Hér birtast þrjár greinar í flokknum Íslensk nútímaljóðlist eftir Jóhann Hjálmarsson sem birtust áður í Lesbók Morgunblaðsins í september 1968. Sú fyrsta þann 15. september, önnur þann 22. september og sú þriðja þann 29. september.

Án takmarks og tilgangs

Árið 1934 kveður eitt sérkennilegasta ljóðskáld þessarar aldar sér hljóðs: Steinn Steinarr, skáldið sem viljandi og óviljandi varð tákn nýjunga í bókmenntum. Þótt Steinn sé fyrir ýmissa hluta sakir hefðbundinn í viðhorfum sínum, er flestum tamt að líta á hann sem upphafsmann nútímaljóðagerðar á Íslandi. Þetta er þó ekki að öllu leyti rétt afstaða. En Steinn er að minnsta kosti uppreisnarmaðurinn. Hann gengur lengra í leit sinni að nýjum veruleik en nokkur annar. Skáldævi hans er sambærileg við listferil málara eins og Þorvalds Skúlasonar, sem gerist brautryðjandi nútímamálaralistar hérlendis, en þar skilur á milli þeirra, að Steinn leggur rækt við fleiri form en eitt í skáldskap sínum, en myndheimur Þorvalds verður æ einhliðari eftir að hann snýr baki við hinni ytri eftirlíkingu. Ef til vill sannar þessi samanburður ekki annað en það, að bókmenntirnar eru jafnan íhaldssamari en myndlistin. Fyrsta bók Steins, Rauður loginn brann, er skilgetið afkvæmi kreppuáranna. Eins og Jóhannes úr Kötlum dreymir skáldið um „nýjan heim, nýja menningu“, og eru þar komin sósíalistísk lífsviðhorf. En trú Steins á mannlegt vald er ekki jafn sterk og hjá Jóhannesi. Hann leynir ekki vonbrigðum sínum með hinn „hungraða verkalýð“, sem „skilur ekki sína eigin afstöðu til óvina sinna“. Þess vegna lætur hamn sér nægja vitundina um líf eftir dauðann:

Ef til vill betra líf,
ef til vill bjartara
og miskunnsamara
gagnvart fátœkum mönnum.

(Úr Mold).

En um leið er það ekki sagt, að ljóð Steins hafi ekki verið skilin „réttum“ skilningi samkvæmt formúlu stjórnmálabaráttunnar á sinni tíð; um afstöðu hans er raunar ekki að villast. Rauður loginn brann hefst á hvatningarljóði til öreigaæskunnar, sem á eftir því sem Steinn segir „allan heiminn að vinna“. Og það er til marks um skáldskap Steins, að hann er einna lakastur þegar hann bregður sér í gervi vandlætarans og umbótamannsins. Hin einfalda lífsmynd, sem okkur er kunn úr ljóðum Jóhannesar úr Kötlum, á ekki við Stein. Aftur á móti átti háðið eftir að verða hans bitrasta vopn, því ádeiluskáld var Steinn, þannig að fáir léku eftir.

Einna eftirminnilegust eru þau ljóð í Rauður loginn brann, sem eru tilbeiðslukennd, játningar manns, sem þrátt fyrir hina myrku tíma, hefur komist í snertingu við hamingju lífsins. Í vor, Elín Helena, Minning, og Mold eru dæmi um þetta, öll órímuð ljóð, sem sýna leikni Steins og skáldlegan þroska. Tvö fyrrnefndu ljóðin eru lík að efni. Þau fjalla bæði um stúlkur, sem eru „eins og boðskapur um betri og ríkari framtíð mannanna“ í fegurð sinni og ást; en síðarnefndu ljóðin eiga það sammerkt að vitna um tengsl manns og náttúru, þá fró, sem það veitir þreyttum göngumanni, að eiga sér minningu um liðna daga í hlýjum faðmi landsins og vissu um að hljóta að lokum „frið og hvíld“ í skauti jarðarinnar. En skáldið er ekki heilt í gleði sinni, tortryggnin er því í blóð borin og nærð af hörðum tíma. Hann efast um, að stúlkan brosmilda, sem hann sá á malbikuðu strætinu og fékk von hans til að blómstra, sé til, eða hafi nokkru sinni verið til, og í Minningu, þar sem hann rifjar upp ljúfar stundir bernsku sinnar, er hann líkt og vakinn harkalega úr draumi sínum af hinum kalda veruleika:

Ó, sál mín, sál mín.
Var það golan, sem þýtur í grasinu,
eða gjálpandi báran við ströndina,
sem bar þessa mildu óma, að eyra mínu?
Var það kaldhæðni lífsins,
sem lét mig
enn þá
nokkur augnablik gleyma
hinum gráa hversdagsleika
steinlagðra strætanna?
Var það blekking hugans,
sem huldi sjón minni
helkalda auðnina,
þar sem spor mín liggja,
þar sem líf mitt rann út í gljúpan sandinn?

„Var það blekking hugans?“, segir skáldið, og fyrr í ljóðinu standa þessar línur um minninguna:

Ó, minning.
Þú hvíslar svo hljótt, svo hljótt,
að það heyrist varla.

Í Daginn eftir eru greinileg áhrif frá Tómasi Guðmundssyni, enda verður því ekki á móti mælt að ljóðagerð Tómasar hefur haft gífurlega þýðingu fyrir mótun Steins Steinarr sem skálds. Þetta sést mönnum oft yfir, og er það einn þátturinn í því hvað mönnum er gjarnt til að líta á ljóð Tómasar sem sjálfsagðan hlut, þeirri bókmenntalegu blindu að átta sig ekki á nýjung þeirra. Reykjavíkurljóð Steins hafa að vísu annað innihald. Beiskja og umkomuleysi eru augljósir fylgifiskar þeirra. Tómas segir í ljóði sínu Húsin í bænum: „Aldraðir byggja og ungir menn kaupa lóðir og ætla sér líklega að byggja“; Steinn fjallar um þá, sem vinna verkið og segir: „Samt finnst okkur öllum launin svo lítils virði og líf okkar sjálfra svo dapurt og allt í molum“. En þrátt fyrir þetta eru niðurstöður skáldanna líkar:

En til hvers er þá að vakna og fara á fætur,
og fást við kol eða verzlun, sem illa gengur,
og hlaupa sig þreyttan í daganna fánýta flani,
þegar flestir gætu þó sofið svo miklu lengur.

(Steinn í Daginn eftir).

Já, mönnum finnst það skrítið, sem þeir ekki skilja.
Hver skilur öll þessi hús, sem í röðum liggja?
Hver skilur lífið og allar þess óbyggðu lóðir?
Og af hverju er verið að byggja?

(Tómas í Húsin í bænum).

