Hann kvaðst á við fjandann

Hugleiðingar kringum Stein Steinarr — eftir Guðmund Andra Thorsson. Andvari 133. árg. 2008

Steinn Steinarr gat trútt um talað þegar hann kvartaði um að lífsháskann vantaði í ljóð ungu skáldanna í viðtali við Birtingsmenn árið 1955: Hann kvaðst á við fjandann.1Steinn Steinarr: Kvæðasafn og greinar, Helgafell 1964, bls 329. Í viðtalinu segir hann meðal annars: „Í fljótu bragði virðist mér vanta lífsháskann í þessa bók, ef ég mætti orða það svo. Menn verða ekki mikil skáld, nema því aðeins, að þeir komist í mikinn lífsháska, séu leiddir út undir högg eins og Þórir jökull eða flæði á skeri suður í Kópavogi eins og Jón gamli í Digranesi.“

Ferð án fyrirheits kom fyrst út árið 1942 og síðar sendi hann frá sér aukna og endurbætta útgáfu sem hafði í raun að geyma úrval ljóða hans. Þótt Steinn lifði til ársins 1958 varð þetta síðasta eiginlega ljóðabók hans — síðasta bókin þar sem safnað er saman ljóðum af ýmsu tagi og þau látin kallast á með óbeinum hætti, laustengd. Ljóðabálkurinn Tíminn og vatnið kom á bók 1948 og hafði að einkunnarorðum að ljóð skyldu ekki merkja neitt heldur vera — ljóðin eru samkvæmt því sjálfstæður veruleiki sem okkur býðst að ganga inn í og njóta en sé ætlunin að leita merkingar er verið að fara í ljóðhús að leita predikunar. Sérhver tilraun til túlkunar er samkvæmt þessum hugsunarhætti þýðing á nýtt tungumál, og þar með fölsun. Hvernig svo sem túlkunarmöguleikum kann að vera háttað á þeim orða- og rímballett sem Tíminn og vatnið er má ef til vill segja að þar hafi skáldið horfið inn í ljóð sitt þegar það var loks fullskapað og fagurt.2Um Tímann og vatnið sjá Kristín Þórarinsdóttir: „Og líf mitt stóð kyrrt eins og kringlótt smámynt“: líf og listsköpun Steins Steinarr á tilurðarárum Tímans og vatnsins. Skírnir 2008 vor. bls 41–81.

En áður hafði hann sem sé kveðist á við fjandann. Í niðurlagi bókarinnar Ferðar án fyrirheits víkur hann að því hlutskipti sínu þegar hann stígur fram í lokin í ljóðinu Undirskrift og ávarpar lesendur sína líkt og leikari eftir sýningu í epísku leikhúsi sem afklæðist gervinu og gerir grein fyrir sjálfum sér og jafnvel því hvaða ályktanir má draga af því sem á undan er gengið. Ljóðið hefst á sposkri hlédrægni. Steini var í ljóðum sínum tíðrætt um það hversu lítils álits skáldskapur hans nyti meðal þjóðarinnar — og á honum að skilja að það væri að verðleikum — en hér minnir hann eiginlega fremur á stoltar húsmæður fyrri tíma sem sögðu gjarnan „fyrirgefiði hvað þetta ómerkilegt“ um krásirnar sem bornar voru á borð; segist ekkert frekar hafa að segja lesendum þessarar bókar „ef einhverjir eru“; hér sé hann sjálfur og þetta sé „allur minn auður“ / hið eina sem ég hef að bjóða lifandi og dauður“.

Því næst víkur hann að sérstöðu sinni í samfélaginu og segist vita að hann sé ekki talinn „í ykkar hópi“ heldur „skringilegt sambland af fanti og glópi“. En svo koma málsbæturnar: hann segist „langt að kominn úr heimkynnum niðdimmrar nætur, / og niður í myrkursins djúp liggja enn mínar rætur“.

