Þú og ég sem urðum aldrei til

Existensíalismi í verkum Steins Steinarr – eftir Silju Aðalsteinsdóttur. Birtist áður í Skírni 1981

Steinn steinarr er að mati margra eitthvert merkasta skáld þessarar aldar á landi hér. Hann varð ekki langlífur (1908–58), en virðist raunar hafa verið hættur að yrkja svo nokkru næmi rösklega áratug fyrir lát sitt. Steinn gaf út fimm ljóðabækur sem allar rúmast vel í einu bindi ásamt úrvali úr greinum hans. Fyrstu bókina, Rauður loginn brann, gaf hann út 26 ára (1934), þá Ljóð (1937), Spor í sandi (1940), Ferð án fyrirheits (1942) og loks Tímann og vatnið (1948). Aftan við ljóðabækurnar í heildarútgáfunni eru prentuð Ýmis kvæði sem sum höfðu birst áður á bók í ljóðaúrvalinu Ferð án fyrirheits frá 1956.

Steinn er fjölbreytilegt skáld þótt alltaf sé hann sjálfum sér líkur. Allt frá fyrstu bók fer hann frjálslega með hefðbundna stuðlasetningu og rím, framan af einkum í prósakenndum langlokum eins og Gönguljóði í Rauður loginn brann, síðar í stuttum, hnitmiðuðum og myndrænum ljóðum eins og Landnámsmanni Íslands í Ferð án fyrirheits eða Veginum og tímanum í Ýmsum kvæðum. Langflest ljóða hans eru þó með hefðbundnu sniði hið ytra, en þau geta verið afskaplega ólík á svip. Meinfyndin íronísk kvæði undir ýmsum háttum, krydduð þjóðfélagsádeilu, setja alla jafna svip sinn á ljóðabækurnar nema Ljóð, í bland eru náttúrustemningar og ljóðræn smákvæði, ástarljóð verða fyrirferðarmikil í Ferð án fyrirheits en þau renna að nokkru leyti saman við sjálfrýn og innhverf ljóð sem finna má í öllum bókunum og þar sem Steinn veltir fyrir sér hlutskipti mannsins og tilveru á heimspekilegan hátt.

Dálítið virðist mismunandi hve mikið er gert úr áhrifum Steins á ljóðagerð í landinu. Sveinn Skorri Höskuldsson prófessor segir í Að yrkja á atómöld: „Það hygg ég ótvírætt, að þeirri kynslóð ljóðskálda, er komið hefur fram á Íslandi síðan í lok heimsstyrjaldarinnar síðari, hafi orðið fordæmi Steins Steinars áhrifaríkara en verk nokkurs annars íslensks skálds.“1Sveinn Skorri Höskuldsson: Að yrkja á atómöld. Rvk 1970 (25).

Jón Óskar ljóðskáld segir hins vegar í tímaritinu Birtingi 1968 að Steinn hafi ekki haft áhrif á atómskáldin nema um smámuni. Einnig minnist ég þess að Einar Bragi skáld tók í sama streng í óprentuðu viðtali við stúdenta í íslenskum bókmenntum vorið 1973, og sagði að skáld mótuðust ekki af mönnum sem kæmu fram rétt á undan þeim, auk þess hefði Steinn lengst af verið hefðbundinn.

Hvað sem framtíðin kann að ákvarða um áhrif Steins á íslenska ljóðagerð er víst að hann hefur um langa hríð verið vinsælli en önnur skáld meðal ungs fólks. Það eru ekki gamanljóð hans og háðkvæði þótt aðgengileg séu sem hafa haldið áhuga á Steini vakandi (eins og t.d. Tómasi Guðmundssyni) heldur þau ljóð sem fengu miklu misjafnari undirtektir gagnrýnenda á sínum tíma, innhverfu ljóðin eða svonefnd heimspekileg ljóð Steins. Í þeim hafa leitandi ungmenni fundið huggun og jafnvel hjálp við að finna sér persónu og stað í veröldinni, enda er Steinn einmitt að bjástra við það sama í þessum ljóðum.

Ef það ætti að flokka ljóð Steins í heimspekileg og ekki heimspekileg ljóð yrðu vafaatriðin mörg. Gagnrýnendur virðast þó nokkuð sáttir á að kenna einmitt þessi innhverfu og myrku ljóð við heimspeki, ljóðin þar sem hann veltir fyrir sér tilveru sinni, þau þungu og þjáningarfullu sem oft er ekki auðvelt að skilja röklegum skilningi, ljóðin þar sem hann rýnir inn á við og líst ekki á blikuna eða sér heiminn umhverfis í undarlegum, jafnvel afskræmilegum myndum. Jakob Jóh. Smári segir í dómi um Ferð án fyrirheits í Eimreiðinni: „Það má finna ýmislegt að sumum þessara ljóða eftir Stein Steinarr, svo sem það, að ýmis þeirra eru lítt skiljanleg og hinn heimspekilegi „nihilismus” höfundarins verður þreytandi til lengdar.“2Eimreiðin. Jan.–mars 1943 (91). Magnús Ásgeirsson talar einnig í ritdómi um Ferð án fyrirheits um „Hamletkvæði“ Steins sem hann nefnir svo, þar sem Steinn velti fyrir sér spurningunni um að vera eða ekki: „Í þessari tegund ljóða sinna /…/ tekst Steini að vísu að túlka eins konar háspekilega tómhyggju á áhrifamikinn hátt…“3Helgafell. 1942 (430). Kristinn E. Andrésson segir í íslenskum nútímabókmenntum: „En þótt hann geti verið bardagaskáld, er heimspekihneigðin ríkari og grefur jafnt og þétt undan trú hans á gildi þeirrar baráttu er liann heyr, og í öðru hverju kvæði fellur hann niður í heilabrot um heiminn og sjálfan sig.“4Kristinn E. Andrésson: Íslenskar nútímabókmenntir 1918–1948. Rvk 1948 (147). Og Ólafur Jónsson segir í grein í Dagskrá að Steini látnum: „Steinn Steinarr var fyrst og fremst heimspekilegt skáld. /…/ tilvera sjálfs hans og rök hennar eru honum hugstæðust yrkisefni, vandi sem hann veltir fyrir sér allan skáldferil sinn.“5Dagskrá. 2. hefti 1958 (3).