Miðvikudagur er einnig dæmi um skólagöngu Steins hjá Tómasi. Vafalítið hafa kynni Steins af skáldskap Tómasar átt þátt í að draga úr biturleika hans; honum hefur lærst af þeim, að það er stundum viturlegra að líta sjálfum sér nær, skyggnast um í sínum innri heimi til að fá svör við áleitnum spurningum, eða að minnsta kosti efni í nýjar. Steinn ræktaði síðar með sér eigin borgarljóðastíl, enda hentaði honum ekki til lengdar hin mjög svo hófsama afstaða Tómasar til yrkisefnisins. Ljóð Steins í Rauður loginn brann eru yfirleitt beinskeytt, nakin; það er hinn hrái, miskunnarsnauði veruleiki, sem skáldið á í stríði við. Við finnum að það er statt í bráðri lífshættu, eina vopn þess er orðið, og meðan það hefur vald á því, er alltaf von um sigur, hversu slæmur, sem heimurinn reynist. Furðu mikið segir þessi fyrsta bók skáldsins okkur um það, sem koma skal.

Réttu ári fyrir seinni heimsstyrjöld gefur Steinn út næstu bók sína, Ljóð. Með þeirri bók er hann orðinn sá Steinn sem átti eftir að setja svo tilkomumikinn svip á íslenzka ljóðagerð; helstu einkenni hans sem skálds eru nú komin í ljós.

Bókin hefst á Kvæði um Krist, sem bæði að efni og formi er glæsilegur sigur ungu skáldi. Einfaldleiki ljóðsins er mikill, en um leið er það margrætt. Það leyndarmál, sem ljóðið fjallar um, er ekki sagt berum orðum; við erum ekki viss um hvort lausn þess er í raun og veru trúarlegs eðlis eða þjóðfélagsleg. Það er talað um að mennirnir verði góðir, og einnig frelsun heimsins. Börn sitja í garði „fyrir tvö þúsund árum“. Það er sterkur leikur í ljóði, að leggja „sannindi“ í munn barna, láta þau gefa fyrirheit um betri tíð.

Draumur um ljósið, er skylt Kvæði um Krist. Okkur er ekki sagt hvað ljósið táknar í ljóðinu, aðeins frá drauminum um það:

Það var eitthvað,
sem streymdi og rann
með sælutitrandi sársauka
gegn um sál okkar.

Sömu sögu er að segja um Biðina, um þá sem bíða þess, sem mun fylla líf þeirra „óþekktri angan“:

Við biðum, við biðum,
og að baki okkur reis
einhver hlæjandi ófreskja
og hrópaði:
Aldrei!
Það skeður aldrei!

Aftur á móti er Don Quijote afdráttarlaust ljóð í boðskap sínum:

Þessi auðugi maður,
sem myrðir og brennir,
og járnuðum hæl
treður jörð hinna snauðu,
hann skal falla!
Það er hann, sem er óvinur minn.

Miklu veikara ljóð er Prometheus, eins og eftir uppskrift tímans um róttæka ljóðagerð:

En fólkið skal sigra,
því ég færði því eld,
sem að eilífu brennur
í hjörtum þess:
Hatrið til kúgarans.

Ljóðin vitna þó bæði um vald skáldsins yfir yrkisefni sínu, hvernig því hefur lærst að takmarka sig, og að það stefnir að því, að þurrka út öll óþörf orð, allt það prjál, sem of oft íþyngir þjóðfélagslegum skáldskap.

Í ádeilukvæði um Stein, sem Vilhjálmur frá Skáholti orti, eitt af þeim skáldum kreppuáranna, sem fylgdi nýjum tíma í vali yrkisefna og var óvenju hreinskilinn um sjálfan sig og samtíð sína, ræðir hann tengsl Steins við Hamlet, og segir nokkuð kaldhæðnislega undir lokin:

Ég auðmjúkur spyr, því spekin hentar ei öllum:
— Á speki Shakespeares að gera út af við þig? —

Steinn yrkir einmitt ljóð til Hamlets:

Nei, Hamlet sæll, þú herra krónprins Dana!
Vér höfum fráleitt lent á réttum stað.
Vort líf var blóðugt, grimmt og gleðivana,
án gæfu og sigurs. Ekki meira um það.
En upp úr liðins tíma mold og myrkri,
þótt máð og glötuð séu öll vor spor,
gegn dagsins björtu ásýnd ungri
og styrkri rís andlit dimmt og brjálað:
Þjáning vor.

„Ó, guð, hve mig langaði stundum að vera þú“, segir Vilhjálmur frá Skáholti í fyrrnefndu kvæði um það skáld, sem var svo fundvíst á það, sem öðrum var hulið. „Brjóst mitt var fullt af söng, en hann heyrðist ekki“, yrkir Steinn í Ljóði án lags, einu þeirra ljóða skáldsins, sem ber keim af sjálfsmeðaumkvun. Ekki fer það Steini vel að barma sér, og sem betur fór kom háðið honum til hjálpar, stundum fyrirlitningin á mannlegu æði.

Það er hin sérkennilega heimspeki Steins, sem færir honum úrslitasigurinn, eða réttara sagt hvernig hann túlkar skoðun sína. Fánýtishyggja hans er í ætt við orð Prédikarans: „Allt er hégómi og eftirsókn eftir vindi“. Sagnirnar ganga og stara, koma oft fyrir í ljóðum Steins, eins og til áréttingar staðfestuleysis þeirrar persónu, sem hefur fundið sér athvarf í þeim. „Steinn er í íslenzkum bókmenntum hreinræktaðasti fulltrúi efans, bölmæðinnar og um leið sjálfshyggjunnar“, segir Guðmundur Gíslason Hagalín í yfirlitsgrein sinni: íslenzk ljóðlist 1918–1944, í Almanaki Hins íslenzka þjóðvinafélags um árið 1954. En um leið og Steinn er bölsýnt skáld, er hann líka skáld vonar, eða minnsta kosti einhverrar glætu í mannlífsmyrkrinu, þótt lausn í einhverri mynd sé skáldskap hans órafjarri.

Ekki þarf að fletta lengi blöðum í ljóðabókum Steins til að finna dæmi um tómleikakennd þeirra. Ljóðið Ekkert hefur oft verið mönnum tákn lífsmyndar Steins: Gamall maður situr að kvöldlagi við gluggann, strýkur sitt þunna, gráa hár, minnist ef til vill einhvers, sem er liðið. Svo finnur hann kaldan súg fara um andlit sitt, óljós hræðsla nær tökum á honum; hann horfir út í myrkrið og hvíslar:

Hver ert þú?
Og holur rómur svarar:
Ekkert, ekkert.

Umbúðalítið er þetta ljóð í tjáningu sinni, en miklu naktara en Skóhljóð; tvær seinustu hendingarnar allt að því ungæðislega dökkar:

Sjá! Þú ert einn og allt er löngu dáið,
og yfir líki heimsins vakir þú.

„Hið eilífa myrkur, sem ekkert ljós getur lýst“ er jafn áleitið vitund skáldsins og það, sem enginn veit hvað er: hið óskýranlega. Kvæðið um veginn minnir á Ekkert. Það fjallar um þá, sem „hugsuðu djarft“ þegar þeir lögðu út í heiminn eftir „gömlum vegi“, sem var „gott að rata“:

Svo héldum við áfram.
Í hópnum var enginn
huglaus né tregur.

Svo námum við staðar:

Það var auðn og myrkur
á allar hliðar, og enginn vegur.

