Steinn Steinarr og tónlistin

Fjölmargir íslenskir tónlistarmenn og tónskáld hafa flutt og/eða samið tónverk við ljóð Steins í gegnum tíðina. Brautryðjandinn má segja að sé Hörður Torfason með plötu sinni Hörður Torfason syngur eigin lög sem var hljóðrituð árið 1970 en þar má finna tvö lög Harðar við ljóð eftir Stein; Lát huggast barn og Gamalt sæti. Platan markaði ákveðin tímamót í íslenskri tónlistarsögu, hún er að því best er vitað fyrsta platan sem tekin var upp í stereo (víðómi) hér á landi og er talin vera fyrsta íslenska söngvaskáldsplatan.