Elfar Logi Hannesson

Elfar Logi Hannesson (1971) er leikari og sjálfstætt starfandi listamaður á landsbyggð. Hann starfrækir ásamt eiginkonu sinni, Marsibil G. Kristjánsdóttur, Kómedíuleikhúsið atvinnuleikhús Vestfjarða og einnig eru þau listahjónin stofnendur og stjórnendur Act alone listahátíðarinnar á Suðureyri. Það er óhætt að segja að Steinn Steinarr hafi verið þeim listahjónum hugleikinn því alls hefur Kómedíuleikhúsið sett upp fjórar leiksýningar sem tengjast ævi og verkum Steins. Líklegt að enn fleiri Steinsleikverk rati á senu í komandi kómískri framtíð.


Sem ég var þakklátur þegar ég kynntist ljóðum Steins því þá loks fattaði ég hið dásamlega ljóðform. Líklega var það Hudson Bay sem heillaði snáðann mig fyrst. Kannski var ég tólf eða þrettán ára er Steinn kom í mína ljóðatilveru. Allar götur síðan hefur Steinn verið mitt uppáhalds ljóðskáld. Ég er einsog stjórnmálamaðurinn og tækifærissinninn er alltaf að skipta um uppáhalds Steins ljóð. Einn daginn er það Kvæði um hund, þar næsta dag Ræfilskvæði, viku síðar Miðvikudagur og miðvikudaginn þar á eftir Tindátarnir. En í dag er mitt Steinsljóða uppáhald, Leiksýning. Ekki bara vegna þess að ég starfa sem leikari og ljóðið nær að fanga vel tilveru leikarans sem er á hverju sýningarkveldi að kasta sér fyrir björg og vonast til að gónendur grípi vesalinginn allavega gefi honum klapp í lok leiks. Heldur og vegna þess að mér finnst þetta ljóð fanga einstaklega vel tilveru okkar í dag.


Leiksýning


Hin mikla leiksýning
var loks á enda.
Einsog logandi blys
hafði leikur minn risið
í hamslausri gleði
og friðlausri kvöl,
uns hann féll á ný
í skoplegri auðmýkt
til upphafs síns.
Það var lífið sjálft,
það var leikur minn.
Og ég leit fram í salinn
og bjóst við stjórnlausum fögnuði
fólksins.
En þar var enginn.
Og annarleg kyrrð hvíldi yfir
auðum bekkjunum.


Ari Trausti Guðmundsson

Ari Trausti Guðmundsson (1948) nam við Háskóla Íslands og í Osló, með áherslu á jarðvísindi og vann m.a. við kennslu, leiðsögn og ferðaþjónustu til 1987. Eftir það var hann sjálfstætt starfandi til 2016 og t.d. sinnt ýmis konar faglegri ráðgjöf, fyrirlestrum, ferðaþjónustu, kynningu á vísindum, náttúru og umhverfismálum, ritstörfum og dagskrárgerð fyrir sjónvarp og útvarp. Stundað fjallamennsku, útivist og ferðalög, heima og heiman. Ari Trausti á að baki tugi bóka um landið, náttúruna og umhverfismál en einnig ljóðabækur, stuttsögusafn og skáldsögur. Meðal verkefna hans eru sýningar og söfn. Ari Trausti varð þingmaður fyrir Vinstri hreyfinguna – grænt framboð í Alþingiskosningum 2016.


Verkamaður er að mörgu leyti mjög hefðbundið ljóð og fjarri þeim heimspekilegu nútímaljóðum Steins sem mér eru kær. Mörg hver með heillandi blöndu af óræðni og dul, en önnur ort af innsæi og þrungin mannúð eða jafnvel krydduð hæðni eða ádeilu. Ég vel Verkamann engu að síður vegna þeirra hvetjandi áhrifa sem ljóðið hafði á mig, á árunum þegar ég vaknaði til róttækni og vinstri hugsjóna. Beinskeytt og harmþrungið fannst mér það ríma við þá stéttvísi og þau gildi sem mig langaði til að geta deilt með vinnandi alþýðu fyrir tæplega hálfri öld. Ég tel allsendis óþarft að útskýra hvort eða hvernig hugsjónir mínar, verkefni og vinnubrögð hafa breyst. Vel ljóðið sem þá baráttuhvöt er þótti við hæfi og má enn gilda, að breyttu breytanda. Ólíkar ásýndir í ljóðgerð Steins eru heillandi, líka pólitíska kvæðagerðin, sett í samhengi við tíðaranda og samfélag.