Það getur oft orkað tvímælis hvaða ljóð eru persónulegustu; menn hafa margs konar skilning á innræti skálda eins og annarra. Kristján Karlsson segir í veigamiklum inngangi að Kvæðasafni og greinum eftir Stein:

Steinn Steinarr er skáld fyrstu persónu eintölu. Sú persóna er vitaskuld ekki alltaf né öll hann sjálfur; hún er líka að einhverju leyti persónugervingur samtímans. Til þess að skilja kvæðin er óhjákvæmilegt að átta sig á þeirri persónu, sem hefur tekið sér bústað í þeim. Ef þraut hans virðist vor eigin, kann það að stafa að nokkru leyti af því, hún sé alveg sérstaklega vandi nútímamannsins.

Í Ljóðum segir Sjálfsmynd okkur ef til vill margt um Stein sjálfan. Upphafið er þannig:

Ég málaði andlit á vegg
í afskekktu húsi.
Það var andlit hins þreytta og sjúka
og einmana manns.

Ljóðið endar á þessum línum:

Það var andlit mín sjálfs,
en þið sáuð það aldrei,
því ég málaði yfir það.

Í þessu er bæði fólgið ásökun og flótti. Í öðru ljóði, sem nefnist Flóttinn, er skáldið á flóttanum. En því er veitt eftirför, það heyrir rödd úr fjarska:

Ég er lífið sjálft. Og þú kemst ekki undan.
Ég elti þig.

Götuvísa lýsir einnig hinum einmana manni, en í því er meiri kuldi en í Sjálfsmynd og Flóttanum, líkt og skáldið storki hinni dapurlegu tilveru. Leiksýning á heima með þessum ljóðum, bæði að efni og formi; þau eru eins og hugleiftur, bygging þeirra fastmótuð í sveigjanleik sínum:

Hin mikla leiksýning
var loks á enda.
Eins og logandi blys
hafði leikur minn risið
í hamslausri gleði
og friðlausri kvöl,
unz hann féll á ný
í skoplegri auðmýkt
til upphafs síns.
Það var lífið sjálft,
það var leikur minn.
Og ég leit fram í salinn
og bjóst við stjórnlausum fögnuði
fólksins.
En þar var enginn.
Og annarleg kyrrð hvíldi yfir
auðum bekkjunum.

(Leiksýning)

Frá þessu ljóði, sem minnir á draum, gæti ferðin legið að kvæði eins og Borg, sem á ættingja í fyrstu bók skáldsins:

Ó, þú sem geymir öll mín gleymdu spor
og grófst í duftið þjáning mína og sorg.
Ég er þitt barn, þitt barn. Og nú er vor,
sem baðar regni og sól þín stræti og torg.

Og velktir, þöglir veðurbarðir menn
velta af sér drungans fargi og hlæja á ný
ugglausum hlátri. Sólskin þitt mun senn
sigra til fulls þinn storm og veðragný.

Og samt er einn, sem ögrar vorsins mynd
og enn ber dauðans svip á þínum veg,
svo ótvírætt í ætt við þína synd,
sem enginn veit. Ó, borg mín, það er ég.

Í Vöggugjöf, sem er ort til barns, segir:

Sjá! Ég gef þér tryggt og trúfast
tilgangsleysið: Lífið sjálft!

Þessu tilgangsleysi hefur Steinn játast í Ljóðum. Hann veit að áfram er siglt „í auðn og nótt“, og bókinni lýkur á Dimmum hlátri, kaldhæðniálegum óði um hinn eilífa mann „án takmarks og tilgangs“. Nokkur önnur ljóð, sem hér hafa ekki verið nefnd, eins og til að mynda Vögguvísa, Marmari, Landslag, Blóm, og Barn boða mikil tíðindi um framtíð skáldsins Steins Steinarr; þau eru undan fari margs þess óvenjulegasta, sem frá honum hefur komið. Myndvísi þeirra og hin rammgerða formbygging eru aðal kostir þeirra, heimur þeirra svo einkennandi að þau víkja ekki úr huga þess, sem einhvern tíma hefur numið galdur þeirra. Seinni bækur Steins koma okkur í kynni við mörg ljóð af sama tagi, og mun ég síðar í þessari umræðu minni um Stein, freistast til að skýra einkenni þeirra nánar. Áður en kemur að næstu bókum Steins, langar mig til að geta lítillega eins ljóðs úr Ljóðum. Það er Vor, sem segja má að hafi nokkra sérstöðu í skáldskap Steins. Það er að vísu skylt ljóðunum, sem ég nefndi hér á undan, en sjaldan fellur mál jafn vel að mynd hjá Steini og í þessu ljóði:

Tveir gulbrúnir fuglar
flugu yfir bláhvíta auðnina.

Tvö örlitil titrandi blóm
teygðu rauðgul höfuð sín
upp úr svartri moldinni.

Tvö fölleit, fátækleg börn
leiddust út hrjóstruga ströndina
og hvísluðu í feiminni undrun
út í flöktandi Ijósið:
Vor, vor!

Einhver segir líklega: Þetta er málverk. Já, rétt er það, gæti svarið verið, mikilfenglegusitu málverk eru líka oft bókmenntir. Hver er þess umkominn að segja til um takmörk listarinnar? Er ekki fögnuðurinn það sem mestu máli skiptir, sú hamingja, sem návist sannrar listar vekur?

Jóhann Hjálmarsson

Jóhann Hjálmarsson er fæddur 2. júlí 1939 í Reykjavík. Hann var bókmenntagagnrýnandi Morgunblaðsins frá 1966 og leiklistargagnrýnandi sama dagblaðs 1967 til 1988. Jóhann hafði umsjón með bókmenntaþáttum á RÚV en frá 1990 var hann bókmenntagagnrýnandi að aðalstarfi þar til hann lét af störfum hjá Morgunblaðinu sumarið 2006. Jóhann hefur gefið út fjölda ljóðabóka og kom fyrsta bókin, Aungull í tímann, út árið 1956. Ljóð Jóhanns hafa verið þýdd á mörg tungumál og birst í safnritum víðs vegar um heiminn. Ljóðabókin Hljóðleikar (2000) var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2003. Jóhann hefur einnig þýtt ljóð fjölmargra erlendra höfunda.

Svo að ljóðið megi lifa

Spor í sandi, sem kom út 1940, hefst táknrænt á ljóði, sem nefnist Blóð. Síðan kemur Haf, ljóð um ferðir: „brimgný ókunnra hafa“. Hvaða ávinning hefur skáldið hlotið:

Og á botni hins óræða djúps
hef ég vitund og vilja minn grafið,
og ég veit ekki lengur,
hvort hafið er ég
eða ég er hafið.

Er svarið að finna í ljóðinu Form?

Ég sit og bíð. Mitt blóð er þungt og mótt.
Og allir hlutir eiga markað form,
annarlegt form, sem engan tilgang hefur.

Ég sit og bíð. Mitt blóð er þungt og mótt.
Og myndlaus veröld handan dags og draums
mun stíga fram úr fylgsnum hjarta míns
og drekkja hverju formi í djúpi sínu.

