimm og dauðahljóð,
sem draumlaus svefn að baki alls er lifir.

Einmanaleikanum í ljóðum um kvíða og angist fylgir sambandsleysi við annað fólk eins og sjá mátti á dæmunum hér að framan. Það er erfiðara um vik að fullyrða um nákvæmar skoðanir skáldsins í Tímanum og vatninu, þar er talað í myndum og gátum. En verið getur að svipað sambandsleysi milli skáldsins og mannanna megi sjá á mynd í 18. ljóði Tímans og vatnsins og í Sjálfsmynd. Allt er hér hófstilltara og eins og lengra í burtu (176):

Yfir sofandi jörð
hef ég flutt hina hvítu fregn.

Og orð mín féllu
í ísblátt vatnið
eins og vornæturregn.

Vornæturregnið er frjósamt og hlýtt, það gerir jörðinni gott þegar það fellur á hana, eins og hin hvíta fregn skáldsins gæti kannski gert líka. En þegar vornæturregn og orð falla í ísblátt vatn verða þau til einskis gagns. Það má líka tæpa á því á þessum stað að í seinni bókum sínum, einkum Tímanum og vatninu, hvarf Steinn frá hefðbundinni notkun lita og litaði sjálfur bæði hluti og hugtök. Sérkennilegt við þá breytingu var að hvíti liturinn, litur hinnar visnu handar, kom í stað dökkra lita á sorg og dauða. Hin hvíta fregn skáldsins er eflaust ekki hvít af neinni tilviljun, hún gæti verið kvíðafull spá þess um framtíð jarðarbarna, en þau hlusta ekki, sofa bara.


Efinn


Saman við kvíðann fléttast efi Steins um að hann sé í raun og veru til í existensíalískum skilningi, og ekkert íslenskt skáld hafði efast um það á undan honum. Í mörgum ljóðum lýsir Steinn hvernig það er að verða ekki það sem í manni býr, verða ekki fullskapaður einstaklingur. „Heidegger og Kierkegaard vissu það báðir,“ segir Philip Mairet í fyrrnefndum formála, „að maðurinn þráir í angist að finna og vita að hann er til, það er einmitt undirrót kvíða hans.“14Jean Paul Sartre (14). Það er existensíalistum sameiginlegt að álíta, að fyrst sé maðurinn ekkert, „ekki til“, síðan verði hann það sem hann gerir úr sér. Til þess hafi hann getu og frelsi, en það kosti erfiði og átök. Sumum mönnum (flestum mönnum?) tekst aldrei að þroska það sem í þeim býr og skapa úr sér fullburða einstakling, þeir takast ekki á við erfiðleikana og verða aldrei til í þessari merkingu. Ákvarðanir mannsins og athafnir skapa hann, maðurinn er ekkert annað en það sem hann gerir, segir Sartre — og Steinn segir: „En þjóðin veit, að ég hefi ekkert gert.“ (125)

Þá vitum við hvers virði hann er. Strax í fyrstu bók Steins má sjá merki efans um að líf hans sé til nokkurs. Ljóðið Minning endar svona (28):

Var það blekking hugans,
sem huldi sjón minni
helkalda auðnina,
þar sem spor mín liggja,
þar sem líf mitt rann út í gljúpan sandinn?

Í ljóðinu Barn (71) má sjá, að jafnvel þótt líkaminn eldist og hrörni þroskast vitundin ekki — hún veit ekki að hún er til. Mælandi ljóðsins er alltaf sama barnið þótt umhverfið sjái að ytra borðið stendur ekki í stað:

Ég var lítið barn
og ég lék mér við ströndina.
Tvö hlæjandi börn
gengu fram hjá
og kölluðu:
Gott kvöld, gamli maður, gott kvöld!

Sama er uppi á teningnum í Etude (100).

Smám saman færist Steinn nær existensíalistum í orðavali, og í nokkrum ljóðum orðar hann efa sinn beinlínis með orðalagi þeirra, kallar þetta að vera til eða vera ekki til:

Og veistu það, að þú ert ekki til,
og þetta, sem þú sérð, er skuggi hins liðna.

segir í Svartlist (104). Stundum vill hann trúa því að hann sé til í verkum sínum í samræmi við orð Sartres sem tilfærð voru hér að framan. Í Tileinkunn segir: „Og ég var aðeins til í mínu ljóði.“ (123)

En jafnvel ljóðið, verk hans, er ótraustur tilverugrundvöllur, t. d. í Vorvísu (135):

Og ljóð mitt ber samskonar
svip og það,
sem ekki er.

Það ljóð Steins sem minnir mest á ýmsa höfuðpaura tilvistarstefnunnar að orðavali er Myndlaus í Ferð án fyrirheits (137), stutt og hnitmiðað ljóð. Eins og víða í seinni bókum Steins er ófullburða líf tengt hér við að ná ekki að sameinast ástvinu sinni. Sameinuðum var þeim ætlað að verða annað og meira en það sem þau urðu hvort í sínu lagi:

Ó, þú og ég, sem urðum aldrei til.
Eitt andartak sem skuggi flökti um vegg
birtist sú mynd, sem okkur ætluð var.

Sem næturgola gári lygnan hyl,
sem glampi kalt og snöggt á hnífsins egg,
sem rauðar varir veiti orðlaust svar.

Ó, fagra mynd, sem okkur báðum bar.

Við náðum aldrei að skapa okkur sjálf, verða til, þess vegna erum við myndlaus eins og flöktandi skuggi. „Handfylli af sandi. Og síðan ekkert.“ (152) í ljóðaflokknum Tímanum og vatninu verður þess ekki vart lengur að Steinn efist um að hann sé til.


Flóttinn – firringin


Þegar efinn verður óbærilegur má þó altént hugga sig við að „ekkert er til nema aðeins það, sem ekki er til.“ (159) Það má firra sig efa og kvíða, annaðhvort með því að fullyrða að allt sé einskis virði og því óþarfi að vera með áhyggjur af tilverunni, eða bæla niður kvíða sinn, renna saman við dauða menn eða hlutgerast: „Menn eru pappírstætlur sem kaldur vindurinn þyrlar til,” sagði T.S. Eliot; „hvort er ég heldur hann, sem eftir lifir, eða hinn, sem dó?“ spyr Steinn (156).

Það er eins og maður horfi
á andlit sjálfs sín
í holum spegli.
Og maður þekkir ekki framar
andlit sjálfs sín,
því það er dáið.

ályktar skáldið í Landslagi (56) og rennur saman við það.

Steinn notar ekki tískuorðið firringu í ljóðum sínum sem ekki er von heldur lýsir hann tilfinningunni eða ástandinu með orð unum annarlegur eða framandi, auk þess sem hann bregður upp sjálfstæðum myndum af einangruðum, hlutgerðum mann eskjum. Í augum mannsins sem bælir kvíða sinn og horfist ekki í augu við lífsvanda sinn verður heimurinn afkáralegur. Í ljóðinu Form segir (90):

Og allir hlutir eiga markað form,
annarlegt form, sem engan tilgang hefur.

Í ljóðum hins lífsfirrta manns er tíminn ekki til, persóna þeirra lifir í nútíð eingöngu, hugsar hvorki fram né aftur, eins og „þú“ í Lágmynd (103):

Þú veist ei neitt, hvað verður eða fer,
þín vitund hnípir blind á opnu sviði.
Þú sást það eitt, að sólin reis og hneig,
en samt stóð tíminn kyrr, þótt dagur liði.

/…/

Svo situr þú hjá líki dáins dags,
hver draumur vöku og svefns er burtu máður.
Um djúp þíns hugar flýgur svartur fugl,
framandi, þögull, engri minning háður.

Að mati existensíalista er það einmitt einkenni einstaklinga sem firra sig áhyggjum af tilvist sinni, að þeir festast í nútíðinni, daglegu amstri hennar og önn, fortíðin er máð burtu og framtíð ekki til. Líf þeirra er einangrað og afskræmilegt, þeir komast hvergi frekar en maðurinn í Heimferð (107):

Svo óralangt þú einn og hljóður gekkst
í annarlegum þysi stræta og torga,
og vildir heim til þess, sem ást þín ann
og engin jarðnesk dýrð er fær að borga.

Og áttlaus veröld yfir draum þinn reis
með ótalþætta og skipta vegi sína.
Og þúsund andlit störðu dimm og dauð
úr dagsins glæra ljósi á angist þína.

