Þóra Elfa Björnsson

Þóra Elfa Björnsson er framhaldsskólakennari og hefur starfað við kennslu í bókiðngreinum frá árinu 1983. Þóra hefur einnig ritað bækur um draumaráðningar, fengist við þýðingar á barna- og fullorðinsbókum og ritað ýmsar greinar, ljóð og viðtöl.

Á dögunum var ég að grúska í skjölum Sigríðar Einars frá Munaðarnesi  og fann þar skemmtilegt ljóð eftir Stein sem hann hafði ort í hálfkæringi til hennar, veit ekki hvort þetta hefur birst á prenti.  Þau voru í vinahópi sem myndaðist á 4. áratugnum í Reykjavík.  Sigríður og Halldóra B. Björnsson voru vinkonur og leigðu saman á Grundarstíg, önnur vann á póstinum, hin í dömubúð. Þær voru síyrkjandi og skrifandi  líkt og fleira ungt fólk sem stundaði sömu iðju og var vakandi fyrir þjóðfélagsmálum, hittist og skammaðist út í auðvaldið, veðrið, fátæktina og allt annað sem ungt fólk á þessum tíma hafði áhyggjur af. Oft var komið saman hjá þeim vinkonunum og kannski snæddur einfaldur kvöldverður meðan málin voru rædd. Þessir einstaklingar fóru svo út í heiminn, lífið og skáldskapinn en alltaf var þráður milli þeirra flestra. Af því að þetta er það síðasta sem ég hef lesið eftir Stein og finnst húmorinn í því brattur og gáskafullur ætla ég að nefna það hér. Það er svo langt síðan þetta var ort að ýmsar líkingar eru trúlega ráðgáta í dag.

Lofsöngur til Sigríðar Einars

Þú ert eins og blaðsíða í óskrifaðri bók.
Þú ert eins og gullið sem Þorstein Jónsson tók.
Þú ert eins og síðasta heimsins hanagal.
Þú ert eins og intelligensinn í Van der Messertal.
Þú ert eins og hrífuskaft á áliðnu sumri.

Þú ert eins og hæna sem er hjerumbil blind.
Þú ert eins og alltað því ódrýgð synd.
Þú ert eins og lilja eða lítið notuð skeið.
Þú ert eins og asnan sem Jesús Kristur reið.
Þú ert eins og flík sem ég átti einu sinni.

Þú ert eins og Borgarfjarðar blessaða smjer.
Þú ert eins og vinnukonan, sem að svaf hjá mjer.
Þú ert eins og ástfanginn maður úti í sjó.
Þú ert eins og sorgin þegar amma mín dó.
Þú ert eins og hreppsnefndaroddvitaanginn.

Þú ert eins og göturnar gráar af sorg.
Þú ert eins og miðnætti uppi á Hótel Borg.
Þú ert eins og Hersins halelúja.
Þú ert eins og hvalreki, sem kirkjan á.
Þú ert eins og Hospital holdsveikra lima.

Þú ert eins og Paturi X og þú ert eins og Lí.
Þú ert eins og Dóra, sem ég er skotinn í.
Þú ert eins og upphafið áfengisbann.
Þú ert eins og dalakofi Davíðs sem að brann.
Þú ert eins og draumur um drottninguna af Saba.

Þú ert eins og gamalt og gisið gluggatjald.
Þú ert eins og innrukkað sóknargjald.
Þú ert eins og skip, sem mætast á miðri nótt.
Þú ert eins og hryssa, sem var einu sinni skjótt.
Þú ert eins og kvæði eftir Halldór Kiljan Laxness.

Steinn Steinarr