Í Orð, talar skáldið um „vængjað orð“ sitt, lýsir því hvernig það öðlast merkingu:

Mitt vængjaða orð, sem þú vildir ei heyra,
er vaxið utan um líf þitt og sleppir þér ekki.

Hér talar stolt skáld, sem veit að það hefur unnið sigur. ,,Skáld er ég ei, og innblæstrunum fækkar“, getur hann þess vegna leyft sér að segja í anda Jónasar Hallgrímssonar í kvæðinu Í Öxnadal. „Mun ég þó yrkja, meðan krónan lækkar“, lofar hann, eins og hann viti að um gengisfellingu geti ekki verið að ræða í skáldskapnum. Í þessu ávarpi til skáldsins góða, er að finna tvær línur einkennandi fyrir Spor í sandi:

Hve fljótt vér allir fundum harma nóga,
þótt flest vor kvæði stæðu hljóðstaf í.

Það er nóg um harma og vonbrigði í þessari bók. „Svo lítils virði er þetta allt, sem ann ég“, segir Steinn í Postlude. „Það bjargast ekki neitt, það ferst, það ferst“, stendur í Ljóði. Þann veg, sem liggur heim, er ekki hægt að finna, því hann er ekki til; skipið býst á brott áður en leyndarmálið um það vopn, sem dugar, verður sagt.

Ljóðin í Sporum í sandi eru mun hefðbundnari í afstöðu sinni og byggingu en þau, sem mesta athygli vöktu í Ljóðum. Hér eru meira að segja gaman og skopkvæði „í gömlum stíl“ svo sem hinn kátlegi samsetningur Brúðkaupskvæði. Í sama flokki eru ljóðið um Jón Kristófer, kadett í Hernum, sem Steinn hefur tvívegis orðið að yrkisefni; Happdrættisvísur; Til minningar um misheppnaðan tónsnilling; Chaplinsvísan, model 1939; Hugleiðingar um nýja heimsstyrjöld og Vísur að vestan. Gömul vísa um vorið, er líka í ætt við þessi kvæði og einnig eftirmælin um Kommúnistaflokk íslands.

Öll þessi ljóð hafa átt þátt í að stuðla að vinsældum Steins, sætta þjóðina við þetta torræða og uppreisnargjarna skáld. Vissulega eru þau ekki ómerkilegur áfangi á skáldferli hans, en þau eins og mörg önnur ljóð í Sporum í sandi, segja þá sögu, að bókin er sú bók Steins, sem helst mætti kalla hvíldarbók. „Hve gott er að hvíla sig rótt, eins og lokið sé leið, þótt langur og eilífur gangur bíði manns enn“, segir í Hvíld. En um leið og gamankvæðin sýna okkur skemmtináttúru Steins, vitna þau um nýja tækni, íþrótt hins þroskaða manns, sem leyfir sér að horfa ógrátandi á heiminn og tilveruna, þótt „baði jörð í blóði“.

Dæmi um nýsköpun þá, sem Ljóð gáfu svo góð fyrirheit um, eru Etude, og Mazurka eftir Chopin. Í Etude líkir skáldið hjarta sínu við brunn „bak við skíðgarð ókunns húss í skjóli hárra trjáa“. Síðan kemur að þeim, sem verður reikað löngu seinna „í rökkurmóðu einhvers liðins dags að þessum stað“. Etude endar á þessu erindi:

Og þú munt sjá þig sjálfan
sem lítið, saklaust barn
á botni djúpsins.

Hvað segir Etude lesandanum? Nægir honum hin einfalda og sterka mynd þess? Vill hann fá ráðningu hennar? Fjallar skáldið hér um ljóð sitt, verður sá að barni, sem skilur dýpstu tilfinningar þess? Svarar Mazurka eftir Chopin þessum spurningum? Ef til vill. Skáldið segir um þjáningu sína: Mín þjáning er svo dimm og dauðahljóð, sem draumlaus svefn að baki alls er lifir. Eða fjallar það ljóð um konu, sem. skáldið fær ekki notið: Þú, sem ég elska, aldrei skalt þú vita, hve þung mín þjáning er. Draumlaus svefn getur ekki haft þjáningu í för með sér, en hann er „dimmur og dauðahljóður“. Ljóðið hlýtur að vera ávöxtur mikillar ástar:

Mín þjáning er svo dimm og dauðahljóð,
og djúpt á botni hennar sefur þú.

Sú ást hlotnast ekki skáldinu, en það lítur hana „seinna í hjarta annars manns“, eins og stendur í Stökum. Það er þrátt fyrir allt nokkur huggun; hið glataða „lifði samt“.

Ivar Orgland, sem þýtt hefur ljóð Steins á norsku, og gert sér far um að lýsa skilmerkilega ævi hans og skáldskap, bendir á í langri ritgerð, að þeir eigi margt sameiginlegt Steinn og Tor Jonsson. Skáldið norska orti:

Var eg ein Gud
ville eg skapa
kjærleik og død,
berre kjærleik og død.

Ástin og dauðinn eru síendurtekin yrkisefni Steins. Steinn hefði því getað tekið undir með Tor Jonsson, að væri honum fengið guðlegt vald, myndi hann láta þá ósk rætast að skapa aðeins ást og dauða. Hinu ber ekki að leyna, að skilningurinn á skáldskap Steins má aldrei verða of einhliða, því Steinn tileinkar sér ekki síður en Tómas Guðmundsson tækni mótsagnarinnar þegar fram líða stundir, notkun hans á paradox er sjaldan augljósari en einmitt í ástaljóðum hans. Ferð án fyrirheits, sem kom út tveimur árum seinna en Spor í sandi, leiðir lesandann í allan sannleika um þetta atriði. Mönnum er tamt að líta á þessa ljóðabók sem fullkomnasta verk Steins Steinars.

„Ég var aðeins til í mínu ljóði“, segir Steinn í Ferð án fyrirheits. Og í Vorvísu hefur hann þetta að segja:

Hægur andvari
húmblárrar nætur
um hug minn fer.

Ást mína og hamingju
enginn þekkir
og enginn sér.

Og ljóð mitt ber samskonar
svip og það,
sem ekki er.

Hér gælir skáldið við þá mótsögn, að heimur sinn sé óraunverulegur: ást sína þekki enginn né sjái, ljóð sitt beri svip þess, sem ekki er til. „Mín ást er eins og dauðinn, sem augum þínum lokar“, stendur í Mansöng. Sumar við sjó og mörg önnur ljóð í Ferð án fyrirheits, sýna svipaða formbyggingu og líkan þankagang og Etude og Mazurka eftir Chopin í Sporum í sandi, og einnig þau ljóð í Ljóðum, sem áður hefur verið vikið að sem undanfara þess, sem gerir Stein svo einstæðan í íslenzkri ljóðlist. Ljóð þessi mætti kalla „æfingar“, eða stef úr stærra verki, sem skáldinu tókst raunverulega aldrei að fullgera. Straumurinn liggur frá þessum uppsprettum í Ljóðum og sameinast að lokum hafinu í minnisstæðustu hljómkviðu Steins: Tímanum og vatninu. Ef við virðum til dæmis fyrir okkur Sumar við sjó, er auðvelt að gera sér grein fyrir þessum hálfkveðna, myndræna hætti Steins: Hið sólhvíta ljós og hinn suðandi kliður eru systkini mín. Ég hef setið og hlustað, og hafið kom til mín í líki ljóshœrðrar konu.

