… svo sérstök sköpun sem Adam

eftir Inga Boga Bogason. Birtist áður í Aldarminning Steins Steinarr — Lesbók Morgunblaðsins 2008

Jón Kristófer kadett var hermaður breska heimsveldisins og hermaður Guðs. Jónas Árnason skrifaði ævisögu hans, Syndin er lævís og lipur, sem kom út árið 1962. Steinn Steinarr orti ógleymanlegt kvæði um Jón Kristófer og þakkaði sá síðarnefndi fyrir sig með öðru kvæði sem birt er hér á síðunni. Ég heimsótti Jón Kristófer í ársbyrjun 1988 á vistheimilinu í Víðinesi á Kjalarnesi og ræddi við hann um kynni hans af Steini. Ég hreinskrifaði viðtalið í framhaldinu og sýndi kadettinum það nokkrum dögum síðar. Hann gerði óverulegar breytingar en allar til batnaðar. Viðtalið, sem hefur legið innan um gamalt efni, birtist hér í fyrsta sinn.

Jón Kristófer Sigurðsson átti lengi í stríði, bæði í Hjálpræðishernum og breska hernum, en lengst af hefur hann háð sínar orrustur á ójarðneskum vígvelli og andstæðingurinn hlutgerst í brennivíninu. Innkominn um dyrnar spyr ég strax um Jón Kristófer Sigurðsson og allt eldhúsið verður ein augu og stór þögn hangir yfir þar til ein vinnustúlkan segir:

„Já, þú meinar Jón kadett.“ Einhver byrjar að hafa yfir kvæðið fræga en stúlkan vísar mér inn í matsal.

Hann heilsar mér eins og gömlum vini, tekur þéttingsfast um upphandlegginn á mér og leiðir mig að hlöðnu borði.

Þessi litli að vestan

„Við Steinn kynntumst árið 1932. Tildrögin voru sérkennileg. Ég var þá í Hjálpræðishernum og gekk um í fullum skrúða. Það var einn daginn að ég kem úr sjoppu í Aðalstræti. Þegar ég kem út aftur gengur maður þvert í veg fyrir mig og kynnir sig, segist heita Aðalsteinn Kristmundsson. Við vorum gagnókunnugir og mér er það enn ráðgáta hvers vegna maðurinn gekk að mér þarna þennan dag. Ég var að vísu fasmikill og auðkenndur í einkennisbúningnum. Sennilega hefur það ráðið úrslitum að hann vissi að ég var Hólmari. Nema hvað. Eftir þetta sleit ekki okkar fundum. Við sátum saman á hverjum morgni á Skálanum í mörg ár.

Steinn er bara umkomulaus ungur maður í Reykjavík. Hann kemur ómengaður strákur úr sveit í Aðalstræti. Þegar fyrsta kvæðið eftir hann birtist í blöðum hér fyrir sunnan spurðu menn hvaða skáld þetta væri og svöruðu sjálfum sér: „Það er þessi litli að vestan.“

Hann var enginn þjóðardýrlingur í þá daga og m.a.s. þótti mönnum ekki mikið til hans koma. En Steinn hafði alltaf mikinn persónuleika þótt hann væri fyrirferðarlítill á öllum vettvangi: lágvaxinn, lágróma, stilltur og prúður. Hann var fallegur ásýndum — ég á við andlitið.“

Ég virði fyrir mér þennan mann sem hefur siglt um heimshöfin sjö og háð sitt stríð á mörgum ólíkum vígstöðvum — og stundum á þeim öllum í einu. Hann hefur mikið þykkt hár sem lítið er farið að grána. En andlitið er markað rúnum mikilla átaka og röddin er hrjúf. Ég hrekk upp úr þessum þönkum og Jón Kristófer segir af miklum þunga:

„Sko. Það var eitthvað við hann — þetta er eitthvað sem ekki er hægt að segja frá. Ég veit ekki til þess að neinn annar hafi haft það á orði hvað Steinn var fallegur. Það var ekki fyrir það að hann væri mikill að vallarsýn né heldur að hann bærist á. Persónuleikinn var svo sterkur, rór og viss um sig — að hann gaf bara fjandann í flest.

Hann er svo margbrotinn. T.d. er ég viss um að hann er religiös allan tímann hér fyrir sunnan. Samt skipta trúmál hann engu máli á þessum tíma. Steinn gerði sér ekki mikið far um að halda fram sínum skoðunum en hann lét það uppi þegar hann var ósammála og þá var það oftast í hálfkæringi og hirðuleysi. En ekki um trúmál.

Það hef ég virt honum til vegs að hann fann að ég var ekki trúmaður af tilbúningi heldur maður sem verður að vera trúmaður og er ekkert annað. Steinn átti aldrei neitt við þessi sjónarmið mín.

Steinn var í engu tilliti snobb nema ef hann snobbaði fyrir því að vera talinn aþeisti. Því það er alveg víst að trúarkjarninn er fólginn í vitund hans. Það má hafa það eftir mér og ef einhver vill andmæla því þá bara komi hann!