Í „heimkynnum niðdimmrar nætur“ hófst sem sé þessi ferð án fyrirheits sem þarna er afstaðin. Í næsta ljóði á undan þessu, Tveimur skuggum, yrkir Steinn eins og stundum áður um samskipti sín við heiminn og undarlegan samruna: Og eins og stundum áður koma í lokin drungaleg og torskilin skilaboð frá fjarlægri rödd sem spáir því að hann eigi að vísu í vændum að „hverfa í heimsins skugga“ en hins vegar muni líka heimurinn „hverfa í skugga þinn“3Kvæðasafn og greinar, bls 161.. Í ljóðinu þar á undan — / Í draumi sérhvers manns — er svipuð hugsun, nema þar á sér stað samruni draums og manns.

Sömu gagnvirku ummyndanir eru hvarvetna í bókinni — í ljóðinu Hamingjan og ég, nema þar fær hamingjan loks vestfirskan framburð þegar skáldinu hefur tekist að tileinka sér þann sunnlenska; í ljóðinu / kirkjugarði þar sem óvissa ríkir um það hvor dó, syrgjandinn eða líkið; í ljóðinu Heimurinn og ég þar sem „ólán mitt er brot af heimsins harmi,/ og heimsins ólán býr í þjáning minni“; og í ljóðinu Þjóðin og ég þar sem líf hans er aðeins „táknmynd af þessari þjóð, / og þjóðin sem heild er tengd við mitt ókunna ljóð“.

Hér er hann staddur: í þann mund að gerast hluti af heiminum/þjóðinni/ hamingjunni/draumnum og þessi fyrirbæri þar með hluti af honum. Þessar stöðugu ummyndanir eru með öðrum orðum sú ferð sem hófst í „heimkynnum niðdimmrar nætur“.

Það orðalag leiðir hugann að ævisögu Steins eftir Gylfa Gröndal, en hafi maður lesið hana er freistandi að tengja þetta myrka upphaf ömurlegum bernskukjörum.4Sex ára gömlum var Aðalsteini Kristmundssyni komið fyrir hjá Kristínu Tómasdóttur sem varð fóstra hans og hann hafði í miklum metum alla tíð. Þá hafði barnið upplifað hreppaflutning, fátækt og aðskilnað frá móður sem ekki virðist hafa haft aðstæður til að hugsa sómasamlega um barnið og föður sem ekki taldi sig eiga það. Sjá Gylfi Gröndal: Steinn Steinarr, leit að ævi skálds I, JPV Forlag, 2000, bls 53 og bls 105–6 þar sem fjallað er um samband Steins við Etilríði móður sína og meðal annars haft eftir honum sem barni: „Mér er sagt að þetta sé móðir mín. Ég þekki hana ekkert.“ Í þriðja erindi Undirskriftar heldur hann áfram að gera grein fyrir sjálfum sér vafningalaust og af einlægni. Upphafsins í myrkrinu segist hann bera „að sjálfsögðu ævilangt óbrigðult merki“ og minnir á að örlög hvers manns móti verk hans. Í lokin koma svo frægar línur:

Það var lítið um dýrðir og næsta naumt fyrir andann.
Mitt nafn er Steinn Steinarr, skáld. Ég kvaðst á við fjandann.

(Kvæðasafn og greinar, bls 162.)

Fyrri línan hefur að geyma dæmi um stílbragð sem Steinn hafði miklar mætur á og má kannski segja að sé nokkurs konar „falskur hortittur“. Vísuorðinu virðist hnoðað framan við hina öflugu lokalínu og frasinn „Það var lítið um dýrðir“ er svo lítilfjörlegur í þessu samhengi að það er naumast einleikið. Skáldið notar þannig útjaskaðan talsmálsfrasa í óvæntu samhengi kringum mjög dramatískar línur svo að útkoman verður klassískur og útsmoginn úrdráttur kringum útmálun þjáningarinnar, svolítið eins og dauft bros út í annað sem færir okkur nær skáldinu. Ljóðið verður fyrir vikið meira í líkingu við samtal skálds og lesanda. Þessu stílbragði — að láta flatneskju og orðsnilld leikast á — beitti Steinn iðulega af mikilli snilld í lausamálsskrifum sínum. Undirskrift er til marks um að hið hefbundna ljóðform var þá eftir allt saman ekki „loksins dautt“. Það er reglufast í hrynjandi, rími og ljóðstafasetningu, og gæti ekki verið eftir neitt annað skáld. Þarna er Steinn Steinarr lifandi kominn: formfast og hátíðlegt tungutak með kaldranalegu glotti, beinskeytt afhjúpun á nöturlegu hlutskipti í lífinu sem skáldið horfist staðfastlega í augu við og greinir frá undanbragðalaust.

