Mitt blóð er þungt og mótt

eftir Sigurbjörgu Þrastardóttur. Birtist í Aldarminning Steins Steinarr — Lesbók Morgunblaðsins 2008

Það er eitt ljóð eftir Stein Steinarr sem ég hef alltaf haldið sérstaklega upp á. Einhverra hluta vegna. Titillinn er Blóð. Ég veit ekki hvers vegna það situr í mér, kannski vegna þess að við þetta ljóð samdi Anna Halldórsdóttir á tíunda áratugnum laglínu sem hitti mig þannig að ég man hana alltaf. Hún er erfið til söngs, en ég man hana.

Og blóð þitt streymir blint og þungt og mótt …

Rosa draugalegt, það hæfir í raun vel efni ljóðsins að laglínan skuli ásækja mann eins og svipur. Ég er mikið með blóð á heilanum, Steinn var það líka. Hann sagði oft að það væri þungt, það væri í því eitthvert megin, fallandi, til dæmis í Kvöldhringingu, fyrsta erindi:

Blóð, blóð.
Heitt og þungt um allt og alla,
yzta múr og goðsins stalla
rennur blóð, rennur blóð.

Og seinna, í sama ljóði: Ekkert svar, vor andvörp týndust / inn í hofsins gljáðu þil / eins og vofur. Og á morgun / erum vér ei lengur til. (Úr Kvöldhringingu, Ljóð, 1937.)

Þetta þema er víða og oft í ljóðum Steins, fyrst hélt ég að það væri á vissu tímabili á ferlinum, en svo virðist þetta ganga aftur og aftur. Þessi þurra, endasleppa, þunga og blátt áfram staðreynd að þegar lífinu lýkur kemur dauðinn. Stundum eftir þjáningarfullt líf, stundum eftir stöku hlátur. En svo skyndilega ekkert.

Einu sinni var maður
í ókunnu landi.

Handfylli af sandi.

Og síðan ekkert.

(Úr Börn að leik, Ferð án fyrirheits, 1942.)

Sandurinn er oft þarna líka, eitthvað rennur út í sandinn, lífið rennur út í sandinn, blóðið streymir „á dreif í sandinn“, eins og í aðalljóðinu sem ég ætlaði að fara að fjalla um, Blóð, en líka í þessu hérna, Dimmum hlátri (Ljóð):

Ég vil sjá blóð þitt renna
út í gljúpan sandinn.
Ég vil horfa á þig þjást og kveljast
frá eilífð til eilífðar
undir oki lífsins.

Það er nefnilega það. Náttúrlega ekki sanngjarnt, samt, að slíta svona línur úr samhengi; ef ljóðin eru lesin í heild kemur kannski í ljós að ljóðmælandi er ekki alltaf sá sami, ekki endilega Steinn sjálfur — en svo ítrekað koma samt þessi minni fyrir, að hann hlýtur að skoðast ábyrgur fyrir þeim og yfirleitt sammála:

Ég skal sýna þér hafið,
hið auða, veglausa haf,
þar sem brimhvítar öldurnar
bylta sér þungar og móðar
yfir botnlausu djúpinu.

Þannig hefst Dimmur hlátur, það er helst tvennt sem er þungt og mótt: hafið, blóðið. Tökum þrjár línur úr Formi: Ég sit og bíð. Mitt blóð er þungt og mótt. / Og allir hlutir eiga markað form, / annarlegt form, sem engan tilgang hefur.

Og svo er endurtekið strax: Ég sit og bíð. Mitt blóð er þungt og mótt.

Þannig sækir það á, þetta alheimsþekkta og eilífa exístensíalíska þema um þyngslin og tilgangsleysið. Kannski er eftirfarandi viðlag Steins úr Dimmum hlátri eins konar viðlag vestrænnar hugsunar síðustu aldar:

Hæ! Ég er maðurinn,
hinn eilífi maður
án takmarks og tilgangs.

