Steinn Steinarr svarar spurningum um ljóð ungra skálda

Jón Óskar tók viðtalið. Birtist áður í Birtingi 2. tbl. 1955

Um jól í vetur kom út Árbók skálda, sýnishorn af því hvernig yngstu skáldin yrkja á Íslandi nú á dögum. Okkur langaði mjög til að fá umsögn einhvers sem vit hefur á um bók pessa. Okkur datt þá það snjallræði í hug að hitta að máli Stein skáld Steinarr og spyrja hann nokkurra spurninga um skáldskapinn í þessari bók. Honum treystum við til að láta allt flakka sem honum byggi í hug, hvort sem það væri okkur til hnjóðs eða lofs. Þá fýsti okkur og að fá að heyra álit hans á þróun ljóðagerðar á Íslandi nú síðustu árin, t. d. eins og hún speglast í árbókinni. Þess vegna kom ég að máli við Stein. Hann tók mér alúðlega eins og hans var von og vísa og var undireins fús til að gera okkur þennan greiða. Er nú ekki að orðlengja það nema ég lagði fyrir hann spurningar og hann svaraði af mikilli hreinskilni. Hér er sem sé um spurningar og svör að ræða, en ekki eiginlegt samtal.

Hann spyr aldrei. Hann svarar. Ég mótmæli aldrei, þó að ég sé á öðru máli. Ég spyr einungis. Auðvitað hljóta margir að vera ósammála Steini. En hann þykist ekki heldur vera neinn dómari. Hann segir einungis álit sitt og það verðum við að hafa.

Finnst þér þetta safn vera gott eða slæmt sýnishorn af ljóðagerð yngstu skáldanna á Íslandi?

Ég held að það sé nokkuð gott, enda er Magnús Ásgeirsson allra manna líklegastur til að inna slíkt verk vel af hendi.

Sýnist þér eftir lestur bókarinnar að íslenzk ljóðlist sé á hnignunarskeiði?

Það held ég ekki, en fljótt á litið sýnist mér ekki bóla þar á mörgum stórmennum. Enginn Matthías er þar og ekki heldur Einar Ben., eins og gamla fólkið segir. En hvað um það, þetta er sjálfsagt það sem koma skal, og þegar til kastanna kemur er maður víst ekki fyllilega dómbær um þá hluti sem standa svo nálægt manni sjálfum í tíma og rúmi.

Álítur þú að skáld, sem vikið hafa að nokkru eða öllu frá stuðlum, höfuðstöfum og rími, hafi tekið skakka stefnu?

Ég held að það sé aukaatriði hvort ljóð er rímað eða órímað. Enginn verður skáld fyrir það eitt að sleppa stuðlum, höfuðstöfum og endarími, á sama hátt og enginn verður skáld fyrir rímið eitt saman. Þetta eru að vísu gömul og viðurkennd sannindi, en þó held ég að sumir höfundar þessarar bókar mættu taka það til nýrrar athugunar. Afturámóti hefur mér ævinlega fundizt ljóðformið krefjast sérstaks máls eða orðbragðs eða hvað það nú heitir, táknræns, konsentreraðs, „upphafins” máls. Einkum og sér í lagi hið svokallaða moderne ljóð. Það er hverju orði sannara að rímið bjargar miklu í þeim andlegu bágindum, sem gömlu mennirnir eiga við að stríða, en rímleysan verður að berjast upp á eigin spýtur. Hún stendur eða fellur með sér sjálfri án utanaðkomandi hjálparmeðala. Henni er, þótt undarlegt megi virðast, raunverulega miklu þrengri stakkur sniðinn.

Sýnist þér yngstu skáldin yrkja um annað en það, sem skáld næstu kynslóðar á undan ortu um?

Það veit ég ekki með vissu, en sennilega eru yrkisefnin ávallt hin sömu, nefnilega skáldið sjálft.

Virðist þér að þeir taki yrkisefnin öðrum tökum, sjái þau ef til vill á annan hátt, skynji þau öðruvísi?

Það gera þeir að vísu eða það ætla þeir sér að minnsta kosti. Annars virðist mér inntak og áætlun allrar nútímalistar stefna að æ innhverfari túlkun persónuleikans. Það er sjálfsagt gott, en það á sjálfsagt einnig eftir að springa í loft upp eins og allar aðrar stefnur og kenningar. Er lífvænlegur skáldskapur í bókinni? Ég á erfitt með að dæma um það. Sjálfsagt eiga efnilegustu skáldin í þessari bók eftir að gera betur. Það vona ég að minnsta kosti. Þetta er ekki sagt ljóðunum til lasts, heldur höfundum þeirra til lofs og dýrðar. Er hann jafnlífvænlegur og skáldskapur næstu kynslóðar á undan? Ég á líka dálítið erfitt með að dæma um það. Sú skáldakynslóð, sem þarna kemur fram, er að mestu leyti óráðin gáta. Næsta skáldakynslóð á undan er afturámóti löngu ráðin gáta. Í fljótu bragði virðist mér vanta lífsháskann í þessa bók, ef ég mætti orða það svo. Menn verða ekki mikil skáld nema því aðeins að þeir komist í mikinn lífsháska, séu leiddir út undir högg eins og Þórir Jökull eða flæði á skeri suður í Kópavogi eins og Jón gamli í Digranesi. Við gömlu mennirnir erum kannski ekki mjög mikil skáld, en það litla sem við erum, erum við sökum þess að við vorum eitt sinn í háska staddir.