Þú ljóðsins kemst aldrei heim hvernig sem hann reynir, því ver öldin er áttlaus og við eigum hvergi heima.

Tilhneigingin til að týna tímanum og standa kyrr í nútíðinni sést á röð mynda í 6. ljóði Tímans og vatnsins (168):

Ég var drúpandi höfuð,
ég var dimmblátt auga,
ég var hvít hönd.

Og líf mitt stóð kyrrt
eins og kringlótt smámynt,
sem er reist upp á rönd.

Og tíminn hvarf eins og tár,
sem fellur á hvíta hönd.

Dæmi um ljóð sem sýna hversu ólíkum tökum Steinn getur tekið firringu manns frá manni eru L’homme statue (140) og Passíusálmur nr. 51 (203). Í fyrra ljóðinu talar steinrunninn maður og hann veit að hann er ekki annað en hlutur í augum umhverfisins:

Ég stóð á miðju torgi,
ég var tákn mín sjálfs
og fólkið starði og starði.

Ljóðið er myndsaga alveg eins og hið síðara, en í Passíusálmi nr. 51 er mælandi ljóðsins einn af áhorfendum, ekki sá sem horft er á — og þó. Ljóðið segir á átakanlegan og samt hlægilegan hátt frá því að það á að fara að krossfesta ungan og laglegan mann og fólk flykkist að og hlakkar til að horfa á þann atburð. Það er eins og mælandi ljóðsins standi utarlega í mannþrönginni en þó nógu nærri til að geta lýst manninum sem krossfesta á: „Þetta er laglegur maður með mikið enni og mógult hár.“ (203) Samkvæmt; lýsingu er þessi maður ekki ósvipaður skáldinu að yfir bragði: Steinn virðist því vera bæði hér og þar, bæði lifandi og dauður eins og niðurstaða fyrra ljóðsins var, og það er sá lifandi sem á að krossfesta, hinir dauðu horfa á.

Þannig lýsir Steinn lífsfirrtum manni æ ofan í æ í ljóðum sínum, manni sem finnur hið annarlega leita á sig, óttast að hann sé ekki heill, en veit þó að í augum annars fólks virðist hann vera fullvenjulegur maður. Það veit ekki hvað inni fyrir býr. Hann er fullur skelfingar fyrir því að vitfirringin nái tökum á honum og svipti burt allri von um að hann geti orðið til í raun og veru. Að mínu áliti sýnir Steinn þennan ótta best í ljóðinu Í draumi sérhvers manns (160), þess vegna geymdi ég mér það þangað til núna. Í þessu ljóði lýsir hann líka manni sem lifir tvöföldu lífi, en nú innan frá. Annars vegar gengur maðurinn um í „veruleikans köldu ró“ og engan grunar annað en hann sé heill og óskiptur, hins vegar lifir hann í draumnum, blekkingunni, hinum dimma kynjaskógi mannshugans sem verður sífellt fáránlegri:

Þinn draumur býr þeim mikla mætti yfir
að mynda sjálfstætt líf, sem ógnar þér.
Hann vex á milli þín og þess, sem lifir,
og þó er engum ljóst, hvað milli ber.

Fyrir mann með existensíalískan lífsskilning er alvarlegt mál að verða blekkingunni að bráð, því hann ber samkvæmt kenningunni ekki einungis ábyrgð á sjálfum sér heldur er hann alltaf að búa til úr sér fyrirmynd fyrir aðra. Hann verður ævinlega að gera ráð fyrir því þegar hann ákveður athafnir sínar að aðrir menn hermi þær eftir honum eða taki sömu ákvörðun. En í þessu ljóði er sama þótt skáldið berjist um á hæl og hnakka, blekkingin, afskræming lífs hins firrta einstaklings, verður ofan á:

Og sjá, þú fellur fyrir draumi þínum
í fullkominni uppgjöf sigraðs manns.
Hann lykur um þig löngum armi sínum,
og loksins ert þú sjálfur draumur hans.

Það er ró yfir síðustu línum ljóðsins. Skáldinu er hvíld að því að gefast upp fyrir ofureflinu. Stríðinu er lokið.

Uppgjöfin fyrir vitfirringunni er sár, og miklu léttara er yfir Steini þegar hann velur sér flóttaleið um kæringarleysi og fánýtishyggju. Í þeim ljóðum má sjá að veröldin er snargalin, ekki röð né regla á neinu, en það má alveg notfæra sér ef í hart fer eins og í kvæðinu Að sigra heiminn (133) sem margir lesendur Steins líta á sem mottó ljóða hans. Það skiptir engu máli hvort maður sigrar eða tapar, þetta er allt tóm hringavitleysa, heimurinn verður hvorki sigraður né frelsaður.

Þessi ljóð eru uppreisnargjörn í anda tilvistarstefnu. Við eigum ekki að láta segja okkur fyrir verkum, skipa okkur að trúa kennisetningum og taka við gildismati umhugsunarlaust; við eigum að hugsa allt upp á nýtt sjálf. Ef þörf krefur í skinhelgi jólahátíðar eigum við að kveikja í stofunni okkar með kurteislegum svip og kaupa svo sóknarprestinn og éta hann, eins og segir í Jólum í Ferð án fyrirheits (138). Þessi afstaða eða aðferð gerir existensíalista að uppreisnarmönnum hvar og hvenær sem þeir koma fram því þeir rífa niður staðnaðar kenningar. En raunar mun það vera svo með existensíalista sem aðhyllast fánýtishyggju að þeir líta á hana sem tímabundið niðurrifsskeið áður en þeir geta farið að byggja upp.

Þótt þessi uppreisnarljóð séu mörg galvösk er biturleika einnig að finna í þeim. Afneitun þess sem okkur er innrætt að hafi mikið gildi hlýtur að verða bitur. Hvað þykir Steini sem hans kynslóð hafi að gefa þeirri næstu? Í ljóðinu Vöggugjöf (76) spyr hann hvort hann eigi kannski að gefa nýfædda barninu

Gott og nytsamt verk að vinna,
vilja og dugnað heiðvirðs manns?

Og svarar sér sjálfur:

Nei, því miður. Nú er komið
nóg af slíku hér til lands.

Viðskiptavit kemur heldur ekki að gagni, þar eru of margir um hituna. En hvað um frelsisbaráttuna?

Fífldjarft þrek und fólksins merki
frelsisþrá og mannúð vígt?
Sjáðu, hvað við höfum hérna:
Höggstokk, gálga og fleira slíkt!

Það borgar sig ekki að fórna sér fyrir frelsið, og það þýðir ekkert að reyna að búa til tilgang með lífi sínu, aðeins eitt hefur gildi:

Sjá! Ég gef þér tryggt og trúfast
tilgangsleysið: Lífið sjálft.

Líklega hefur mörgum þótt óþægilega djarft af Steini á þessum viðsjárverðu tímum að sjá ekki tilgang með baráttu og stríði heldur ýmist fordæma slíkt eins og í Blóði (87): „Þitt unga og heita blóð til einskis skal það streyma á dreif í sandinn.“ Eða gera meinlegt grín að því eins og í Hugleiðingu um nýja heimsstyrjöld (94—5):

Og berjist þeir og berjist
og brotni og sundur merjist,
og hasli völl og verjist
í vopnabraki og gný.
Þótt borgir standi í báli
og beitt sé eitri og stáli,
þá skiptir mestu máli
að maður græði á því.

Ekkert er neins virði, segir fánýtishyggjumaðurinn. „Hin mikla gjöf, sem mér af náð er veitt,“ segir Steinn, „er vitund þess að verða aldrei neitt.“ (127) í þessu er fólgin þverstæðan á bak við allar þverstæður í ljóðum Steins, því um leið og hann er að segja að ekkert skipti máli hlýtur hann þó að heimta af okkur að við trúum því sem hann er að segja. Orð hans skipta að minnsta kosti nógu miklu máli til að vera skrifuð á blað og gefin út í bók. Albert Camus segir í sínum Uppreisnarmanni: „Ég held því fram að ég trúi ekki á neitt og allt sé fáránlegt, en ég get ekki efast um mína eigin fullyrðingu, og ég hlýt að minnsta kosti að trúa á uppreisn mína.“15Vitnað eftir John Macquarrie (208–9). Það er hollt að endurmeta gildi en óhugsandi að trúa því til lengdar að ekkert hafi gildi.