Ég sá nóttina nálgast,
og hönd mín svaf
meðan hjarta mitt vakti.

Og hún, sem ég elskaði,
hló og sagði:

Ég er ekki til.

Þriðja erindi segir okkur ef til vill mest, en það er ekki þjáning, sem okkur kemur fyrst í hug við lestur þessa ljóðs, heldur eins konar gáskafull, persónubundin hamingja. Svipað hvarflar að okkur við lestur Hausts í Þjórsárdal, um fákana, sem framhjá þjóta „án myndar og hljóðs“. Í þessu ljóði er talað um „sóttheitan unað“. Það má vera Ijóst, að í þessum ljóðum hefur Steinn fengið útrás fyrir leikræna gleði sem í honum hefur búið; bölsýni hans hefur kannski átt sinn þátt í að kalla hana fram sem mótleik gegn hinum myrkari heimsþjáningarsöngvum.

Bær í Breiðafirði er dæmi um þann vinning, sem tilraunir Steins hafa fengið honum; það er að sama skapi fullkomlega heppnað ljóð og Vor í Ljóðum. Málfar Steins er í báðum þessum ljóðum einfalt, óþvingað, ekki líkt því eins mikið fyrir því haft að segja það er máli skiptir, eins og til dæmis í viðhafnarlegu andrúmslofti Hausts í Þjórsárdal. Svo viðkvæm eru þau sannindi, sú reynsla, sem Bær í Breiðafirði lýsir, að ljóðið krefst fyrst og fremst skynjunar, ekki ákveðins skilnings:

Grænt, rautt og gult.

Og golan þýtur
í þaksins stráum.

Tvö fölleit andlit
með augum bláum
á eftir mér stara
í hljóðri spurn:

Hvert ertu að fara?

En þótt ljóð eins og Hús við Hávallagötu, L ‘homme statue, Gamall maður með staf, Utan hringsins, Börn að leik, og fleiri ljóð í Ferð án fyrirheits, auk þeirra sem þegar hafa verið nefnd, eða tekin til umræðu, vitni öll um nýsköpun Steins Steinarr í íslenskri ljóðagerð, gat hann ekki á þeim tímum, sem þau eru ort, látið sér nægja hina hálfkveðnu aðferð þeirra. Ungur hafði hann tileinkað sér alþjóðleg sjónarmið, og það stríð, sem nú var háð, hélt fyrir honum vöku. Það er að sjálfsögðu mótsagnakennt, að sá, sem leggur kapp á að sanna í ljóði eftir ljóði, að „í blekkingum sjálfs sín maðurinn ferðast og ferst“, skuli jafnframt leggja á það svo ríka áherslu, að „það er eitt sem gildir, að vera maður“, eins og hann segir í Hugsað til Noregs.

Ádeiluljóð Steins í hefðbundnu formi, en nýstárleg að framsetningu eru ekki veigalítill kafli í ljóðagerð hans. Í Ferð án fyrirheits eru mörg slík kvæði, og minna þau á gamankvæðin í Sporum í Sandi. En tónninn er oftar beiskari, vægðarlausari gagnvart öllu því, sem vekur andúð skáldsins og viðbjóð. „Á þessum stað reis íslenzk örbirgð hæst“, segir hann í kvæðinu Á rústum beitarhúsanna frá Víðimýri, þegar honum verður hugsað til örlaga hins smáða skáldbróður síns:

Vor saga geymir ýmsan auman blett
sem illa þolir dagsins ljós að sjá.
Og það mun margan undra, ef að er gætt,
hve íslenzk menning reyndist stundum smá.

Og það er biturt háð í seinasta erindinu í garð þeirrar þjóðar, sem ekki er um of „stolt“ af því skáldi, sem nú yrkir, fremur en forðum af þeim orðhvassa óðsmiði, sem lét hana finna fyrir brandi sínum:

En flest er breytt og fært í nýrra horf,
og fólkið mannast óðum norður hér.
Þeir finna nú, hve falslaus snilld þín var.
Ég, forsmáð skáld að sunnan, heilsa þér.

Þótt samúð Steins sé eins og fyrrum með þeim, sem bíða lægri hlut, gerir hann gys að þeim, sem vilja „frelsa heiminn“; honum er það ljósara en flestum íslenskum nútímaskáldum öðrum, að „í draumi sérhvers manns er fall hans falið“. Heimspeki Steins, sem tekur mótsögn í þjónustu sína, er raunar mótsögn í sjálfri sér, lítur þannig út í kvæði því, sem tilvitnunin er sótt til:

Þinn draumur býr þeim mikla mætti yfir
að mynda sjálfstætt líf, sem ógnar þér.
— — —
Og sjá, þú fellur fyrir draumi þínum
í fullkominni uppgjöf sigraðs manns.
Hann lykur um þig löngum armi sínum,
og loksins ert þú sjálfur draumur hans.

Framandleg afstaða skáldsins til lífsins er ekki óþekkt fyrirbrigði í ljóðum þess. Á einum stað spyr hann meira að segja: hvort er ég heldur hann, sem eftir lifir, eða hinn sem dó? Og Andi hins liðna, endar þannig:

Að veruleikans stund og stað
er stefni við hinztu skil,
því ekkert er til nema aðeins það,
sem ekki er til.

Ýmis kvæði, sem ekki hafa verið prentuð með í ljóðabókum Steins, mynda sjálfstæða bók í Kvæðasafni og greinum, sem Helgafell gaf út 1964 og hér er stuðst við. Þar á meðal eru sum kunnustu ljóð Steins, eins og Hallgrímskirkja, Búlúlala, Mannkynssaga fyrir byrjendur, Passíusálmur nr. 51, Hudson Bay, og Eir. Þess ber þó að geta að í ágætu úrvali Snorra Hjartarsonar: 100 kvæði, sem kom út 1949, voru mörg þessara ljóða tekin með; og í Ferð án fyrirheits, ljóð 1934–1954, hét seinasti hlutinn einnig Ýmis kvæði þótt hann væri mun fyrirferðarminni en í Kvæðasafni og greinum.

Djarfasta ljóðið í Ýmsum kvæðum er án efa Passíusálmur nr. 51, þótt ekki sé nema vegna nafnsins; en svona getur passíusálmur litið út í huga skálds, sem þekkir sljóleikann, tilfinningaleysið gagnvart annarra kvöl: Skyldi manninum ekki leiðast að láta krossfesta sig? Þetta krossfestingarljóð leiðir einnig hugann að Þriðja bréfi Páls postula til Korintumanna:

Ég, sem á að deyja,
dvel hjá yður,
sem Drottinn hefur gefið
eilíft líf.

Og Drottinn gefur öllum
eilíft líf.
En eilíft líf er ekki til,
því miður.

Svo sterkt hefur trúin orkað á skáldið, að í ljóðinu Bæn í Ferð án fyrirheits, biður hann:

Veit mér, ó Guð, þann mátt af miskunn þinni,
að megi ég gleyma þér.