Þótt gagnrýnendum sé þannig tamt að nefna Stein og heimspeki í sömu andrá (og mörg fleiri dæmi mætti nefna), ræða þeir fæstir hvaðan Steinn hefur fengið heimspekilegar hugmyndir sínar eða hvaða stefnu hann er skyldur. Einn gagnrýnenda og það helsti gagnrýnandi Steins, Kristján Karlsson, kveður þó fast að orði um rætur heimspekiþanka Steins, einkum í grein í Nýju Helgafelli 1958:

„Gildi mannsins er, í andstæðum skoðað, það að hann er einskis virði, og Steinn fer æ meir að tala í nöktum andstæðum, þegar á líður. Tómhyggja er þetta að vísu, en fyrst og fremst harðsnúin, heimatilbúin sjálfshyggja, sem stæðist ekki dagsins ljós í prósa.. .“6Nýtt Helgafell. 2. hefti 1958 (80).

Seinna í greininni segir hann, að Steinn hafi haft „ríka tilhneigingu eða ríkan metnað til að verða lært og heimspekilegt skáld, þó að svo yrði ekki vegna þess að ævikjör hans meinuðu honum það, en þó ef til vill miklu fremur vegna þess að gáfa hans var annars eðlis.“7Sama (81). Kristján er ekki svona afdráttarlaus í formála að Kvæðasafni og greinum Steins (1964), en hann hefur ekki skipt um skoðun. Hann segir þar að heimspeki geti „lagt skáldi upp í hendur ákveðið hugmyndakerfi“ sem spegli samtímann, en heimspeki Steins geti það ekki, því hún sé heimatilbúin: „Hún á ekki stoð í menningarlegri hefð eða hugmyndakerfi.“ (xvii)

Tveir bókmenntafræðingar hafa bent á annan grundvöll að heimspeki Steins en sjálfshyggju og bölsýni hans sjálfs, að maður segi ekki naflaskoðun. Sveinn Skorri Höskuldsson talar um að hjá Steini birtist það endurmat allra gilda sem einkenni verk ungra skálda síðan í heimsstyrjaldarlok: „Að mínu viti er dýpstur tónn í ljóðum Steins, þegar hann horfist í augu við algjört tilgangsleysi mannsins, firringu hans og framandleik í heiminum. Ekki veit ég, hvert rekja skal upphaf þessarar kenndar, sem sett hefur dýpra mark en flest annað á evrópskar nútímabókmenntir. Stundum finnst mér eins og upphaf hennar liggi hjá Nietzsche með kröfu hans um endurmat allra lífsgilda.“8Sveinn Skorri Höskuldsson (31–2).

Síðar nefnir Sveinn þetta „tilgangsleysisheimspeki Steins“ og segir að hann yrki sig frá henni í Tímanum og vatninu.

Heimir Pálsson tengir Stein í bókmenntasögu sinni við þá stefnu sem dýpst spor hefur markað á þessari öld ásamt marxismanum, þó með hálfum huga. Heimspeki Steins, segir Heimir, „stakk reyndar mjög í stúf við þann félagslega skilning sem mörg skáld samtíðar hans aðhylltust. Hvort sem er um að ræða anga erlendra heimspekikenninga (í ætt við existentialisma, tilvistarstefnu) eða ekki, er augljóst að maðurinn sem einstaklingur (ekki félagsvera) er settur í miðdepil heimsins.“9Heimir Pálsson: Straumar og stefnur í íslenskum bókmenntum. Rvk 1978 (173).

Mig langar að ganga skrefinu lengra en Heimir og fullyrða að Steinn sé existensíalískur í ljóðum sínum, ekki bara í „Hamletkvæðunum“ þótt mest sé gaman að skoða þessa þætti í þeim heldur að lífsskilningi yfirleitt. Áhugaefni hans eru þau sömu og existensíalistar hampa: einstaklingurinn og leið hans til þroska í brotakenndum heimi; hugsunarhátturinn sá sami, að ekkert sé algilt; lausnir úr tilvistarkreppunni einnig þær sömu. Ég álít að með því að skoða Ijóð hans í ljósi tilvistarstefnu fáist mjög nothæfur lykill að kjarna þeirra — ekki síst þeirra Ijóða sem þykja myrk eða órökleg.

Nú fer kannski einhver strax að malda í móinn líkt og Kristján Karlsson og segja að ómenntaður maður eins og Steinn hafi engar spurnir haft af heimspekistefnu úti í löndum, þess vegna sé fráleitt að ræða þetta mál frekar. En þá ansa ég því til að það geri ekki ýkja stórt strik í reikninginn. John Macquarrie, breskur fræðimaður um tilvistarstefnu, leggur í bók sinni um hana áherslu á, að rithöfundar geti við ákveðnar sögulegar og persónulegar aðstæður orðið boðberar existensíalisma án þess að hafa orðið fyrir beinum áhrifum frá heimspekingum, og þessa rithöfunda megi telja til stefnunnar ef efnisval þeirra og úrvinnsla sé í anda hennar.10John Macquarrie: Existentialism. Harmondsworth 1977 (257, 262–3). Engin leið er fyrir mig að komast að því hvort Steinn Steinarr hefur lesið eða kynnt sér á annan hátt rit tilvistarstefnu, en boðskapur hennar var tímanna tákn meðan Steinn iðkaði skáldskap. Philip Mairet, sem skrifar formála að ensku útgáfunni á fyrirlestri Jean-Paul Sartres um tilvistarspeki og mannúðarstefnu, segir þar að existensíalismi hafi sprottið upp eins og af eigin rammleik í Evrópu samtímans.11Hann talar um existensíalisma sem „spontaneous movement in contemporary European thought”. Jean Paul Sartre: Existentialism and Humanism. London 1957 (15). Aðstæður buðu upp á góð skilyrði fyrir stefnuna, svipuð hugðarefni hafa löngum bært á sér þegar álíka hefur verið umhorfs í mannlegum samfélögum og í Evrópu á tímabilinu milli heimsstyrjaldanna tveggja. Aukinheldur rekja menn existensíalískar hugmyndir allt aftur til grískra goðsagna — með viðkomu hjá Marteini Lúter, heilögum Ágústínusi, Páli postula og Kristi — þannig að þær eru engin ný bóla.

Danmörk var ekki fjarri Íslandi á þessum árum og hún hafði fóstrað Søren Kierkegaard sem talinn er (t. d. af John Macquarrie) faðir nútímalegrar tilvistarstefnu. Ævisaga Kierkegaards eftir Kort K. Kortsen kom út í íslenskri þýðingu Jakobs Jóh. Smára 1923 og má þar fræðast um kenningar og líf þessa merkilega heimspekings, sem lifði viðburðaríkara innra lífi en ytra. Veruleiki hans varð „fölleit endurtekning undanfarinna mynda úr dagdraumunum.”12Kort K. Kortsen: Sören Kierkegaard. Jakob Jóh. Smári íslenskaði. Rvk 1923 (30). Ef til vill má svipað segja um það skáld sem hér um ræðir.