Lausnir


Útgönguleiðir úr tilvistarkreppunni eru tvær hjá Steini, eins og mér leikmanninum sýnist líka mega sjá hjá tilvistarspekingum eins og Kierkegaard, Nietzsche og Sartre: Dauðinn og tortímingin annars vegar og mannleg samábyrgð hins vegar.

Í kvæðinu Húsið hrynur í Rauður loginn brann lýsir Steinn því sem andborgaralegt skáld hvernig heimur borgarastéttarinnar er að tortímast. Sjálfur stendur hann fyrir utan og horfir á, honum er hjartanlega sama (11):

Þitt hús er voldugt og viðir sterkir,
og veggir traustir, með saum og hnoð.
En hvassar tennur, sem naga og naga,
þær naga í gegn hverja máttarstoð.

Í næstu bók er ljóðið Colosseum (62) sem einnig lýsir tortímingu. En nú stendur Steinn ekki lengur fyrir utan. Þetta er hans heimur. Hann gengur um hið merka sögusvið, horfir um „rústir hrundra súlna og bekki auða“, og sér það lifna við fyrir augum sínum: „Cæsar gengur inn í fullum skrúða!“ Er þá ekki dýrð heimsins söm og fyrr?

Nei, það var skopleg blekking eitt og allt.
Sjá, aðeins skuggi dauðans stendur vörð
á rústum hrunins heims og glottir kalt.

Heimurinn er hruninn, sundurtættur: „Sjá! Þú ert einn og allt er löngu dáið, og yfir líki heimsins vakir þú,“ segir í Skóhljóði (73). Ef guð vildi koma til hjálpar væri kannski hægt að endurreisa heiminn og gera hann heilan á ný. Í Kvöldhringingu er reynt að leita ásjár hjá honum (73):

Hungurtærðum höndum vorum
himni móti lyftum vér:
Herra! Gefðu þrek í þrautum
þessum lýð, sem kross þinn ber.

En þótt við biðjum heitt fáum við

Ekkert svar, vor andvörp týndust
inn í hofsins gljáðu þil
eins og vofur. Og á morgun
erum vér ei lengur til.

Allt er til einskis: „Það bjargast ekki neitt, það ferst, það ferst“ (107). Hvað ætli þýði fyrir aumar mannverur að klóra í bakkann?

Sundraður heimur kemur fram á mörgum myndum í Tímanum og vatninu. Í 7. ljóði er heimsendir (168):

Himinninn rignir mér
gagnsæjum teningum
yfir hrapandi jörð.

Dagseldur, ljós,
í kyrrstæðum ótta
gegnum engil hraðans,
eins og gler.

Í 12. ljóði sjáum við tættan og áttlausan villuheim þar sem ekkert er sem sýnist, dagarnir eru nafnlausir, játunin er neikvæð, fjarlægðin nálæg (172).

Þrá eftir heilum heimi má finna í ljóðum Steins frá upphafi sem hluta af lífssýn hans. Philip Mairet minnir í formálanum sem áður hefur verið vitnað til á þá skoðun húmanista að maðurinn sé fæddur „góður“ og haldi áfram að vera það, eða öllu heldur „hlutlaus”, þangað til vond heimspeki og spillt umhverfi eyðileggi hann. Samkvæmt þessu ætti bernskan að vera sá tími þegar heimurinn var heill og skiljanlegur, og eðlilegt að hinn fullorðni, „spillti“ einstaklingur óski sér þangað aftur. Strax í Ljóði frá 1932 tjáir Steinn þessa hugmynd (182), þá 24 ára. Hann segir að sig langi fram í fjallasal, því

Ég átti forðum yndi best hjá þér,
og óskir hjartans barstu í skauti þínu.
En svikull heimur sjónir villti mér,
ég sé það nú í spilltu hjarta mínu.

Hann þráir að hverfa aftur, verða aftur óspilltur, í því er gæfan ef til vill fólgin og lausnin undan þjáningum og fánýtisórum. Þar er hið einfalda líf í skauti náttúrunnar, sem líka má sjá t. d. í Gamalli vísu um vorið (88), kannski hefur það varanlegt gildi. Samruni manns og náttúru í sátt og friði er hvergi betur sýndur en í Afturhvarfi (145) þar sem skáldið biður græna jörð og mjúka, raka mold að fyrirgefa sér gönuhlaupin — og sjálfsagt naflaskoðunina líka — og viðurkenna skáldið sem hluta af heildarmyndinni:

Mitt fólk, mitt land, minn himinn og mitt haf!
Heim kemst að lokum allt, sem burtu fer.
Ég drúpi höfði þreyttu í þögn og bæn:
Þú ert ég sjálfur. Fyrirgefðu mér!

Löngun Steins til að líma heiminn saman með því að hverfa aftur heim í sveitina er sönn, en það breytir engu um það að ljóð hans um þá löngun eru fá og gagnslítil. Heimur hans er sundurtættur og bara stundarfró að hugsa sér að maður geti horfið aftur til ímyndaðrar fortíðar og slegið striki yfir nútíðina. Alvarlegri tilraun til að taka heiminn í sátt og reyna að hugsa um hann sem heild er í ljóðinu Heimurinn og ég (155). Þar finnur skáldið til samúðar með öllum mönnum vegna sorglegs atviks sem hefur hent og lýsir henni af alvöru, varpar henni ekki frá sér í hálfkæringi.

Ljóðið hefst á lýsingu á ástandi sem „ég“ ljóðsins hefur búið við lengi:

Þess minnist ég, að mér og þessum heimi
kom misjafnlega saman fyrr á dögum.
Og beggja mál var blandið seyrnum keimi,
því báðir vissu margt af annars högum.

Andstæðingur skáldsins í ljóðinu er „heimurinn”, sem einfaldast er að skilja í merkingunni annað fólk, allir aðrir menn. Þegar þeir hafa elt grátt silfur um hríð gerist átakanlegur atburður, lítið barn deyr og bæði Steinn og heimurinn eru harmi lostnir, því „þetta barn, sem átti ástúð mína, var einnig lieimsins barn og von hans líka.“ Þeir sameinast við þetta gegn nýjum andstæðingi, „lífinu“, sem ber ábyrgð á dauða barnsins; þeir sjá „það loks í ljósi þess, sem skeði, að lífið var á móti okkur báðum.“

Í þessu ljóði ber enn að brunni tilvistarstefnunnar. Við erum yfirgefin, eins og Sartre segir, og undursmá í ómælisrúminu, og verðum að sjá um okkur sjálf. Það minnsta sem við getum þá gert er að snúa bökum saman og taka ábyrgð hvert á öðru meðan lífið er okkur fjandsamlegt. Í rauninni er veröld þessa ljóðs jafnömurleg og „Hamletkvæðanna“, en hér kemur fram svo ekki verður um villst hin borgaralega sátt, tilraun til að safna brotunum saman og treysta á mannlega samábyrgð. Hún gefur von um að við hættum að misþyrma hvert öðru, því hún segir að allir séu í raun á sama báti og enginn beri meiri sök en annar.

En hvernig ber að skilja „lífið“ í þessu ljóði sem kemur fram á sjónarsviðið eins og marghöfða dreki úr ævintýri? Existensíalistar segja að það skilji manninn frá annarri skepnu að standa alla ævina, allt lífið, frammi fyrír því að eiga eitt sinn að deyja. Flestir reyna í lengstu lög að leiða þessa óþægilegu staðreynd hjá sér, en það er einn þáttur þess að verða til í existensíalískum skilningi að viðurkenna dauðann sem þátt af lífinu. Það gerir Steinn í Heimurinn og ég.


Fyrsta íslenska nútímaskáldið


Eitt af því sem eflaust varð Steini til nokkurrar mæðu á árum kreppu og stríðs var að hann skyldi ekki vera sanntrúaður kommúnisti eins og lenskan var þegar hann byrjaði að yrkja. En meinið var að Steinn var aldrei marxisti. Þó var hann róttækur, og enginn var hann talsmaður ríkjandi stéttar, en hann var að eðlisfari gagnrýninn á allt sem reynt er að fella í form, koma í kerfi, hvort sem það var kerfi kirkjunnar eða Karls Marx. Hann sá ekki heiminn í kerfi framleiðsluafstæðna eða sem útskýranlegt millispil undirstöðu og yfirbyggingar, hann sá heiminn í brotum.