Lesendur gætu auðvitað orðið nett niðurdregnir við að lesa slíkt trekk í trekk, en gera það samt. Sumir sjá upprisu í eilífðarhugtakinu, aðrir sjá þar áþján. Svo fara enn aðrir að heyra blóðið í sér renna, þeir hugsa um dauðleg innyflin sín, kannski íhuga þeir í sér beinin, eins og maðurinn í ljóði Skotans Ivors Cutlers sem veit að allt fólk sem hann hittir „er fullt af beinum“. (Úr Það er að hefjast gleðskapur, í þýðingu Óskars Árna Óskarssonar, 2007.) Þessi veslings maður sér ekkert nema bein, það er auðvitað ekkert hægt að halda uppi samræðum við bein en hann gerir það nú samt því hann lærði það ungur. Lesendur gætu sem best sett sig í spor þessa manns, farið í dapurlegt teborð, sest við píanó, spilað dáldinn djass með píanóbeinunum sínum og reynt að deila niðurstöðu höfundarins: „Þetta er kallað að vera á lífi og getur verið frábær skemmtun.“

Dæmi eru annars endalaus, auðvitað, Steinn skrifast á við þúsund ára tilvistarspurningar og hann gerir það ýmist með beinum símskeytum (Hæ! / Þú skalt deyja.) eða með þessu seigfljótandi, þunga og freyðandi myndmáli: Hafið, ströndin, blóðið, dauðinn.

Reyni maður að mála mynd, verður hún svona:

Og ég sit bak við vegginn
og hlæ,
meðan blóð þitt rennur
dimmt og ólgandi
út í myrkur hins óþekkta.

(Akvarell, Ljóð.)

Og reyni maður að yrkja ljóð verður það svona:

Það bjargast ekki neitt,
það ferst, það ferst.
Það fellur um sig sjálft og er ei lengur.
Svo marklaust er þitt líf og lítill fengur,
og loks er eins og ekkert hafi gerzt.

(Ljóð, Spor í sandi, 1940.)

Þessi aðferð, að tala um blóð sem rennur „út í myrkur hins óþekkta“ eða streymir „á dreif í sandinn“, er sérlega áhrifarík því blóðstreymi er forsenda lífs. En því aðeins það renni um æðarnar, innan kerfisins. Um leið og blóð er tekið að streyma í svörð eða út í buskann er dauðinn við dyrnar. Hvergi er bundið um sár hér, það er eins og fólkinu blæði út en í sömu svipan tengist það alheiminum og umheiminum eilífum böndum. Hér er á ferð óendanleiki endanleikans. En fari feigðarskrjáfið í sandinum að læðast of nálægt lesandanum, sífellt lúmskara, háværara, hjálpa orð Kristjáns Karlssonar honum að sleppa lifandi: „Fáir menn horfast jafn-staðfastlega og sjálfsblekkingarlaust í augu við neikvæð tákn lífsins, án þess að leggja árar í bát og sætta sig við uppgjöf sína. Jákvæði Steins við lífinu er fólgið í þrotlausri baráttu við það ofurefli, sem hann kýs sér til andstöðu, og óbilandi ástríðu til að brjóta þann órjúfanlega hring einangrunar, sem er skilningur hans á harmleik mannlegs lífs. Í krafti þeirrar ástríðu er Steinn mikið skáld og mikill maður.“ (Kvæðasafn og greinar / Steinn Steinarr, 1964.)

Ég veit ekki hvers vegna ævintýrasöngkonan Anna valdi Blóð til að tónsetja. Það er eins og mig minni að hún segðist bara hafa fundið það á sér, um leið og hún las ljóðið. Eins og lagið hefði streymt í blóði hennar sjálfrar. Já, ég er næstum viss um að það var þannig, sem minnir á svar annarrar ævintýrasöngkonu þegar hún var spurð hvers vegna bandaríska ljóðskáldið E.E. Cummings ætti texta á plötunni Medulla. Björk játaði að hún gæti ekki útskýrt það, hún læsi „ekkert svo mikið af ljóðskáldum og mjög sjaldgæft að ég hugsi strax: Þetta myndi ég vilja syngja!“

Þannig orka sumir textar, þeir hafa leynilega dýpt sem hægt er að láta hljóma. Sonnettan sem togaði Björk til sín var ástarljóð, það fjallaði ekki um dauðann en samt um missi („it may not always be so; and i say / that if your lips, which i have loved, should touch another’s“ … o.s.frv.), þar er áréttað að maður skyldi njóta hverrar stundar og muna, þótt allt hverfi frá manni, þótt allt breytist.