II

Meðal þess sem gefur Ferð án fyrirheits jafnsterkan heildarsvip og raun ber vitni er að bókin er römmuð inn með tveimur ljóðum sem kallast á og bera hvort um sig skáldi sínu vitni. Aftast er Undirskrift en fremst er hins vegar Tileinkun. Það er einkennilegt ljóð, í senn torskilið og óhugnanlegt og þar virðist skáldið takast á við svo djúpa persónulega reynslu að hún verður ekki túlkuð með röklegum hætti. Ljóðið hefur hins vegar yfirbragð hinnar rökrænu reglufestu og fastmótuðu heildar. En þegar rýnt er í það skreppur merking þess sífellt undan manni og á mann sækir tilfinning um óreiðu og sundrað sjálf:

Til þín, sem býrð á bak við hugsun mína,
blóðlaus og föl, og speglar ásýnd þína
í mínum kalda og annarlega óði.

Frá mér, sem horfði úr húmi langrar nætur
á heimsins blökku dýrð, og reis á fætur
með jódyn allra jarða mér í blóði.

Og ég var aðeins til í mínu ljóði.

Í lokaljóðinu — Undirskrift — sagðist hann kominn úr heimkynnum niðdimmrar nætur og eiga þar sínar rætur. Hér eru þær. Hér ríkir kuldi og annarleiki, hér er myrkur og nótt, og hér sleppur skáldið undan öllu saman með fjarstæðukenndri útmálun á hverfulli tilvist í eigin einkaheimi, eins og öll vanrækt börn.

Til þín — frá mér: Og ég var aðeins til í mínu ljóði. Þetta er sem sagt ekki frá mér heldur mér. Hér er í vissum skilningi ort kringum hina frægu staðhæfingu Arthurs Rimbauds „Je est une autre“ sem er meðal helstu útgangspunkta nútímaljóðlistar. Þessi tileinkun er að minnsta kosti ekki frá Aðalsteini Kristmundssyni heldur frá þeim Steini Steinarr sem ritar undir allt saman í lok bókarinnar — frá þeim sem hefur búið sjálfan sig til og risið á fætur með „jódyn allra jarða“ í blóði sér. Er þetta ástarljóð? Ávarpar skáldið hér músu sína? Er þetta hin tilbúna Beatrís Steins Steinarr sem hér birtist okkur? Það er hæpið. Hún er meira eins og draugur. Hér er lífvana kvenpersóna ávörpuð sem speglar sig blóðlaus og föl í köldum og annarlegum óði skáldsins; hún virðist í senn stödd í ljóði hans og fyrir utan það, hún grúfir einhvern veginn yfir því, virðist ríkja yfir því og vera inni í því, vegna þess að hún býr „á bak við hugsun mína“. Fyrsta erindið einkennist af lífleysi, annarleika og kulda en næsta erindi er á hinn bóginn þrungið einhvers konar lífi — kannski ekki góðu lífi en þar er — að minnsta kosti að finna blakka dýrð heimsins sem myndar andstæðu við fölan litinn í fyrsta erindi. í fyrsta erindi er lamandi nálægð — það hreyfist „til þín“ en í öðru erindi er athöfn sem beinist „frá mér“. Og lokalínan má kannski segja að sé „til mín“. Ljóðið er allt umlukið slíku rökkri að erfitt er að sjá til í því en það virðist samt sem áður fjalla um nokkurs konar endurlausn undan „henni“ sem speglar sig í hugsun og köldum og annarlegum óði skáldsins; endurfæðingu frá blóðleysi til blóðs, til blakkrar dýrðar heimsins frá fölum kulda, til jódyns frá húmi langrar nætur — til jarðarinnar og til ljóðsins.

