Og veistu það, að þú ert ekki til

Um hinn þunglynda léttleika Steins Steinarr – eftir Dagnýju Kristjánsdóttur. Andvari, 134. árg. 2009

Einhverra hluta vegna hefur mér þótt afar erfitt að hitta ljóð Steins Steinarr aftur eftir nokkurn aðskilnað. Mér fannst eins og ég hefði bæði breyst, elst og mæðst og ljóðin kannski líka. Árum saman kenndi ég erlendum stúdentum ljóð Steins og þau höfðuðu til þeirra því ungt fólk laðast að ljóðum Steins. Ljóðin sem nemendum fundust best voru hin svokölluðu heimspekilegu ljóð Steins sem fjalla um dauðann, tómið og tilvistarkreppur ýmiss konar. Þetta eru ljóð eins og L’homme statue:

Ég stóð á miðju torgi,
ég var tákn mín sjálfs
og fólkið starði og starði.

Það þokaði sér nær mér
og þekkti mig til hálfs,
svo fór það fyrr en varði.

Mitt leyndarmál er auður,
sem ég lét því ekki í té:

Ég er lifandi, og dauður.1Vísað er til ljóða Steins í heildarsafninu Steinn Steinarr. 1964. Kvæðasafn og greinar. Inngangur eftir Kristján Karlsson. Reykjavík. Helgafell.

L’homme statue eða Mannstyttan er byggt upp kringum magnaðar andstæður; „Ég“ er tákn mitt en táknið er alltaf klofið og ég get ekki verið bæði táknmyndin og táknmiðið sem hún vísar til — aðeins guð er guð. Ég er þannig tákn einhvers eða tákn um eitthvað en fólkið veit ekki um hvað og því kemur það nær til að gá. Það myndi ekki gera það ef ég væri venjulegur maður en ég er það ekki, ég er ekki aðeins tákn heldur líka stytta og ekki nóg með það heldur er ég lifandi stytta. En það vita menn ekki. Þeir halda að ég sé dautt efni en það er ég ekki. Fólkið heldur að það sjái mig allan en það gerir það ekki. Ég sé hins vegar allt. Þetta ljóð er bæði djúpt og grunnt. Um sumt minnir það á feluleik („týndur fundinn“) og það er líka fólgin í því nokkur sjálfshafning þar sem ég veit meira en fólkið en kýs að deila leyndarmáli mínu ekki með því.

Þetta sjónarspil höfðar mjög til unglinga sem hafa ekki mótaða sjálfsmynd og eru í hröðu breytingaferli. Unglingurinn er „opið kerfi“ í þeim skilningi að líkaminn minnir stöðugt á sig, hvatirnar losna úr læðingi og verða knýjandi vandamál, yfirsjálfið er ekki stöðugt og margir bjóða sig fram og vilja taka stöðu þess í lífi unglingsins; einstaklingar, hugmyndakerfi eða vímuefni af ýmsu tagi.2Julia Kristeva. 1990. „The Adolescent Novel“ í John Fletcher and Andrew Benjamin (ritstj.): Abjection, Melancholia and Love. London. Routledge. Bls. 8. Leyndarmál unglinga eru oftast tengd hvötum og kynferði og ótti þeirra við hin fljótandi mörk, lokkandi og ógnandi í senn, laðar þá að ljóðum Steins og það gerir líka þunglyndislegur undirtónn þeirra. Við elskuðum þessi ljóð á sjöunda og áttunda áratugnum. En við hefðum kannski ekki valið Stein sjálf, hann hafði verið valinn fyrir okkur af kennurum okkar og/eða vinum og fyrirmyndum sem héldu honum að okkur. Á þeim tíma var búið að „kanónísera“ hann og gefa honum eitt af hásætunum í hefðarveldi módernismans.

Hin heimspekilegu ljóð Steins voru hins vegar hreint ekki talin djúp, dulúðug eða merkileg af samtíðarmönnum hans þegar þau voru að koma út kringum 1940. Silja Aðalsteinsdóttir rekur viðtökurnar við ljóðum Steins í fimmta bindi Íslenskrar bókmenntasögu Máls og menningar og þar kemur fram að mörgum þótti fjórða bók Steins, Ferð án fyrirheits, óttalega þunn.3Silja Aðalsteinsdóttir. 2006. „Og veistu það, að þú ert ekki til.“ í Guðmundur Andri Thorsson (ritstj.). Íslensk bókmenntasaga. V. bindi. Reykjavík. Mál og menning. Bls. 30–31. Magnús Ásgeirsson segir að þessi ljóð tjái háspekilega tómhyggju og óbeint kemur fram að honum líkuðu gömlu ljóðin betur. Kristinn E. Andrésson segir að í þessari bók glími Steinn við heimspekileg efni en alltaf á persónulegum forsendum og því „komist hann vitanlega fyrr en varir í rökþrot.“ Bjarni frá Hofteigi varar fólk við að nota hugtök eins og heimspeki í tengslum við Stein og segir að hin svokölluðu heimspekilegu ljóð hans séu „rýr í roðinu og hafi ekkert sannleiksgildi út fyrir höfund sinn.“4Sama rit. Bls. 30.

