Steinn Steinarr og myndlistin

Ljóð Steins Steinarr og persónan Steinn hafa frá fyrstu tíð haft sérstakt aðdráttarafl fyrir íslenska myndlistarmenn. Steinn hafði ætíð mikinn áhuga á öllum listgreinum og gerði sér far um að fylgjast vel með hvað var að gerast í listaheiminum. Samstarf hans við myndlistarmennina Nínu Tryggvadóttur, Louisu Matthíasdóttur og Þorvald Skúlason er vel þekkt. Fjölmargir listamenn hafa síðan myndskreytt bækur hans, ljóð eða hljóðdiska eftir að hann féll frá eða sótt innblástur í ljóð hans eða persónuna sjálfa.