Hér á eftir verða athuguð merki um hugðarefni tilvistarstefnu í ljóðum Steins Steinarr, og í lokakafla verður reynt að skoða manninn sjálfan lítillega í ljósi þeirrar umfjöllunar. Í tilvitnunum er vísað til heildarsafns verka hans, Kvæðasafns og greina frá 1964.13Til glöggvunar má geta þess að Rauður loginn brann byrjar þar á bls. 3, Ljóð á bls. 45, Spor í sandi á bls. 87, Ferð án fyrirheits á bls. 123, Tíminn og vatnið á bls. 165 og Ýmis kvæði á bls. 181.

Angistin

Steinn Steinarr sveiflast öfganna milli í ljóðum sínum, hann er sjálfumglaður eða fullur efasemda, kátur eða örvæntingarfullur milli þess sem hann er ögrandi og kærulaus. Ekki er gott að segja hvort ein stemning er þarna öðrum sannari enda er það samspil þeirra sem er forvitnilegast: hvernig skáldið þolir kvíðann sem fylgir því að vera manneskja og efann um að hann hafi staðið sig eins og maður og sé til í raun og veru, og hvernig hann finnur leið út úr vandanum ýmist með því að firra sig allri lífsbaráttu, reyna að sannfæra sig um að hið eina rétta sé að vera ekki neitt, eða með því að hætta að efast og taka á sig ábyrgð á sjálfum sér og öðrum. Þetta margslungna og tilfinningaríka samspil sýnir fyrst og fremst hvað Steini var mikil alvara með ljóðagerð sinni alla tíð, líka þegar hann var kæringarlausastur.

Kvíðinn og angistin eru rauður þráður í ljóðum Steins, einkum þeim sem snerta einsemd og einmanaleika mannsins. Það er ekki félagslyndur maður sem yrkir í þessum ljóðum og hefur áhyggjur af hungruðum heimi eða arðráni auðstéttanna. Kvíðinn er einstaklingsbundinn, maðurinn stendur einn uppi og nær engu sambandi við aðra:

Og hugsun sjálfs þín bylti sér og brann
sem banvænt eitur djúpt í þinni sál.
Þú bærðir vör, til einskis, angist þín
fékk aldrei mál.

segir í ljóðinu Andvaka (56). Þar kemur einnig fram hvað angistin er tilgangslaus:

Nei, þjáning þín bar aldrei ávöxt neinn,
og engan tilgang hafði lífs þíns nauð.
Hún lagðist yfir þreytu hjarta þíns
þung og dauð.

Tilgangslaus þjáningin er þó það eina sem lifir okkur í kvæðinu Hamlet (70), á þverstæðukenndan hátt virðist það í rauninni vera hún sem gerir okkur að manneskjum:

En upp úr liðins tíma mold og myrkri,
þótt máð og glötuð séu öll vor spor,
gegn dagsins björtu ásýnd ungri og styrkri
rís andlit dimmt og brjálað: Þjáning vor.

Það er erfitt að höndla þennan kvíða. Við finnum til hræðslu þegar bíll stímir beint á okkur, en kvíðinn sprettur ekki af neinu svo áþreifanlegu. Einhversstaðar í sál okkar er uppsprettan, Steinn kallar hana Myrkur (75):

Ég er myrkrið,
myrkrið í djúpinu,
hið eilífa myrkur,
sem ekkert ljós getur lýst.

Það er ég,
sem læt ykkur skjálfa
í lamandi angist
andspænis einhverju,
sem þið vitið ekki hvað er.

Það er ég,
sem læt ykkur flýja
i framandi lönd
og fjarlægar heimsálfur,
í fánýtri von
um að losna undan farginu.

En þið komist ekki undan,
því ég bý í sál ykkar sjálfra,
dularfullt, geigvænlegt, ógnandi.
Hið eilífa myrkur,
sem ekkert ljós getur lýst.

Úr þessari þjakandi kvöl hafa existensíalistar reynt að bæta síðan á dögum Kierkegaards eða lengur með því að reyna að skýra af hverju kvíðinn stafar. Kierkegaard áleit að undirrót kvíðans væri hvað manninum gengi illa að finna guð, og trúaðir existensíalistar fara að dæmi hans. Hinir trúlausu geta ekki notfært sér þá lausn og verða að halda áfram að leita.

Maðurinn er yfirgefinn og dæmdur til að vera frjáls, segir Sartre í áðurnefndum fyrirlestri. Við ákveðum ein og sjálf hvað við gerum úr okkur, segja existensíalistar, hver er sinnar gæfu smiður. Þeir hafna mikils til þeirri skoðun marxista að uppeldi, umhverfi, tími og aðstæður móti manninn, ábyrgð einstaklingsins á lífi sínu vegur miklu þyngra og hún veldur okkur kvíða. Svo ein stöndum við með ákvarðanir okkar að enginn getur komið okkur til aðstoðar, þess vegna berum við kvíðann líka alein eins og Steinn lýsir í Sjálfsmynd (75):

Ég málaði andlit á vegg
í afskekktu húsi.
Það var andlit hins þreytta og sjúka
og einmana manns.
Og það horfði frá múrgráum veggnum,
út í mjólkurhvítt ljósið
eitt andartak.

Það var andlit mín sjálfs,
en þið sáuð það aldrei,
því ég málaði yfir það.

Svo máttugur er kvíðinn að „lífið“ verður stundum eins og samheiti hans í ljóðum Steins. í ljóðinu Flóttinn (79) er skóhljóð lífsins tákn þess kvíða sem sprettur af ábyrgðartilfinningu mannsins:

Það var aðeins skóhljóð, sem elti mig.
Og ég hrópaði, skjálfandi röddu:
Hvað hef ég þá gert?
Mér var svarað með lævísum hlátri,
lengst úti í myrkrinu:
Ég er lífið sjálft. Og þú kemst ekki undan.
Ég elti þig.

Það þýðir ekkert að reyna að bjarga sér á flótta, þetta myrkur angistar býr í sálinni og er hjá okkur ævinlega eins og Steinn lýsir í Mazurka eftir Chopin (118):

Mín þjáning er svo dimm og dauðahljóð,
sem draumlaus svefn að baki alls er lifir.

Einmanaleikanum í ljóðum um kvíða og angist fylgir sambandsleysi við annað fólk eins og sjá mátti á dæmunum hér að framan. Það er erfiðara um vik að fullyrða um nákvæmar skoðanir skáldsins í Tímanum og vatninu, þar er talað í myndum og gátum. En verið getur að svipað sambandsleysi milli skáldsins og mannanna megi sjá á mynd í 18. ljóði Tímans og vatnsins og í Sjálfsmynd. Allt er hér hófstilltara og eins og lengra í burtu (176):

Yfir sofandi jörð
hef ég flutt hina hvítu fregn.