II

Sú kynslóð sem átti eftir að halda ljóðum Steins hæst á lofti var kynslóðin sem kenndi sig við hina nýju gagnrýni eða nýrýnina. Nýrýnin kom upp sem andóf gegn yfirþyrmandi áherslu fyrstu áratuga aldarinnar, einkum kreppuára fjórða áratugarins, á samfélagslegt og pólitískt hlutverk bókmennta. En hluti af andófi nýrýnenda beindist líka gegn vaxandi hylli fjöldaframleiddra bókmennta, þar á meðal ástarkveðskap og hefðbundnum ættjarðarljóðum sem almenningur elskaði, keypti og las. Slíkri vöruvæðingu ljóðlistarinnar og yfirborðsmennsku vildi hin nýja gagnrýni mótmæla og hún var þannig hluti af því sem bandaríski bókmenntafræðingurinn Andreas Huyssen hefur kallað: „The great divide“ eða „Skilin miklu“ sem urðu um miðja öldina vestanhafs og austan milli afþreyingarbókmennta og fagurbókmennta, fjöldans og fílabeinsturnsins.5Andreas Huyssen. 1986. After the Great Divide. Modernism, Mass Culture, Postmodernism. Bloomington and Indianapolis. Indiana University Press. Bls. 163–168.

Nýrýnin kom fram á fimmta áratugnum með rætur í þeim þriðja og hún hyllti „hið hreina ljóð“ sem virti engar aðrar skyldur en skylduna við ljóðlistina. Engar ytri aðstæður eða hugmyndafræði áttu að hafa áhrif á ljóðið sem væri lokaður heimur og sjálfu sér nægt. Eins og bent hefur verið á taldi nýrýnin fagurfræði sína hafna yfir hugmyndafræði en í raun gengu forvígismenn hennar út frá forsendum frjálslyndrar mannhyggju þar sem valfrelsi einstaklingsins er ekki dregið í efa, mismunandi skerðing á því valfrelsi vegna efnahags, kyns eða stéttar skipti ekki máli og dónaskapur að draga það tal inn í siðprúðar vistarverur ljóðsins. Nýrýnin sagði að fyrsta og eina hlutverk ljóðsins væri að veita viðnám gegn óreiðu og upplausn heimsins, fanga eitthvað í flugi þess eða flæði og fella það í form. Skáldið Archibald MacLeish er sennilega ekki frægt fyrir neitt annað en að segja: „A Poem shouldn’t mean. But be.“ („Ljóð á ekki að merkja neitt. Það á að vera“) og það spakmæli tekur Steinn Steinarr upp og notar sem einkunnarorð að fyrstu útgáfu Tímans og vatnsins. Í þessum ummælum MacLeish felst að ekki er hægt að endursegja ljóðið, merking þess felst í formi þess, þversögnum, andstæðum og íroníu.6Þorsteinn Þorsteinsson. 2008. „not mean but be …“ í Lesbók Morgunblaðsins. 11. október.

Eftirlætisform nýrýninnar var þversögnin af því að hún nær að sameina skapandi undrun annars vegar og íroníuna hins vegar eða eins og Cleanth Brooks (1906–1994) sagði: „Þessi sameining er ekki rökræn, hún hunsar augljóslega bæði vísindin og heilbrigða skynsemi, hún fellir saman það sem ekki á saman og sýnir þversagnir í lífi okkar.“7Hans Bertens. 2008. Literary Theory. The Basics. London. Routledge. Bls. 18.