Og loks þegar skáldið hefur endurskapað sig í ljóði sínu — þar sem það er aðeins til — þá getur hann snúið huga sínum á ný til upphafsins — „til þín“ — þaðan sem ferðinni var heitið. Og er þetta þá ástarljóð? Í raun og veru ekki: nærtækara er að líta svo á að hér yrki skáldið til hinnar fjarverandi móður; skortinn á móðurástinni í frumbernsku sem skáldið „ber […] að sjálfsögðu óbrigðult merki“ eins og segir í Undirskrift.

III

Gunnar Eyjólfsson leikari hefur sagt frá því þegar hann og aðrir skátar úr Keflavík gengu árið 1938 til Herdísarvíkur frá Krýsuvík í þeirri von að koma auga á mesta skáld Íslands Einar Benediktsson en áður en haldið var af stað las skátaforinginn Helgi S. Jónsson kvæðið Útsæ fyrir drengina.5Sjá Gylfi Gröndal: Steinn Steinarr, leit að ævi skálds I, JPV útgáfa, 2000, bls 173–174. Þegar þangað var komið sat skáldið úti undir húsvegg og lotningarfullur hópur drengjanna safnaðist að honum. Skáldið spyr hverjir séu á ferð og fær þau svör að hér séu komnir skátar út Keflavík.

Þá spyr Einar: „Er Steinn Steinarr í hópnum?“
Og varð fyrir miklum vonbrigðum þegar hann komst að raun um að svo væri ekki. Seinna komst Gunnar að því að Einar Benediktsson var alltaf að bíða eftir Steini Steinarr. Hann leit á hann sem arftaka sinn.

Raunar hafði Steinn farið á fund Einars Benediktssonar með Magnúsi Á. Árnasyni málara nokkrum árum fyrr en sú heimsókn mun hafa endað með ósköpum eftir að þeim Steini og Einari virðist hafa lent saman þegar Magnús fór út að mála — og var hann beðinn að koma „aldrei með það helvítis kvikindi aftur“.6Magnús Á. Árnason: Gamanþættir af vinum mínum, Reykjavík 1967, bls 125–126.

Þegar hér var komið sögu var Einari vissulega tekið að förlast. Og sú hugmynd að Steinn hafi í einhverjum skilningi verið arftaki Einars Benediktssonar virðist fáránleg. Einar orti voldug kvæði út frá sögulegum viðburðum og völdum stöðum í náttúrunni, þrungin speki um hinstu rök; þar var vit og niðurskipan hlutanna og Guð. Og þar var vissa um eigið erindi.

Ekkert af þessu var nokkru sinni í ljóðum Steins: hann gerði yfirleitt lítið úr sjálfum sér í ljóðum sínum — sem er vissulega ein tegund mikillætis — beitti viljandi stílbragði „hins falska hortitts“ til að draga úr fjálgi, og væru ljóð kennd við merka staði eins og Þingvelli eða gamlar sagnir eins og um víg Snorra var slíkt yfirleitt í hálfkæringi gert. Mörg kvæði Steins miðluðu beinlínis hálfgerðri andspeki — því var slengt framan í lesandann í hverju ljóðinu á fætur öðru að lífið væri tilgangslaust, hláleg markleysa, tóm þjáning, eilíft líf væri ekki til, þaðan af síður Guð.

Einar Ben. reyndi að sýna mátt sinn í ljóðum sínum, hvernig sem á stóð, lét oftast nær eins og hann væri ósigrandi — eða að minnsta kosti stór í ósigri. Steinn Steinarr játaði sig sigraðan, tók sér stöðu í ósigrinum miðjum og lét hann umvefja sig — og ummyndast þar með um leið í einhvers konar sigur.

Helsti munurinn á þeim Steini og Einari Ben. felst sennilega í sjálfum stellingum þeirra, afstöðunni gagnvart lesandanum. Einar Ben. messar yfir lesendum sínum sem er ætlað að ígrunda spekina og tileinka sér hana; Steinn talar hins vegar við okkur í ljóðum sínum, næstum eins og góður kunningi að deila með okkur hugrenningum sínum í góðu tómi. Sennilega höfum við átt fá skáld sem tileinkuðu sér betur samtalstæknina í ljóðagerð sinni en einmitt Steinn Steinarr; Kristján Karlsson kallaði Stein „skáld fyrstu persónu eintölu“ í formála sínum að Kvæðasafni og greinum7Kristján Karlsson: Inngangur, Kvæðasafn og greinar, Helgafell 1964, bls XI. en ætli megi ekki allt eins segja að hann hafi verið skáld annarrar persónu eintölu. Orðið „þú“ er algengasta orðið í ljóðheimi hans, þótt vissulega sé hann misjafnlega hlýlegur við okkur…