Og orð mín féllu
í ísblátt vatnið
eins og vornæturregn.

Vornæturregnið er frjósamt og hlýtt, það gerir jörðinni gott þegar það fellur á hana, eins og hin hvíta fregn skáldsins gæti kannski gert líka. En þegar vornæturregn og orð falla í ísblátt vatn verða þau til einskis gagns. Það má líka tæpa á því á þessum stað að í seinni bókum sínum, einkum Tímanum og vatninu, hvarf Steinn frá hefðbundinni notkun lita og litaði sjálfur bæði hluti og hugtök. Sérkennilegt við þá breytingu var að hvíti liturinn, litur hinnar visnu handar, kom í stað dökkra lita á sorg og dauða. Hin hvíta fregn skáldsins er eflaust ekki hvít af neinni tilviljun, hún gæti verið kvíðafull spá þess um framtíð jarðarbarna, en þau hlusta ekki, sofa bara.

Efinn

Saman við kvíðann fléttast efi Steins um að hann sé í raun og veru til í existensíalískum skilningi, og ekkert íslenskt skáld hafði efast um það á undan honum. Í mörgum ljóðum lýsir Steinn hvernig það er að verða ekki það sem í manni býr, verða ekki fullskapaður einstaklingur. „Heidegger og Kierkegaard vissu það báðir,“ segir Philip Mairet í fyrrnefndum formála, „að maðurinn þráir í angist að finna og vita að hann er til, það er einmitt undirrót kvíða hans.“14Jean Paul Sartre (14). Það er existensíalistum sameiginlegt að álíta, að fyrst sé maðurinn ekkert, „ekki til“, síðan verði hann það sem hann gerir úr sér. Til þess hafi hann getu og frelsi, en það kosti erfiði og átök. Sumum mönnum (flestum mönnum?) tekst aldrei að þroska það sem í þeim býr og skapa úr sér fullburða einstakling, þeir takast ekki á við erfiðleikana og verða aldrei til í þessari merkingu. Ákvarðanir mannsins og athafnir skapa hann, maðurinn er ekkert annað en það sem hann gerir, segir Sartre — og Steinn segir: „En þjóðin veit, að ég hefi ekkert gert.“ (125)

Þá vitum við hvers virði hann er. Strax í fyrstu bók Steins má sjá merki efans um að líf hans sé til nokkurs. Ljóðið Minning endar svona (28):

Var það blekking hugans,
sem huldi sjón minni
helkalda auðnina,
þar sem spor mín liggja,
þar sem líf mitt rann út í gljúpan sandinn?

Í ljóðinu Barn (71) má sjá, að jafnvel þótt líkaminn eldist og hrörni þroskast vitundin ekki — hún veit ekki að hún er til. Mælandi ljóðsins er alltaf sama barnið þótt umhverfið sjái að ytra borðið stendur ekki í stað:

Ég var lítið barn
og ég lék mér við ströndina.
Tvö hlæjandi börn
gengu fram hjá
og kölluðu:
Gott kvöld, gamli maður, gott kvöld!

Sama er uppi á teningnum í Etude (100).

Smám saman færist Steinn nær existensíalistum í orðavali, og í nokkrum ljóðum orðar hann efa sinn beinlínis með orðalagi þeirra, kallar þetta að vera til eða vera ekki til:

Og veistu það, að þú ert ekki til,
og þetta, sem þú sérð, er skuggi hins liðna.

segir í Svartlist (104). Stundum vill hann trúa því að hann sé til í verkum sínum í samræmi við orð Sartres sem tilfærð voru hér að framan. Í Tileinkunn segir: „Og ég var aðeins til í mínu ljóði.“ (123)

En jafnvel ljóðið, verk hans, er ótraustur tilverugrundvöllur, t. d. í Vorvísu (135):

Og ljóð mitt ber samskonar
svip og það,
sem ekki er.

Það ljóð Steins sem minnir mest á ýmsa höfuðpaura tilvistarstefnunnar að orðavali er Myndlaus í Ferð án fyrirheits (137), stutt og hnitmiðað ljóð. Eins og víða í seinni bókum Steins er ófullburða líf tengt hér við að ná ekki að sameinast ástvinu sinni. Sameinuðum var þeim ætlað að verða annað og meira en það sem þau urðu hvort í sínu lagi:

Ó, þú og ég, sem urðum aldrei til.
Eitt andartak sem skuggi flökti um vegg
birtist sú mynd, sem okkur ætluð var.

Sem næturgola gári lygnan hyl,
sem glampi kalt og snöggt á hnífsins egg,
sem rauðar varir veiti orðlaust svar.

Ó, fagra mynd, sem okkur báðum bar.

Við náðum aldrei að skapa okkur sjálf, verða til, þess vegna erum við myndlaus eins og flöktandi skuggi. „Handfylli af sandi. Og síðan ekkert.“ (152) í ljóðaflokknum Tímanum og vatninu verður þess ekki vart lengur að Steinn efist um að hann sé til.

Flóttinn – firringin

Þegar efinn verður óbærilegur má þó altént hugga sig við að „ekkert er til nema aðeins það, sem ekki er til.“ (159) Það má firra sig efa og kvíða, annaðhvort með því að fullyrða að allt sé einskis virði og því óþarfi að vera með áhyggjur af tilverunni, eða bæla niður kvíða sinn, renna saman við dauða menn eða hlutgerast: „Menn eru pappírstætlur sem kaldur vindurinn þyrlar til,” sagði T.S. Eliot; „hvort er ég heldur hann, sem eftir lifir, eða hinn, sem dó?“ spyr Steinn (156).

Það er eins og maður horfi
á andlit sjálfs sín
í holum spegli.
Og maður þekkir ekki framar
andlit sjálfs sín,
því það er dáið.

ályktar skáldið í Landslagi (56) og rennur saman við það.

Steinn notar ekki tískuorðið firringu í ljóðum sínum sem ekki er von heldur lýsir hann tilfinningunni eða ástandinu með orð unum annarlegur eða framandi, auk þess sem hann bregður upp sjálfstæðum myndum af einangruðum, hlutgerðum mann eskjum. Í augum mannsins sem bælir kvíða sinn og horfist ekki í augu við lífsvanda sinn verður heimurinn afkáralegur. Í ljóðinu Form segir (90):

Og allir hlutir eiga markað form,
annarlegt form, sem engan tilgang hefur.

Í ljóðum hins lífsfirrta manns er tíminn ekki til, persóna þeirra lifir í nútíð eingöngu, hugsar hvorki fram né aftur, eins og „þú“ í Lágmynd (103):

Þú veist ei neitt, hvað verður eða fer,
þín vitund hnípir blind á opnu sviði.
Þú sást það eitt, að sólin reis og hneig,
en samt stóð tíminn kyrr, þótt dagur liði.