Þau ljóð Steins sem eru byggð yfir þversagnir og íroníu skipta tugum. Í Sjálfsmynd málar ljóðmælandinn mynd af sér eða sínu sanna sjálfi á vegg en enginn sér þá mynd því það er málað jafnharðan yfir hana. Myndir eru málaðar til hálfs, fólk skilur þann sem talar til hálfs en í fjölmörgum ljóðum er ekki einu sinni þetta skilningsleysi því að það er ekkert líf. Í ljóðinu Atlantis er siglt „Áfram, áfram í auðn og nótt.“ og í Kvæðinu um veginn er „auðn og myrkur á allar hliðar og enginn vegur“ og í Skóhljóði er allt löngu dáið og þú vakir einn yfir líki heimsins. Þögnin togar þannig í ljóðið strax í annarri ljóðabókinni Ljóðum frá 1937.

Í Ljóði án lags er brjóst ljóðmælandans fullt af söng en þó hann gráti og biðji og tjái allar sínar tilfinningar kemur hann ekki upp hljóði og enginn heyrir til hans. Í Sulti hrópar ljóðmælandinn á miskunn en fólk gengur framhjá honum brosandi og heyrir ekki í honum. Í Orðum ræðst svo orðið, sem enginn vill heyra, á viðfangið eitt haustkvöld og umlykur það: „Svo veistu það loks: Þú ert lokaður inni. Mitt vængjaða orð, sem þú vildir ei heyra, er vaxið utan um líf þitt og sleppir þér ekki.“

Formin leysast upp, eitthvað sem gæti afmarkað ljóðmælandann leysist upp og hann veit ekki hvort hann er sá sem lifir eða hinn sem dó, hvort hann er hafið eða hafið hann og þessi algjöra, gráa einsemd birtist vel í ljóðinu Götuvísu:

Í múrgrárri auðn
undir mánans sigð
geng ég.
Ekkert líf,
ekkert hljóð, ekki visnandi blað,
ekki blaktandi strá.
Ekkert
nema ég
í múrgrárri auðn
undir mánans sigð.
Og ekkert er til nema ég.

Það er ekki erfitt að fyllast innilokunarkennd yfir þessum ljóðum þar sem ljóðmælandinn getur ekki gert sig skiljanlegan og annað fólk heyrir ekki til hans og sér hann ekki og veit ekki að hann er til og rökrétt framhald er spurning hans: Er ég til? Efinn og þessi spurning endurspeglast líka í því að fyrsta og önnur persóna skiptast oft á í ljóðunum, ljóðmælandinn virðist ávarpa sjálfan sig eins og til að skapa ópersónulegri nálgun, kljúfa sig og deila hinu persónulega innihaldi eða færa það yfir á tilbúinn „hinn“ eða gerviviðmælanda eins og í ljóðinu Svartlist sem lýsir því hvernig sá sem ávarpaður er kemur inn í herbergi eða kannski grafhýsi og ljóðinu lýkur á þessum orðum:

Ei framar neinn þér flytur kulda og yl,
né flekar þína hönd til starfs og iðna.
Og veistu það, að þú ert ekki til,
og þetta, sem þú sérð, er skuggi hins liðna.

Ef enginn er eftir í heiminum, hver er það þá sem ávarpar þann nýkomna og segir honum að hann sé ekki til?

III

Í ljóðaveröld Steins eru óskýr mörk milli veruleika og fleiri skuggar á hellisveggnum en hjá Platon sjálfum. Ljóðið Myndlaus kallast raunar á við hellismyndhverfingu hans í þessum orðum: „Ó, þú og ég, sem urðum aldrei til. Eitt andartak sem skuggi flökti um vegg birtist sú mynd, sem okkur ætluð var.“ Í ljóðabókinni Ferð án fyrirheits frá 1942 endar fyrsta ljóð bókarinnar svo: „Og ég var aðeins til í mínu ljóði.“ Ljóðið lykst sem sagt utan um „mig“ eða „þig“ eins og hulstur úr orðum en stundum er hulstrið úr steini, stundum er hulstrið sem lykst utan um eitthvað úr myrkri, stundum er það draumur en stundum brunnur. Í ljóðinu Etude segir svo:

Mitt hjarta er eins og brunnur
bak við skíðgarð ókunns húss
í skjóli hárra trjáa.

Og löngu seinna mun þér reikað verða
í rökkurmóðu einhvers liðins dags
að þessum stað.

Og þú munt sjá þig sjálfan
sem lítið, saklaust barn
á botni djúpsins.