Einmitt af því að það er fjarri eðli Steins að tileinka sér skýringar marxismans á tilveru okkar sér hann ekkert annað en óskapnað í kringum sig, örbirgð, stríð, mannvonsku og þjáningu sem hann skilur ekki. Milli þess sem hann glímir við angist sína og efa beinir hann spjótum sínum gegn ríkjandi hugmyndum, ræðst óvæginn á allar reglur, viðtekin gildi og vanahugsun — til að vekja fólk til vitundar um ástandið í þeirri von að það færist til betri vegar. En hann kemur ekki þeirri reiðu á gagnrýni sína að hvetja til gagngerðra, kerfisbundinna breytinga, það hefði ekki heldur verið honum líkt. Öll þessi einkenni á Steini sem heimspekilegu skáldi þykja mér koma mætavel heim við tilvistarstefnu.

Tilvistarstefnan er í öllum meginatriðum alger andstæða marxismans en saman hafa þessar stefnur mótað hugsunarhátt evrópskra manna á þessari öld. Það helsta sem virðist skilja þær að frá leikmanns sjónarhóli er að marxistar leita skýringa í sögu og samfélag, sjá allt eða vilja skilja allt í samhengi hvað við annað, en existensíalistar leita skýringa í sálarlífi og vitund einstaklingsins og viðurkenna ekki að nokkur geti haft yfirsýn yfir veruleikann allan. Veröldin er að þeirra mati í ótal brotum sem ókleift er að raða endanlega upp. Það eina sem einstaklingurinn getur gert er að velta sinni eigin tilveru fyrir sér og réttlæta tilvist sína með því að þroska sjálfan sig, „verða til“.

Tilvistarstefnan er ein af meginstoðum módernismans í skáldskap, en módernistar sundra snyrtilegum og heillegum heimi raunsæisstefnu og brjóta öll ríkjandi boðorð. Ekkert hefur gildi af sjálfu sér, segja þeir, ekkert getur verið endanlega viðtekið. Við verðum að hafna öllu til að geta endurmetið allt.

Sjálfsagt má finna margar og ólíkar skýringar á því hvers vegna heimspeki Kierkegaards og Nietzsches höfðaði meira til Steins en útlistanir Marx á mannlegri tilveru. Steinn var sjálfsagt að upplagi ekki síður en vegna ytri aðstæðna einstaklingshyggjumaður en ekki félagshyggjumaður. Einstaklingurinn og persónuleg barátta hans við sjálfan sig átti meiri ítök í honum en öreiginn, sem átti að sameinast öðrum öreigum að áliti Karls Marx. Á mælikvarða borgaralegs þjóðfélags var Steinn misheppnaður maður og hann kenndi sjálfum sér um það, ekki samfélaginu. Honum sveið þetta mat meðborgaranna, það kemur meira að segja fram í háðkvæðum hans um það eins og Að fengnum skáldalaunum (147):

Ég var soltinn og klæðlaus og orti í Alþýðublaðið,
og allur heimurinn fyrirleit blaðið og mig.

Eins og fram kemur í mörgum ljóða Steins var önnur hönd hans visin („hvít og tærð“), og hún verður honum eins og ytra tákn vanmáttar hans. Hennar vegna átti hann líka erfitt með að vinna almenna verkamannavinnu sem stóð honum ein til boða á fyrstu árunum í Reykjavík. Hann hafði enga menntun að bakhjarli, þaðan af síður eignir. Sveitina hafði hann yfirgefið, ekki var sú syndin minnst; hann er fyrsta skáldið í röð borgaröreiga á íslandi, yfirgefinn á mölinni. Það var ekki að undra þótt hann fyndi til skyldleika við Chaplin eins og gleggst má sjá í Sporum í sandi.

Eiginlega er það bara þrjóska sem kemur í veg fyrir að svona maður hengi sig. Steinn hefur líklega verið mest hissa á því sjálfur að hann skyldi ekki gera það, og undrun hans er einn þátturinn í leit hans að sjálfskilningi: til hvers var hann að lifa, svona aumur og vesæll? En á hinn bóginn var hann stoltur og metnaðargjarn og þær tilfinningar vega salt við sjálfsfyrirlitninguna lengi lengi. Það er einmitt úr þessum andstæðum, metnaðargirnd og minnimáttarkennd, sem ljóð hans verða til. Það eru þessar raunverulegu og djúprættu andstæður sem gera þau sterk og rík. Tilvistarstefna og módernismi eiga greiða leið að skáldi eins og Steini, verði þau á vegi hans — og ef ekki, skapar hann sjálfur það sem til þarf.

Þó að stök ljóð hafi birst í anda módernisma á íslensku áður en Steinn Steinarr fór að gefa út ljóðabækur þá tel ég óhætt að fullyrða, að hann sé fyrsta skáldið sem er módernískur að lífssýn og hugsun frá upphafi til enda. Það má renna tæknilegum stoðum undir þessa fullyrðingu, benda á nýstárlega myndbyggingu í mörgum ljóða hans, vísanir, huglæga notkun lita og ýmis önnur formsatriði,16Um þessi atriði má lesa nánar í bók Eysteins Þorvaldssonar: Atómskáldin. Rvk 1980 (76–7, 262–3). einkum í Tímanum og vatninu þar sem hin móderníska lífssýn náði mestri formlegri fullkomnun hjá Steini. Formið lagar sig betur og betur að nýrri skynjun, það er lögmálið, hins vegar eru beiskja og örvænting að miklu leyti horfin þar, það er eins og skáldið horfi á úr fjarska.

Steinn reyndi oft og lengi að nota hefðbundna bragarhætti, en einmitt í ,,Hamletkvæðunum“, vangaveltum um tilvist og tilgang lífsins, vill formið bresta. Þó var hann svo hefðbundinn að brot hans hefðu átt að fyrirgefast honum ef formið hefði eitt verið óstöðugt. En það kemur skýrara fram um Stein en mörg önnur ljóðskáld, að styrrinn um rím eða ekki rím á sínum tíma stóð alls ekki um rím heldur nýjar hugmyndir, nýtt mat á tilgangi mannsins í nýrri og að mati módernista óskiljanlegri veröld. Reyndar lýsir Steinn þessu skínandi vel í Chaplinsvísu, model 1939 og verður varla betur orðað (109):

Svo kvað ég fáein kvæði
af krafti og hagleik bæði
um allt hið blinda æði,
sem elur jarðlíf vort.
En ei var allt með felldu,
þótt eitthvað gott þeir teldu,
þeir helft þess stolna héldu,
en hitt var vitlaust ort.

Skynjun Steins á veröldinni og afneitun hans á hefðbundnum gildum voru nýstárleg — að ekki sé meira sagt — og hvort tveggja hlaut að hafa áhrif á þá menn sem voru að byrja að yrkja á þessum árum og gegndu heitinu atómskáld. Staða Steins þykir mér vís: hann er að mínu mati fyrsta raunverulega íslenska nútímaskáldið.Silja Aðalsteinsdóttir

Silja Aðalsteinsdóttir rithöfundur, þýðandi og bókmenntafræðingur skrifaði á sínum tíma BA-ritgerð sína um Stein og ljóðagerð hans. Hún hefur auk þess fjallað um existensíalisma í verkum Steins í tímaritinu Skírni sem endurbirt er hér. Síðustu árin hefur Silja starfað sem ritstjóri hjá Forlaginu.Tilvísanir


1. Sveinn Skorri Höskuldsson: Að yrkja á atómöld. Rvk 1970 (25).
2. Eimreiðin. Jan.–mars 1943 (91).
3. Helgafell. 1942 (430).
4. Kristinn E. Andrésson: Íslenskar nútímabókmenntir 1918–1948. Rvk 1948 (147).
5. Dagskrá. 2. hefti 1958 (3).
6. Nýtt Helgafell. 2. hefti 1958 (80).
7. Sama (81).
8. Sveinn Skorri Höskuldsson (31–2).
9. Heimir Pálsson: Straumar og stefnur í íslenskum bókmenntum. Rvk 1978 (173).
10. John Macquarrie: Existentialism. Harmondsworth 1977 (257, 262–3).
11. Hann talar um existensíalisma sem „spontaneous movement in contemporary European thought”. Jean Paul Sartre: Existentialism and Humanism. London 1957 (15).
12. Kort K. Kortsen: Sören Kierkegaard. Jakob Jóh. Smári íslenskaði. Rvk 1923 (30).
13. Til glöggvunar má geta þess að Rauður loginn brann byrjar þar á bls. 3, Ljóð á bls. 45, Spor í sandi á bls. 87, Ferð án fyrirheits á bls. 123, Tíminn og vatnið á bls. 165 og Ýmis kvæði á bls. 181.
14. Jean Paul Sartre (14).
15. Vitnað eftir John Macquarrie (208–9).
16. Um þessi atriði má lesa nánar í bók Eysteins Þorvaldssonar: Atómskáldin. Rvk 1980 (76–7, 262–3).