Sumum kynni að finnast þetta viðhorf vanta í Stein, lífsneistann í hverri stund óháð dauðanum („Í krafti þess, sem kemur eða fer, þú kallar ekki fram þín tár né ama. Það snart þig ei og enginn mark þess sér, / því innstu vitund þinni stóð á sama,“ segir t.d. í Lát huggast, barn), kannski hefði Cummings getað tekið hann í kennslustund með litlu sonnettunni sem hverfist um atviksorð og hefst þannig: „now all the fingers of this tree (darling) have / hands …“ Framvindan er þannig að ég er núna og þú ert núna og við saman erum fordæmislaus ráðgáta og fáheyrt kraftaverk en þetta nú okkar er dæmt til að verða þá og þáið er myrkur þar sem allir fingur eru handarlausir, þar sem ég hef þig ekki lengur og trén eru ber og það er eilíf snjókoma, en óttastu ekki, blómstrið mitt, því þangað til er líka til.

Sérsvið mitt er að lifa, segir nefnilega maður nokkur í ljóði eftir Cummings og dauðinn er ekki sem verstur sjálfur: „Segjum að Lífið sé gamall maður með blóm á hvirflinum, Dauðinn er ungur og situr á kaffihúsi, brosandi … Maður veit ekki strax hvort þetta er sami dauði og kom til Steins og sagði: „Ég gef þér huliðshjúp …“, sennilega ekki, ungi dauðinn í Ameríku er með klink og íhugar að kaupa blóm, meðan Steinn lokar sínu ljóði, endanlega að vanda: „Mín ást var dimm og djúp. Dauðinn sat hjá mér og þagði“ (úr Mín ást var dimm og djúp).

Þannig mætti áfram halda, án þess að það sé endilega nauðsynlegt að bera þessa tvo saman, Stein og Cummings, hitt er staðreynd að þeir birtu þessi ljóð sín á svipuðum tíma og blossum þeirra slær víðar saman en mann grunar.

Í öllu falli: það getur verið gaman að draga í sprautur sínar myndmál sem er síendurtekið. Tilgangsþurrð lífsins er dapurleg, hún er jafnvel enn sorglegri þegar inn í textana þvælast hlæjandi börn að leik við ströndina eins og hjá Steini — en það er eitthvað fallegt við þetta líka, eitthvað sem sogar mann að og frá, eitthvað sem streymir og áminnir og hér er loksins þetta ljóð, Blóð, fyrsta ljóðið í bókinni Spor í sandi, bókartitillinn segir allt sem þarf, ég skora á ykkur að hlusta á Önnu flytja sitt sérstaka Blóð, ég lofa að það mun sitja í ykkur, alltaf:

Og blóð þitt streymir blint og þungt og mótt
á bak við starf þitt, draum þinn, hugsun þína
í dularfullri þögn. Og það er nótt,
sem þúsund aldir grófu í dögun sína.

Og veglaus fyrndin vakir dul og hljóð,
og veit þín örlög römm og galdri blandin.
Sem eins og hvers þitt unga og heita blóð
til einskis skal það streyma á dreif í sandinn.

Sigurbjörg Þrastardóttir

Sigurbjörg Þrastardóttir er fædd 27. ágúst 1973 á Akranesi. Fyrsta ljóðabók Sigurbjargar, Blálogaland, kom út árið 1999. Ári síðar kom út ljóðabókin Hnattflug sem hlaut góðan meðbyr og var til að mynda valin besta ljóðabók vertíðarinnar af starfsfólki bókaverslana. Ljóð úr þriðju bókinni, Túlípanafallhlífum, hafa verið þýdd á ýmis tungumál og birt í safnbókum, tímaritum og á bókmenntavefjum. Sigurbjörg hefur komið fram á ljóðahátíðum í Evrópu og fjallað hefur verið um ljóðagerð hennar í króatísku, hollensku og frönsku bókmenntapressunni svo nokkuð sé nefnt. Í Svíþjóð var gefið út ljóðaúrvalið Fallskärmsresor. Af leikverkum má nefna Þrjár Maríur (2004 á Litla sviði Borgarleikhússins), uppistandið Maður og kona: Egglos (Leikfélag Akureyrar, 2003) og leikgerð Gunnlaðar sögu eftir Svövu Jakobsdóttur (í Hafnarfjarðarleikhúsinu 2005). Skáldsagan Sólar saga kom út haustið 2002 og fjallar um unga stúlku sem gengur í gegnum erfiða lífsreynslu á Ítalíu en finnur öryggið aftur á sérstæðan hátt. Fyrir handrit bókarinnar hlaut Sigurbjörg Bókmenntaverðlaun Reykjavíkurborgar sem kennd eru við Tómas Guðmundsson árið 2002.