Kristján Karlsson segir í fyrrnefndri ritgerð um Stein, að hann hafi „ekki getað þegið þá lausn, sem liggur beint við skáldskap hans. Sú lausn er trúin“. En í seinustu ljóðunum, sem Steinn orti, kveður við annan tón en áður í skáldskap hans. Sjálfur hef ég þá skoðun, að þessi ljóð hafi verið upphaf kraftmeiri og víðfeðmari skáldskaparstefnu og um leið lífsstefnu en nokkru sinni áður hjá Steini. Þessi ljóð birtust fyrst í Nýju Helgafelli 1956 og 1957, en eru látin fylgja með Ýmsum kvæðum í Kvæðasafni og greinum.

Seinustu árin, sem Steinn lifði voru miklir endurskoðunartímar í lífi hans. Hann hafði farið í sendinefnd til Sovétríkjanna og lýst sárum vonbrigðum sínum þegar heim kom. Gamlir baráttufélagar snerust margir öndverðir gegn þessari stefnubreytingu hans, bendluðu hann við svik, og voru jafnvel ófeimnir við að láta í veðri vaka, að hann hefði selt sál sína. Steinn vandaði þeim ekki kveðjurnar. Hann var meistari hinnar stuttu, hnitmiðuðu blaðagreinar; það litla, sem eftir hann liggur í óbundnu máli, verður reyndar að teljast til listrænna afreka. En Steinn var um leið samræðusnillingur, þannig að hver, sem á hann hlustaði, hlýtur að viðurkenna að hafa komist í snertingu við einn óvenjulegasta persónuleika aldarinnar. Um þetta höfum við verðmætar heimildir, einkum samtöl Matthíasar Johannessens við Stein. Matthías var á þessum árum þegar kominn í fremstu röð íslenskra blaðamanna, þrátt fyrir ungan aldur, kynni hans og Steins voru hafin, og allt þetta hjálpaði til að varðveita eina mikilsverðustu heimild samtímans: hátt skáldsins Steins Steinarr við að segja skoðun sína í mæltu máli. Auk viðtalanna tveggja, sem prentuð eru í Kvæðasafni og greinum, fjallar seinasti kaflinn í bók Matthíasar: Hugleiðingar og viðtöl, um manninn og skáldið Stein Steinarr. Hannes Pétursson sá um útgáfu á óbundnu máli Steins fyrir Menningarsjóð árið 1961, og kallaði Við opinn glugga. Með þeirri bók var minningu skáldsins sómi sýndur.

Ljóðin þrjú Formáli á jörðu, Kreml, og Don Quijote ávarpar vindmyllurnar, boða eins og fyrr segir nýtt tímabil skáldskapar Steins. Dauðinn batt að vísu á það endi, en enginn annar en hann var þess umkominn að stöðva klukku skáldsins Steins Steinarr, svæfa rödd hans djúpa og hreina:

Út í veröld heimskunnar,
út í veröld ofbeldisins,
út í veröld dauðans
sendi ég hugsun mína
íklædda dularfullum,
óskiljanlegum
orðum.

Gegnum myrkur blekkingarinnar,
meðal hrævarloga lyginnar,
í blóðregni morðsins
gengur sorg mín
gengur von mín
gengur trú mín
óséð af öllum.

Djúp, sár og brennandi.

Óséð af öllum.

Svo að ljóðið megi lifa,
svo að andinn megi lifa,
svo að guð megi lifa.

(Formáli á jörðu)

Ímyndum okkur, að þetta hafi verið formáli nýrrar bókar, sem Steinn var ef til vill staðráðinn í að semja. Í þessu ljóði rennur saman í eitt: „ljóðið“, „andinn“, og „guð“. Svo að þetta megi lífi halda eru orð skáldsins send út í veröld „heimskunnar“, „ofbeldisins“, og „dauðans“. Og þótt skáldið tali um „dularfull, óskiljanleg orð“, hefur rödd þess sjaldan verið skýrari. Í Don Quijote ávarpar vindmyllurnar, kallar hann sig „hinn aumkunarverða riddara réttlætisins“, en segir jafnframt:

Sjá!
Hér mun nú barizt verða.
Og hvað er það, sem hvetur skáldið til að berjast:

Minn Herra gaf mér hatrið til lyginnar,
minn Herra kenndi mér að þekkja lygina,
hvaða dularbúningi sem hún býst.

Minn Herra léði mér fulltingi sannleikans,
hins hreina, djúpa, eilífa sannleika,
sem ég þó aðeins skynja til hálfs.

Með hálfum sannleika berst ég gegn algerri lygi.

Í Kremlarljóðinu, snýr skáldið vopni sínu gegn Sovét-Rússlandi, þeim kommúnisma, sem „leiddi smán og áþján yfir þjóðirnar“, eins og hann kemst að arði í blaðagrein um atburðina í Ungverjalandi 1956.

Sjálfur dauðinn,
sjálfur djöfullinn
hefur byggt þessa bergmálslausu múra.

Dimmir, kaldir og óræðir
umlykja þeir eld hatursins,
upphaf lyginnar,
ímynd glæpsins.

Dimmir, kaldir og óræðir
eins og Graal —
Graal hins illa.

Það skáld, sem áður kvaddi sér hljóðs „með öreigans heróp á tungu“, er í þessu ljóði haldið heilagri bræði. „Hann var skilyrðislaus hatursmaður alls valds, stjórnleysingi“, segir Jóhannes úr Kötlum í minningargrein um þennan fyrrverandi nemanda sinn. „Hann hafði það af að verða á móti öllum heimsveldunum“, segir Halldór Laxness af sama tilefni. Og Matthías Johannessen, sem skrifar hefur um Stein af meiri innsýn og dýpri virðingu en flestir aðrir, segir í hugleiðingu um skáldið: „Steinn Steinarr dó frjáls maður, öllum óháður“.

Það skiptir ekki svo miklu máli hvað menn hafa sagt um Stein, eða eiga eftir að segja um hann. Orð hans sjálfs: „hvert eitt skáld til sigurs líf sitt leiðir“ munu um aldur og ævi halda gildi sínu, að minnsta kosti meðan menn leggja ekki mjög fjarstæðukennda merkingu í orðið skáld. Þrátt fyrir allt var það ekki svo óviðeigandi hjá Steini að enda Ferð án fyrirheits á þessari undirskrift:
Mitt nafn er Steinn Steinarr, skáld. Ég kvaðst á við fjandann.

Um hið veglausa haf

Á ég að halda áfram lengur óðar stagli?“ spyr Steinn Steinarr í Mansöng úr Hlíðar-Jóns rímum, sem birtist í Sporum í sandi. Í Kvæðasafni og greinum er þessi „ófullgerða“ ríma prentuð í heild, og sýnir hún að Steinn gat verið skemmtilega hagmæltur, þótt hann „skorti brageyrað góða“ að sögn Jóhannesar úr Kötlum.