Verkamaður


Hann var eins og hver annar verkamaður,
í vinnufötum og slitnum skóm.
Hann var aldrei hryggur og aldrei glaður
og átti ekki nokkurn helgidóm.
Hann vann á eyrinni alla daga,
þegar einhverja vinnu var hægt að fá,
en konan sat heima að stoppa og staga
og stugga krökkunum til og frá.

Svo varð það eitt sinn þann óra tíma,
að enga vinnu var hægt að fá.
Hver dagur varð harðsótt og hatrömm glíma
við hungurvofuna, til og frá.
Þá ólgaði hatrið sem öldur á sænum,
og auðvaldsins harðstjórum reistu þeir níð.
Og loksins kom að því þeir börðust í bænum,
um brauð handa sveltandi verkalýð.

Þann dag var hans ævi á enda runnin
og enginn veit meira um það.
Með brotinn hausinn og blóð um munninn,
og brjóst hans var sært á einum stað.
Hans fall var hljótt eins og fórn í leynum,
í fylkinguna sást hvergi skarð.
Að stríðinu búnu, á börum einum,
þeir báru hans lík upp í kirkjugarð.

Og hann var eins og hver annar verkamaður,
í vinnufötum og slitnum skóm.
Hann var aldrei hryggur og aldrei glaður
og átti ekki nokkurn helgidóm.
Engin frægðarsól eða sigurbogi
er samantengdur við minning hans.
En þeir segja, að rauðir logar logi
á leiði hins fátæka verkamanns.


Ármann Jakobsson

Ármann Jakobsson er prófessor í íslenskum bókmenntum fyrri alda og rithöfundur. Hann lauk doktorsprófi frá HÍ 2003. Frá því í júlí 2011 hefur hann gegnt stöðu prófessors við íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands. Ármann hefur sent frá sér fjölmargar skáldsögur; Vonarstræti, 2008. Fréttir frá mínu landi: Óspakmæli og örsögur, 2008. Glæsir, 2011. Síðasti galdrameistarinn, 2014. Brotamynd, 2017. Útlagamorðin, 2018.


Ljóðið Jól er valið fyrir hönd sjálfs mín þegar ég var 19 ára og tiltölulega nýbúinn að uppgötva alvarlegar bókmenntir og gat auðveldlega orðið bergnuminn af ádeilu ljóðsins og ekki síst þessum viðsnúningi frá fyrsta erindi til hins seinasta. Mig minnir (frekar vandræðalega) að ég hafi lært ljóðið utanbókar og farið með það fyrir jafnaldra í sjoppu í Gnoðarvogi að kvöldlagi. Fimm árum fyrr var ég hrifnari af Húsameistara ríkisins og enn fyrr af Mannkynssögu fyrir byrjendur og síðar hafa önnur ljóð hrifið mig. Steinn Steinarr átti ansi mikla fjölbreytni til en um leið hélt hann sig við að yrkja á tiltölulega einföldu máli og þannig gat hann snert fólk meira en mörg önnur ljóðskáld 20. aldar. Alla æsku mína var hann því það skáld sem fólki á mínum aldri líkaði einna best, ekki af því að því væri skipað það heldur af því að hann höfðaði til okkar milliliðalaust.


Jól


Sjá, ennþá rís stjarnan, sem brennur björtust og mildust
á bládjúpum miðsvetrarhimni hins snæþakta lands.
Sjá, ennþá nálgast sú hátíð, sem hjartanu er skyldust
og huggar með fagnaðarsöngvum hvert angur manns.

Og innan skamms byrjar kappát í koti og höllu,
og klukknahringing og messur og bænagjörð.
Það er kannski heimskast og andstyggilegast af öllu,
sem upp var fundið á þessari voluðu jörð.

Og ger þú nú snjallræði nokkurt, svo fólkið finni
í fordæmi þínu hygginn og slóttugan mann:
Með kurteisum svip skaltu kveikja í stofunni þinni,
og kauptu svo sóknarprestinn og éttu hann.


Silja Aðalsteinsdóttir

Silja Aðalsteinsdóttir rithöfundur, þýðandi og bókmenntafræðingur skrifaði á sínum tíma BA-ritgerð sína um Stein og ljóðagerð hans. Hún hefur auk þess fjallað um existensíalisma í verkum Steins í tímaritinu Skírni sem endurbirt er hér á vefnum undir Greinar. Síðustu árin hefur Silja starfað sem ritstjóri hjá Forlaginu.


