Brot úr óprentuðum samtölum við Stein

eftir Matthías Johannessen. Birtist í Nýju Helgafelli, 3. árg. 1958

Þú hefur komizt yfir skaflinn, sagði Steinn Steinarr um leið og hann bauð mér inn. Ég kinkaði kolli og leit snöggt til baka: Þarna lá hann í túninu, eins og særður dreki og var ekki á því að yfirgefa hús skáldsins, að minnsta kosti ekki fyrst um sinn. Þegar ég hugsaði um skaflinn og veturinn, kom í mig einhver óhugur. Það var eins og ég væri heltekinn af einhverjum óljósum ótta; veturinn og myrkrið, og sólin gengin til viðar, en við sitjandi í lítilli stofu, hlustandi á skáldið í þögninni. Það var aftur hlýtt og notalegt, og Halldór Þorbjörnsson fulltrúi sakadómara tekur upp koníakspela. Þeir skála. Ásthildur kemur inn með kaffi: Hefur nokkur verið kærður fyrir að stela öskutunnu? spyr hún „sakadómarann“. — Það er nýbúið að stela tunnunni okkar, bætir hún við. „Sakadómarinn“ hristir höfuðið og lítur síðan a skáldið og bíður.

— Já mikið helvíti var það skrítið, sagði skáldið, að þeir skyldu nenna að stela öskutunnunni. En hún var nýmáluð og þeim hefur fundizt hún falleg. En ég ætla ekki að kaupa aðra, onei — dettur það ekki í hug, fyrst þær eru ekki greiddar niður af ríkissjóði. Ég er bóndi og kaupi ekki annað en það sem er niðurgreitt. En öskutunnur eru bráðnauðsynlegar og það er eins og sumir hafi aldrei nóg af þeim.

Hann strauk kettinum, kveikti í sígarettu og sagði svo:
— Það er undarlegt, hvað maður getur vanizt rottum. Ég bjó einu sinni í litlu herbergi, það var fyrir mörgum árum og ég átti ekkert nema borð og bókaskáp. Herbergið var fullt af rottum, stórum og smáum rottum, og stundum klifruðu þær upp á bókaskápinn og duttu niður á mig, þar sem ég lá í rúminu. Mér var lítið um þær gefið, en það er skrítið í þeim hljóðið og merkilegt, hvað það getur verið fallega lyriskt. Samt fékk ég mér rottueitur og setti það í skál á borðinu. Ég man það nú ekki, en held það hafi borið einhvern árangur. Hitt var merkilegra, að Ásmundur frá Skúfsstöðum fékk sér vænan mola af því, þegar hann kom einhvern tíma í heimsókn. Það var von, þetta var eins og lagkaka, ágætt á bragðið, en undarlegt að honum skyldi ekkert verða meint af því.

Þetta var góð byrjun fannst okkur. Páll Hafstað fór nú að minnast á stjórnmál, enda var Steinn nýkominn úr frægri heimsókn sinni til Sovétríkjanna. Steinn talaði gjarna um Rússlandsförina og fór ekki dult með skoðanir sínar. Honum þótti gaman, þegar honum tókst að espa menn upp á móti „stórveldapólitík“ sinni og talaði þá eins og sá, sem valdið hefur: — Það er skrítið, en Rússar kunna ekki að byggja hús. Þeir hafa ekki frekar vit á byggingarlist en lélegur smalahundur í Flóanum. Þetta eru tómar blúnduhallir, óskaplega ómerkilegar. Bolsivíkar hljóta að vera bæði fífl og ofbeldismenn. Þetta er eins og Hornstrendingur fengi sendan emeleraðan kopp og stillti honum upp a stofuborði. Það er alveg óskaplegt. Annars ætla þeir víst að reyna að lagfæra þetta eitthvað: Krúsjev segist vera á móti sykurhöllum og ég las það fyrir skömmu, að hann hefði sagt við óánægða arkitekta, sem vildu láta endurskoða byggingarstefnu ríkisins: — Verið þið bara rólegir, piltar mínir, þetta hrynur allt saman einn góðan veðurdag. Það var gott hjá honum, finnst ykkur það ekki? Krúsjev er ágætur maður og veit, hvað hann syngur. Það er vafalaust rétt hjá honum, að þetta er eina lausnin. — Einhver bezti maður, sem ég hef hitt, er þjóðskáld þeirra Grúsíumanna; frábær gestgafi, sómasamlegur drykkjumaður og góður ræðumaður. Hann flutti margar ágætar ræður. En hann skildi ekki rússnesku. Því lenti það í hálfgerðu stímabraki, þegar Hallgrímur Jónasson fararstjóri ætlaði með miklum hátíðleik að skýra honum frá efni vísunnar „Yfir kaldan eyðisand“. Ég þýddi vísuna á dönsku, svo var hún þýdd á rússnesku og armenisku og loks á grúsisku og þá skyldi karlinn vísuna og hafði gaman af. Hann er nefnilega ágætt rímnaskáld.