Einar Benediktsson var þjóðskáld. Hann var í raun og veru síðasta 19. aldar skáldið og með þrálátri nálægð hans í íslensku þjóðlífi virtist sú öld engan enda ætla að taka. Það má raunar segja að í hvert sinn sem draumar hans skjóta upp kollinum fyllist íslenskt þjóðlíf af bjartsýnni og bernskri auðhyggju þeirrar aldar. Þjóðskáld eins og hann var almennt talið hafa vald á launhelgum orðsins og þar með aðgang að goðkynjuðum sannindum sem öðru fólki væru hulin, og fær um að miðla þeim vísdómi í fagurmótuðum og reglulegum setningum sem fengu galdur sinn ekki síst af sjálfri bragdýrðinni. Þjóðskáldið er samkvæmt þessum átrúnaði nokkurs konar sjaman sem hefur aðgang að huldum heimum og blessar yfir athafnir samþegna sinna rneð máttugum orðum sínum: mælir fram hendingar sínar við vígslu mannvirkja og á tímamótum í þjóðarsögunni, blessar allt með merkingu. Davíð Stefánsson og Tómas Guðmundsson freistuðust báðir til að máta sig við slíkar stellingar: Davíð þrumaði drápu yfir sofandi Noregskonungi. Tómas orti ljóð til blessunar Sogsvirkjun sem hann var þó algerlega andvígur í hjarta sér — svo mjög að seinasta alvöru ljóðabók hans Fljótið helga frá 1950 má heita samfelldur dýrðaróður til hins óbeislaða Sogs.

Steinn Steinarr hafði forakt á þess háttar skáldaskyldum og setti sig ekki úr færi að yrkja sem háðuglegastar skopstælingar á hátíðakveðskap — og reyndar líka ljóðagerð Einars Ben.

Ljóðið Afturhvarf í Ferð án fyrirheits er hins vegar tilraun til að yrkja einlægt ættjarðarljóð. Svona hefst það:

Ó, græna jörð, ó mjúka, raka mold,
sem myrkur langrar nætur huldi sýn.
Ég er þitt barn, sem villtist langt úr leið,
og loksins kem ég aftur heim til þín.

(Kvæðasafn og greinar, bls 145)

Aftur þessi langa nótt og aftur andstæður lífsmagnsins í jörðinni, moldinni, og hrjósturs „naktra kletta og auðnir sands“ eins og segir síðar í ljóðinu. Það endar svo á því að skáldið hálfpartinn hrópar upp yfir sig: „Mitt fólk, mitt land, minn himinn og mitt haf!“ segist nú kominn heim, drúpir höfði og biðst fyrirgefningar.

Sé þetta kvæði tilraun til að yrkja sig í sátt við átthagana, land og þjóð, er engu líkara en að Steinn reyni í kvæðinu Landsýn 26. 5. 1954 að yrkja sig í ósátt við land og þjóð. Það er einkennilega tvíátta ljóð. Þar kallar hann ísland draum sinn, þjáningu og þrá og „vængjaða auðn“. Síðan gerir hann þá játningu að hér sé staður hans, líf hans og lán og hreinlega krýpur fyrir „þér, mín ætt og mín þjóð“ — rétt eins og hann gerði í Afturhvarfi. En rétt í þann mund sem við lesendur búumst til að breiða út faðminn og sættast við skáldið eftir allt sem á undan er gengið hrópar hann upp svo við hljótum að frjósa í sporunum því í tvær síðustu línurnar leggur hann allan sinn orðagaldur til að lýsa yfir andstyggð sinni og ógeði.

Ó, þú skrínlagða heimska og skrautklædda smán,
mín skömm og mín tár og mitt blóð.