Það er erfitt að velja eitt ljóð úr safni Steins, þau eru svo mörg sem heilla mig og segja mér eitthvað nýtt í hvert skipti sem ég les þau. Eitt þeirra er Í draumi sérhvers manns, margrætt ljóð, heimspekilegt og nútímalegt þrátt fyrir hefðbundið form. Það var nefnilega svo merkilegt með Stein að hann gat verið svo módernískur þrátt fyrir rím og stuðla.


Í draumi sérhvers manns


Í draumi sérhvers manns er fall hans falið.
Þú ferðast gegnum dimman kynjaskóg
af blekkingum, sem brjóst þitt hefur alið
á bak við veruleikans köldu ró.

Þinn draumur býr þeim mikla mætti yfir
að mynda sjálfstætt líf, sem ógnar þér.
Hann vex á milli þín og þess, sem lifir,
og þó er engum ljóst, hvað milli ber.

Gegn þinni líkamsorku og andans mætti
og öndvert þinni skoðun, reynslu og trú,
í dimmri þögn, með dularfullum hætti
rís draumsins bákn og jafnframt minnkar þú.

Og sjá, þú fellur fyrir draumi þínum
í fullkominni uppgjöf sigraðs manns.
Hann lykur um þig löngum armi sínum,
og loksins ert þú sjálfur draumur hans.


Þóra Elfa Björnsson

Þóra Elfa Björnsson er framhaldsskólakennari og hefur starfað við kennslu í bókiðngreinum frá árinu 1983. Þóra hefur einnig ritað bækur um draumaráðningar, fengist við þýðingar á barna- og fullorðinsbókum og ritað ýmsar greinar, ljóð og viðtöl.


Á dögunum var ég að grúska í skjölum Sigríðar Einars frá Munaðarnesi  og fann þar skemmtilegt ljóð eftir Stein sem hann hafði ort í hálfkæringi til hennar, veit ekki hvort þetta hefur birst á prenti.  Þau voru í vinahópi sem myndaðist á 4. áratugnum í Reykjavík.  Sigríður og Halldóra B. Björnsson voru vinkonur og leigðu saman á Grundarstíg, önnur vann á póstinum, hin í dömubúð. Þær voru síyrkjandi og skrifandi  líkt og fleira ungt fólk sem stundaði sömu iðju og var vakandi fyrir þjóðfélagsmálum, hittist og skammaðist út í auðvaldið, veðrið, fátæktina og allt annað sem ungt fólk á þessum tíma hafði áhyggjur af. Oft var komið saman hjá þeim vinkonunum og kannski snæddur einfaldur kvöldverður meðan málin voru rædd. Þessir einstaklingar fóru svo út í heiminn, lífið og skáldskapinn en alltaf var þráður milli þeirra flestra. Af því að þetta er það síðasta sem ég hef lesið eftir Stein og finnst húmorinn í því brattur og gáskafullur ætla ég að nefna það hér. Það er svo langt síðan þetta var ort að ýmsar líkingar eru trúlega ráðgáta í dag.


Lofsöngur til Sigríðar Einars


Þú ert eins og blaðsíða í óskrifaðri bók.
Þú ert eins og gullið sem Þorstein Jónsson tók.
Þú ert eins og síðasta heimsins hanagal.
Þú ert eins og intelligensinn í Van der Messertal.
Þú ert eins og hrífuskaft á áliðnu sumri.

Þú ert eins og hæna sem er hjerumbil blind.
Þú ert eins og alltað því ódrýgð synd.
Þú ert eins og lilja eða lítið notuð skeið.
Þú ert eins og asnan sem Jesús Kristur reið.
Þú ert eins og flík sem ég átti einu sinni.

Þú ert eins og Borgarfjarðar blessaða smjer.
Þú ert eins og vinnukonan, sem að svaf hjá mjer.
Þú ert eins og ástfanginn maður úti í sjó.
Þú ert eins og sorgin þegar amma mín dó.
Þú ert eins og hreppsnefndaroddvitaanginn.

Þú ert eins og göturnar gráar af sorg.
Þú ert eins og miðnætti uppi á Hótel Borg.
Þú ert eins og Hersins halelúja.
Þú ert eins og hvalreki, sem kirkjan á.
Þú ert eins og Hospital holdsveikra lima.