Hvað viltu annars segja um einstök skáld bókarinnar?

Ég er vitanlega ekki þess umkominn að fella dóma yfir þessum ungu skáldum, enda naumast tímabært að öllu leyti. Þó get ég, ef þú óskar þess, sagt þér mitt álit á fáeinum þeirra, en ég tek það fram að það er aðeins skoðun mín eftir lauslega athugun og eins og nú standa sakir. Og skal þá fyrst frægan telja Jón úr Vör. Mér virðist hann hafa nokkra sérstöðu meðal þessara skálda. Hann er þeirra elztur sem slíkur og hefur ekki orðið fyrir áhrifum frá neinum nema sænsku öreigaskáldunum svokölluðu, sem nú eru löngu gleymd og grafin. Þrátt fyrir það er hann allgott skáld og býsna nýtízkulegur. En hann er varla til eftirbreytni. Það er naumast á nokkurs annars manns færi að þræða það einstigi milli skáldskapar og leirburðar sem hann fer.

Hannes Sigfússon er einkennilegur hæfileikamaður. Kvæði hans, Dymbilvaka, virðist runnið upp úr skáldskap Eliots eða öllu heldur misskilningi á honum, en þessi misskilningur Hannesar eða hvað það nú er á The Waste Land hefur á einhvern dularfullan hátt orðið til þess að skapa þetta sjálfstæða, mikilúðlega og dulmagnaða kvæði. Ég veit engan lærisvein Eliots hafa sloppið svo vel. Ennfremur yrkir hann á meira máli en flestir aðrir í þessari bók: Hann verður að teljast í allra fremstu röð hinna ungu skálda, hvað sem síðar verður.

Hannes Pétursson er „vonarstjarnan“ í þessari bók. Ég hef aldrei vitað íslenzkan mann á hans aldri yrkja jafn vel. Það er að vísu engin trygging fyrir glæsilegri framtíð. Þó má það undarlegt heita ef þar er ekki gott skáld á ferðinni. Það er ekki úr vegi að leiðrétta hér þann misskilning, sem ég hef mjög orðið var við, að Hannes Pétursson sé lærisveinn Snorra Hjartarsonar. Það er hann ekki í þessum kvæðum að minnsta kosti. Afturámóti hefur hann lært mikið af Jóni Helgasyni og er gott til þess að vita.

Einar Bragi er víst mikill áhugamaður um skáldskap, en ekki verður ennþá séð hvert sá áhugi leiðir hann. Gunnar Dal minnir mig allmikið á Ásmund frá Skúfstöðum — og má það undarlegt heita. Ljóð Stefáns Harðar eru skrítin og skemmtilega gerð, þegar bezt lætur. Það má vel vera að frá honum sé nokkurs að vænta. Þorstein Valdimarsson hef ég aldrei kunnað að meta. Mér finnst kveðskapur hans óekta, þruglkenndur og lífvana tilbúningur, uppblásinn af einhvers konar gamaldags og umfram allt leiðinlegri rómantík. Kristján frá Djúpalæk hélt ég að væri gott skáld, allt að því þjóðskáld. Ég hef að vísu ekki lesið bækur hans, en eftir þessum kvæðum að dæma virðist mér ekki mikils frá honum að vænta.

Um Thor Vilhjálmsson þori ég lítið að segja. Hann er fullur af skáldlegum belgingi eins og ungum mönnum er tamt. Það kæmi mér að vísu ekki allskostar á óvart að hann yrði einhverntíma í framtíðinni talinn til spámannanna, en eins og nú standa sakir finnst mér alvara hans dálítið innantóm og jafnvel allt að því brosleg á stundum.

Jón Óskar er kannski alvarlegasta skáldið í bókinni, en ef til vill hefur hann valið sér óheppilega lærimeistara, Eluard og Neruda. Ekki er ég samt að lasta þá mætu menn, en þeir eru nokkuð fjarskyldir okkur eins og kannski frönsk og rómönsk menning yfirleitt. Þegar allt kemur til alls erum við ekki annað en barbarar, germanskir, engilsaxneskir og norrænir barbarar. Þar stendur fé okkar fótum. Þar er sjálf uppspretta okkar, sem ekki lætur að sér hæða.

Að lokum langar mig til þess að minnast á Sigfús Daðason, „heiðursgestinn sem ekki er viðstaddur“, eins og Björgvin sýslumaður sagði forðum. Margir munu sakna þess að sjá hann ekki í þessum skáldahópi, því að við hann eru tengdar miklar vonir margra góðra manna.

Jón Óskar

Jón Óskar (Ásmundsson) (F. 18. júlí 1921. D. 20. október 1998) var skáld og rithöfundur, einn af frumkvöðlum módernisma í íslenskri ljóðagerð og í hópi atómskáldanna svonefndu. Hann samdi einkum smásögur og ljóð, en einnig eina skáldsögu, ferðahugleiðingar og rit sagnfræðilegs eðlis. Á árunum 1969–1979 komu út í sex bindum æviminningar hans um líf skálda og listamanna í Reykjavík á árunum 1940–1960. Jón var einnig afkastamikill þýðandi úr ítölsku og frönsku og þýddi m.a. ljóð eftir Baudelaire, Verlaine og Rimbaud auk verka í óbundnu máli eftir Albert Camus, Carlo Levi, Ignazio Silone, Simone de Beauvoir, George Sand og fleiri.