Eir

eftir Guðberg Bergsson. Birtist í Aldarminning Steins Steinarr — Lesbók Morgunblaðsins 2008

Fá íslensk ljóð hafa valdið mér jafn miklum heilabrotum og ljóðið Eir eftir Stein Steinarr. Með alls konar mótsögnum og rökleysu hefur honum tekist í þessu ljóði að setja saman áleitnari heild en ef það hefði verið ort í ákveðnum tilgangi byggðum á rökhyggju og ljóðlínum sem tengja hugmyndir og innihald og leiða þannig lesandann að félagslegri niðurstöðu. Ljóðið er hvorki í ætt við heilræðavísu né pólitískt reikningsdæmi. Í því er um allt annað að ræða.

Þrátt fyrir það að skáldið víkur af vegi hins hefðbundna í bundnu máli að skrykkjóttum stíg ringulreiðar er ljóðið ekki framúrstefnulegt né markviss upplausn forma sem er beint gegn sígildum hefðum í íslenskri ljóðagerð. Leið skáldsins og hugarfarið að baki ljóðsins er fyrir bragðið ekki eitthvað auðskilið.

Titilinn, málminn í standmynd Jóns Sigurðssonar forseta sem átti að hafa verið í lífi sínu jafn traustur og eir, notar skáldið sem mótsögn í laust tengdu flæði háðs og alvöru. Svo þegar titlinum sleppir og ljóðið tekur við verður lesandinn vitni að látlausri uppbyggingu og niðurbroti goðsögu um forseta og skáld. Í textanum er engan eir að finna, hvorki í notkun máls né hugmynda. Eirinn er fyrir utan ljóðið, í hinum opinberu skoðunum um hinn staðfasta forseta, en í ljóðinu er hann auðsæilega getulaus sem leiðtogi. Enginn í samtímanum tekur mark á honum og lærdómi hans, hugvekjunum, en skáldið leitar engu að síður til hans, ekki sem andleg hliðstæða eða leiðtogi í nýrri tegund af ljóðlist, heldur aumur maður fullur af sjálfsvorkunnsemi. Að þessu leyti ætti lifandi skáldið að vera andstæða dauðu eirstyttunnar, en hvort um sig er statt í álíka miklum andlegum þrotum á torgi andspænis þinghúsi sem ætti minnsta kosti að varðveita anda forsetans. Annað kemur í ljós.

Leiðtoginn og skáldið, Jón Sigurðsson og Steinn Steinarr, eiga hvergi samleið nema í getuleysi sínu.

Þrátt fyrir samlíkingu leiðtoga og skálds í þessum efnum lítur út fyrir að skáldið beri ekkert skynbragð á styttuna sem slíka, stíl hennar og gerð, þá listrænu og táknrænu stuðlasetningu sem hún byggist á. Undir fótum leiðtogans er traustur heimur þjóðsagna. Myndhöggvarinn mótar þannig heild og samræmi í þrívíðan eir, andstætt því sem skáldið gerir. Kannski hefur ætlun Steins verið annað en það að yrkja hliðstæðu með stuðlasetningu. Í ljóðinu örlar hvergi á löngun til að reisa með orðum eigin minnisvarða nema hann eigi að vera margbrotið og niðurbrotið fremur ófagurt minnismerki.

Ef marka má textann er Steinn fráleitt skáld fagurra lista, hæfileikunum í þá átt hefur verið stolið frá honum og fegursta ljóðið hans ort af öðrum, svo „aldrei framar mun dagurinn koma til mín.“ Þrátt fyrir ránið og valdasviptinguna horfa skáldið og styttan eins og varðmenn í siðfræði hneykslunar á dularfulla húsið, Alþingi, sem „stendur andspænis oss og enginn veit lengur til hvers“ það forðum var reist.

Þrátt fyrir siðgæðið og ádeilu á störfin í dularfulla húsinu virðist skáldið ekki vera sérlega staðfast í trúnni á eigin dyggðir en það viðurkennir fúslega veikleika sinn og segir:

Ég hef legið á gægjum við ljóra hins nýríka manns, og látið mig dreyma hið fánýta veraldarprjál.

Í siðfræði og hegðun skáldsins virðist hvorki vera heil brú né samræmi, hneigð þess er þrá eftir veraldarprjáli sem vekur í brjóstinu mótsagnakennda sjálfsfyrirlitningu, löngun til að líkjast þeim nýríku sem vekur andúð um leið. Ekkert er gert af heilum hug heldur hálfum. Og kannski stafar mótsagnalífið af því að andófsmaðurinn fékk aldrei tækifæri til að komast inn fyrir ljórann og hlaða á sig því veraldarprjáli sem það veit að er „fánýtt“.

Þessi kotlega, íslenska hneigð skáldsins og skorturinn hjá því á eindregnu lífsviðhorfi, staðfestu og sjálfsvirðingu, svo ekki sé minnst á fagurfræðilega siðfræði í listum, var ekki það sem vakti helst athygli mína þegar ég las ljóðið ungur maður, heldur ljóðlínurnar þegar skáldið segir:

En nafnlausir menn eins og nýkeypt afláttarhross, standa náttlangt á verði svo það geti sjálfu sér treyst.