Þú ert eins og Paturi X og þú ert eins og Lí.
Þú ert eins og Dóra, sem ég er skotinn í.
Þú ert eins og upphafið áfengisbann.
Þú ert eins og dalakofi Davíðs sem að brann.
Þú ert eins og draumur um drottninguna af Saba.

Þú ert eins og gamalt og gisið gluggatjald.
Þú ert eins og innrukkað sóknargjald.
Þú ert eins og skip, sem mætast á miðri nótt.
Þú ert eins og hryssa, sem var einu sinni skjótt.
Þú ert eins og kvæði eftir Halldór Kiljan Laxness.

Steinn Steinarr


Ingi Bogi Bogason

Ingi Bogi skrifaði meistararitgerð sína í íslenskum bókmenntum um lífssýn í ljóðum Steins. Um árabil var hann bókmenntagagnrýnandi hjá Þjóðviljanum, Morgunblaðinu og fleiri blöðum. Hann hefur kennt og sinnt stjórnunarstörfum í háskóla og framhaldsskóla og starfar nú sem sérfræðingur í mennta- og menningarmálaráðuneytinu.


Formáli á jörðu hefur orðið mér hugstæðara á síðari árum. Heimska, ofbeldi, blekking, lygi og dauði eru viðfangsefnið eins og svo oft hjá Steini. Mælandinn mætir öllu þessu með sorg, von og trú í brjósti. En hann beygir sig ekki undir illþolandi ástand heldur bregst við — svo að ljóðið, andinn og guð megi lifa. Er þetta ekki bjartsýnt niðurlag? Þrátt fyrir allt niðurbrotið í heiminum er von. Maður spyr áfram: Að hverju er þetta ljóð formáli? Hefði mátt búast við Eftirmála á himnum?


Formáli á jörðu


Út í veröld heimskunnar,
út í veröld ofbeldisins,
út í veröld dauðans
sendi ég hugsun mína
íklædda dularfullum,
óskiljanlegum
orðum.

Gegnum myrkur blekkingarinnar,
meðal hrævarloga lyginnar,
í blóðregni morðsins
gengur sorg mín
gengur von mín
gengur trú mín
óséð af öllum

Djúp, sár og brennandi.

Óséð af öllum.

Svo að ljóðið megi lifa,
svo að andinn megi lifa,
svo að guð megi lifa.


Sjón

Sigurjón Birgir Sigurðsson (Sjón) er fæddur í Reykjavík árið 1962. Hann hóf rithöfundarferil sinn ungur sem ljóðskáld, fyrsta ljóðabók hans, Sýnir, kom út 1978 en fyrr sama ár gaf hann út einblöðung með þremur ljóðum. Sjón var einn af stofnendum súrrealistahópsins Medúsu.


7


Himinninn rignir mér
gagnsæjum teningum
yfir hrapandi jörð.

Dagseldur, ljós,
í kyrrstæðum ótta
gegnum engil hraðans,
eins og gler.

Sofa vængbláar hálfnætur
í þakskeggi mánans,
koma mannstjörnur,
koma stjarnmenn,
koma syfjuð vötn.

Kemur allt,
kemur ekkert,
gróið bylgjandi maurildum,
eins og guð.

Guð.



Í sjöunda ljóði Tímans og vatnsins birtast einna sterkast áhrif vísinda og vísindaskáldskapar á hinn torskilda en afar fagra ljóðaflokk Steins Steinarr. Verkið býr yfir dulúð og leyndardómi sem aldrei verður hægt að nálgast og í því liggur hin sígilda staða þess. Ljóðin virðast láta margt uppi í skýrri fegurð textans og myndanna sem þar eru dregnar upp en „hin raunverulega“ merking þeirra er horfin lesendanum líkt og merking ævaforns skáldskapar fallinna siðmenninga er okkur glötuð. Munurinn er sá að hér var það eitt einasta skáld sem hvarf á braut með lyklana og ekki fyrir svo löngu.

