Steinn Steinarr

Minningarorð eftir Ragnar Jónsson. Birtist í Morgunblaðinu 1. júní 1958

Hið dásamlegasta í lífinu og listinni er, að þar er allt nýtt, allir hlutir fara þar á annan veg en ætlað var. Og kannske er þessu eins farið í dauðanum.

Flestir menn mundu vafalaust fremur kjósa sér að deyja á sóttarsæng en farast í stríði eða slysum af öðru tagi. En sumir heimta að farast, en sætta sig ekki við að deyja, af því þeim finnst, að þá fyrst hafi þeir staðið í stöðu sinni gagnvart Guði og mönnum, er þeir héldu sig hverju sinni svo nálægt lífsháskanum, að örlög réðu hvort aldan skolaði þeim á land eða bar þá til hafs. Steinn Steinarr var einn þeirra stríðsmanna réttlætisins sem kaus að farast í úrslitaorrustunni um stöðu manngildisins í lífinu, en forlögin höguðu því þann veg, að hann dó fjarri þeim hættum, sem hann hafði alla tíð ögrað af svo staðföstu óttaleysi.

Ég kynntist Steini Steinarr hjá Erlendi í Unuhúsi, eins og mörgum öðrum jafnöldrum mínum úr hópi listamanna. Ég hafði þá aldrei áður þekkt mann, er mér virtist hafa jafnlitla möguleika til að brjótast til valda í heiminum. Hann var bókstaflega alls laus, og ekki hefi ég séð mann með veikari arm. En í Unuhúsi var einmitt griðastaður nafnlausra manna, og ekki siður að hnýsast í einkahagi þeirra, enda vissi enginn þar hvaðan Stein bar að landi né hvert för hans var heitið. En Steinn Steinarr, skáldsnillingur og herkonungur, vissi sjálfur yfir hvaða afli hann bjó, og hafði hiklaust veðsett sál sína og líf vegna þeirra, sem í svipinn urðu að beygja sig fyrir sömu óblíðu örlögunum og hann. Og hann vissi sig kallaðan til þess að breyta ásýnd heimsins vegna þeirra, fella úrskurð, sem erfitt var að áfrýja, um nýtt og gamalt, rétt og rangt.

Með sínum veika armi hefur Steinn Steinarr beygt járngrindur miskunnarleysisins, svo þær eru nú ekki mannheldar lengur, og enginn hefur hrópað hljómmeiri aðvörunarorð yfir hina bergmálslausu múra Kremlar en einmitt hann. En hann fékk ekki að beita sínum hvössu vopnum á leiðinni að síðasta áfangastað, eins og hann hafði óskað sér, ekki að farast í úrslitastríðinu um réttarstöðu manngildisins í lífinu vegna þess að vitjunartími hins nýja réttlætis var enn of fjarri fyrir svo tónvissan lúðurþeytara.

Ragnar Jónsson

Ragnar í Smára

Ragnar Jónsson (F. 1904. D. 1984) betur þekktur sem Ragnar í Smára var íslenskur atvinnurekandi og menningarfrömuður. Ragnar rak Smjörlíkisgerðina Smára og var ásamt því áhrifamikill maður í menningarlífi Íslendinga á 20. öld. Hann stofnaði bókaútgáfuna Helgafell árið 1942 sem gaf m.a. út verk Halldórs Laxness. Árið 1961 gaf Ragnar Alþýðusambandi Íslands málverkasafn sitt og lagði þannig grunninn að Listasafni ASÍ. Gjöfin innihélt 120 myndir eftir þekktustu listamenn þjóðarinnar. Í safninu voru m.a. verk eftir Ásgrím Jónsson, Gunnlaug Scheving, Jóhannes Kjarval og Nínu Tryggvadóttur.