/…/

Svo situr þú hjá líki dáins dags,
hver draumur vöku og svefns er burtu máður.
Um djúp þíns hugar flýgur svartur fugl,
framandi, þögull, engri minning háður.

Að mati existensíalista er það einmitt einkenni einstaklinga sem firra sig áhyggjum af tilvist sinni, að þeir festast í nútíðinni, daglegu amstri hennar og önn, fortíðin er máð burtu og framtíð ekki til. Líf þeirra er einangrað og afskræmilegt, þeir komast hvergi frekar en maðurinn í Heimferð (107):

Svo óralangt þú einn og hljóður gekkst
í annarlegum þysi stræta og torga,
og vildir heim til þess, sem ást þín ann
og engin jarðnesk dýrð er fær að borga.

Og áttlaus veröld yfir draum þinn reis
með ótalþætta og skipta vegi sína.
Og þúsund andlit störðu dimm og dauð
úr dagsins glæra ljósi á angist þína.

Þú ljóðsins kemst aldrei heim hvernig sem hann reynir, því ver öldin er áttlaus og við eigum hvergi heima.

Tilhneigingin til að týna tímanum og standa kyrr í nútíðinni sést á röð mynda í 6. ljóði Tímans og vatnsins (168):

Ég var drúpandi höfuð,
ég var dimmblátt auga,
ég var hvít hönd.

Og líf mitt stóð kyrrt
eins og kringlótt smámynt,
sem er reist upp á rönd.

Og tíminn hvarf eins og tár,
sem fellur á hvíta hönd.

Dæmi um ljóð sem sýna hversu ólíkum tökum Steinn getur tekið firringu manns frá manni eru L’homme statue (140) og Passíusálmur nr. 51 (203). Í fyrra ljóðinu talar steinrunninn maður og hann veit að hann er ekki annað en hlutur í augum umhverfisins:

Ég stóð á miðju torgi,
ég var tákn mín sjálfs
og fólkið starði og starði.

Ljóðið er myndsaga alveg eins og hið síðara, en í Passíusálmi nr. 51 er mælandi ljóðsins einn af áhorfendum, ekki sá sem horft er á — og þó. Ljóðið segir á átakanlegan og samt hlægilegan hátt frá því að það á að fara að krossfesta ungan og laglegan mann og fólk flykkist að og hlakkar til að horfa á þann atburð. Það er eins og mælandi ljóðsins standi utarlega í mannþrönginni en þó nógu nærri til að geta lýst manninum sem krossfesta á: „Þetta er laglegur maður með mikið enni og mógult hár.“ (203) Samkvæmt; lýsingu er þessi maður ekki ósvipaður skáldinu að yfir bragði: Steinn virðist því vera bæði hér og þar, bæði lifandi og dauður eins og niðurstaða fyrra ljóðsins var, og það er sá lifandi sem á að krossfesta, hinir dauðu horfa á.

Þannig lýsir Steinn lífsfirrtum manni æ ofan í æ í ljóðum sínum, manni sem finnur hið annarlega leita á sig, óttast að hann sé ekki heill, en veit þó að í augum annars fólks virðist hann vera fullvenjulegur maður. Það veit ekki hvað inni fyrir býr. Hann er fullur skelfingar fyrir því að vitfirringin nái tökum á honum og svipti burt allri von um að hann geti orðið til í raun og veru. Að mínu áliti sýnir Steinn þennan ótta best í ljóðinu Í draumi sérhvers manns (160), þess vegna geymdi ég mér það þangað til núna. Í þessu ljóði lýsir hann líka manni sem lifir tvöföldu lífi, en nú innan frá. Annars vegar gengur maðurinn um í „veruleikans köldu ró“ og engan grunar annað en hann sé heill og óskiptur, hins vegar lifir hann í draumnum, blekkingunni, hinum dimma kynjaskógi mannshugans sem verður sífellt fáránlegri:

Þinn draumur býr þeim mikla mætti yfir
að mynda sjálfstætt líf, sem ógnar þér.
Hann vex á milli þín og þess, sem lifir,
og þó er engum ljóst, hvað milli ber.

Fyrir mann með existensíalískan lífsskilning er alvarlegt mál að verða blekkingunni að bráð, því hann ber samkvæmt kenningunni ekki einungis ábyrgð á sjálfum sér heldur er hann alltaf að búa til úr sér fyrirmynd fyrir aðra. Hann verður ævinlega að gera ráð fyrir því þegar hann ákveður athafnir sínar að aðrir menn hermi þær eftir honum eða taki sömu ákvörðun. En í þessu ljóði er sama þótt skáldið berjist um á hæl og hnakka, blekkingin, afskræming lífs hins firrta einstaklings, verður ofan á:

Og sjá, þú fellur fyrir draumi þínum
í fullkominni uppgjöf sigraðs manns.
Hann lykur um þig löngum armi sínum,
og loksins ert þú sjálfur draumur hans.

Það er ró yfir síðustu línum ljóðsins. Skáldinu er hvíld að því að gefast upp fyrir ofureflinu. Stríðinu er lokið.

Uppgjöfin fyrir vitfirringunni er sár, og miklu léttara er yfir Steini þegar hann velur sér flóttaleið um kæringarleysi og fánýtishyggju. Í þeim ljóðum má sjá að veröldin er snargalin, ekki röð né regla á neinu, en það má alveg notfæra sér ef í hart fer eins og í kvæðinu Að sigra heiminn (133) sem margir lesendur Steins líta á sem mottó ljóða hans. Það skiptir engu máli hvort maður sigrar eða tapar, þetta er allt tóm hringavitleysa, heimurinn verður hvorki sigraður né frelsaður.

Þessi ljóð eru uppreisnargjörn í anda tilvistarstefnu. Við eigum ekki að láta segja okkur fyrir verkum, skipa okkur að trúa kennisetningum og taka við gildismati umhugsunarlaust; við eigum að hugsa allt upp á nýtt sjálf. Ef þörf krefur í skinhelgi jólahátíðar eigum við að kveikja í stofunni okkar með kurteislegum svip og kaupa svo sóknarprestinn og éta hann, eins og segir í Jólum í Ferð án fyrirheits (138). Þessi afstaða eða aðferð gerir existensíalista að uppreisnarmönnum hvar og hvenær sem þeir koma fram því þeir rífa niður staðnaðar kenningar. En raunar mun það vera svo með existensíalista sem aðhyllast fánýtishyggju að þeir líta á hana sem tímabundið niðurrifsskeið áður en þeir geta farið að byggja upp.