Tveir karlar í síðum frökkum

Kristín Þórarinsdóttir skrifar um fyrstu og síðustu minningar sínar af Steini sem barn


Fyrsta minning mín af Steini er líklega frá því ég var um fjögurra ára gömul. Þá áttum við heima á Selfossi og hann kom í heimsókn með Jóhannesi úr Kötlum. Ég var úti að leika mér þegar ég sá tvo karla í síðum frökkum koma gangandi frá sýslumannshúsinu. Þegar þeir komu nær sá ég að annar var Steinn. Ég minnist þeirra sitjandi í stofusófanum og það var hlegið óskaplega mikið.

Seinna spurði ég föður minn um þessa heimsókn þeirra sem sat svo sterkt í barnsminni mínu. Þá sagði hann að þeir hefðu verið eitthvað við skál og höfðu verið viðstaddir yfirheyrslur hjá sýslumanni. Einhver, sem var þeim líklega kunnugur, hafði tekið sokkbol ófrjálsri hendi á nafngreindum bæ í Flóanum og þeir óttuðst allan tímann að yfirheyrslurnar snerust í höndum sýslumanns þannig að hann yrði sjálfur dæmdur í stað þjófsins. Þarna hafa frásagnarhæfileikar Steins notið sín og kaldhæðnin vafalaust ráðið för.


Bragginn og tíkin Tuska


Önnur minning frá því ég var barn er úr bragganum sem Ásthildur og Steinn bjuggu í um tíma í Kamp Knox. Ég man reyndar ekki sérstaklega eftir Steini, miklu frekar hve undarlegt hús mér fannst þetta vera. Veggirnir náðu ekki til lofts og allt var svo ólíkt því sem ég hafði áður séð. Best man ég þó eftir húsi þeirra í Fossvoginum við Sléttuveg. Þangað kom ég oft og þangað var gott að koma. Hins vegar man ég ekkert sérstaklega eftir heimsóknum Ásthildar og Steins til okkar nema þegar eitthvað sérstakt var um að vera eins og þegar þau komu með tíkina Tusku sem löngu er orðin fræg vegna skrifa þeirra til borgarstjórans í Reykjavík til að fá að halda hund í Reykjavík. Þeim var þó neitað um það og Ásthildur kom niðurbrotin með hundinn í fóstur til mömmu. Tíkin var hjá okkur upp frá því.


Venjulegur hlýlegur karl


Steinn var mjög barngóður og minning mín um hann er aðeins góð. Ég þekkti aldrei þá mynd af honum sem gjarnan hefur verið haldið á lofti. Fyrir mér var hann bara venjulegur, hlýlegur karl. Hann spjallaði við mann og sagði manni sögur af dýrunum þeirra. Frá því ég man eftir mér var Steinn metinn að verðleikum í minni fjölskyldu. Tvö barna minna, Aðalsteinn og Ásthildur Kristín eru skírð í höfuðið á þeim hjónunum. Mamma og Steinn voru góðir vinir og ég man eftir bréfi frá Steini sem hann hafði skrifað henni líklega þegar hann var við vinnu á Sólbakka vestur á Flateyri. Bréfið byrjaði á þessum orðum: „Ó guð minn góður hvað það er gaman að þú skulir vera til“. Ég fékk reyndar aldrei að lesa bréfið til enda.


Sameiginlegt skjól


Frá því ég komst til vits og ára vissi ég að erfiðleikar höfðu verið í sambandi Steins og Ásthildar um tíma. Þau kynntust 1937–38. Þá var Ásthildur nýlega komin til Reykjavíkur eftir að hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri. Hún var yngst fjögurra systkina sem barnung misstu móður sína norður á Bergsstöðum í Svartárdal þar sem faðir þeirra var prestur. Ingibjörg móðir mín og Þorbjörg systir hennar voru komnar áður til Reykjavíkur og eftir að Ásthildur bættist í hópinn bjuggu þær allar saman að Lækjargötu 6. Þar söfnuðust gjarnan saman vinir þeirra og skólabræður og kölluðu þeir íbúð þeirra „Skjólið“. Flestir þeirra voru skólabræður Ásthildar úr Menntaskólanum á Akureyri. Í Skjólinu kynntust Ásthildur og Steinn þegar vinur hans kom eitt sinn með hann þangað.


Ást og aðskilnaður


Á þeim tíma sem Steinn og Ásthildur fóru að vera saman var Steinn bláfátækur og lífsstíll hans kannski ekki sá ákjósanlegasti fyrir tvítuga stúlku sem var að byrja lífið nýkomin úr skóla. Faðir Ásthildar og fleiri ættingjar höfðu áhyggjur af þessu ráðslagi og ráðlögðu henni að slíta sambandinu um 1940. Seinna veit ég að afi og Steinn urðu góðir vinir og Steinn mat hann mikils. Steinn og Ásthildur voru þó ekki aðskilin lengi og tóku saman aftur áður en langt leið. Ásthildur elskaði Stein út yfir gröf og dauða alla tíð en ég held að hann hafi verið lengi að fyrirgefa henni þetta. Árið 1943 varð Ásthildur ófrísk eftir Stein en hann var þá ekki tilbúinn að takast á við slíka ábyrgð og rofnaði samband þeirra aftur. Ásthildi leystist höfn er hún var talsvert langt gengin með og næstu ár urðu þeim báðum erfið.


Lítil laun fyrir skáldskap


Fljótlega eftir að Steinn kom heim frá Svíþjóð og Danmörku árið 1946 fóru þau Ásthildur að búa saman að Lækjargötu 6, þar sem móðir mín var þá gift, flutt austur fyrir Fjall og Þorbjörg farin til London. Eftir það vann Ásthildur fyrir þeim báðum því Steinn fékk lítið í aðra hönd fyrir skáldskap sinn. Um þetta leyti er Steinn að yrkja Tímann og vatnið. Auðséð er af ýmsum gögnum úr þeirra eigu að Ásthildur hefur aðstoðað Stein mikið við að vélrita ljóðin og skrifa upp fyrir hann hugmyndir að ljóðaheitum og fleira þess háttar.


Bókin sem aldrei var skrifað í


Ég man vel er ég sá Stein í hinsta sinn. Það var sumarið 1957 er ég var ásamt frænku minni Sólveigu Eggerz í Reykjavík í nokkra daga. Hún hafði búið alla tíð erlendis og við fórum því í heimsóknir til ættingja til að sýna okkur og sjá aðra. Við vorum með svona bækur, sem stelpur gjarnan áttu á þeim árum, þar sem fólk var látið skrifa nafn sitt og fæðingardag og einnig vísur sem þóttu hæfa manni. Mamma ráðlagði okkur að fara til Steins og láta hann yrkja fyrir okkur í bækurnar. Hann tók okkur mjög vel en var þá sjálfsagt farinn að finna fyrir þeim veikindum sem drógu hann til dauða. Hann sagðist ekki geta ort til okkar núna en hann skyldi gera það seinna. Sú stund kom þó aldrei því hann dó vorið eftir.Kristín Þórarinsdóttir

Kristín Þórarinsdóttir er systurdóttir Ásthildar K. Björnsdóttur, eiginkonu Steins Steinarr. Hún lauk BA námi í íslensku frá Háskóla Íslands vorið 2005 með ritgerð um Tímann og vatnið. Kristín starfaði sem fjármálastjóri Fjölbrautaskóla Suðurlands í tæpan aldarfjórðung, en hætti störfum þar vorið 2011.

