Ármann Jakobsson

Ármann Jakobsson er prófessor í íslenskum bókmenntum fyrri alda og rithöfundur. Hann lauk doktorsprófi frá HÍ 2003. Frá því í júlí 2011 hefur hann gegnt stöðu prófessors við íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Ármann hefur sent frá sér fjölmargar skáldsögur; Vonarstræti, 2008. Fréttir frá mínu landi: Óspakmæli og örsögur, 2008. Glæsir, 2011. Síðasti galdrameistarinn, 2014. Brotamynd, 2017. Útlagamorðin, 2018.

Ljóðið Jól er valið fyrir hönd sjálfs mín þegar ég var 19 ára og tiltölulega nýbúinn að uppgötva alvarlegar bókmenntir og gat auðveldlega orðið bergnuminn af ádeilu ljóðsins og ekki síst þessum viðsnúningi frá fyrsta erindi til hins seinasta. Mig minnir (frekar vandræðalega) að ég hafi lært ljóðið utanbókar og farið með það fyrir jafnaldra í sjoppu í Gnoðarvogi að kvöldlagi. Fimm árum fyrr var ég hrifnari af Húsameistara ríkisins og enn fyrr af Mannkynssögu fyrir byrjendur og síðar hafa önnur ljóð hrifið mig. Steinn Steinarr átti ansi mikla fjölbreytni til en um leið hélt hann sig við að yrkja á tiltölulega einföldu máli og þannig gat hann snert fólk meira en mörg önnur ljóðskáld 20. aldar. Alla æsku mína var hann því það skáld sem fólki á mínum aldri líkaði einna best, ekki af því að því væri skipað það heldur af því að hann höfðaði til okkar milliliðalaust.

Jól

Sjá, ennþá rís stjarnan, sem brennur björtust og mildust
á bládjúpum miðsvetrarhimni hins snæþakta lands.
Sjá, ennþá nálgast sú hátíð, sem hjartanu er skyldust
og huggar með fagnaðarsöngvum hvert angur manns.

Og innan skamms byrjar kappát í koti og höllu,
og klukknahringing og messur og bænagjörð.
Það er kannski heimskast og andstyggilegast af öllu,
sem upp var fundið á þessari voluðu jörð.

Og ger þú nú snjallræði nokkurt, svo fólkið finni
í fordæmi þínu hygginn og slóttugan mann:
Með kurteisum svip skaltu kveikja í stofunni þinni,
og kauptu svo sóknarprestinn og éttu hann.