Skáldið og maðurinn Steinn Steinarr er ótæmandi brunnur öllum þeim, sem um íslenska ljóðlist hugsa, og vel að merkja íslenskt lunderni. En varta blandast neinum hugur um, að með Tímanum og vatninu, sem fyrst kom út 1948, en síðar aukið og endurskoðað í ljóðasafni Steins 1956, hafi hann fyrst orðið þjóðinni alvarleg ráðgáta og um leið tákn þess nýjasta og óráðnasta í nútímaljóðlistinni.

Í Miðnætursamtalinu fræga við Matthías Johannessen, sem birtist í Morgunblaðinu í apríl 1957, segir Steinn m.a.:

Ég hef tekið eftir því, að Tíminn og vatnið er mjög misskilin eða réttara sagt óskilin bók. Upphaflega hugsaði ég mér þennan ljóðaflokk sem texta að ballett, ef hægt er að segja sem svo, í nánum tengslum við ákveðnar helgisagnir og þjóðsögur. Þetta virðist enginn hafa gert sér ljóst og sennilega ég ekki heldur. Í raun og veru gafst ég upp við þetta fyrirtæki í miðjum klíðum, og útkoman er þar af leiðandi dálítið öðruvísi en til var ætlazt. Hvað viðvíkur hinu ytra formi þessara ljóða, vil ég gjarna taka það fram, að það er á engan hátt byltingarkennt. Það er í langflestum tilfellum skilgetið afkvæmi þeirrar gömlu og góðu og klassísku terzínu, sem ég hélt, að allir könnuðust við.

Þótt Steinn leggi sjálfur áherslu á, að „engin formbylting“ sé í Tímanum og vatninu, liggur það í augum uppi, að ljóðaflokkurinn er ekki í „klassískum“ búningi nema að mjög takmörkuðu leyti. Í viðtali við Jón Óskar, sem kom í Birtingi 1955, segir Steinn, að sér „virðist inntak og áætlun allrar nútímalistar stefna að æ innhverfari túlkun persónuleikans“ Sannleikurinn er sá, að Steinn gat ekki til lengdar stuðst við „Veda-bækurnar“, eða „sagnir um Parsival og Graal“ þegar hann orti Tímann og vatnið; persónuleiki hans sjálfs hlaut að koma til skjalanna, því hann átti fátt sameiginlegt með hinum „lærðu“ skáldum eins og Ezra Pound og W.H. Auden; hinar endalausu skírskotanir þeirra til liðinna menningarskeiða, eru oft líkari úristun en skáldskap.

Tíminn er eins og vatnið,
og vatnið er kalt og djúpt
eins og vitund mín sjálfs.

Þannig hefst Tíminn og vatnið. Engan skyldi undra þótt aðferðir Steins færu tíðum „mjög í bága við rökfræðikenningar forspjallsvísindanna,“ eins og Magnús Ásgeirsson gerir að um ræðuefni í ritdómi um Ferð án fyrirheits í Helgafelli 1942, þar sem hann setur m.a. fram kenningu sína um hina „háspekilegu tómhyggju“ Steins. Tíminn og vatnið er eins og ákall, brennandi, örvæntingarfullt. Minningin rís upp úr „nálægð fjarlægðarinnar“; svipur konu býr í hinu „sólhvíta ljósi“ daganna.

Frá vitund minni
til vara þinna
er veglaust haf.

En draumur minn
glóði í dulkvikri báru,
meðan djúpið svaf.

Og falin sorg mín
nær fundi þínum
eins og firðblátt haf.

Um hana, sem er fjarri, snýst hugur skáldsins, af henni eflist ljóð hans og ómar:

Á sofinn hvarm þinn
fellur hvít birta
harms míns.

Um hið veglausa haf
læt ég hug minn
fljúga til hvarms þíns.

Svo að hamingja þín
beri hvíta birtu
harms míns.

Tíminn og vatnið er þá ort til þess að sefa hugann, finna fró í hinum „öfuga straumi“ draumsins, sem einnig er veru leiki skáldsins, kvöl þess. Mjög persónuleg reynsla verður oft ekki tjáð öðruvísi en á torræðan hátt. Við getum hugsað okkur Tímann og vatnið sem ástarljóð, en að binda ljóðið við þann skilning og engan annan, væri að gera skáldinu rangt til:

Og tíminn er eins og mynd,
sem er máluð af vatninu
og mér til hálfs.

Tíminn og vatnið kallar á skýringar, samt er vængtak ljóðsins svo voldugt, að því nægir sitt eigið líf: „A poem should not mean but be“; þessi einkunnarorð úr Ars poetica bandaríska skáldsins Archibalds MacLeish valdi Steinn því í fyrstu. Margræði þess mun lengi verða mönnum umhugsunarefni, en list þess er óumdellanleg. Það hefur fyrir löngu öðlast varan legan sess sem eitt minnisstæðasta verk íslenskrar nútíma ljóðagerðar. „Í Tímanum og vatninu er bent á leið sem farin verður um ófyrirsjáanlega framtíð í íslenzkri ljóðlist“, skrifar Matthías Johannessen 1963 í bók sinni Hugleiðingar og viðtöl. Um þessa fullyrðingu má að vísu deila enn í dag.

Í Ýmsum kvæðum, eru nokkur ljóð auðsýnilega frá því tímabili, sem Tíminn og vatnið var ort. Þetta eru ljóðin Vegurinn og tíminn, Ljóð, Rigning, og Gamall maður og hvítt hús. Hvítur hestur í tunglskini minnir líka á þessi ljóð:

Hvítt,
hvítt eins og vængur
míns fyrsta draums
er fax hans.

Eins og löng, löng ferð
á línhvítum fáki
er líf manns.

Og feigðin heldur sér
frammjóum höndum
í fax hans.

Öll minna þessi Ijóð á hin fjölmörgu ljóð Steins, sem áður hafa verið gerð að umræðuefni, og ég hef til aðgreiningar nefnt „æfingar“. Ljóðin mætti kalla expressjónistisk, en auðsýnilega hefur súrrealisminn haft þýðingu fyrir Stein. Í umdeildu viðtali við tímaritið Líf og list, árið 1950, þar sem Steinn lét hafa eftir sér að hið hefðbundna ljóðform væri nú loksins dautt, og tilraunir ungu skáldanna beindust í rétta átt, segir hann: „Þetta svokallaða nýtízku ljóðform virðist einna helzt eiga rætur sínar í súrrealismanum, hvort sem skáldin sjálf vilja viðurkenna það eða ekki.“

Afstaða Steins til yrkisefnisins er ekki lík hreinræktuðum súrrealisma, enda átti hann ekki fyrst og fremst við sjálfan sig þegar hann gaf þessa yfirlýsingu. En bæði í Tímanum og vatninu og í Veginum og tímanum í ýmsum kvæðum, er orðalag skáldsins og mynda val í ætt við súrrealisma. Ef við til dæmis athugum þetta erindi úr síðarnefnda ljóðinu, þá erum við í vafa um hið rökræna samhengi:

Og einfættir dagar
hinna fjarvíddarlausu drauma
koma hlæjandi
út úr hafsaltri rigningu
eilífðarinnar.

Hér skiptir það mestu máli, að „skynja“ myndina í staðinn fyrir að reyna að „skilja“ hana. Hyggjum að svipuðum dæmum úr Tímanum og vatninu.