Þetta getur vísað hvort tveggja til hrossanna í húsinu og hússins sjálfs. Táknrænt séð eru hrossin í hesthúsinu til þess eins að skapa sér völd og veraldarprjál. Að sjálfsögðu átti Steinn hér við þingmennina, enda leikur enginn vafi á því að „dularfulla húsið“ er Alþingi; styttan stendur fyrir framan það.

Hið kynlega var að mínum skilningi það, að af hálfu skáldsins fólst í orðunum: „… standa náttlangt á verði svo það geti sjálfu sér treyst“ fyrirlitning á þeirri varúð sem er kannski dyggð, að vera í hvívetna á varðbergi gagnvart manni sjálfum þannig að hægt verði í lokin að treysta eigin orðum og gerðum. Hugmynd skáldsins var í ljóðinu andstæð öllu sem venjulegu fólki, almenningi, hafði verið kennt meðan íslenskar siðferðishefðir ríktu, að maður ætti aldrei að treysta algerlega sjálfum sér. Þess vegna var skynsamlegast að „standa ekki bara náttlangt heldur ævinlega á verði gegn eigin breyskleika, t.d. þeirri löngun að liggja á gægjum við ljóra hins nýríka manns og láta sig dreyma fánýtt veraldarprjál.

Ef það var rétt sem skáldið sagði um þingmenn og húsið, að staðið væri þar á varðbergi, þá var það, í ljósi þjóðlegs lærdóms um siðferði, þingheimi fremur til hróss en hnjóðs að standa „náttlangt á verði. Varlegast hefði verið á viðsjárverðum tímum að standa á verði allan sólarhringinn. Næturvakan virðist samt ekki hafa borið bjartan árangur, ef marka má það sem í ljóðinu stendur: „… nóttin leggst yfir hið sorgmædda sjálfstæði. Við að sjá hvað sjálfstæðið er sorgmætt fyllist skáldið líka af sorg og ávarpar styttuna í lokin eins og jafningja og segir „báðir tveir á dönsku skotinni íslensku:

Jón Sigurðsson, forseti, standmynd, sem steypt er í eir, hér stöndum við saman, í myrkrinu, báðir tveir.

Skáldskaparfræðilega séð er ljóðið Eir skylt samræmdri sjálfsfyrirlitningu og fyrirlitningu á samtímanum og þannig sver það sig í ætt við öfugmælavísu eða vissa tegund af ljóðlist sem hafði þegar rutt sér til rúms í erlendum skáldskap, að búa til sérstakan heim orða með því að láta eitt rekast á annað, stundum með fáránlegum hætti. Hér var á ferðinni sú list (kannski brella) að fleyga ljóðlínuna, skjóta einhverju ólíku inn í hana, að leyfa orðum og hugmyndum að leika lausum hala jafnvel innan sterkrar byggingar. Með þessu móti héldu útlínurnar, myndstíllinn, ljóðinu saman, ekki ljóðlínurnar. Ljóðið varð til með sínum „meðfæddu eiginleikum, orðunum einum sér, tvístruðum, og beinum eða bylgjandi setningum; þannig var dregin upp fremur auðsæileg en tætingsleg mynd af hinum tætingslega samtíma.

Engin leið er að vita hvort Steinn Steinarr hefur haft slíkt skáldskaparmál í huga eða hvort honum brást bogalistin með ljóðinu, að móta íslenska aðferð við að tvístra ljóðinu og opna yrkingarmátanum leið til nýs frjálsræðis. Þannig átti ný upprisa ljóðsins að vera í sínum hreina anda, enda talið að skrautlaust, laust við prjál, sé það ómengað, einmitt þegar það klæðist hvorki flíkum ríms, stuðla né höfuðstafa.

Hver sem ætlun skáldsins kann að hafa verið, þá litu fáir samtímamenn á ljóðið Eir sem margslunginn loðinn skáldskap heldur sem „hreina ádeilu. Það gerðu ekki aðeins vinstri sinnaðir menn; enginn hefði tekið í mál að líta á Eir sem sjálfstætt ljóðmál eða óræðni.

Guðbergur Bergsson

Guðbergur Bergsson (F. 16. október 1932) er íslenskur rithöfundur og þýðandi úr spænsku. Skáldsagan, Tómas Jónsson, metsölubók, sem kom út árið 1966, vakti athygli sem tímamótaverk og er oft talin fyrsta móderníska skáldsagan á íslensku. Eftir hann liggur fjöldi skáldsagna, ævisagna- og endurminningabóka, ljóða, þýðinga og barnabóka og hann er óumdeilt einhver áhrifamesti höfundur okkar á síðari hluta 20. aldar — og raunar fram á þennan dag. Guðbergur hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir ritstörf sín, m.a. bókmenntaverðlaun dagblaðanna 1967, bókmenntaverðlaun DV 1983, Orðu Spánarkonungs (Riddarakross afreksorðunnar), Íslensku bókmenntaverðlaunin 1992 og 1998 og tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna 1993 og 1997 og Norrænu bókmenntaverðlaun Sænsku akademíunnar árið 2004. Árið 2006 var Guðbergur tilnefndur til hinna virtu ítölsku Noninu-verðlauna fyrir skáldsögu sína Svanurinn.