Nú var hlé á frásögninni, því að kötturinn var farinn að trufla húsbónda sinn með mjálmi og ólátum. Hann var settur fram í eldhús og lokaður inni: „sakadómaranum“ létti, því honum hafði aldrei verið neitt um bölvaðan köttinn gefið: Hann lyfti glasi og leit á skáldið, þegar hann kom aftur inn í stofuna og settist: — Það var árið 1934, sagði Steinn, og brosti með öllu andlitinu. Hann hafði verið spurður um það hvenær hann hefði sagt skilið við Kommúnistaflokk Íslands. — Annars sagði ég ekki beint skilið við hann, bætti hann við, því ég var rekinn úr flokknum með mikilli skömm. Ætli ég muni það ekki, Sella B 5 hét hún víst, og það var ákaflega leiðinlegt að vera í henni. Þegar ég var rekinn, var líka samþykkt síðasta aðvörun til Einars Olgeirssonar. Mál hans var tekið fyrir á undan mínu, svo ég mátti greiða atkvæði. Dýrleif Árnadóttir var formaður sellunnar og þegar atkvæði voru greidd um Einar, laumaði hún hendinni upp í loftið, svo lítið bar á. Og hún grét. En þegar kom að mér, rétti hún höndina upp af miklum myndugleik, aldrei ákveðnari á ævi sinni. Þegar samþykkt hafði verið að reka mig, stóð ég upp og hélt ræðu. Ég sagði, að allir viðstaddir væru þorparar og illmenni. Þá skifti það engum togum, að séra Gunnar Benediktsson og Dýrleif ráðast á mig og hrinda mér niður brattan stiga, sem þarna var. Ég marðist á baki, en slapp að öðru leyti ómeiddur á sál og líkama úr þessum hildarleik. Þó hafði þetta þær óþægilegu afleiðingar, að mér hefur alltaf síðar staðið ógn af háum stigum, hugsa mig um tvisvar áður en ég legg í þá.

Nú glottir skáldið: — Svona var þetta og þó var það skemmtilegasta eftir. Þetta var allt saman herfilegur misskilningur. Það var ekki ætlunin að reka nokkurn mann, en Jens Pigved, sem átti að sækja „línuna“ til Moskvu, lenti á viku fylliríi í Vestmannaeyjum og kom of seint. Nokkru síðar var mér boðið að ganga aftur í flokkinn, en sagði þá af eintómu stolti: Nei, takk. Síðan hef ég aldrei gengið í neinn flokk. — Ojá, þetta voru erfiðir tímar og maður var fátækur, og sannleikurinn var sá, að það kom sér vel fyrir mig að losna úr sellunni, því að það var alltaf verið að skjóta saman í bollapör handa einhverjum fátæklingi, sem þarna var og Bergsteinn hét. Ég gaf tvisvar 25 aura, sem var mikil upphæð í þá daga, en ekki held ég Bergsteinn hafi fengið bollana, því að hann lenti á Kleppi litlu síðar. Ég ætti að vita það, hitti hann einu sinni, þar sem hann var að rjátla um nágrennið. Ég gekk til hans og fór að tala um veðrið, en hann sagði aldrei annað en þessa vafasömu setningu: Skáldið er komið, skáldið er komið. Það var alveg sama, hvað ég talaði um, ég fékk aldrei annað svar. Hann hélt ég væri kominn á Klepp, hann var ekki svo vitlaus…

Og nóttin leið og reykjarmökkurinn lá eins og skýjaflóki yfir herberginu. Þegar við stóðum upp til að kveðja, tók skáldið upp gamlan virðulegan staf og sýndi okkur: — Þetta er stafur Guðbrands Jónssonar, sagði hann. Ég keypti hann á uppboði fyrir 500 krónur. Þótti það vissara. Það er harður viður í honum og einu sinni barði Brandur mig með stafnum.