Þungt að vera þjóðskáld

Hugleiðing um afmælisbarn – eftir Jón Kalman Stefánsson. Birtist í Lesbók Morgunblaðsins 2008


Það virðist náttúrulögmál að þeir sem dragast að ljóðum liggja einhverntíma í Steini Steinarr, fara gegnum Steins-tímabil, og þá helst á árunum kringum tvítugt. Skyldi það vera út af tilvistarangistinni sem blasir við í mörgum kvæðanna, sett fram á svo augljósan hátt að það þarf, öfugt við mörg ljóð atómskáldanna, litla lestrarþjálfun til að átta sig á þeim? Og varla skemmir kaldhæðnin fyrir, og fyndnin í bland við sjálfsháð. Steinn er skáld sem virðist ganga í hring í kringum sjálfan sig, hann er umfram allt fyrstu persónu skáld, „Ég“ er fyrsta orðið í fyrstu ljóðabók hans. Hann kemur beint að lesandanum, kaldhæðinn, fyndinn, þunglyndur, kvalinn. Ólíkindatól sem vorkennir sjálfum sér í einu orði, hæðir í því næsta — allt þetta rímar vel við ungar og skáldlega þenkjandi manneskjur. Sjálfur lá ég í kvæðum hans framyfir tvítugt, besta skáld Íslands síðustu 500 árin, fullyrti ég þá, og bætti gjarnan við; ásamt Jóhanni Sigurjónssyni og Jónasi Hallgrímssyni. En einhverntíma á níunda áratug síðustu aldar setti ég kvæðasafn hans upp í hillu, og hef varla snert það síðan. Ekki þar fyrir, maður er alltaf að rekast á Stein, safnið hans hvílir við hlið Nýja testamentisins, Passíusálmanna og Laxness á gjafaborðunum, hann er jafnvel gefinn í skírnargjöf og er sjálfsagt löngu búinn að velta Davíð Stefánssyni úr sessi sem gjafaskáld númer eitt, það hefði Steini þótt djöfulleg örlög.

Við Íslendingar erum þannig samansettir að við tölum lítið um skáldskap þeirra sem komast á þjóðskáldastallinn, áhuginn færist frá honum og yfir á sjálft skáldið, persónuna. Þegar við reisum styttu er það af manninum, ekki verkum hans. Og það er hugsanlega þessvegna að skáldskapur þjóðskáldanna á það eilíflega á hættu að glata töfrum sínum, þessari innri glóð sem gerir skáldskap að því sem hann er. Hann verður að traustum og hættulausum gjöfum. Einhverskonar andlegu sófasetti.

Var það kannski útaf þessu að ég setti Stein upp í hillu, og sniðgekk hann í tuttugu ár; einskonar óþol gagnvart jöskuðum gjafaumbúðum, japlandi frösum?

Hugsanlega, í fyrstu, en góður skáldskapur heldur áfram að suða innra með manni, hversu vandlega sem honum er pakkað í gjafaumbúðir, eða hjúpaður mærðarfullu lofi. Maður hlaut fyrr eða síðar að taka kvæðasafn Steins úr hillunni. Ég á Helgafellsútgáfu á kvæðum Steins og greinum, útgefið 1982, með mynd af honum ungum á annarri síðu og allnokkru eldri á blaðsíðu 238. Gamall maður, fannst mér á sínum tíma, og samt er hann ekki miklu eldri en ég núna; greini ég uppgjöf í augnaráði hans, horfir hann inn í myrkur og eldist á meðan?

Ég hef auðvitað lesið kvæði og kvæði eftir Stein á síðustu árum, rekist á þau í öðrum bókum, jafnvel svo óvænt að ég var búinn að lesa þau áður en ég vissi af. Og línur og stemningar í stöku kvæðum hafa búið með mér, eru hluti af þessu andlega nesti sem ég gríp til við mögulegar og ómögulegar aðstæður. Sólin, sólin var hjá mér, eins og grannvaxin kona á gulum skóm; og svo framvegis. En fyrir tveimur eða þremur vikum tók ég loks kvæðasafn Steins niður úr hillu, og las það í gegn, frá kvæði til kvæðis. Fyrst var það svolítið eins og að ferðast aftur í tímann — áður en ég vissi af var ég staddur í Keflavík undir miðbik níunda áratugarins. Að lesa er stundum það sama og að lenda í tímavél.

„Ég og hamingjan skildum aldrei hvort annað,“ yrkir Steinn í bókinni Ferð án fyrirheits, „og eflaust má kenna það vestfirzkum framburði mínum.“ Það var nákvæmlega þessi tónn sem mér fannst svo heillandi, þetta viðhorf, kæruleysi í bland við sársauka, alvöruleysi, gott ef ekki fíflalæti, en dauðans alvara djúpt undir. Einhverstaðar talar Steinn um að lífsháskinn sé mikilvægur í öllum skáldskap, og það má vissulega greina eitthvað slíkt í Hamingjan og ég; kvæðinu sem ég vitnaði í hér að ofan. Steinn brosir út í annað, eða glottir, eins og til að fela djúplægan sársaukann. Ég er ekki frá því að Steinn sé hvað sterkastur þegar hann yrkir á þennan hátt, og ég gæti nefnt fleiri skyld kvæði af handahófi: Að frelsa heiminn, Undirskrift, Að sigra heiminn, Þjóðin og ég. Fjandi lífseigur kveðskapur, sífellt eins og maður sé að lesa kvæðin í fyrsta sinn, og gott ef það er ekki skyldleiki milli þeirra og einnar vísu eftir Pál Vídalín, sem er ekki lítið hrós því ég held að það sé besta vísan sem ort hefur verið á Íslandi:

Einatt liggur illa á mér,
ekki eru vegir fínir;
heilir og sælir séu þér
snjótittlingar mínir.

En þau kvæði Steins sem mér þótti kannski hvað mest um á sínum tíma, og stældi sjálfsagt af ákafa og ósvífni, kvæði sem glíma af dauðans alvöru við angist lífsins, það er nú meira hvað þau hafa dofnað. Ég vil ekki kalla þau tilgerðarleg, ekki beinlínis, en þau eru heldur eintóna, fyrirsjáanleg, öll á yfirborðinu. Og enda merkilega oft á línum á borð við: „Ég elska það, sem aldrei verður til“, „… horfði með söknuði og trega/ á eitthvað, sem ekki er til“, „Og ljóð mitt ber samskonar/ svip og það,/ sem ekki er“. „Ég er ekki til.“

Bækur Steins eru ójafnar, ójafnari en mig minnti. Og kannski að þar sé komin ástæðan fyrir því að ég forðaðist að lesa skáldskap hans öll þessi ár; ég lagði einfaldlega ekki í það. Sumar bækur virðast best geymdar í minninu, ljóma þar svo lengi sem maður les þær ekki aftur, þær eru bundnar við liðinn tíma. Ég óttaðist einfaldlega að Steinn þyldi illa endurfundina. Sá ótti varð áleitnari næstum í hvert sinn sem ég rakst á kvæði eftir hann, ég óttaðist vonbrigði. Sem varð raunin — upp að vissu marki. Slöku kvæðin eru umtalsvert fleiri en ég hélt, tíminn hefur farið illa með þau, einhver ætti að taka sig til og gefa út strangt úrval kvæða hans; honum er lítill greiði gerður með að endurprenta heildarsafnið aftur og aftur. Svoleiðis fer vissulega betur í gjafapakka, liggur betur í hillu, þrjúhundruð síðna bók er virðulegri en fimmtíu síðna ljóðaúrval. En skáldskapur er ekki virðulegur, jakkaföt eru það, sumir þjóðhöfðingjar; en virðulegur skáldskapur er dauður skáldskapur. Steinn Steinarr, þessi gamli skelmir, þetta óíkindatól á aldarafmæli. Besta afmælisgjöfin sem við getum gefið honum, og þá um leið okkur sjálfum, er að gefa út úrval af kvæðum hans, því stórskáld er Steinn þar sem honum tekst best upp. Lofið mér að nefna, fyrir utan þau sem þegar eru upptalin, kvæðin Í kirkjugarði, Í draumi sérhvers manns, Passíusálmur nr. 51, Landsýn og síðan Formáli á jörðu — stundum held ég að síðastnefnda kvæðið sé eitt það sannasta sem ort hefur verið á íslensku. Það er í sjálfu sér einfalt, minnir næstum á regndropa, og hægt að lesa það án þess að nema staðar, lesa það og gleyma því. En þetta er sárt kvæði og fjallar um dýpstu þrá og skyldu mannsins; að gera heiminn, lífið, tilveruna, að betri stað:

Út í veröld heimskunnar,
út í veröld ofbeldisins,
út í veröld dauðans
sendi ég hugsun mína
íklædda dularfullum,
óskiljanlegum orðum.

Gegnum myrkur blekkingarinnar,
meðal hrævarloga lyginnar,
í blóðregni morðsins
gengur sorg mín
gengur von mín
gengur trú mín
óséð af öllum.

Djúp, sár og brennandi.

Óséð af öllum.

