Veglaust haf

eftir Matthías Johannessen. Birtist í Aldarminning Steins Steinarr — Lesbók Morgunblaðsins 2008

Mér er nær að halda að enginn hafi skilið Tímann og vatnið til fulls. Flokkurinn er að vísu hlaðinn skírskotunum sem eru eins konar vörður til skilnings á þessu dularfulla ljóði sem er byggt yfir frumatriði mennskunnar, vizku og fegurð. Sagt hefur verið að við séum ekki fædd manneskjur, heldur breytumst við úr manndýri í manneskju með menntun og siðmenningu.

Tíminn og vatnið fjallar um þessa mennsku, þessa fegurð og þessa ástríðufullu leit að vizku. Áferð kvæðisins og ljóðrænn músíkalskur tónn þess ýtir undir það einstæða tilfinningalega flæði sem var algjör nýjung í íslenzkum bókmenntum á sínum tíma.

Eina leiðin til að upplifa Tímann og vatnið er afsal röklegrar hugsunar, þ.e. með tilfinningaskilningi ef svo mætti að orði komast.

Sem sagt, kvæðið er á næstu grösum við tónlist sem enginn gerir kröfu til að skilja. Að vissu leyti voru dróttkvæðin skilin þessum skilningi og því nauðsynlegt að mæla þau af munni fram til að opna leyndardóm mynda og kenninga. Mikil kvæði á alltaf að fara með upphátt, segir bandaríski bókmenntafræðingurinn Harold Bloom í bók sinni ágætri How to Read and Why.

Við vitum það eitt að ljóðaflokkurinn fjallar um ást, dauða og guðlega forsjón. Í fyrsta hluta kemur blómið einkum við sögu, það er á gulum skóm í sólbjörtum fögnuði sínum.

Og það er grunlaust.

Þá kemur blóm dauðans til sögunnar. Það vex á hornréttum fleti, þetta hvíta blóm dauðans.

En ekki veit ég hvaðan Steinn hafði þetta táknmál, kannski frá Þorvaldi Skúlasyni sem hann mat öðrum fremur.

Buckminster Fuller hafði litla trú á ferningnum eða teningnum, styrkurinn lægi í boginni línu, kúlu (jörðin sjálf); samkvæmt því hlýtur blóm dauðans að vaxa á hornréttum fleti, þar er veikleikinn.

Í nágrenni við þessi blóm er miskunnarlaust og kaldhæðið umhverfi og erindi um vatn sem rennur um rauðanótt, en það er skírskotun í Odysseifskviðu eins og Steinn sagði sjálfur; ferð án fyrirheits.

Að því búnu rignir himinninn gagnsæjum teningum, sem sagt það eru ragnarök í tengslum við þessa ást. En þá kemur forsjónin til skjalanna; þ.e. Guð með stórum staf. En honum fylgir efi, eða eins og skáldið komst að orði, að hann vissi ekkert, en vonaði það bezta.

Og í kjölfar efans ástarsorg; þ.e. neikvæð játun úr nálægð fjarlægðarinnar:

Og fjarlægð þín sefur
í faðmi mínum
í fyrsta sinn.

Að lokum tekur þögn dauðans við á hinu veglausa hafi sem við blasir. Og skáldið býr um sig í hálfluktu auga eilífðarinnar, sátt við reynslu sína og vonbrigði; sátt við trega sinn og harmkvæli.

Í samtölum okkar sagði Steinn að hann hefði hætt að yrkja Tímann og vatnið í miðjum klíðum. Honum tókst sem sagt ekki að ljúka kvæðinu. En það væri hugsað sem ballett, byggður á goðog helgisögnum, styddist t.a.m. við Vedabækurnar, sagnir um Parzival og Graal: Gagnsæjum vængjum … og svo för Odysseifs eins og fyrr getur. En í upphafi ljóðaflokksins, sem við getum kallað eitt mesta ástarkvæði íslenzkra bókmennta, er fjallað um blómin tvö og mætti vel segja mér að þar væri skáldið að tala með skírskotandi hætti í goðsagnakennt miðaldakvæði um Tristran og Ísodd, en það fjallar um blómin tvö, Ísodd hina björtu og þá svörtu.; eða hið hvíta blóm dauðans.

Sjá einnig grein Matthíasar Á bylgjum hafsins í ritinu Fjötrar okkar og takmörk, 1995.

Matthías Johannessen

Matthías Johannessen (F. 3. janúar 1930) er ljóðskáld og rithöfundur. Hann var blaðamaður á Morgunblaðinu meðfram háskólanámi og síðar ritstjóri þess á árunum 1959–2000. Fyrsta ljóðabók Matthíasar Borgin hló kom út árið 1958 og vakti töluverða athygli. Síðan hefur hann gefið út tugi ljóðabóka, auk fræðibóka, skáldsagna, smásagnasafna, leikrita og viðtalsbóka.