Við kvöddum og gengum út. Ég vona, að þið týnist ekki í skaflinum, sagði skáldið, en við gengum út í morguninn og heilsuðum sólinni, sem kom brosandi á móti okkur á gulum skóm.

II

Þegar ég heimsótti Stein Steinarr nokkru síðar, var ég einn á ferð og kom gagngert í þeim erindum að hafa viðtal við skáldið: — Þetta er eiginlega mikill misskilningur, sagði hann, þegar við gengum inn í stofuna, ég ætti miklu fremur að eiga viðtal við þig. Ég mundi skrifa ágætt viðtal. Ég sagði honum, að ég efaðist ekki um það, en við yrðum að láta það bíða síns tíma: — Ja, ég er nú að verða gamall, svaraði Steinn þá.
— Hvað gamall ertu?
— Ég er víst orðinn 48 ára.
— Nú ekki meira.
— Finnst þér það ekki nóg. Maður er orðinn fimmtugur áður en varir. Ásthildur er meira að segja byrjuð að baka. Hún tók sér eiginlega frí í kvöld, því Petrína Jakobsson ætlaði að ræða um launamál „opinberra“ kvenna á fundi. Hér verður enginn maður, hingað kemur eiginlega aldrei neinn.

Þegar ég hitti skáldið að máli þetta kvöld, voru aðeins liðnir nokkrir dagar, frá því að hann hafði sagt okkur af lagkökunni hans Ásmundar og blúnduhöllum Krúsjevs. En það hafði margt breytzt, það var komið vor, drekinn lá í blóði sínu í túni skáldsins, tvær tíkur léku á tröppunum. Það var ljós í hænsnakofanum.

— Já, hvenær ég byrjaði að yrkja? sagði Steinn, þegar við vorum setztir. Það var einmitt árið, sem þú fæddist. Það var 1930. Þá kom andinn allt í einu yfir mig, en ég ætla ekki að segja þér, hvar fyrsta kvæðið mitt birtist — onei, það mundi ég aldrei gera, kemur ekki til mála. En heyrðu annars, þetta er víst ekki alveg rétt hjá mér, ég man vel eftir mínu fyrsta kvæði og ég skal segja þér meira um það, ef þú villt. Eg var í far- skóla í sveitinni og Jóhannes úr Kötlum var kennari minn. Hann gegndi því virðulega embætti marga vetur. Hann var alltaf að yrkja sjálfur, eins og allir vita, og það hafði þau áhrif á mig, að ég fór auðvitað að yrkja líka. Ég afhenti honum fyrsta kvæðið uppskrifað, viltu heyra meira um það?
— Já.
— Efnið er gleymt, en ég man vel hvað kvæðið hét. Það hét „Skemmtanalífið í helvíti“. Og enn hristir Jóhannes höfuðið, þegar ég minnist á kvæðið við hann. Hann segist að vísu ekki vilja úttala sig um það, en kveðst munu nota það á mig, þó seinna verði.
— Um sveitina? Þú vilt fá að vita meira um hana. Þetta var ágæt sveit. Og ágætis fólk, lauslátt, alvörulaust og bláfátækt. Og svo voru þarna tveir menn, sem gerðu allt dálítið órólegt, Jóhannes og Stefán frá Hvítadal. Við Stefán urðum snemma góðir kunningjar, þótt ég væri þetta yngri og hann var alltaf ákaflega almennilegur við mig. Þegar ég hitti hann síðast, skömmu áður en hann dó, höfðu birzt eftir mig þrjú kvæði í einhverju tímariti og Stefán hafði séð þau og virtist ánægður. Ég man hann sagði við mig: Ég vissi það alltaf, að það býr eitthvað í þér, hvað sem helvítis karlarnir segja. En svo bætti hann nefnilega einu við: En mikill bölvaður bjáni gaztu verið að hafa þau svona mörg! Það var nokkuð gott hjá honum. Hann kunni sitt fag. Stefán bóndi gat talað svo um algengustu hluti við fólk, að það gleymdi þeim aldrei. Hann gat sagt frá af svo mikilli kúnst, að fólk tárfeldi yfir sögum hans. Það var alveg ótrúlegt. En hann þótti alltaf hættulegur maður, hættulegur móralnum og friðnum í sveitinni. Hann var merkismaður og eitt af okkar fínustu skáldum á þessari öld. — En nú ætlarðu að fara að tala um minn eigin skáldskap. Það kemur ekki til mála. Ég hef aldrei tekið hann alvarlega, ég hef aldrei ort af ástríðu. Það væri miklu nær að tala um önnur skáld eða kreppuárin, þú getur spurt mig eitthvað um þau. Svo geturðu líka talað við mig um skáldastyrk. Ég hef alltaf verið í sama flokki og Elínborg, ég mundi ekki kunna við mig í öðrum flokki. Þegar ég fékk skáldalaun í fyrsta skifti 1935, var varpað hlutkesti um það, hvort okkar Elínborgar skyldi hljóta styrkinn. Ég vann, en átti það alls ekki skilið.