(Kvæðasafn og greinar, bls 213)

Þannig endar kvæðið eins og það hófst: á þremur nafnorðum með eignarfornafni á undan. Draumur, þjáning og þrá endar með orðunum skömm, tár og blóð — með viðkomu í orðunum staður, líf og lán. Við getum ímyndað okkur mann sem kemur með skipi og sér landið fagra — hina vakandi og vængjuðu auðn og víðernin blá. Hann fagnar og hugsar: minn… minn… minn… Og býst til þess að játa um síðir að hér sé þrátt fyrir allt sá staður sem lán hans sé bundið við en á síðustu stundu þyrmir allt í einu yfir hann — kannski þegar í land er komið og hann kynnist menningu landsmanna á ný. Ljóðið fjallar um svik. Og svikin felast í óheilindum og prjáli: Heimskan er skrínlögð og smánin er skrautklædd, því er hampað sem lítilsvert er og léttvægt og breitt er yfír glæpi. En sjálft er skáldið á einkennilegan hátt eins og hið samseka fórnarlamb. Hans blóð, hans tár og hans skömm.

Hann kemst að minnsta kosti ekki burt og því fylgja andstæðar kenndir sem stríða um völd í huga hans. Þarna rýfur Steinn eitt af helstu tabúum íslenskra bókmennta — rétt eins og Matthías Jochumsson hafði gert á undan honum í kvæðinu Volaða land — hann yrkir um andstyggð sína á landi og þjóð.

Í Afturhvarfi yrkir sá sem fór burt — villtist til borgarinnar — fullur sektarkenndar yfir því að hafa ekki yrkt jörðina. Hann sá ekki að jörðin er græn þegar hann dvaldi þar vegna þess að „myrkur langrar nætur huldi sýn”. Steinn Steinarr sem bóndi er samt sem áður svo fráleit hugmynd að erfitt er að taka ljóðið fyllilega alvarlega nema þegar það er túlkað almennt og litið svo á að hér sé ort fyrir munn þeirra þúsunda Íslendinga sem stóðu í sömu sporum: höfðu yfirgefið jörðina og upplifðu borgina sem „hrjóstur naktra kletta”.

Kannski komst Steinn næst því að yrkja hefðbundin ættjarðarljóð að þjóðskáldasið í ljóðinu Landsýn — nær landi komst hann ekki — og við heyrum það sjálfsagt seint í meðförum fjallkonunnar 17. júní. Hann var með öðrum orðum ekki þjóðskáld, að minnsta kosti ekki í sama skilningi og skáld 19. aldarinnar. Samt var hann ástsælasta skáld 20. aldarinnar, kannski síðasta skáldið sem náði til alls almennings — þjóðarinnar — með ljóðum sínum. í rauninni var hann síðasta alþýðuskáldið sem ekki var kallað því einkennilega niðrunarheiti: hagyrðingur.

IV

„Mitt nafn er Steinn Steinarr skáld“ segir hann og vottar fyrir stolti, rétt eins og í þeirri staðhæfingu að hann hafi aðeins verið til í sínu ljóði. Þegar Magnús Stefánsson — það íslenskt skáld sem kannski var einna skyldast Steini Steinarr — tók sér skáldanafn ákvað hann að kenna sig við örninn á tvöfaldan hátt: örn og sonur arnarins. Hann var þannig sá sem flaug hæst í forsal vinda, hafði mest vænghafið og ríkti yfir öðrum fuglum. Þegar Aðalsteinn Kristmundsson tók sér skáldanafn valdi hann sér á hinn bóginn nafnið Steinn Steinarr. Hann kennir sig við það sem liggur á jörðinni, og er hluti af jörðinni, það sem flýgur ekki (nema því sé grýtt), blómstrar ekki, syngur ekki — liggur bara. Nafnið vísar á svo hversdagsleg fyrirbæri — ekki síst hér á landi — svo litlaust, ómerkilegt og fábrotið að útkoman verður svolítið eins og af „falska hortittinum“: frumleg og gott ef ekki beinlínis litrík. Steinninn er líka harður í gegn, allur eins og allur hann sjálfur. Dropinn kann að hola steininn — um síðir — en steinninn hins vegar harðari en fyrirbærin sem hann kemst hugsanlega í snertingu við. Kannski var hann að víkja að þessari nafngift með glott undir tönn í skopkvæðinu Mannkynssaga handa byrjendum sem hefst á línunum:

Undan ferðamannsins fæti
valt steinn úr stað
og steininn hélt áfram að velta,
veiztu það?