Þótt þessi uppreisnarljóð séu mörg galvösk er biturleika einnig að finna í þeim. Afneitun þess sem okkur er innrætt að hafi mikið gildi hlýtur að verða bitur. Hvað þykir Steini sem hans kynslóð hafi að gefa þeirri næstu? Í ljóðinu Vöggugjöf (76) spyr hann hvort hann eigi kannski að gefa nýfædda barninu

Gott og nytsamt verk að vinna,
vilja og dugnað heiðvirðs manns?

Og svarar sér sjálfur:

Nei, því miður. Nú er komið
nóg af slíku hér til lands.

Viðskiptavit kemur heldur ekki að gagni, þar eru of margir um hituna. En hvað um frelsisbaráttuna?

Fífldjarft þrek und fólksins merki
frelsisþrá og mannúð vígt?
Sjáðu, hvað við höfum hérna:
Höggstokk, gálga og fleira slíkt!

Það borgar sig ekki að fórna sér fyrir frelsið, og það þýðir ekkert að reyna að búa til tilgang með lífi sínu, aðeins eitt hefur gildi:

Sjá! Ég gef þér tryggt og trúfast
tilgangsleysið: Lífið sjálft.

Líklega hefur mörgum þótt óþægilega djarft af Steini á þessum viðsjárverðu tímum að sjá ekki tilgang með baráttu og stríði heldur ýmist fordæma slíkt eins og í Blóði (87): „Þitt unga og heita blóð til einskis skal það streyma á dreif í sandinn.“ Eða gera meinlegt grín að því eins og í Hugleiðingu um nýja heimsstyrjöld (94—5):

Og berjist þeir og berjist
og brotni og sundur merjist,
og hasli völl og verjist
í vopnabraki og gný.
Þótt borgir standi í báli
og beitt sé eitri og stáli,
þá skiptir mestu máli
að maður græði á því.

Ekkert er neins virði, segir fánýtishyggjumaðurinn. „Hin mikla gjöf, sem mér af náð er veitt,“ segir Steinn, „er vitund þess að verða aldrei neitt.“ (127) í þessu er fólgin þverstæðan á bak við allar þverstæður í ljóðum Steins, því um leið og hann er að segja að ekkert skipti máli hlýtur hann þó að heimta af okkur að við trúum því sem hann er að segja. Orð hans skipta að minnsta kosti nógu miklu máli til að vera skrifuð á blað og gefin út í bók. Albert Camus segir í sínum Uppreisnarmanni: „Ég held því fram að ég trúi ekki á neitt og allt sé fáránlegt, en ég get ekki efast um mína eigin fullyrðingu, og ég hlýt að minnsta kosti að trúa á uppreisn mína.“15Vitnað eftir John Macquarrie (208–9). Það er hollt að endurmeta gildi en óhugsandi að trúa því til lengdar að ekkert hafi gildi.

Lausnir

Útgönguleiðir úr tilvistarkreppunni eru tvær hjá Steini, eins og mér leikmanninum sýnist líka mega sjá hjá tilvistarspekingum eins og Kierkegaard, Nietzsche og Sartre: Dauðinn og tortímingin annars vegar og mannleg samábyrgð hins vegar.

Í kvæðinu Húsið hrynur í Rauður loginn brann lýsir Steinn því sem andborgaralegt skáld hvernig heimur borgarastéttarinnar er að tortímast. Sjálfur stendur hann fyrir utan og horfir á, honum er hjartanlega sama (11):

Þitt hús er voldugt og viðir sterkir,
og veggir traustir, með saum og hnoð.
En hvassar tennur, sem naga og naga,
þær naga í gegn hverja máttarstoð.

Í næstu bók er ljóðið Colosseum (62) sem einnig lýsir tortímingu. En nú stendur Steinn ekki lengur fyrir utan. Þetta er hans heimur. Hann gengur um hið merka sögusvið, horfir um „rústir hrundra súlna og bekki auða“, og sér það lifna við fyrir augum sínum: „Cæsar gengur inn í fullum skrúða!“ Er þá ekki dýrð heimsins söm og fyrr?

Nei, það var skopleg blekking eitt og allt.
Sjá, aðeins skuggi dauðans stendur vörð
á rústum hrunins heims og glottir kalt.

Heimurinn er hruninn, sundurtættur: „Sjá! Þú ert einn og allt er löngu dáið, og yfir líki heimsins vakir þú,“ segir í Skóhljóði (73). Ef guð vildi koma til hjálpar væri kannski hægt að endurreisa heiminn og gera hann heilan á ný. Í Kvöldhringingu er reynt að leita ásjár hjá honum (73):

Hungurtærðum höndum vorum
himni móti lyftum vér:
Herra! Gefðu þrek í þrautum
þessum lýð, sem kross þinn ber.

En þótt við biðjum heitt fáum við

Ekkert svar, vor andvörp týndust
inn í hofsins gljáðu þil
eins og vofur. Og á morgun
erum vér ei lengur til.

Allt er til einskis: „Það bjargast ekki neitt, það ferst, það ferst“ (107). Hvað ætli þýði fyrir aumar mannverur að klóra í bakkann?

Sundraður heimur kemur fram á mörgum myndum í Tímanum og vatninu. Í 7. ljóði er heimsendir (168):

Himinninn rignir mér
gagnsæjum teningum
yfir hrapandi jörð.

Dagseldur, ljós,
í kyrrstæðum ótta
gegnum engil hraðans,
eins og gler.

Í 12. ljóði sjáum við tættan og áttlausan villuheim þar sem ekkert er sem sýnist, dagarnir eru nafnlausir, játunin er neikvæð, fjarlægðin nálæg (172).

Þrá eftir heilum heimi má finna í ljóðum Steins frá upphafi sem hluta af lífssýn hans. Philip Mairet minnir í formálanum sem áður hefur verið vitnað til á þá skoðun húmanista að maðurinn sé fæddur „góður“ og haldi áfram að vera það, eða öllu heldur „hlutlaus”, þangað til vond heimspeki og spillt umhverfi eyðileggi hann. Samkvæmt þessu ætti bernskan að vera sá tími þegar heimurinn var heill og skiljanlegur, og eðlilegt að hinn fullorðni, „spillti“ einstaklingur óski sér þangað aftur. Strax í Ljóði frá 1932 tjáir Steinn þessa hugmynd (182), þá 24 ára. Hann segir að sig langi fram í fjallasal, því

Ég átti forðum yndi best hjá þér,
og óskir hjartans barstu í skauti þínu.
En svikull heimur sjónir villti mér,
ég sé það nú í spilltu hjarta mínu.