— Hvort ég hafi ekki orðið fyrir aðkasti á kreppuárunum? Onei — ég hef aldrei vitað til þess að menn hefðu neitt á móti mér. Ég hef ekkert sótt til þjóðfélagsins og mér vitanlega hefur það aldrei sótt neitt til mín. En við erum góðir kunningjar samt. — Þó held ég, að skáld og listamenn séu ævinlega dálítið illa séðir, að minnsta kosti fyrst framan af. Þannig var það í mínu ungdæmi, það er rétt. Við vorum dálítið illa séðir. Og á ég að segja þér eitt, ég held ég viti hvers vegna: Þetta er eiginlega fjölskylduvandamál, skáld eru að vísu menn, en allra manna aumastir, geta ekki neitt, kunna ekki neitt. Fröding hefur lýst þessu snilldarlega í „Draumamanninum“. Æ, hvernig er það nú? Ég er víst búinn að gleyma því, get aldrei lært neitt utanbókar. En við vorum að tala um kreppuárin. Við sem þá vorum ungir, vorum miklir hugsjónamenn, eins og ungir menn eiga að vera. Nei, það kom ekkert „Rauðum pennum“ við. Þeir höfðu engin áhrif á mig. En ég held við höfum verið í nánara sambandi við þjóðfélagshræringar tímabilsins en ungt fólk nú á dögum og þær hafi haft meiri áhrif á okkur. Þegar Hitler var að taka við völdum veturinn 1933, kom okkur aldrei dúr á auga. Við settum upp ímyndaðan front á móti honum og okkar menn Thalmann, Neumann og hvað þeir nú hétu, báru sigur úr býtum. Og þegar Spánarstyrjöldin skall á vorið 1936, vildum við gjarna fara til Spánar, þessa fagra umkomu- lausa lands, og berjast með öðrum sjálfboðaliðum, en áttum ekki fyrir fargjöldum; áttum sem sagt ekki peninga til að fórna lífinu og deyja hetjudauða fyrir hugsjónir okkar. Þetta voru erfiðir tímar — og afskaplega slæmar fjárreiður, eða finnst þér það ekki?

— En þú ert að spyrja um líðan mína. Mér leið aldrei illa. Af einhverjum dularfullum ástæðum hafa svokallaðar líkamlegar þarfir mínar komið af sjálfu sér. Ég veit ekki hvað veldur því, ég hef aldrei hugsað um það. Ég hef ævinlega haft nóga peninga. Suma vantar alltaf allt, en aðra skortir aldrei neitt, en samt eru þeir jafnilla staddir. Það er eins og sumir menn séu jafnfátækir, hvað mikla peninga, sem þeir eiga.

