Þungt að vera þjóðskáld

Hugleiðing um afmælisbarn – eftir Jón Kalman Stefánsson. Birtist í Lesbók Morgunblaðsins 2008

Það virðist náttúrulögmál að þeir sem dragast að ljóðum liggja einhverntíma í Steini Steinarr, fara gegnum Steins-tímabil, og þá helst á árunum kringum tvítugt. Skyldi það vera út af tilvistarangistinni sem blasir við í mörgum kvæðanna, sett fram á svo augljósan hátt að það þarf, öfugt við mörg ljóð atómskáldanna, litla lestrarþjálfun til að átta sig á þeim? Og varla skemmir kaldhæðnin fyrir, og fyndnin í bland við sjálfsháð. Steinn er skáld sem virðist ganga í hring í kringum sjálfan sig, hann er umfram allt fyrstu persónu skáld, „Ég“ er fyrsta orðið í fyrstu ljóðabók hans. Hann kemur beint að lesandanum, kaldhæðinn, fyndinn, þunglyndur, kvalinn. Ólíkindatól sem vorkennir sjálfum sér í einu orði, hæðir í því næsta — allt þetta rímar vel við ungar og skáldlega þenkjandi manneskjur. Sjálfur lá ég í kvæðum hans framyfir tvítugt, besta skáld Íslands síðustu 500 árin, fullyrti ég þá, og bætti gjarnan við; ásamt Jóhanni Sigurjónssyni og Jónasi Hallgrímssyni. En einhverntíma á níunda áratug síðustu aldar setti ég kvæðasafn hans upp í hillu, og hef varla snert það síðan. Ekki þar fyrir, maður er alltaf að rekast á Stein, safnið hans hvílir við hlið Nýja testamentisins, Passíusálmanna og Laxness á gjafaborðunum, hann er jafnvel gefinn í skírnargjöf og er sjálfsagt löngu búinn að velta Davíð Stefánssyni úr sessi sem gjafaskáld númer eitt, það hefði Steini þótt djöfulleg örlög.

Við Íslendingar erum þannig samansettir að við tölum lítið um skáldskap þeirra sem komast á þjóðskáldastallinn, áhuginn færist frá honum og yfir á sjálft skáldið, persónuna. Þegar við reisum styttu er það af manninum, ekki verkum hans. Og það er hugsanlega þessvegna að skáldskapur þjóðskáldanna á það eilíflega á hættu að glata töfrum sínum, þessari innri glóð sem gerir skáldskap að því sem hann er. Hann verður að traustum og hættulausum gjöfum. Einhverskonar andlegu sófasetti.

Var það kannski útaf þessu að ég setti Stein upp í hillu, og sniðgekk hann í tuttugu ár; einskonar óþol gagnvart jöskuðum gjafaumbúðum, japlandi frösum?

Hugsanlega, í fyrstu, en góður skáldskapur heldur áfram að suða innra með manni, hversu vandlega sem honum er pakkað í gjafaumbúðir, eða hjúpaður mærðarfullu lofi. Maður hlaut fyrr eða síðar að taka kvæðasafn Steins úr hillunni. Ég á Helgafellsútgáfu á kvæðum Steins og greinum, útgefið 1982, með mynd af honum ungum á annarri síðu og allnokkru eldri á blaðsíðu 238. Gamall maður, fannst mér á sínum tíma, og samt er hann ekki miklu eldri en ég núna; greini ég uppgjöf í augnaráði hans, horfir hann inn í myrkur og eldist á meðan?

Ég hef auðvitað lesið kvæði og kvæði eftir Stein á síðustu árum, rekist á þau í öðrum bókum, jafnvel svo óvænt að ég var búinn að lesa þau áður en ég vissi af. Og línur og stemningar í stöku kvæðum hafa búið með mér, eru hluti af þessu andlega nesti sem ég gríp til við mögulegar og ómögulegar aðstæður. Sólin, sólin var hjá mér, eins og grannvaxin kona á gulum skóm; og svo framvegis. En fyrir tveimur eða þremur vikum tók ég loks kvæðasafn Steins niður úr hillu, og las það í gegn, frá kvæði til kvæðis. Fyrst var það svolítið eins og að ferðast aftur í tímann — áður en ég vissi af var ég staddur í Keflavík undir miðbik níunda áratugarins. Að lesa er stundum það sama og að lenda í tímavél.