Einnig má segja að andspænis ljóðum Tímans og vatnsins standi maður jafn agndofa og andspænis nýjustu sjónaukaljósmyndum úr ofurdjúpum geimins. Og þykir mér það sérstaklega eiga við sjöunda ljóðið. Við getum ekki hugleitt það of lengi í einu líkt og við getum ekki horft á ljósmynd af fæðingu sólkerfanna of lengi. Um leið og tekur að örla á skilningi á þeim í huga okkar erum við samtímis komin hættulega nærri því að sturlast. En þegar hættustiginu er næstum því náð má alltaf leggja frá sér ljóðið eða myndirnar og skoða það aftur seinna — aftur og aftur seinna.


Pjetur Hafstein Lárusson

Fyrsta ljóðabók Pjeturs, Leit að línum, kom út árið 1972, en eftir hann liggja fjölmargar ljóðabækur og þýðingar. Árið 2004 kom út á vegum Hveragerðisbæjar bók Pjeturs, Hveragerðisskáldin 1933 til 1974. Sama ár kom út smásagnasafnið Nóttin og alveran. Pjetur var einn af stofnendum Lystræningjans og ljóðatímaritsins Ljóðorns.


Landsýn


Ísland, minn draumur, mín þjáning, mín þrá,
mitt þróttleysi og viðnám í senn.
Þessi vængjaða auðn með sín víðerni blá,
hún vakir og lifir þó enn.

Sjá, hér er minn staður, mitt líf og mitt lán,
og ég lýt þér, mín ætt og mín þjóð.
Ó, þú skrínlagða heimska og skrautklædda smán,
mín skömm og mín tár og mitt blóð.



Skáld er sá einn, sem yrkir í samræmi við sjálfan sig; geðslag sitt, sannfæringu sína og samvisku. Hver sá sem við skáldskap fæst án þess að virða þetta grundvallaratriði er sem sperrtur hani, galandi ofan af hundaþúfu hégómleikans. Nú er það svo að menn sem eru tiltölulega einfaldrar gerðar geta verið farsælir vitmenn. Eins íþyngir viskan ekki öllum þeim, sem flókinnar gerðar virðast að eðlisfari. Það er merkilegt í þeim efnum hve stundum verður mikið úr litlu, að því er virðist. Svo má ekki gleyma þeim sem djúpir eru að visku, en bera í sál sinni sár er seint eða aldrei gróa, án þess að flíka þeim. Steinn Steinarr fyllti flokk þeirra manna.
Öllum þeim sem ég hef rætt við og persónuleg kynni höfðu af Steini ber saman um, að hann hafi síst borið tilfinningar sínar á torg gagnvart öllum þeim fjölda fólks sem á vegi hans varð. Hann var að ég hygg, lengst af ævinnar förumaður á gatnamótum tilverunnar, eins þótt kaffihús og öldurhús Reykjavíkur veittu honum gjarnan skjól til skylminga við þá sem áttu þar leið um. Geðslag hans gat verið napurt en átti sér einnig næmari strengi, sannfæring hans vék aldrei hársbreidd frá rétti þeirra sem minna máttu sín til mannlegrar reisnar. Í því fólst að þeir sem töldu sig yfir alþýðu manna hafna, máttu oft kenna á birtu háði hans. Og hvað samvisku hans varðaði, þá meinaði hún honum allt fals.
Mér er erfitt að velja eitt ákveðið ljóð Steins sem uppáhaldsljóð, enda er hann einhvert hið heilsteyptasta skáld sem ég þekki til. En í ljóðinu Landsýn koma fram allar þær bitru mótsagnir, en samtímis heilsteypta manngerð, sem einkenna skáldið og manninn Stein Steinarr og um leið barátta hans við samtíð sína og umgjörð, að viðbættri sátt. Því kýs ég að birta það hér.


Kristín Þórarinsdóttir

Kristín Þórarinsdóttir er systurdóttir Ásthildar K. Björnsdóttur, eiginkonu Steins Steinarr. Hún lauk BA námi í íslensku frá Háskóla Íslands vorið 2005 með ritgerð um Tímann og vatnið. Starfaði sem fjármálastjóri Fjölbrautaskóla Suðurlands í tæpan aldarfjórðung, en hætti störfum þar vorið 2011.


Siesta


Í dagsins önnum dreymdi mig
þinn djúpa frið, og svo varð nótt.
Ég sagði í hljóði: Sofðu rótt,
þeim svefni enginn rænir þig.

En samt var nafn þitt nálægt mér
og nóttin full af söngvaklið
svo oft, og þetta auða svið
bar ætíð svip af þér.

