Silja Aðalsteinsdóttir

Silja Aðalsteinsdóttir rithöfundur, þýðandi og bókmenntafræðingur skrifaði á sínum tíma BA-ritgerð sína um Stein og ljóðagerð hans. Hún hefur auk þess fjallað um existensíalisma í verkum Steins í tímaritinu Skírni sem endurbirt er hér á vefnum undir Greinar. Síðustu árin hefur Silja starfað sem ritstjóri hjá Forlaginu.

Það er erfitt að velja eitt ljóð úr safni Steins, þau eru svo mörg sem heilla mig og segja mér eitthvað nýtt í hvert skipti sem ég les þau. Eitt þeirra er Í draumi sérhvers manns, margrætt ljóð, heimspekilegt og nútímalegt þrátt fyrir hefðbundið form. Það var nefnilega svo merkilegt með Stein að hann gat verið svo módernískur þrátt fyrir rím og stuðla.

Í draumi sérhvers manns

Í draumi sérhvers manns er fall hans falið.
Þú ferðast gegnum dimman kynjaskóg
af blekkingum, sem brjóst þitt hefur alið
á bak við veruleikans köldu ró.

Þinn draumur býr þeim mikla mætti yfir
að mynda sjálfstætt líf, sem ógnar þér.
Hann vex á milli þín og þess, sem lifir,
og þó er engum ljóst, hvað milli ber.

Gegn þinni líkamsorku og andans mætti
og öndvert þinni skoðun, reynslu og trú,
í dimmri þögn, með dularfullum hætti
rís draumsins bákn og jafnframt minnkar þú.

Og sjá, þú fellur fyrir draumi þínum
í fullkominni uppgjöf sigraðs manns.
Hann lykur um þig löngum armi sínum,
og loksins ert þú sjálfur draumur hans.