Vopnaður í Unuhús

Svo fer ég á sjóinn og sigli til útlanda. Ég kem ekki heim fyrr en 17. janúar 1941, þá breskur hermaður. Frá þessum degi segi ég allnokkuð í bókinni minni.

Ég marseraði fyrr um daginn með hernum upp í kamp á Grímsstaðaholti, Olympia Camp. Þar átti ég að vera. En auðvitað fékk ég sem Íslendingur og Reykvíkingur frí til að fara heim til mín og heilsa upp á mitt fólk.

Þannig var að ég kem gangandi í úniformi bresks hermanns með riffilinn um öxl því ég mátti ekki fara riffillaus. Ég geng Suðurgötuna og inn á Kirkjustræti og ætla að fara yfir Austurvöll og fram hjá Símstöðinni. Þar uppi á lofti var útvarpsstöðin.

Þarna mæti ég þá engum öðrum en Steini. Hann er að koma úr útvarpinu eftir að hafa lesið ljóð úr nýjustu ljóðabók sinni sem þá var nýkomin út, Spor í sandi. Ef til vill hefur hann lesið eftirmælin um mig ? ég veit það ekki. Við fögnum hvor öðrum og Steinn segir:

„Eigum við ekki að arka upp í Unuhús?“

Ég var eiginlega á annarri leið en af því að Steinn var fylginn sér og mér einkar kær þá lét ég undan. Eftir japl, jaml og fuður verður það úr að við förum upp í Unuhús.

Erlendur tók okkur vel, ekki með neinni fyrirferð eða hávaða, sagði bara: „Gerið þið svo vel“ og lét mig finna að hérna var maður sjálfsagður og velkominn — meira að segja með riffil um öxl.

Þetta kvöld voru engir gestir í Unuhúsi nema Laxness og Hildur, systir Bergs Pálssonar, og Þórbergur Þórðarson.

Um leið og Þórbergur sér mig þá byrjar náttúrlega stórskotahríðin. Sko — ég er hvorki friðhelgur meðal engla né djöfla, eða nokkurs staðar viðeigandi. Og menn verða að afsaka þó ég segi það: En ég var sýnu betur máli farinn en Þórbergur. Þarna þrefuðum við dágóða stund um trúmál og pólitík en mér tókst á endanum að snúa hann af mér.

Það lagði ekki nokkur maður orð í belg meðan við vorum að tala saman. Laxness og Steinn þögðu.

Mér er alveg ljóst að Þórbergur hefur farið með faðirvorið á hverju kvöldi. Hann verður samt aldrei neitt stórmenni í mínum augum. Mér fannst hann ósegjanlega skemmtilega skrýtinn og afbragðs stílisti en fjarskalega hrágáfaður og fjarri því að líkjast t.d. Halldóri Laxness. Laxness er svo mikill séntilmaður.

Ég skal segja þér eitt: Ég er búinn að gera Halldór Laxness að séntilmanni númer eitt í fimm heimsálfum — því eins og þú kannski veist þá er ég dálítið víðförull. Ég hef hitt menn úr ótrúlegustu stéttum, allt upp í royal fólk og komið að máli við það. En ég hef aldrei rekist á jafn hreinan og eðlisbundinn séntilmann og Laxness. Þó við vitum að hann kann að koma fyrir sig orði á ýmsa vegu þá er það sitt af hverju tagi. Það er hans list og hans handverk. En sjálfur maðurinn er svo fullkominn séntilmaður.

Þrefað á Skálanum

Við Steinn þrefuðum um hégóma, t.d. um pólitík. Steinn hafði siðferðisog mannúðarkvarða sem hét kommúnismi hjá honum en kristindómur hjá mér. Þarna er mjótt á milli ef að mannvirðing — ég tala nú ekki um mannkærleikur — er fyrir hendi. Þá er sama hvort þú kallar mann kommúnista eða kristinn. Þetta er sama bergið.

Við Steinn hittumst oft á Hressingarskálanum fyrir stríð. Það vill nú svo til að ég kom inn á Skálann í gær og endurlifði gamla tíma. Við vorum sérstök klíka og áttum ákveðið borð. Þú kemur inn um dyrnar, beygir til vinstri og ferð inn í horn við gluggann. Þar var okkar borð og bekkur með öllum veggnum.

Nú er Skálinn óþekkjanlegur, að vísu miklu fallegri en þá, en það vantar samt í hann gömlu stemmninguna.

En þarna í gær sé ég hvar Gunnar Dal gengur inn og beint inn á gafl. Ég heilsaði upp á hann. Þarna sat þá föst klíka í dúr við það áður var. Ég þekkti þá alla.

Í gamla daga var meira bóhemasamfélag í Reykjavík en núna. Á hverjum morgni við sama borðið á Skálanum vorum við Steinn, Karl Ísfeld, Ólafur Friðriksson, Leifur Haraldsson, Dósóþeus og fleiri karlar — og Tómas Guðmundsson endrum og eins.