Þetta litla saklausa barn sem hvílir á botni brunnsins er bæði lifandi og dáið og í þessu ljóði koma saman óteljandi þræðir úr öðrum ljóðum Steins. Þar er nrinning tengd sorg og missi, og þessi „Hlutur“ er lokaður inni í grafhvelfingu í brjósti ljóðmælandans. Þetta myndmál er vel þekkt úr þunglyndisfræðum, einkum kenningum búlgarsk-franska bókmenntafræðingsins og sálgreinandans Júlíu Kristevu sem sækir það upphaflega til kenninga Abrahams og Mariu Torok. Í bókinni Svört sól. Um geðdeyfð og þunglyndi lýsir Kristeva þunglyndinu eða melankólíunni sem sorg án viðfangs, sorg yfir „engu“, einhvers konar grundvallarvöntun eða skerðingu á sjálfsverunni. Þetta þunglyndi er til marks um eldgamalt, narsískt sár sem hefur orðið til í sjálfsverunni áður en fyrsta viðfang hennar afmarkaðist og þess vegna getur hún ekki tengt missi sinn við neitt eða neinn. Sorgin verður þannig viðfang í sjálfri sér, eina viðfangið sem hinn þunglyndi á og hefur.8Julia Kristeva. 2008. Svört sól. Geðdeyfð og þunglyndi. Ólöf Pétursdóttir þýddi. Reykjavík. Bókmenntafræðistofnun Háskóla íslands. Bls. 61–64. Og hann gætir þess vel og lokar það inni í grafhýsi í sálinni, hlúir að því og passar að enginn komist að því úr því að hann gerir það ekki sjálfur. Og ef til vill er ekkert þarna inni.

Ég geng í hring
í kringum allt, sem er.
Og innan þessa hrings
er veröld þín.

Minn skuggi féll um stund
á gluggans gler.

Ég geng í hring
í kringum allt, sem er.
Og utan þessa hrings
er veröld mín.

Oft hefur ljóðlist Steins Steinarr verið kennd við tilvistarstefnu Jean-Paul Sartre. Það gerir Silja Aðalsteinsdóttir meðal annars í grein sinni um Stein í Skírni 1981. Í meginriti sínu Verunni og neindinni fjallar Sartre um neikvæðnina sem liggur til grundvallar baráttunni fyrir merkingu. Hann segir: „Tómið hefur hringað sig saman í hjarta verunnar eins og ormur“.9Jean-Paul Sartre. 1993. Being and Nothingness. An Essay on Phenomenological Ontologi. London. Routledge. Bls. 21. Á þennan hátt hefur „tómið“ verið tekið inn í hugveruna eins og Sartre hugsar sér hana og hvað eftir annað dregur hann upp mynd af harðvítugri baráttu verunnar gegn neindinni sem hann vill að við vitum af en verjumst með ráðum og dáð. Sá sem ekki notar frelsi sitt til þess er „í vondri trú“.

Það eru ákveðin líkindi milli tilvistarstefnunnar og þunglyndisins sem áður var lýst, hvort tveggja býr yfir innsæi í þann aðskilnað og missi sem liggur sjálfsverunni til grundvallar. En viðbrögðin við þessu innsæi eru ólík. Sá þunglyndi lifir í missi sínum og neitar að gera hann fjarlægan með því að tala um hann. Sá þunglyndi trúir ekki á táknið, tungumálið. Hann afneitar því ekki aðeins einu sinni, hann afneitar því tvisvar. Hann viðurkennir ekki missi sinn og afneitar því að hann hafi fengið tungumálið sem uppbót fyrir eitthvað sem hann hafi aldrei misst. Hinn þunglyndi getur talað mikið og hlegið hátt en orðræða hans kemur oft upp um sig af því að það vantar í hana dýpt og hófstillingu og sátt, hún sveiflast eins og vanstilltur taktmælir, gengur of hratt eða of hægt, hinn þunglyndi hefur tilhneigingu til að segja „alltaf færri og færri orð“.10Dagný Kristjánsdóttir. 1996. Kona verður til. Um skáldsögur Ragnheiðar Jónsdóttur fyrir fullorðna. Reykjavík. Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands. Háskólaútgáfan. Bls. 215–221. Og við sjáum þá tilhneigingu vaxa hjá Steini frá bók til bókar.

Í Ferð án fyrirheits eru ljóð sem ekki eru aðeins byggð upp kringum þversagnir heldur tvöfalda þau neitunina eins og í ljóðinu Tveir skuggar sem endar svo:

Ég horfði daglangt út um opinn glugga,
og fjarlæg rödd mér barst með blænum inn:
Þú, sem ert hér, skalt hverfa í heimsins skugga,
og heimurinn skal hverfa í skugga þinn.

