Sjón

Sigurjón Birgir Sigurðsson (Sjón) er fæddur í Reykjavík árið 1962. Hann hóf rithöfundarferil sinn ungur sem ljóðskáld, fyrsta ljóðabók hans, Sýnir, kom út 1978 en fyrr sama ár gaf hann út einblöðung með þremur ljóðum. Sjón var einn af stofnendum súrrealistahópsins Medúsu.

7

Himinninn rignir mér
gagnsæjum teningum
yfir hrapandi jörð.

Dagseldur, ljós,
í kyrrstæðum ótta
gegnum engil hraðans,
eins og gler.

Sofa vængbláar hálfnætur
í þakskeggi mánans,
koma mannstjörnur,
koma stjarnmenn,
koma syfjuð vötn.

Kemur allt,
kemur ekkert,
gróið bylgjandi maurildum,
eins og guð.

Guð.

Í sjöunda ljóði Tímans og vatnsins birtast einna sterkast áhrif vísinda og vísindaskáldskapar á hinn torskilda en afar fagra ljóðaflokk Steins Steinarr. Verkið býr yfir dulúð og leyndardómi sem aldrei verður hægt að nálgast og í því liggur hin sígilda staða þess. Ljóðin virðast láta margt uppi í skýrri fegurð textans og myndanna sem þar eru dregnar upp en „hin raunverulega“ merking þeirra er horfin lesendanum líkt og merking ævaforns skáldskapar fallinna siðmenninga er okkur glötuð. Munurinn er sá að hér var það eitt einasta skáld sem hvarf á braut með lyklana og ekki fyrir svo löngu.

Einnig má segja að andspænis ljóðum Tímans og vatnsins standi maður jafn agndofa og andspænis nýjustu sjónaukaljósmyndum úr ofurdjúpum geimins. Og þykir mér það sérstaklega eiga við sjöunda ljóðið. Við getum ekki hugleitt það of lengi í einu líkt og við getum ekki horft á ljósmynd af fæðingu sólkerfanna of lengi. Um leið og tekur að örla á skilningi á þeim í huga okkar erum við samtímis komin hættulega nærri því að sturlast. En þegar hættustiginu er næstum því náð má alltaf leggja frá sér ljóðið eða myndirnar og skoða það aftur seinna — aftur og aftur seinna.