„Ég og hamingjan skildum aldrei hvort annað,“ yrkir Steinn í bókinni Ferð án fyrirheits, „og eflaust má kenna það vestfirzkum framburði mínum.“ Það var nákvæmlega þessi tónn sem mér fannst svo heillandi, þetta viðhorf, kæruleysi í bland við sársauka, alvöruleysi, gott ef ekki fíflalæti, en dauðans alvara djúpt undir. Einhverstaðar talar Steinn um að lífsháskinn sé mikilvægur í öllum skáldskap, og það má vissulega greina eitthvað slíkt í Hamingjan og ég; kvæðinu sem ég vitnaði í hér að ofan. Steinn brosir út í annað, eða glottir, eins og til að fela djúplægan sársaukann. Ég er ekki frá því að Steinn sé hvað sterkastur þegar hann yrkir á þennan hátt, og ég gæti nefnt fleiri skyld kvæði af handahófi: Að frelsa heiminn, Undirskrift, Að sigra heiminn, Þjóðin og ég. Fjandi lífseigur kveðskapur, sífellt eins og maður sé að lesa kvæðin í fyrsta sinn, og gott ef það er ekki skyldleiki milli þeirra og einnar vísu eftir Pál Vídalín, sem er ekki lítið hrós því ég held að það sé besta vísan sem ort hefur verið á Íslandi:

Einatt liggur illa á mér,
ekki eru vegir fínir;
heilir og sælir séu þér
snjótittlingar mínir.

En þau kvæði Steins sem mér þótti kannski hvað mest um á sínum tíma, og stældi sjálfsagt af ákafa og ósvífni, kvæði sem glíma af dauðans alvöru við angist lífsins, það er nú meira hvað þau hafa dofnað. Ég vil ekki kalla þau tilgerðarleg, ekki beinlínis, en þau eru heldur eintóna, fyrirsjáanleg, öll á yfirborðinu. Og enda merkilega oft á línum á borð við: „Ég elska það, sem aldrei verður til“, „… horfði með söknuði og trega/ á eitthvað, sem ekki er til“, „Og ljóð mitt ber samskonar/ svip og það,/ sem ekki er“. „Ég er ekki til.“

Bækur Steins eru ójafnar, ójafnari en mig minnti. Og kannski að þar sé komin ástæðan fyrir því að ég forðaðist að lesa skáldskap hans öll þessi ár; ég lagði einfaldlega ekki í það. Sumar bækur virðast best geymdar í minninu, ljóma þar svo lengi sem maður les þær ekki aftur, þær eru bundnar við liðinn tíma. Ég óttaðist einfaldlega að Steinn þyldi illa endurfundina. Sá ótti varð áleitnari næstum í hvert sinn sem ég rakst á kvæði eftir hann, ég óttaðist vonbrigði. Sem varð raunin — upp að vissu marki. Slöku kvæðin eru umtalsvert fleiri en ég hélt, tíminn hefur farið illa með þau, einhver ætti að taka sig til og gefa út strangt úrval kvæða hans; honum er lítill greiði gerður með að endurprenta heildarsafnið aftur og aftur. Svoleiðis fer vissulega betur í gjafapakka, liggur betur í hillu, þrjúhundruð síðna bók er virðulegri en fimmtíu síðna ljóðaúrval. En skáldskapur er ekki virðulegur, jakkaföt eru það, sumir þjóðhöfðingjar; en virðulegur skáldskapur er dauður skáldskapur. Steinn Steinarr, þessi gamli skelmir, þetta óíkindatól á aldarafmæli. Besta afmælisgjöfin sem við getum gefið honum, og þá um leið okkur sjálfum, er að gefa út úrval af kvæðum hans, því stórskáld er Steinn þar sem honum tekst best upp. Lofið mér að nefna, fyrir utan þau sem þegar eru upptalin, kvæðin Í kirkjugarði, Í draumi sérhvers manns, Passíusálmur nr. 51, Landsýn og síðan Formáli á jörðu — stundum held ég að síðastnefnda kvæðið sé eitt það sannasta sem ort hefur verið á íslensku. Það er í sjálfu sér einfalt, minnir næstum á regndropa, og hægt að lesa það án þess að nema staðar, lesa það og gleyma því. En þetta er sárt kvæði og fjallar um dýpstu þrá og skyldu mannsins; að gera heiminn, lífið, tilveruna, að betri stað:

Út í veröld heimskunnar,
út í veröld ofbeldisins,
út í veröld dauðans
sendi ég hugsun mína
íklædda dularfullum,
óskiljanlegum orðum.

Gegnum myrkur blekkingarinnar,
meðal hrævarloga lyginnar,
í blóðregni morðsins
gengur sorg mín
gengur von mín
gengur trú mín
óséð af öllum.

Djúp, sár og brennandi.

Óséð af öllum.

Svo að ljóðið megi lifa,
svo að andinn megi lifa,
svo að guð megi lifa.

Jón Kalman Stefánsson

Jón Kalman Stefánsson hóf feril sinn sem ljóðskáld en fyrsta prósaverk hans var smásagnasafnið Skurðir í rigningu (1996). Skáldsögur Jóns Kalmans hafa notið mikilla vinsælda á undanförnum árum og hlaut hann Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir Sumarljós og svo kemur nóttin árið 2005. Bækur hans hafa einnig hlotið góðar viðtökur erlendis, meðal annars í Þýskalandi. Jón Kalman hefur þrisvar verið tilnefndur til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, fyrir Sumarið bak við brekkuna, Ýmislegt um risafurur og tímann og Sumarljós og svo kemur nóttin.