Hann þráir að hverfa aftur, verða aftur óspilltur, í því er gæfan ef til vill fólgin og lausnin undan þjáningum og fánýtisórum. Þar er hið einfalda líf í skauti náttúrunnar, sem líka má sjá t. d. í Gamalli vísu um vorið (88), kannski hefur það varanlegt gildi. Samruni manns og náttúru í sátt og friði er hvergi betur sýndur en í Afturhvarfi (145) þar sem skáldið biður græna jörð og mjúka, raka mold að fyrirgefa sér gönuhlaupin — og sjálfsagt naflaskoðunina líka — og viðurkenna skáldið sem hluta af heildarmyndinni:

Mitt fólk, mitt land, minn himinn og mitt haf!
Heim kemst að lokum allt, sem burtu fer.
Ég drúpi höfði þreyttu í þögn og bæn:
Þú ert ég sjálfur. Fyrirgefðu mér!

Löngun Steins til að líma heiminn saman með því að hverfa aftur heim í sveitina er sönn, en það breytir engu um það að ljóð hans um þá löngun eru fá og gagnslítil. Heimur hans er sundurtættur og bara stundarfró að hugsa sér að maður geti horfið aftur til ímyndaðrar fortíðar og slegið striki yfir nútíðina. Alvarlegri tilraun til að taka heiminn í sátt og reyna að hugsa um hann sem heild er í ljóðinu Heimurinn og ég (155). Þar finnur skáldið til samúðar með öllum mönnum vegna sorglegs atviks sem hefur hent og lýsir henni af alvöru, varpar henni ekki frá sér í hálfkæringi.

Ljóðið hefst á lýsingu á ástandi sem „ég“ ljóðsins hefur búið við lengi:

Þess minnist ég, að mér og þessum heimi
kom misjafnlega saman fyrr á dögum.
Og beggja mál var blandið seyrnum keimi,
því báðir vissu margt af annars högum.

Andstæðingur skáldsins í ljóðinu er „heimurinn”, sem einfaldast er að skilja í merkingunni annað fólk, allir aðrir menn. Þegar þeir hafa elt grátt silfur um hríð gerist átakanlegur atburður, lítið barn deyr og bæði Steinn og heimurinn eru harmi lostnir, því „þetta barn, sem átti ástúð mína, var einnig lieimsins barn og von hans líka.“ Þeir sameinast við þetta gegn nýjum andstæðingi, „lífinu“, sem ber ábyrgð á dauða barnsins; þeir sjá „það loks í ljósi þess, sem skeði, að lífið var á móti okkur báðum.“

Í þessu ljóði ber enn að brunni tilvistarstefnunnar. Við erum yfirgefin, eins og Sartre segir, og undursmá í ómælisrúminu, og verðum að sjá um okkur sjálf. Það minnsta sem við getum þá gert er að snúa bökum saman og taka ábyrgð hvert á öðru meðan lífið er okkur fjandsamlegt. Í rauninni er veröld þessa ljóðs jafnömurleg og „Hamletkvæðanna“, en hér kemur fram svo ekki verður um villst hin borgaralega sátt, tilraun til að safna brotunum saman og treysta á mannlega samábyrgð. Hún gefur von um að við hættum að misþyrma hvert öðru, því hún segir að allir séu í raun á sama báti og enginn beri meiri sök en annar.

En hvernig ber að skilja „lífið“ í þessu ljóði sem kemur fram á sjónarsviðið eins og marghöfða dreki úr ævintýri? Existensíalistar segja að það skilji manninn frá annarri skepnu að standa alla ævina, allt lífið, frammi fyrír því að eiga eitt sinn að deyja. Flestir reyna í lengstu lög að leiða þessa óþægilegu staðreynd hjá sér, en það er einn þáttur þess að verða til í existensíalískum skilningi að viðurkenna dauðann sem þátt af lífinu. Það gerir Steinn í Heimurinn og ég.

Fyrsta íslenska nútímaskáldið

Eitt af því sem eflaust varð Steini til nokkurrar mæðu á árum kreppu og stríðs var að hann skyldi ekki vera sanntrúaður kommúnisti eins og lenskan var þegar hann byrjaði að yrkja. En meinið var að Steinn var aldrei marxisti. Þó var hann róttækur, og enginn var hann talsmaður ríkjandi stéttar, en hann var að eðlisfari gagnrýninn á allt sem reynt er að fella í form, koma í kerfi, hvort sem það var kerfi kirkjunnar eða Karls Marx. Hann sá ekki heiminn í kerfi framleiðsluafstæðna eða sem útskýranlegt millispil undirstöðu og yfirbyggingar, hann sá heiminn í brotum.

Einmitt af því að það er fjarri eðli Steins að tileinka sér skýringar marxismans á tilveru okkar sér hann ekkert annað en óskapnað í kringum sig, örbirgð, stríð, mannvonsku og þjáningu sem hann skilur ekki. Milli þess sem hann glímir við angist sína og efa beinir hann spjótum sínum gegn ríkjandi hugmyndum, ræðst óvæginn á allar reglur, viðtekin gildi og vanahugsun — til að vekja fólk til vitundar um ástandið í þeirri von að það færist til betri vegar. En hann kemur ekki þeirri reiðu á gagnrýni sína að hvetja til gagngerðra, kerfisbundinna breytinga, það hefði ekki heldur verið honum líkt. Öll þessi einkenni á Steini sem heimspekilegu skáldi þykja mér koma mætavel heim við tilvistarstefnu.

Tilvistarstefnan er í öllum meginatriðum alger andstæða marxismans en saman hafa þessar stefnur mótað hugsunarhátt evrópskra manna á þessari öld. Það helsta sem virðist skilja þær að frá leikmanns sjónarhóli er að marxistar leita skýringa í sögu og samfélag, sjá allt eða vilja skilja allt í samhengi hvað við annað, en existensíalistar leita skýringa í sálarlífi og vitund einstaklingsins og viðurkenna ekki að nokkur geti haft yfirsýn yfir veruleikann allan. Veröldin er að þeirra mati í ótal brotum sem ókleift er að raða endanlega upp. Það eina sem einstaklingurinn getur gert er að velta sinni eigin tilveru fyrir sér og réttlæta tilvist sína með því að þroska sjálfan sig, „verða til“.

Tilvistarstefnan er ein af meginstoðum módernismans í skáldskap, en módernistar sundra snyrtilegum og heillegum heimi raunsæisstefnu og brjóta öll ríkjandi boðorð. Ekkert hefur gildi af sjálfu sér, segja þeir, ekkert getur verið endanlega viðtekið. Við verðum að hafna öllu til að geta endurmetið allt.

