Steinn Steinarr

Minningarorð eftir Sigurð A. Magnússon. Birtist í Morgunblaðinu 1. júní 1958

Lífsverk Steins Steinarr er ekki sérlega mikið að vöxtum, en í ljóðum hans flestum eru skýrari drættir frumlegs skapanda en í verkum flestra annarra ljóðskálda aldarinnar. Steinn átti það tvennt sem er hverju skáldi dýrmætast auk sjálfrar skáldagáfunnar: óbugandi hugrekki og algert sjálfstæði. Hann átti auk þess frjóa hugsun, auðugt ímyndunarafl og ríka formtilfinningu. Slíkir eiginleikar hlutu að leiða til afreka.

Í hugum okkar yngri manna verður Steinn Steinarr fyrst og fremst tákn nýs tíma í íslenzkri ljóðagerð, ekki endilega vegna þess að hann kæmi fram með nýstárlegri ljóð en t.d. Jóhann Sigurjónsson eða Jóhann Jónsson, heldur vegna þess að skáldið og verk hans runnu saman í eina heild sem reis fyrir sjónum okkar í mynd kröftugra andmæla gegn öllu, sem var venjubundið, gatslitið, fínt, snobbað og dautt. Steinn var jafngóður rímari og hver annar, enda fór hann ekki dult með það í ljóðum sínum; nýstárleiki hans er fólginn í því að þora jafnan að segja það, sem honum bjó í brjósti á þann hátt sem hann áleit sannastan, án fyrirfram gerðra útreikninga um viðbrögð fjöldans. Það var hin afdráttarlausa trúmennska Steins við sjálfan sig og list sína sem gerði hann stóran, þetta að hugsa fyrst um ljóðið og síðan kannski um lesandann. Slík afstaða er auðvitað eitur í beinum bæði fína fólksins og einsýnna boðbera endanlegra sanninda í hvaða mynd sem er.

Steinn Steinarr var ádeiluskáld, öreigaskáld, skopskáld, heimspekilegt skáld, abstrakt skáld og hvaða heiti önnur sem menn vilja hengja á hann en hann var framar öllu sjándinn og rödd hrópandans. Hann var nærgöngull af því honum lá mikið á hjarta; og af því honum lá mikið á hjarta, var það honum lífsnauðsyn að láta ekki staðar numið, finna sér ekki þægilegt bæli að skríða í, heldur leita linnulaust, skipta um skoðanir og sannfæringar, halda jafnan fram því sem sannara reyndist. Það eru ekki aðrir en stórir menn sem eiga slíka djörfung, að þeir fórna jafnvel félögum og vinum, ef því er að skipta, til að halda fast við sinn eigin sannleik.

Unga kynslóðin vottar Steini ekki virðingu sína og þakklæti vegna þess að hann hafi brotið gömul goð eða gert yngri skáldunum lífið léttara. Ef nokkuð er, hefur hann gert þeim lífið erfiðara, því hann hefur hækkað markið: krafizt algers heiðarleiks, hlífðarlausrar sjálfsögunar og ókvikullar hollustu við listina. Hann hefur „heimtað“ það af ungum skáldum að þeir séu ferskir, ekki vegna þess að það nýja sé ævinlega betra en hið gamla, heldur vegna þess að það er oftast ósviknara, sannara.

Sigurður A. Magnússon

Sigurður A. Magnússon

Sigurður A. Magnússon (F. 31. mars 1928. D. 2. apríl 2017) skrifaði fjölda bóka á íslensku og ensku, þar á meðal skáldsögur, ljóð, leikrit, ferðasögur, endurminningabækur, greinasöfn og bækur um íslenska hestinn. Fyrsta bók hans var ferðasagan Grískir reisudagar sem kom út 1953. Sigurður vann að kynningu íslenskra bókmennta erlendis og ritstýrði meðal annars sýnisbókum og þýddi ljóð íslenskra skálda. Hann þýddi einnig mikið úr dönsku, ensku, grísku og þýsku, þar á meðal verk eftir H.C. Andersen, Bertolt Brecht, Gíorgos Seferis, Pandelis Prevalakis, Walt Whitman, James Joyce, Nagíb Mahfúz, Kazuo Ishiguro, John Fowles og Ernest Hemingway.