— En segðu mér eitt, Steinn, stjórnmálabaráttan hefur verið ákaflega hörð á þessum árum.
— Já, ákaflega hörð, eins og alltaf á kreppuárum. Ég man vel eftir því, þegar borgarastyrjöldin á Spáni hófst. Ég var á gangi niðri í miðbæ að morgni dags. Þá sá ég marga verkamenn lesa Morgunblaðið og þeir voru afskaplega glaðir og upprifnir yfir þessum fréttum. Þegar ég gekk fram hjá, heyrði ég þá segja: Svona á að taka þá, þessa fanta! Þeir voru nefnilega á móti ríkisstjórninni, ástandið erfitt og atvinnuleysi. Á þessum árum var kommúnisminn að koma upp með miklum harmkvælum, og átti undir högg að sækja. Andstæðingar hans kölluðu mig kommúnista í tíma og ótíma, en í augum þeirra sjálfra var ég oftast hálfgerður nazisti. Ég hygg þó, að þeir hafi reiknað með mér sem kjósanda fyrst í stað, en nú lengi hafa þeir ekki haft mig á sinni kjörskrá. Þeim hefur til dæmis ekki dottið í hug að borga undir mig bíl á kjörstað. — Annars er mér vel við marga kommúnista og sumir þeirra eru mínir beztu vinir. Til dæmis fór alltaf mjög vel á með okkur Brynjólfi Bjarnarsyni. Ágætur maður Brynjólfur og stórgáfaður. Ég held jafnvel, að liann sé með beztu mönnum, sem ég hef kynnzt. Eins og þú veizt, var ég víst kaþólskur að nafninu til, fyrst eftir að ég kom til Reykjavíkur. Ojú, það var Stefán… Hann hefur ætlað að bæta mig, en þú veizt, hvernig það fór. Auðvitað kom að því, að ég glataði þessari ágætu trú, og mér leið óskaplega illa, fannst ég hafa svikið einhvern, ráfaði eirðarlaus um bæinn og fór loksins heim til Brynjólfs, eins og hver annar auðnulaus maður, spurði hvort hann gæti ekki gert eitthvað fyrir mig. Svo leysti ég frá skjóðunni og hann hlustaði. Eftir góða stund, segir Brynjólfur: Má ég ekki bjóða þér ýsu? Það var gott hjá honum, finnst þér það ekki? En nú er þetta allt breytt, Brynjólfur kom inn í andatrúna og framsókn kommúnismans liðin hjá.

Þegar hér var komið sögu, birtist frúin í dyrunum og var varla komin inn, þegar Steinn spurði: — Þú hefur ekki verið kosin í neinar nefndir? Hún brosti og svaraði spurningu skáldsins neitandi um leið og hún spurði um hæl: — Þú hefur ekki gefið hænsnunum vatn?
— Nei, svaraði hann, ætli þau sofi ekki. Svo sneri hann sér að mér og sagði snöggt: — Þú varst eitthvað að spyrja um Unuhús. Ojú, ég þekkti Erlend mæta vel. Hann var ef til vill merkilegasti maður, sem ég hef kynnzt. Samt hefur mér aldrei dottið í hug að yrkja um hann; ég hef ekki viljað móðga Erlend dauðan.

Ég spurði um „Tímann og vatnið“.
— Það er engin formbylting í þessum kvæðum. „Tíminn og vatnið“ er eins og þú veizt sjálfur, varieraðar terzínur. Það er ákaflega gamalt form og þrælklassískt. Terzínurnar í „Tímanum og vatninu“ eru ekki alltaf reglulegar, það er öll formbyltingin. Ljóðaflokkurinn í heild er upphaflega hugsaður sem ballett, byggður á goð- og helgisögnum. Jú, það var nú meiningin, hvað sem þú segir. Eitt kvæðið studdist t. d. við Vedabækurnar, annað við sagnir um Parsival og Graal:

Gagnsæjum vængjum
flýgur vatnið til baka
gegn viðnámi sínu.

Hið rauðgula hnoða,
sem rennur á undan mér,
fylgir engri átt.

Handan blóðþyrstra vara
hins brennandi efnis
vex blóm dauðans.

Á hornréttum fleti
milli hringsins og keilunnar
vex hið hvíta blóm dauðans.

— og enn annað við för Odysseifs:

Vatn, sem rennur
um rauðanótt
út í hyldjúpt haf.

Í dul þína risti
mín dökkbrýnda gleði
sinn ókunna upphafsstaf.

Og sorg mín
glitraði á grunnsævi
eins og gult raf.

Annars er mér alveg sama um minn svokallaða skáldskap. Ég ber enga virðingu fyrir honum; ég veit, að eitt kvæða minna er verra en annað, það er allt og sumt. Ég hef aldrei verið skáld. Ég hef aldrei haft ástríðu til að yrkja, en mér er nauðsynlegt að geta sofnað á kvöldin og í stað þess að lesa reyfara fór ég að raða saman orðum. Sá sem nennti að athuga mín kvæði, gæti auðveldlega séð, að þau eru öll ort milli svefns og vöku. En það kemur engum við.

Matthías Johannessen

Matthías Johannessen (F. 3. janúar 1930) er ljóðskáld og rithöfundur. Hann var blaðamaður á Morgunblaðinu meðfram háskólanámi og síðar ritstjóri þess á árunum 1959–2000. Fyrsta ljóðabók Matthíasar Borgin hló kom út árið 1958 og vakti töluverða athygli. Síðan hefur hann gefið út tugi ljóðabóka, auk fræðibóka, skáldsagna, smásagnasafna, leikrita og viðtalsbóka.