Sjálfsagt má finna margar og ólíkar skýringar á því hvers vegna heimspeki Kierkegaards og Nietzsches höfðaði meira til Steins en útlistanir Marx á mannlegri tilveru. Steinn var sjálfsagt að upplagi ekki síður en vegna ytri aðstæðna einstaklingshyggjumaður en ekki félagshyggjumaður. Einstaklingurinn og persónuleg barátta hans við sjálfan sig átti meiri ítök í honum en öreiginn, sem átti að sameinast öðrum öreigum að áliti Karls Marx. Á mælikvarða borgaralegs þjóðfélags var Steinn misheppnaður maður og hann kenndi sjálfum sér um það, ekki samfélaginu. Honum sveið þetta mat meðborgaranna, það kemur meira að segja fram í háðkvæðum hans um það eins og Að fengnum skáldalaunum (147):

Ég var soltinn og klæðlaus og orti í Alþýðublaðið,
og allur heimurinn fyrirleit blaðið og mig.

Eins og fram kemur í mörgum ljóða Steins var önnur hönd hans visin („hvít og tærð“), og hún verður honum eins og ytra tákn vanmáttar hans. Hennar vegna átti hann líka erfitt með að vinna almenna verkamannavinnu sem stóð honum ein til boða á fyrstu árunum í Reykjavík. Hann hafði enga menntun að bakhjarli, þaðan af síður eignir. Sveitina hafði hann yfirgefið, ekki var sú syndin minnst; hann er fyrsta skáldið í röð borgaröreiga á íslandi, yfirgefinn á mölinni. Það var ekki að undra þótt hann fyndi til skyldleika við Chaplin eins og gleggst má sjá í Sporum í sandi.

Eiginlega er það bara þrjóska sem kemur í veg fyrir að svona maður hengi sig. Steinn hefur líklega verið mest hissa á því sjálfur að hann skyldi ekki gera það, og undrun hans er einn þátturinn í leit hans að sjálfskilningi: til hvers var hann að lifa, svona aumur og vesæll? En á hinn bóginn var hann stoltur og metnaðargjarn og þær tilfinningar vega salt við sjálfsfyrirlitninguna lengi lengi. Það er einmitt úr þessum andstæðum, metnaðargirnd og minnimáttarkennd, sem ljóð hans verða til. Það eru þessar raunverulegu og djúprættu andstæður sem gera þau sterk og rík. Tilvistarstefna og módernismi eiga greiða leið að skáldi eins og Steini, verði þau á vegi hans — og ef ekki, skapar hann sjálfur það sem til þarf.

Þó að stök ljóð hafi birst í anda módernisma á íslensku áður en Steinn Steinarr fór að gefa út ljóðabækur þá tel ég óhætt að fullyrða, að hann sé fyrsta skáldið sem er módernískur að lífssýn og hugsun frá upphafi til enda. Það má renna tæknilegum stoðum undir þessa fullyrðingu, benda á nýstárlega myndbyggingu í mörgum ljóða hans, vísanir, huglæga notkun lita og ýmis önnur formsatriði,16Um þessi atriði má lesa nánar í bók Eysteins Þorvaldssonar: Atómskáldin. Rvk 1980 (76–7, 262–3). einkum í Tímanum og vatninu þar sem hin móderníska lífssýn náði mestri formlegri fullkomnun hjá Steini. Formið lagar sig betur og betur að nýrri skynjun, það er lögmálið, hins vegar eru beiskja og örvænting að miklu leyti horfin þar, það er eins og skáldið horfi á úr fjarska.

Steinn reyndi oft og lengi að nota hefðbundna bragarhætti, en einmitt í ,,Hamletkvæðunum“, vangaveltum um tilvist og tilgang lífsins, vill formið bresta. Þó var hann svo hefðbundinn að brot hans hefðu átt að fyrirgefast honum ef formið hefði eitt verið óstöðugt. En það kemur skýrara fram um Stein en mörg önnur ljóðskáld, að styrrinn um rím eða ekki rím á sínum tíma stóð alls ekki um rím heldur nýjar hugmyndir, nýtt mat á tilgangi mannsins í nýrri og að mati módernista óskiljanlegri veröld. Reyndar lýsir Steinn þessu skínandi vel í Chaplinsvísu, model 1939 og verður varla betur orðað (109):

Svo kvað ég fáein kvæði
af krafti og hagleik bæði
um allt hið blinda æði,
sem elur jarðlíf vort.
En ei var allt með felldu,
þótt eitthvað gott þeir teldu,
þeir helft þess stolna héldu,
en hitt var vitlaust ort.

Skynjun Steins á veröldinni og afneitun hans á hefðbundnum gildum voru nýstárleg — að ekki sé meira sagt — og hvort tveggja hlaut að hafa áhrif á þá menn sem voru að byrja að yrkja á þessum árum og gegndu heitinu atómskáld. Staða Steins þykir mér vís: hann er að mínu mati fyrsta raunverulega íslenska nútímaskáldið.

Silja Aðalsteinsdóttir

Silja Aðalsteinsdóttir rithöfundur, þýðandi og bókmenntafræðingur skrifaði á sínum tíma BA-ritgerð sína um Stein og ljóðagerð hans. Hún hefur auk þess fjallað um existensíalisma í verkum Steins í tímaritinu Skírni sem endurbirt er hér. Síðustu árin hefur Silja starfað sem ritstjóri hjá Forlaginu.

Tilvísanir

1. Sveinn Skorri Höskuldsson: Að yrkja á atómöld. Rvk 1970 (25).
2. Eimreiðin. Jan.–mars 1943 (91).
3. Helgafell. 1942 (430).
4. Kristinn E. Andrésson: Íslenskar nútímabókmenntir 1918–1948. Rvk 1948 (147).
5. Dagskrá. 2. hefti 1958 (3).
6. Nýtt Helgafell. 2. hefti 1958 (80).
7. Sama (81).
8. Sveinn Skorri Höskuldsson (31–2).
9. Heimir Pálsson: Straumar og stefnur í íslenskum bókmenntum. Rvk 1978 (173).
10. John Macquarrie: Existentialism. Harmondsworth 1977 (257, 262–3).
11. Hann talar um existensíalisma sem „spontaneous movement in contemporary European thought”. Jean Paul Sartre: Existentialism and Humanism. London 1957 (15).
12. Kort K. Kortsen: Sören Kierkegaard. Jakob Jóh. Smári íslenskaði. Rvk 1923 (30).
13. Til glöggvunar má geta þess að Rauður loginn brann byrjar þar á bls. 3, Ljóð á bls. 45, Spor í sandi á bls. 87, Ferð án fyrirheits á bls. 123, Tíminn og vatnið á bls. 165 og Ýmis kvæði á bls. 181.
14. Jean Paul Sartre (14).
15. Vitnað eftir John Macquarrie (208–9).
16. Um þessi atriði má lesa nánar í bók Eysteins Þorvaldssonar: Atómskáldin. Rvk 1980 (76–7, 262–3).