Svo að ljóðið megi lifa,
svo að andinn megi lifa,
svo að guð megi lifa.Jón Kalman Stefánsson

Jón Kalman Stefánsson hóf feril sinn sem ljóðskáld en fyrsta prósaverk hans var smásagnasafnið Skurðir í rigningu (1996). Skáldsögur Jóns Kalmans hafa notið mikilla vinsælda á undanförnum árum og hlaut hann Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir Sumarljós og svo kemur nóttin árið 2005. Bækur hans hafa einnig hlotið góðar viðtökur erlendis, meðal annars í Þýskalandi. Jón Kalman hefur þrisvar verið tilnefndur til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, fyrir Sumarið bak við brekkuna, Ýmislegt um risafurur og tímann og Sumarljós og svo kemur nóttin.

Steinn í farangrinum

eftir Steinunni Sigurðardóttur. Birtist í Aldarminning Steins Steinarr — Lesbók Morgunblaðsins 2008


Það eru góð ráð dýr þegar fjórtán ára manneskja ætlar út í heim í fyrsta skipti, til heillar sumardvalar, og ekki vegur að skiljast við ljóð Steins Steinarr. Frekar en hætta á yfirvigt hjá tveimur flugfélögum er gripið til þjóðaríþróttarinnar og afritað í stórum stíl. Það þurfti reyndar ekki að skrifa þetta allt upp, því ljóðin voru blýföst í minninu: Tíminn og vatnið, Í draumi sérhvers manns, Undir hundruðum járnaðra hæla, Mitt hjarta er fullt af mjúku svörtu myrkri, og miklu fleiri. En tilhugsunin um að minnið færi að víkja við orði að eigin vild er svo neikvæð að ekki verður hætt á slíka ónákvæmni.

Sumarið ’65 varð nokkurs konar sumarhermir, sem fór ekki fram á sínum stað, í kvennaskóla nálægt Interlaken í Sviss, heldur varð það sumarið í slagtogi við Stein þar sem ljóðin voru deklameruð út í óraunveruleika Alpanna. Það var tiltölulega lítið púður og klénn veruleiki í næstfrægustu tindum heimsins, Eiger, Mönch og Jungfrau, útum gluggann, miðað við þá staðreynd að „rödd þín flýgur upp af runni hins liðna/eins og rautt ljós“. Eða þá bjargfastur „óvæður ós“ úr sama ljóði í Tímanum og vatninu. Við þann ós mátti lengi hinkra þótt Sviss liggi alls ekki að sjó.

Kúabjöllur að morgni í svefnrofum og súrefnisbláma. Það er vinsælt að lifa sig inn í þann skáldlega hljóm, en fyrir fimmtán ára manneskju með Stein í farangrinum var kliðurinn úr þessum náttúrubjöllum ekki annað en hljóðaglundur — sem breyttist þá fyrst í draumkennt og ljóðrænt efni þegar „… sólin var hjá mér eins og grannvaxin kona á gulum skóm“. Skiptir ekki máli að konur á svoleiðis litum skóm eru sennilegar til að halda sig annars staðar en kringum kýr og það sem þeim fylgir. Meðan tíðin verður tvenn og þrenn verður það sérstaklega dýrmætt að geta slegið upp í sögu sálarinnar þegar Ljóðasafn Steins Steinarr er opnað, að rifja upp hvað söng í sálinni um það leyti sem lífið SJÁLFT var að byrja við óvæðan ós í landi sem liggur ekki að sjó:

Ó sláðu hægt mitt hjarta
og hræðstu ei myrkrið svarta …

Þennan tímann með Ljóðasafni Steins Steinarr verð ég sérstaklega hugsi yfir vegalengdinni milli höfuðskáldsins Steins og þess hjartaskálds sem hann var mér sumarið ’65. Um leið er hann tveggja tíma skáld, sem magnar ljóðræna spennu í dansinum á hengibrúnni milli tímanna. Og hann er fremur en önnur tuttugustu aldar ljóðskáld á Íslandi (þó hugsanlega í harðri samkeppni við barnakennarann sinn, Jóhannes úr Kötlum) jafnvígur á hefðbundinn kveðskap og framtíðarskáldskap. Steinn er í rökvísri kaldhamraðri ádeilu verðugur arftaki BóluHjálmars þegar best lætur (en í ljóðinu um hann kallar Steinn sig „forsmáð skáld að sunnan“), um leið og hann fer fram úr íslenskum samtímaskáldum í myndrænni abstrakt hugsun með Tímanum og vatninu, fyrst útgefnum árið 1948.

Sofa vængbláar hálfnætur
í þakskeggi mánans,
koma mannstjörnur,
koma stjarnmenn,
koma syfjuð vötn.

Það er um langan veg að fara yfir í gömlu aðferðina, úr smiðju Bólu-Hjálmars:

Og smæð mína og einstæðingsskap eins og forðum ég finn,
en flokkurinn situr sem virðuleg heldri kona,
með spánnýja skotthúfu á höfði og hönd undir kinn,
á húsmóðurstólnum í dagstofu Jensessona.

(Lokaerindi úr EIN SORGLEG VÍSA um Sósíalistaflokkinn og mig)

Sumarið ’65 með Steini var dimman í ljóðum hans tilvonandi manneskju sérlega hugleikin, en með tímanum verður hann ekki síður skáld ljóssins — og þó kannski umfram allt skáld skugganna, með flöktandi hitastigi milli kaldhæðni og hlýju. Í þeim anda, þetta þrennt úr dýrmætum farangrinum:

Mín þjáning er svo dimm og dauðahljóð
sem draumlaus svefn að baki alls er lifir.

Hið sólhvíta ljós
og hinn suðandi kliður eru systkini mín

Ég horfði daglangt út um opinn glugga
og blærinn strauk mér hægt um heita kinn.
Mitt auga leit tvo annarlega skugga,
annar var skuggi heimsins, hinn var minn.Steinunn Sigurðardóttir

Steinunn Sigurðardóttir (F. 26. ágúst 1950) er íslenskur rithöfundur og ljóðskáld. Hún hlaut m.a. Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 1995 fyrir skáldsögu sína Hjartastaður. Foreldrar hennar eru Sigurður Pálsson og Anna Margrét Kolbeinsdóttir. Steinunn útskrifaðist úr Menntaskólanum í Reykjavík 1968 og lauk heimspeki- og sálfræðinámi við University College í Dyflinni 1972. Hún gaf út sína fyrstu ljóðabók aðeins 19 ára gömul. Bækur hennar hafa verið þýddar á fjölda tungumála. Frönsk kvikmynd byggð á sögu hennar Tímaþjófnum kom út árið 1999.

Eir

eftir Guðberg Bergsson. Birtist í Aldarminning Steins Steinarr — Lesbók Morgunblaðsins 2008


Fá íslensk ljóð hafa valdið mér jafn miklum heilabrotum og ljóðið Eir eftir Stein Steinarr. Með alls konar mótsögnum og rökleysu hefur honum tekist í þessu ljóði að setja saman áleitnari heild en ef það hefði verið ort í ákveðnum tilgangi byggðum á rökhyggju og ljóðlínum sem tengja hugmyndir og innihald og leiða þannig lesandann að félagslegri niðurstöðu. Ljóðið er hvorki í ætt við heilræðavísu né pólitískt reikningsdæmi. Í því er um allt annað að ræða.

Þrátt fyrir það að skáldið víkur af vegi hins hefðbundna í bundnu máli að skrykkjóttum stíg ringulreiðar er ljóðið ekki framúrstefnulegt né markviss upplausn forma sem er beint gegn sígildum hefðum í íslenskri ljóðagerð. Leið skáldsins og hugarfarið að baki ljóðsins er fyrir bragðið ekki eitthvað auðskilið.

Titilinn, málminn í standmynd Jóns Sigurðssonar forseta sem átti að hafa verið í lífi sínu jafn traustur og eir, notar skáldið sem mótsögn í laust tengdu flæði háðs og alvöru. Svo þegar titlinum sleppir og ljóðið tekur við verður lesandinn vitni að látlausri uppbyggingu og niðurbroti goðsögu um forseta og skáld. Í textanum er engan eir að finna, hvorki í notkun máls né hugmynda. Eirinn er fyrir utan ljóðið, í hinum opinberu skoðunum um hinn staðfasta forseta, en í ljóðinu er hann auðsæilega getulaus sem leiðtogi. Enginn í samtímanum tekur mark á honum og lærdómi hans, hugvekjunum, en skáldið leitar engu að síður til hans, ekki sem andleg hliðstæða eða leiðtogi í nýrri tegund af ljóðlist, heldur aumur maður fullur af sjálfsvorkunnsemi. Að þessu leyti ætti lifandi skáldið að vera andstæða dauðu eirstyttunnar, en hvort um sig er statt í álíka miklum andlegum þrotum á torgi andspænis þinghúsi sem ætti minnsta kosti að varðveita anda forsetans. Annað kemur í ljós.