Steinn kom ævinlega seint á morgnana, svona undir klukkan tíu. Ég kom líka aldrei fyrr en eftir tíu því fram að því hafði ég vissum störfum að sinna hjá Hjálpræðishernum: bænagjörðum, hugleiðingum og slíku. Og þarna sat ég á Skálanum í fullu úníformi í þessum sundurleita hóp.

Þegar ég var að strjúka úr breska hernum var ég líka mikið hjá Steini á morgnana. Ég kom til hans þegar hann bjó á Óðinsgötunni. Ég var mikið hjá honum fyrir fótaferð og löngu eftir háttatíma. Þarna fór ég mikið huldu höfði um skeið.

Ljóð Steins engu lík

Auðvitað vorum við alltaf að tala, um ljóð og listir af öllu tagi. Steinn var ómyrkur í máli um samtíðina og ekki síst um kollegana. Það má alveg koma fram. Hann var alveg opinskár.

Það var miklu meira en kunningsskapur á milli okkar Steins. Það var einhver inspíreruð spámannleg aðdáun sem ég hafði á honum frá öndverðu. Svo var þetta nú einstaklega geðugur maður og feikilega skemmtilegur — og mikið breiðfirskur.

En þó ég telji að vinátta okkar hafi rist djúpt þá ræddi hann ekki sín mál nokkurn skapaðan hlut. Þegar fóru að birtast eftir Stein ljóð sem voru flest gallalaus, voru perlur, þá furðaði ég mig á því hvernig þau urðu til. Ég spurði mig: „Hvenær kemst hann til þess að gera þetta?“ Ljóðin hans minna eiginlega ekki nokkurn skapaðan hlut á daglegt líf hans á þessum tíma.

Það er svo skrítið með samsetningu mannskepnunnar. Það er stundum eins og það séu tvær tegundir í sama búk. Maður skilur ekki hvernig Steinn komst til þess að afkasta þessu því ljóðin hans eru ekkert flaustursverk. Þetta er ekki allt eintóm inspírasjón. Ljóðin hans eru svo vel unnin. Hvenær og hvernig hefur hann unnið þetta? Hann er alveg furðulegur.

Njálssögulegir kærleikar

Það tókust með okkur Steini eins konar Njálssögulegir kærleikar. Við þurftum hvor annars návist. Hann gerði sér alveg eins títt um mig og ég um hann. Hann fór sínar eigin leiðir og hann er þannig frábrugðinn mér að undireins og hann birtist þá var kominn um hann hringur. Hann hafði með einhverjum sérstökum dularfullum hætti svo sterk áhrif á menn.

Það er eitt dálítið merkilegt í samskiptum okkar. Við drukkum mikið saman, samt sá ég hann aldrei drukkinn. Ég undrast það hvað hann hélt velli andlega við drykkju einmitt fyrir þá sök hvað hann var lágur vexti. Ég varð aldrei var við að hann drægi sig í hlé meðan vín var fyrir hendi. Hins vegar hygg ég að hann hafi aldrei orðið eins ánauðugur áfengismaður og ég.

Hann á engan sinn líka. Ég hef farið víða um lönd og hef kynnst mörgum listamönnum samtíðarinnar hér á landi. Steinn er engum líkur, ekki í neinu. Hann er svo sérstök sköpun sem Adam. En þú getur talað við fimmtíu manns sem þekktu hann jafnvel og ég og þú færð allt önnur viðhorf.“

Ingi Bogi Bogason

Ingi Bogi skrifaði meistararitgerð sína í íslenskum bókmenntum um lífssýn í ljóðum Steins. Um árabil var hann bókmenntagagnrýnandi hjá Þjóðviljanum, Morgunblaðinu og fleiri blöðum. Hann hefur kennt og sinnt stjórnunarstörfum í háskóla og framhaldsskóla og starfar nú sem sérfræðingur í mennta- og menningarmálaráðuneytinu.

Dialogue

Þín leit er orðin löng og spor þín mörg,
og lúinn ertu og sár á geði og hjarta,
því fyrir engum, engum kanntu að kvarta,
er kæri sig um þína nauð og björg.

Og þér er ljóst, að einn þú leitar, einn,
og enginn metur takmark þitt sem skyldi.
Þú, aðeins þú, sérð eðli þess og gildi
og óttast bara, að verða helzt til seinn.

En ég er sá, er veit, að von þín má
í veruleikans heimi aldrei rætast,
né hjarta þitt og augu af því kætast,
sem allt þitt stríð er miðað við að ná.

Þín leit er gagnslaus! — Blekking þín er ber
og birtist jafnvel þér, á hinzta degi:
Að marki þínu velurðu alla vegi,
sem vita brott frá sjálfum þér.

Jón Kristófer
(Helgafell, maí 1945)