Steinn Steinarr

Minningarorð eftir Halldór Kiljan Laxness. 5. júní 1958 — Nýi Tíminn

Í gestaboðinu sem stóð í Unuhúsi meðan Erlendur Guðmundsson lifði var æfinlega siður að bera á borð einum fleiri bolla en gestir voru kríngum borðið, — það er bollinn handa ókomna gestinum, sagði Erlendur; en við hin kölluðum þetta bolla guðs. Úr þessum bolla drakk Steinn Steinarr oftar en flestir menn.

Uppúr 1930 fóru að verða fleiri þau kvöldin, að ókunnur gestur kæmi innum eldhúsið og tæki sér sæti við borðið; því hélt áfram uns maður þessi var orðinn þar sjálfsagðastur heimagángur. Þessi gestur var í fátækara lagi að útgángi samanborið við aðra gesti, og var þó fátt ríkra manna þar á ferð. Hann var einn þeirra ágætu manna sem ekki hafði neinn status í lífinu, utan hvað hann hét þessu merkilega nafni sem minnti á grjót og enn grjót.

Hvaðan hann kom eða hvert hann ætlaði vissu menn ekki gjörla, enda ekki siður að spyrja slíks í þeim stað; störf hafði hann ekki með höndum svo menn vissu og ég hygg að hann hafi ekki heldur átt neinsstaðar heima. Þetta var lágur maður og visinn á honum annar handleggurinn, en eygður flestum mönnum betur og gáfulegur á uppandlitið, allra manna hárprúðastur. Þegar hann rétti út höndina sást að hún var í laginu eins og hrafnsvængur á flugi: ystu broddar á vængfjöðrum fljúgandi hrafns eru einsog beygðir uppávið.

Þessi maður var yst fata klæddur gömlum þykkum frakka sem hann fór ekki úr undir borðum, og var kraginn uppbrettur en stærðar trefill um hálsinn. Þessi gestur þótti einatt kaldranalegur í svörum um menn og málefni. Ekki held ég að hann hafi verið alskostar við skap þeirra manna flestra er þar voru gestir. En svo sagði Steinn mér síðar, að á öllum sínum gaddhestaárum, meðan hann var daglegur kvöldgestur í Unuhúsi, hefði það aldrei komið fyrir í nokkurt skifti, að Erlendur hefði tekið sér öðruvísi en siður er að heilsa sönnum stórhöfðíngja sem fáir eiga þess kost að heilsa nema einu sinni á ævinni; hefði hann jafnan boðið sig velkominn, beint til sín máli og loks fylgt sér útá hlaðhelluna og þakkað sér fyrir komuna innvirðulega, þegar hann gekk út síðastur gesta uppúr miðnætti. Nokkrir munu enn vera til, sem kunnugir voru í þessu húsi, og geta borið um að Erlendur leit aldrei á Stein öðruvísi en einhvern mesta ágætismann sem þá væri uppi á Íslandi, einkum þó á þeim árum er Steinn átti formælendur fá og margir þóttust þess umkomnir að hnýta í hann.

Það heyrði ég Stein segja að Erlendur hefði verið sér meiri ráðgáta og tíðara umhugsunarefni en flestir menn sem hann hefði kynst fyrr og síðar. Ekki kom það flatt upp á Erlend þegar það varð bert af fyrstu ljóðabók hins ókunna dularfulla gests, árið 1933, að þar var kominn á vettváng ljóðasmiður svo slýngur að telja mátti á fingrum annarrar handar þá skáldmærínga á landinu, sem stóðu honum jafnfætis.

Ég held Steinn Steinarr hafi verið einna skarpastur maður að greind sem ég hef kynst og fljótastur að skilja þá hluti sem hann vildi. Þegar hann kom að vestan kunni hann að yrkja eins vel og þá var yfirleitt ort á Íslandi. En næmi hans gerði hann á skemmri tíma aðnjótanda þeirra hugmynda sem þá voru nýastar og fáheyrðastar en flesta menn, svo að lángskólageingnir menn virtust oft heimskir sem þussar í viðræðu við hann; það var ótrúlegt hvað þessi maður gat fundið á sér.

Kröfuharðar gáfur hans leituðu persónulegrar lausnar á ráðgátum tímans og báru hann burt af troðnum brautum. Fornar niðurstöður, hefð og geymd í efni og formi, urðu honum æ minni fullnægja. Hann barst með náttúrlegum hætti, samkvæmt gáfum sínum, á brattar leiðir sem almenníngi þóttu ekki auðkleifar né fýsilegar. En þær útsýnir sem hann lauk mönnum upp í skáldskap sínum urðu mörgum gáfuðum fullhugum að fordæmi og uppörvun og fyrirheiti stórra hluta.

Heimur Steins Steinars er býr í ljóði hans mun verða síðari mönnum umhugsunarefni. Heimspeki hans er sérstök og á rætur sínar í lyndiseinkunn hans og örlögum, þó eru sumir drættir hennar nær tímanum sem við lifum á en flest sem hugsað hefur verið á íslensku þessi árin. Það var vel til fundið af prestinum sem mælti yfir moldum Steins í gær í Fossvogi, er hann kaus sér texta úr Jobsbók til að auka mönnum skilníng á þessu skáldi. Einnig hefði mátt benda á Hallgrím Pétursson og þau önnur skáld íslensk sem af hvað mestri snild útmáluðu fallvaltleik heimsins og kunnað hafa að yrkja andlátssálma rétt.

Í kulda og myrkri ég kvað og ég baðst ekki vægðar,
og kvæðið var gjöf mín til lífsins, sem vera ber.
Ég veit hún er lítil, og þó var hún aldrei til þægðar
þeim sem með völdin fóru á landi hér.

Karlmennskuhug, þrjósku, ósáttfýsi við heiminn, óbilgirni eins og presturinn sagði í gær, þessa eiginleika átti Steinn í ríkara mæli en flestir menn, auk snildarinnar. Af hans dæmi munu úng skáld læra að standa sig í lífinu; og sömuleiðis að deya.
Hann hafði það af að verða á móti öllum heimsveldunum og dó glaður.

H. K. L.

Halldór Kiljan Laxness

Halldór Kiljan Laxness (F. 23. apríl 1902. D. 8. febrúar 1998) var íslenskur rithöfundur og skáld, jafnan talinn einn helsti íslenski rithöfundurinn á 20. öld. Hann byrjaði snemma að lesa bækur og skrifa sögur, og þegar hann var 13 ára gamall fékk hann sína fyrstu grein birta í Morgunblaðinu undir nafninu H.G., og ekki löngu síðar, þá 14 ára gamall, birti hann grein í sama blaði undir sínu eigin nafni H. Guðjónsson frá Laxnesi. Á ferli sínum skrifaði Halldór skáldsögur, smásögur, margar blaðagreinar, samdi ljóð, leikrit, þýddi bækur yfir á íslensku og fleira. Halldór hlaut Nóbelsverðlaun í bókmenntum árið 1955.