Leiðtoginn og skáldið, Jón Sigurðsson og Steinn Steinarr, eiga hvergi samleið nema í getuleysi sínu.

Þrátt fyrir samlíkingu leiðtoga og skálds í þessum efnum lítur út fyrir að skáldið beri ekkert skynbragð á styttuna sem slíka, stíl hennar og gerð, þá listrænu og táknrænu stuðlasetningu sem hún byggist á. Undir fótum leiðtogans er traustur heimur þjóðsagna. Myndhöggvarinn mótar þannig heild og samræmi í þrívíðan eir, andstætt því sem skáldið gerir. Kannski hefur ætlun Steins verið annað en það að yrkja hliðstæðu með stuðlasetningu. Í ljóðinu örlar hvergi á löngun til að reisa með orðum eigin minnisvarða nema hann eigi að vera margbrotið og niðurbrotið fremur ófagurt minnismerki.

Ef marka má textann er Steinn fráleitt skáld fagurra lista, hæfileikunum í þá átt hefur verið stolið frá honum og fegursta ljóðið hans ort af öðrum, svo „aldrei framar mun dagurinn koma til mín.“ Þrátt fyrir ránið og valdasviptinguna horfa skáldið og styttan eins og varðmenn í siðfræði hneykslunar á dularfulla húsið, Alþingi, sem „stendur andspænis oss og enginn veit lengur til hvers“ það forðum var reist.

Þrátt fyrir siðgæðið og ádeilu á störfin í dularfulla húsinu virðist skáldið ekki vera sérlega staðfast í trúnni á eigin dyggðir en það viðurkennir fúslega veikleika sinn og segir:

Ég hef legið á gægjum við ljóra hins nýríka manns, og látið mig dreyma hið fánýta veraldarprjál.

Í siðfræði og hegðun skáldsins virðist hvorki vera heil brú né samræmi, hneigð þess er þrá eftir veraldarprjáli sem vekur í brjóstinu mótsagnakennda sjálfsfyrirlitningu, löngun til að líkjast þeim nýríku sem vekur andúð um leið. Ekkert er gert af heilum hug heldur hálfum. Og kannski stafar mótsagnalífið af því að andófsmaðurinn fékk aldrei tækifæri til að komast inn fyrir ljórann og hlaða á sig því veraldarprjáli sem það veit að er „fánýtt“.

Þessi kotlega, íslenska hneigð skáldsins og skorturinn hjá því á eindregnu lífsviðhorfi, staðfestu og sjálfsvirðingu, svo ekki sé minnst á fagurfræðilega siðfræði í listum, var ekki það sem vakti helst athygli mína þegar ég las ljóðið ungur maður, heldur ljóðlínurnar þegar skáldið segir:

En nafnlausir menn eins og nýkeypt afláttarhross, standa náttlangt á verði svo það geti sjálfu sér treyst.

Þetta getur vísað hvort tveggja til hrossanna í húsinu og hússins sjálfs. Táknrænt séð eru hrossin í hesthúsinu til þess eins að skapa sér völd og veraldarprjál. Að sjálfsögðu átti Steinn hér við þingmennina, enda leikur enginn vafi á því að „dularfulla húsið“ er Alþingi; styttan stendur fyrir framan það.

Hið kynlega var að mínum skilningi það, að af hálfu skáldsins fólst í orðunum: „… standa náttlangt á verði svo það geti sjálfu sér treyst“ fyrirlitning á þeirri varúð sem er kannski dyggð, að vera í hvívetna á varðbergi gagnvart manni sjálfum þannig að hægt verði í lokin að treysta eigin orðum og gerðum. Hugmynd skáldsins var í ljóðinu andstæð öllu sem venjulegu fólki, almenningi, hafði verið kennt meðan íslenskar siðferðishefðir ríktu, að maður ætti aldrei að treysta algerlega sjálfum sér. Þess vegna var skynsamlegast að „standa ekki bara náttlangt heldur ævinlega á verði gegn eigin breyskleika, t.d. þeirri löngun að liggja á gægjum við ljóra hins nýríka manns og láta sig dreyma fánýtt veraldarprjál.

Ef það var rétt sem skáldið sagði um þingmenn og húsið, að staðið væri þar á varðbergi, þá var það, í ljósi þjóðlegs lærdóms um siðferði, þingheimi fremur til hróss en hnjóðs að standa „náttlangt á verði. Varlegast hefði verið á viðsjárverðum tímum að standa á verði allan sólarhringinn. Næturvakan virðist samt ekki hafa borið bjartan árangur, ef marka má það sem í ljóðinu stendur: „… nóttin leggst yfir hið sorgmædda sjálfstæði. Við að sjá hvað sjálfstæðið er sorgmætt fyllist skáldið líka af sorg og ávarpar styttuna í lokin eins og jafningja og segir „báðir tveir á dönsku skotinni íslensku:

Jón Sigurðsson, forseti, standmynd, sem steypt er í eir, hér stöndum við saman, í myrkrinu, báðir tveir.

Skáldskaparfræðilega séð er ljóðið Eir skylt samræmdri sjálfsfyrirlitningu og fyrirlitningu á samtímanum og þannig sver það sig í ætt við öfugmælavísu eða vissa tegund af ljóðlist sem hafði þegar rutt sér til rúms í erlendum skáldskap, að búa til sérstakan heim orða með því að láta eitt rekast á annað, stundum með fáránlegum hætti. Hér var á ferðinni sú list (kannski brella) að fleyga ljóðlínuna, skjóta einhverju ólíku inn í hana, að leyfa orðum og hugmyndum að leika lausum hala jafnvel innan sterkrar byggingar. Með þessu móti héldu útlínurnar, myndstíllinn, ljóðinu saman, ekki ljóðlínurnar. Ljóðið varð til með sínum „meðfæddu eiginleikum, orðunum einum sér, tvístruðum, og beinum eða bylgjandi setningum; þannig var dregin upp fremur auðsæileg en tætingsleg mynd af hinum tætingslega samtíma.

Engin leið er að vita hvort Steinn Steinarr hefur haft slíkt skáldskaparmál í huga eða hvort honum brást bogalistin með ljóðinu, að móta íslenska aðferð við að tvístra ljóðinu og opna yrkingarmátanum leið til nýs frjálsræðis. Þannig átti ný upprisa ljóðsins að vera í sínum hreina anda, enda talið að skrautlaust, laust við prjál, sé það ómengað, einmitt þegar það klæðist hvorki flíkum ríms, stuðla né höfuðstafa.

Hver sem ætlun skáldsins kann að hafa verið, þá litu fáir samtímamenn á ljóðið Eir sem margslunginn loðinn skáldskap heldur sem „hreina ádeilu. Það gerðu ekki aðeins vinstri sinnaðir menn; enginn hefði tekið í mál að líta á Eir sem sjálfstætt ljóðmál eða óræðni.Guðbergur Bergsson

Guðbergur Bergsson (F. 16. október 1932) er íslenskur rithöfundur og þýðandi úr spænsku. Skáldsagan, Tómas Jónsson, metsölubók, sem kom út árið 1966, vakti athygli sem tímamótaverk og er oft talin fyrsta móderníska skáldsagan á íslensku. Eftir hann liggur fjöldi skáldsagna, ævisagna- og endurminningabóka, ljóða, þýðinga og barnabóka og hann er óumdeilt einhver áhrifamesti höfundur okkar á síðari hluta 20. aldar — og raunar fram á þennan dag. Guðbergur hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir ritstörf sín, m.a. bókmenntaverðlaun dagblaðanna 1967, bókmenntaverðlaun DV 1983, Orðu Spánarkonungs (Riddarakross afreksorðunnar), Íslensku bókmenntaverðlaunin 1992 og 1998 og tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 1993 og 1997 og Norrænu bókmenntaverðlaun Sænsku akademíunnar árið 2004. Árið 2006 var Guðbergur tilnefndur til hinna virtu ítölsku Noninu-verðlauna fyrir skáldsögu sína Svanurinn.