Og þungur gnýr sem hrynji höf
mitt hjarta lýstur enn eitt sinn:
Mín hljóða sorg og hlátur þinn,
sem hlutu sömu gröf.



Þetta ljóð Steins Steinarr er gott dæmi um þá snilld hans að segja mikið í fáum orðum og fanga með því hug og hjörtu lesenda.
Ástæða þess að ég hef lengi haldið upp á þetta litla ljóð er brotakennd saga á bak við ljóðið sem sjálfsagt hefur ekki verið mörgum kunn. Ljóðið birtist í ljóðabókinni Spor í sandi sem kom út 1940. Það er ort eftir fyrri sambandsslit Steins og Ásthildar Björnsdóttur, móðursystur minnar, sem síðar varð eiginkona hans. Í því ljósi skýrist heiti ljóðsins að mínum dómi. Ásthildur bjó ásamt systrum sínum tveim, Ingibjörgu og Þorbjörgu í lítilli risíbúð í Ingólfsstræti sem vinir þeirra systra kölluðu „Skjólið“ því þar áttu athvarf aðkomnir vinir og skólabræður og þar hittust Steinn og Ásthildur fyrst. Atvikin höguðu því svo, að Ásthildur sleit sambandi við Stein og erfiðir tímar fóru í hönd hjá þeim báðum. Ljóðið orti Steinn til Ásthildar eftir að hann fór vestur á Flateyri þar sem hann vann um tíma í síldarverksmiðjunni á Sólbakka. Allt myndmál ljóðsins tengist veru hans þar og „Þetta auða svið“ lýsir vel aðstæðum hans og einsemd á Flateyri.
Í fórum móður minnar var lengi bréf til hennar frá Steini sem hún brenndi því miður með öðrum gömlum bréfum áður en hún kvaddi. Það eina sem ég sá af þessu bréfi voru upphafsorð þess sem gleymast mér ekki: „Guð minn góður hvað það er gaman að þú skulir vera til“. Ég fékk ekki að lesa lengra. Seinna, þegar ég var að skrifa ritgerð um Tímann og vatnið í ljósi lífshlaups Steins rifjaðist upp fyrir mér þetta gamla bréf sem farið var forgörðum. Þá var Þorbjörg systir Ásthildar orðin ein til frásagnar. Ég spurði hana hvort hún hefði vitað um þetta bréf eða efni þess. Hún sagðist ekki hafa haft hugmynd um þetta bréf frá Steini en vissi að móðir mín hafði skrifaði honum þegar hann var á Sólbakka því hún fann til með honum eftir skilnaðinn við Ásthildi.
Ætla má því að Steinn hafi verið að svara bréfi hennar með bréfinu með þessari fallegu byrjun.
Vegna þessara vísbendinga um tilurð ljóðsins hefur það átt sérstakan sess í hug mér. En auðvitað les hver og einn ljóðið eins og það kemur til hans og til þess þarf enga vitneskju aðra en ljóðið sjálft.


Þórarinn Magnússon

Þórarinn Magnússon byggingaverkfræðingur er stjórnarformaður Steinshúss ses og frumkvöðull þess að ráðist var í framkvæmdir að Nauteyri við Ísafjarðardjúp við uppbyggingu gamla samkomuhússins sem nú er orðið að safni tileinkað Steini Steinarr.


Það er vissulega erfitt að gera upp á milli þess mikla fjölda frábærra ljóða sem Steinn Steinarr hefur samið. En ég held ég velji ljóð Steins Barn (Ég var lítið barn og ég lék mér við ströndina…)
Fyrir mér er þetta undurfögur ævilýsing sem kallar fram hughrif sem erfitt gæti reynst að ná fram í löngum ljóðabálki. Og að hlusta á Ragnar Bjarnason syngja þetta frábæra ljóð og lag magnar áhrifin og gerir ljóðið ógleymanlegt.


Barn


Ég var lítið barn
og ég lék mér við ströndina.
Tveir dökkklæddir menn
gengu fram hjá
og heilsuðu:
Góðan dag, litla barn,
góðan dag!

Ég var lítið barn
og ég lék mér við ströndina.
Tvær ljóshærðar stúlkur
gengu fram hjá
og hvísluðu:
Komdu með, ungi maður,
komdu með!

Ég var lítið barn
og ég lék mér við ströndina.
Tvö hlæjandi börn
gengu fram hjá
og kölluðu:
Gott kvöld, gamli maður,
gott kvöld!