Pjetur Hafstein Lárusson

Fyrsta ljóðabók Pjeturs, Leit að línum, kom út árið 1972, en eftir hann liggja fjölmargar ljóðabækur og þýðingar. Árið 2004 kom út á vegum Hveragerðisbæjar bók Pjeturs, Hveragerðisskáldin 1933 til 1974. Sama ár kom út smásagnasafnið Nóttin og alveran. Pjetur var einn af stofnendum Lystræningjans og ljóðatímaritsins Ljóðorns.

Landsýn

Ísland, minn draumur, mín þjáning, mín þrá,
mitt þróttleysi og viðnám í senn.
Þessi vængjaða auðn með sín víðerni blá,
hún vakir og lifir þó enn.

Sjá, hér er minn staður, mitt líf og mitt lán,
og ég lýt þér, mín ætt og mín þjóð.
Ó, þú skrínlagða heimska og skrautklædda smán,
mín skömm og mín tár og mitt blóð.

Skáld er sá einn, sem yrkir í samræmi við sjálfan sig; geðslag sitt, sannfæringu sína og samvisku. Hver sá sem við skáldskap fæst án þess að virða þetta grundvallaratriði er sem sperrtur hani, galandi ofan af hundaþúfu hégómleikans. Nú er það svo að menn sem eru tiltölulega einfaldrar gerðar geta verið farsælir vitmenn. Eins íþyngir viskan ekki öllum þeim, sem flókinnar gerðar virðast að eðlisfari. Það er merkilegt í þeim efnum hve stundum verður mikið úr litlu, að því er virðist. Svo má ekki gleyma þeim sem djúpir eru að visku, en bera í sál sinni sár er seint eða aldrei gróa, án þess að flíka þeim. Steinn Steinarr fyllti flokk þeirra manna.
Öllum þeim sem ég hef rætt við og persónuleg kynni höfðu af Steini ber saman um, að hann hafi síst borið tilfinningar sínar á torg gagnvart öllum þeim fjölda fólks sem á vegi hans varð. Hann var að ég hygg, lengst af ævinnar förumaður á gatnamótum tilverunnar, eins þótt kaffihús og öldurhús Reykjavíkur veittu honum gjarnan skjól til skylminga við þá sem áttu þar leið um. Geðslag hans gat verið napurt en átti sér einnig næmari strengi, sannfæring hans vék aldrei hársbreidd frá rétti þeirra sem minna máttu sín til mannlegrar reisnar. Í því fólst að þeir sem töldu sig yfir alþýðu manna hafna, máttu oft kenna á birtu háði hans. Og hvað samvisku hans varðaði, þá meinaði hún honum allt fals.
Mér er erfitt að velja eitt ákveðið ljóð Steins sem uppáhaldsljóð, enda er hann einhvert hið heilsteyptasta skáld sem ég þekki til. En í ljóðinu Landsýn koma fram allar þær bitru mótsagnir, en samtímis heilsteypta manngerð, sem einkenna skáldið og manninn Stein Steinarr og um leið barátta hans við samtíð sína og umgjörð, að viðbættri sátt. Því kýs ég að birta það hér.