Steinn í farangrinum

eftir Steinunni Sigurðardóttur. Birtist í Aldarminning Steins Steinarr — Lesbók Morgunblaðsins 2008

Það eru góð ráð dýr þegar fjórtán ára manneskja ætlar út í heim í fyrsta skipti, til heillar sumardvalar, og ekki vegur að skiljast við ljóð Steins Steinarr. Frekar en hætta á yfirvigt hjá tveimur flugfélögum er gripið til þjóðaríþróttarinnar og afritað í stórum stíl. Það þurfti reyndar ekki að skrifa þetta allt upp, því ljóðin voru blýföst í minninu: Tíminn og vatnið, Í draumi sérhvers manns, Undir hundruðum járnaðra hæla, Mitt hjarta er fullt af mjúku svörtu myrkri, og miklu fleiri. En tilhugsunin um að minnið færi að víkja við orði að eigin vild er svo neikvæð að ekki verður hætt á slíka ónákvæmni.

Sumarið ’65 varð nokkurs konar sumarhermir, sem fór ekki fram á sínum stað, í kvennaskóla nálægt Interlaken í Sviss, heldur varð það sumarið í slagtogi við Stein þar sem ljóðin voru deklameruð út í óraunveruleika Alpanna. Það var tiltölulega lítið púður og klénn veruleiki í næstfrægustu tindum heimsins, Eiger, Mönch og Jungfrau, útum gluggann, miðað við þá staðreynd að „rödd þín flýgur upp af runni hins liðna/eins og rautt ljós“. Eða þá bjargfastur „óvæður ós“ úr sama ljóði í Tímanum og vatninu. Við þann ós mátti lengi hinkra þótt Sviss liggi alls ekki að sjó.

Kúabjöllur að morgni í svefnrofum og súrefnisbláma. Það er vinsælt að lifa sig inn í þann skáldlega hljóm, en fyrir fimmtán ára manneskju með Stein í farangrinum var kliðurinn úr þessum náttúrubjöllum ekki annað en hljóðaglundur — sem breyttist þá fyrst í draumkennt og ljóðrænt efni þegar „… sólin var hjá mér eins og grannvaxin kona á gulum skóm“. Skiptir ekki máli að konur á svoleiðis litum skóm eru sennilegar til að halda sig annars staðar en kringum kýr og það sem þeim fylgir. Meðan tíðin verður tvenn og þrenn verður það sérstaklega dýrmætt að geta slegið upp í sögu sálarinnar þegar Ljóðasafn Steins Steinarr er opnað, að rifja upp hvað söng í sálinni um það leyti sem lífið SJÁLFT var að byrja við óvæðan ós í landi sem liggur ekki að sjó:

Ó sláðu hægt mitt hjarta
og hræðstu ei myrkrið svarta …

Þennan tímann með Ljóðasafni Steins Steinarr verð ég sérstaklega hugsi yfir vegalengdinni milli höfuðskáldsins Steins og þess hjartaskálds sem hann var mér sumarið ’65. Um leið er hann tveggja tíma skáld, sem magnar ljóðræna spennu í dansinum á hengibrúnni milli tímanna. Og hann er fremur en önnur tuttugustu aldar ljóðskáld á Íslandi (þó hugsanlega í harðri samkeppni við barnakennarann sinn, Jóhannes úr Kötlum) jafnvígur á hefðbundinn kveðskap og framtíðarskáldskap. Steinn er í rökvísri kaldhamraðri ádeilu verðugur arftaki BóluHjálmars þegar best lætur (en í ljóðinu um hann kallar Steinn sig „forsmáð skáld að sunnan“), um leið og hann fer fram úr íslenskum samtímaskáldum í myndrænni abstrakt hugsun með Tímanum og vatninu, fyrst útgefnum árið 1948.

Sofa vængbláar hálfnætur
í þakskeggi mánans,
koma mannstjörnur,
koma stjarnmenn,
koma syfjuð vötn.

Það er um langan veg að fara yfir í gömlu aðferðina, úr smiðju Bólu-Hjálmars:

Og smæð mína og einstæðingsskap eins og forðum ég finn,
en flokkurinn situr sem virðuleg heldri kona,
með spánnýja skotthúfu á höfði og hönd undir kinn,
á húsmóðurstólnum í dagstofu Jensessona.

(Lokaerindi úr EIN SORGLEG VÍSA um Sósíalistaflokkinn og mig)

Sumarið ’65 með Steini var dimman í ljóðum hans tilvonandi manneskju sérlega hugleikin, en með tímanum verður hann ekki síður skáld ljóssins — og þó kannski umfram allt skáld skugganna, með flöktandi hitastigi milli kaldhæðni og hlýju. Í þeim anda, þetta þrennt úr dýrmætum farangrinum:

Mín þjáning er svo dimm og dauðahljóð
sem draumlaus svefn að baki alls er lifir.

Hið sólhvíta ljós
og hinn suðandi kliður eru systkini mín

Ég horfði daglangt út um opinn glugga
og blærinn strauk mér hægt um heita kinn.
Mitt auga leit tvo annarlega skugga,
annar var skuggi heimsins, hinn var minn.

Steinunn Sigurðardóttir

Steinunn Sigurðardóttir (F. 26. ágúst 1950) er íslenskur rithöfundur og ljóðskáld. Hún hlaut m.a. Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 1995 fyrir skáldsögu sína Hjartastaður. Foreldrar hennar eru Sigurður Pálsson og Anna Margrét Kolbeinsdóttir. Steinunn útskrifaðist úr Menntaskólanum í Reykjavík 1968 og lauk heimspeki- og sálfræðinámi við University College í Dyflinni 1972. Hún gaf út sína fyrstu ljóðabók aðeins 19 ára gömul. Bækur hennar hafa verið þýddar á fjölda tungumála. Frönsk kvikmynd byggð á sögu hennar Tímaþjófnum kom út árið 1999.