Þú hverfur í skugga heimsins og heimurinn hverfur í skugga þinn. Hvað gerist? Svarið er: ekkert. Ekkert hefur gerst. Þetta er tilbrigði við stílbragð sem heitir „chiasmus“ eða krossbragð og byggist á því að a verður b og b verður a, en það stílbragð kemur nokkuð oft fyrir í biblíumáli og við þekkjum orðskviði komna þaðan eins og: „Og margir verða þeir seinastir sem eru fyrstir og þeir fyrstir sem seinastir eru.“11Íslensk stílfræði. 1994. Þorleifur Hauksson (ritstj.) og Þórir Óskarsson. Reykjavík. Mál og menning. Bls. 153 og 369. Í dæmi Steins hnykkir endurtekningin ekki á fyrri fullyrðingunni eins og í biblíudæminu heldur afneitar henni og tekur hana aftur: Þú sem ert hér, skalt hverfa í heimsins skugga, og heimurinn skal hverfa í skugga þinn. Annað dæmi um þetta er í ljóðinu Ástinni og dauðanum:

Þótt hjartað ei hamingju fyndi,
hún hlotnast því eitthvert sinn,
því dauðinn er ást þín og yndi,
og ástin er dauði þinn.

Eða í ljóðinu Heimurinn og ég:

Nú ölum við ei lengur beiskju í barmi
né byrgjum kala neinn í hjörtum inni,
því ólán mitt er brot af heimsins harmi,
og heimsins ólán býr í þjáning minni.

Bókmenntirnar líkja eftir og sýna okkur tilfinningar sem eru of hættulegar til að við getum farið eftir þeim í lífi okkar, segir Júlía Kristeva. Bókmenntirnar leyfa okkur að upplifa yfirhvarf (transgression) í táknrænu formi, þær sjálfar eru ekki þetta yfirhvarf en geta endurskapað það í okkur, opnað sálarkirnur hjá lesandanum þannig að hann þekki aftur hrun múranna og markanna. Barátta hins þunglynda texta er hins vegar ekki aðeins barátta við að tákna hið innra tóm eða „Hlutinn“, heldur er textinn bundinn honum tryggðaböndum og vill ekki svíkja hann.12Julia Kristeva. 2008. Svört sól. Bls. 103–105. Þögnin togar í textann. Ef til vill má lýsa þessum ljóðum Steins eins og loftmössum sem lýstur saman svo að í ljóðunum verður innsprenging, þau þagna, lofttæmast, breytast í einn vatnsdropa eða eitt titrandi tár.

IV

Hvað hefur svo áunnist með þessum þunglyndislega lestri á ljóðum Steins Steinars? Er ég að „sjúkdómsvæða“ Stein, bæta þunglyndi ofan á alla þá sjúkdóma sem fyrir voru — og var þó varla á bætandi? Ég tel mig satt að segja ekki hafa sagt hér eitt einasta orð um geðheilbrigði Steins Steinarr og alls ekkert um samband þeirra Etilríðar, móður hans. Og ég veit ekki hvort hið þunglyndislega grunnmynstur sem ég hef talað um og stígur æ skýrar upp úr verkum hans kom innan frá eða hvort það var ein af fjölmörgum sjálfs-sviðsetningum Steins Steinars. Hvort heldur var saug baráttan við það kannski til sín lífskraftinn úr ljóðum hans.

Þunglyndið var tímanna tákn á eftirstríðsárunum, það voru erfiðir tímar og engin tilviljun að kenningar eins og tilvistarstefna Sartre komu fram sem eftirmálar styrjaldarinnar. Þunglyndi var í tísku og tískan reynir venjulega að velja eitthvað úr því gamla og setja það fram með hávaða eins og það sé nýtt og hafi aldrei áður sést. Steinn Steinarr vakti sterkar tilfinningar samtímamanna sinna, goðsagnagerð um hann var mikil og mögnuð á sínum tíma og hvað eftir annað kölluðu samtímamenn hans hann „séní“ eða snilling. „Séní“ eru ekki eðlileg og þau geta ekki samið sig að háttum almennings. Þeir sem ekki geta samið sig að háttum almennings þurfa þó ekki að vera séní.