Níunda ljóðið hefur tekið að láni setningu frá bandarisku skáldkonunni Elinor Wylie: „Net til að veiða vindinn“. Þetta ljóð er súrrealistískt í anda:

Net til að veiða vindinn:

Flýjandi djúpfiski
hlaðið glæru ljósi
einskis.

Sólvængjuð hringvötn
búin holspeglum
fjórvíðra drauma.

Týnd spor undir
kvöldsnjó efans.

Net til að veiða vindinn:

Eins og svefnhiminn
lagður blysmöskvum
veiðir guð.

Eða upphaf tólfta ljóðs:

Eins og blóðjárnaðir hestar
hverfa bláfextar hugsanir mínar
inn um bakdyr eilífðarinnar.

Margt sannfærir okkur um tengsl Steins við nútíma myndlist, t.d. þetta erindi úr þriðja ljóði:

Á hornréttum fleti
milli hringsins og keilunnar
vex hið hvíta blóm dauðans.

Steinn notar oft litarorð í ljóðum sínum, einkum í Tímanum og vatninu. Hann yrkir um „hið hvíta blóm dauðans“, og það er alls ekki óforvitnilegt að huga nánar að litbeitingu hans. Athugum hvíta litinn í Tímanum og vatninu. Í fjórða ljóði er talað um „hvítan múrvegg“, í sjötta um „hvíta hönd“, í ellefta er hvolfþak hamingjunnar „úr hvítu ljósi hinnar fjarlægu sorgar fljótsins“, í fimmtánda um „sólhvítt ljós“, í sextánda um „gráhvítan veg“, í sautjánda um „hvíta birtu“ harmsins, í átjánda um „hvítan veg“ og „hvíta fregn“, í nítjánda „ullhvítan draum“ Hvíti liturinn táknar því sorg, fjarlægð og dauða. En ekki er það einhlítt fremur en annað í ljóðagerð Steins, því í Hús við Hávallagötu úr Ferð án fyrirheits, er „hið hvíta ljós, sem streymdi gegnum strætin“, hluti af „dýrð hins liðna dags.“

Í fjórtánda ljóði notar Steinn grænt á óvenjulegan hátt:

Ég hef gengið í grænum sandinum
og grænn sandurinn
var allt í kring um mig
eins og haf í hafinu.

Hvað á græni liturinn að tákna þarna? Skýringuna er ef til vill að finna í fyrstu ljóðlínunum: Sólskinið, stormurinn, hafið. Ströndin fyllir vitund skáldsins grænum lit hafsins, sem allt af er nálægt í Tímanum og vatninu. Sum litarorðin eru hlaðin djúptækum merkingum og leyndardómsfullum tilvísunum „vængbláar hálfnætur“, „bláfextar hugsanir“, „naglblá hönd“, „tálblátt regn“, „moldbúnar hendur“, „gljásvart myrkur“. Við könnumst við þetta úr öðrum ljóðum Steins, t.d. frá Sjálfsmynd úr Ljóðum, þar sem „mjólkurhvítt ljósið“ verður tákn umhverfis skáldsins. Aftur á móti eru hinir „gulbrúnu fuglar“, sem fljúga yfir „bláhvíta auðnina“, og blómin, sem teygja „rauðgul höfuð sín upp úr svartri moldinni“ í Vor úr sömu bók, fyrst og fremst myndræns eðlis. Táknræn merking þeirra liggur svo ljóst fyrir, að ekki þarf að velta henni fyrir sér. Guli liturinn er bundinn sólinni hjá skáldinu:

Sólin,
sólin var hjá mér,
eins og grannvaxin kona,
á gulum skóm.

Í sextánda ljóði persónugerist sólin einnig, myrkrið í sál skáldsins víkur skyndilega fyrir sólskini:

Ég sá sólskinið koma gangandi
eftir gráhvítum veginum,
og hugsun mín gekk til móts við sólskinið,
og sólskinið teygði ljósgult höfuð sitt
yfir vatnsbláan vegg.

Myndheimur Tímans og vatnsins er þó að sjálfsögðu ekki eingöngu bundinn við litaval, eins og tilvitnanir munu hafa sýnt, en orðalag eins og „dökkbrýnd gleði“, „dulkvik bára“, „blævængjaðir dagar“, „málmgerður fugl“, „ryðbrunnið myrkur“ „málmkynjað hjól“ vekur líka til íhugunar.

Árið 1942 skrifaði Steinn grein um Þorvald Skúlason í Helgafell, sem lýsti næmum og óvenjulega glöggum skilningi á þessum áhrifamikla listmálara. „Það sem fyrst og fremst einkennir list Þorvalds Skúlasonar, er hið einfalda og sterka“ segir Steinn:

Lítið borð við glugga, tvær sítrónur á borðinu, rauðbrún skál, hvítt ljós, hús hinum megin við götuna, það er allt í einu risið upp og farið að lifa lífinu sterkara og raunverulegra en nokkru sinni áður. — Og þó er það kannski ekki veruleikinn, heldur persónuleiki höfundarins, sem hefur tekið sér bústað í myndinni. Manni finnst maður aldrei fyrr hafa komizt svona nálægt hlutunum.

Í þessum orðum segir Steinn mikilvægan sannleik um sjálfan sig og viðleitni sína, t.d. í Tímanum og vatninu. Er ekki átjánda ljóðið dæmi um þá „dularfullu töfra“, sem Steinn minnist á í sambandi við list Þorvalds:

Tveir dumbrauðir fiskar
í djúpu vatni.
Dimmblár skuggi
á hvítum vegg.

Fjólublátt ský
yfir fjallsins egg.

Yfir sofandi jörð
hef ég flutt hina hvítu fregn.

Og orð mín féllu
í ísblátt vatnið
eins og vornæturregn.

Sjöunda ljóðinu verður heldur ekki lýst betur en með orðalagi eins og „dularfullum töfrum“; það er áreiðanlega eitt það fegursta, sem Steinn orti um ævina:

Himinninn rignir mér
gagnsæjum teningum
yfir hrapandi jörð.

Dagseldur, ljós,
í kyrrstæðum ótta
gegnum engil hraðans,
eins og gler.

Sofa vængbláar hálfnætur
í þakskeggi mánans,
koma mannstjörnur,
koma stjarnmenn,
koma syfjuð vötn.

Kemur allt,
kemur ekkert,
gróið bylgjandi maurildum,
eins og guð.
Guð.

Þetta ljóð ásamt níunda, fjórtánda, og sextánda ljóðinu, minnir ekki á terzinu; háttbundnu ljóðin eru þegar allt kemur til alls ekki yfirgnæfandi. Þögnin, sem gegnir svo stóru hlutverki i Tímanum og vatninu, breytist í nýstárlegustu ljóðum þess „í þungan samhljóm einskis og alls“, verður hið „þroskaða ax“ skáldskaparins, sem lyftir Tímanum og vatninu upp í veldi mikils skáldskapar. Ljóðið mun lifa áfram, bæði sem vitnisburður ástar og „óræður draumur“.

| Steinn Steinarr | Skáldasetur | © 2015–2024