Í bókinni Afbrigðileiki ljóðsins segir Dino Franco Felluga að hugmyndir nítjándu aldarinnar um skáldsnillinginn hafi stótt mikinn styrk til Byrons lávarðar. Hann hafi jafnframt verið ótæmandi uppspretta hugmyndanna um hið þversagnakennda og hættulega skaplyndi rómantíska skáldsins sem fram kemur í lýsingu Lafði Karolínu Lamb á Byron en hún sagði að hann væri „mad, bad and dangerous.“ En eins og fram kemur hjá Felluga var þetta rómantíska séní ekki aðeins demónískt eða djöfullegt öðrum þræði — það var líka sjúklegt. Rómantíska tímabilið var fyrsta tímabilið sem tengdi saman ljóðlistina og hið veika, sjúka og afbrigðilega sem afmarkaði rými skáldsins og varð smám saman óaðskiljanlegt frá sköpun hans.13Dino Franco Felluga. 2005. The Perversity of Poetry. Romantic Ideology and the Popular Male Poet of Genius. New York. State University of New York Press. Bls. 13–32.

Eftirstríðsárin voru tímabil deiglu og umbreytinga þar sem nútíminn nálgaðist þöndum seglum en ýmislegt úr gömlu rómantíkinni lifði góðu lífi í nýjum búningi. Ég held að goðsagnirnar og sjálfs-sviðsetningarnar sem tengdust Steini Steinarr í lifanda lífi séu tvíeggjað sverð. Það myndi áreiðanlega hjálpa okkur til skilnings á list hans að hætta að setja hann á stall og viðhalda goðsögunum um hann. Því fyrr sem við byrjum að skoða ljóð hans í samtali við allt milli himins og jarðar og njóta þessara ljóða í sinni leikrænu þjáningu og vonlausu baráttu, þeim mun betra.

Dagný Kristjánsdóttir

Dagný Kristjánsdóttir (F. 19. maí 1949) er prófessor í íslenskum nútímabókmenntum við Íslensku­- og menningardeild Háskóla Íslands. Sérsvið hennar eru íslensk bókmenntasaga, kvennabókmenntir, barnabókmenntir, kynjafræði og sálgreining. Hún hefur hlotið ýmsar viðurkenningar og tilnefningar: Tilnefning til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki fræðibóka fyrir Kona verður til, 1996. Fulbright fræðimaður við Háskólann í Santa Barbara, Californiu 2000–2001. Tilnefning til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki fræðibóka fyrir Bókabörn, 2015. Viðurkenning Samtaka móðurmálskennara fyrir framlag Dagnýjar til rannsókna, kennslu og fræðastarfa í þágu barna- og unglingabókmennta, heima og á alþjóðlegum vettvangi, 2018.

Tilvísanir

1. Vísað er til ljóða Steins í heildarsafninu Steinn Steinarr. 1964. Kvæðasafn og greinar. Inngangur eftir Kristján Karlsson. Reykjavík. Helgafell.
2. Julia Kristeva. 1990. „The Adolescent Novel“ í John Fletcher and Andrew Benjamin (ritstj.): Abjection, Melancholia and Love. London. Routledge. Bls. 8.
3. Silja Aðalsteinsdóttir. 2006. „Og veistu það, að þú ert ekki til.“ í Guðmundur Andri Thorsson (ritstj.). Íslensk bókmenntasaga. V. bindi. Reykjavík. Mál og menning. Bls. 30–31.
4. Sama rit. Bls. 30.
5. Andreas Huyssen. 1986. After the Great Divide. Modernism, Mass Culture, Postmodernism. Bloomington and Indianapolis. Indiana University Press. Bls. 163–168.
6. Þorsteinn Þorsteinsson. 2008. „not mean but be …“ í Lesbók Morgunblaðsins. 11. október.
7. Hans Bertens. 2008. Literary Theory. The Basics. London. Routledge. Bls. 18.
8. Julia Kristeva. 2008. Svört sól. Geðdeyfð og þunglyndi. Ólöf Pétursdóttir þýddi. Reykjavík. Bókmenntafræðistofnun Háskóla íslands. Bls. 61–64.
9. Jean-Paul Sartre. 1993. Being and Nothingness. An Essay on Phenomenological Ontologi. London. Routledge. Bls. 21.
10. Dagný Kristjánsdóttir. 1996. Kona verður til. Um skáldsögur Ragnheiðar Jónsdóttur fyrir fullorðna. Reykjavík. Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands. Háskólaútgáfan. Bls. 215–221.
11. Íslensk stílfræði. 1994. Þorleifur Hauksson (ritstj.) og Þórir Óskarsson. Reykjavík. Mál og menning. Bls. 153 og 369.
12. Julia Kristeva. 2008. Svört sól. Bls. 103–105.
13. Dino Franco Felluga. 2005. The Perversity of Poetry. Romantic Ideology and the Popular Male Poet of Genius. New York. State University of New York Press. Bls. 13–32.