(Kvæðasafn og greinar, bls 201)

Tildrög þess að Aðalsteinn Kristmundsson tók sér þetta sérkennilega nafn eru hvergi rædd í ævisögu Steins eftir Gylfa Gröndal né heldur bók Sigfúsar Daðasonar um Stein, Maðurinn og skáldið. Hins vegar kemur það fram hjá Gylfa að Steinn hafi byrjað að yrkja fyrir alvöru þegar hann bjó í Grindavík árið 1930 og barðist þar við að hafa í sig og á af veikum mætti. Það kemur líka fram hjá Gylfa að árið 1932 hafi í fyrsta sinn birst ljóð á prenti undir nafninu Steinn Steinarr. Að sögn Tómasar Þorvaldssonar heimildamanns Gylfa var faðir Steins Kristmundur Guðmundsson samtíða Steini í Grindavík á þessum árum og segir Tómas að ekki hafi verið kært með þeim feðgum.8Sjá Gylfi Gröndal: Steinn Steinarr, leit að ævi skálds I, bls 157. Það má leiða að því getum að endurnýjuð kynnin af föðurnum fjarverandi hafi hvatt unga manninn til að hætta að kenna sig við hann en kenna sig heldur við sjálfan sig, eða öllu heldur þann eiginleika sinn sem hann taldi sig þurfa helst á að halda við eigin endursköpun: hann hafi viljað hleypa í sig hörku.

Og ekki veitti af: Hann átti í vændum að kveðast á við fjandann.

V

Steinn Steinarr hefur löngum verið nokkurs konar persónugervingur ljóðbyltingarinnar sem hér varð um miðbik 20. aldarinnar, þegar rím og stuðlar og hefðbundin hrynjandi véku og aðrar ljóðrænar eigindir voru settar í öndvegi.9Í bók sinni Atómskáldin tilgreindi Eysteinn Þorvaldsson þrjú mikilvæg einkenni nútímaljóða: Óbundið form, samþjöppun í máli og loks „frjálsleg og óheft tengsl myndmáls“. Sjá Atómskáldin, Hið íslenska bókmenntafélag 1980, bls 196. Það kann að vera umdeilanlegt, þó ekki væri nema fyrir þá sök að ljóðaflokkurinn Tíminn og vatnið — helsta móderna verk hans — er að mestu rímaðar og stuðlaðar tersínur hlaðnar samlíkingum af því tagi sem Einar Bragi úthýsti úr nútímaskáldskap í frægum ritdómi um Sjödægru.10Birtíngur 4/1955, bls 38. Á hinn bóginn var það Steinn sem gaf út sjálft dánarvottorð hins hefðbundna ljóðforms í viðtali við Steingrím Sigurðsson í Lífi og list.11Kvæðasafn og greinar, bls 322–326. Og um hann sagði Sveinn Skorri Höskuldssson prófessor í íslenskum nútímabókmenntum í bók sinni um þessa Ijóðbyltingu að stærð Steins sé þvílík í íslenskum bókmenntum síðustu áratuga, „að segja megi að hann hafi í raun og veru bæði hafið og lokið því fyrirbæri, sem oft er kallað formbylting ljóðsins á Íslandi.“12Sveinn Skorri Höskuldsson: Að yrkja á atómöld, Reykjavík 1970, bls 25. Og einn af hinum róttækari byltingarmönnum og aðdáendum Steins, Hannes Sigfússon skáld sagði í viðtali við Silju Aðalsteinsdóttur í Tímariti Máls og menningar árið 1989: „Það er mín kenning um Stein Steinarr að hann væri, burtséð frá Einari Benediktssyni, fyrsti Íslendingurinn sem orti með allan heiminn í vitundinni.“13Hér vitnað eftir Íslenskri bókmenntasögu V, Reykjavík 2006, bls 40.

Kannski má það einu gilda hver var formbyltingarmaður og hver ljóðbyltingarmaður og hver hvorugt þetta — svona eftir á að hyggja — og sennilega hefur fullmikið verið einblínt á formræna þætti í umræðu á Íslandi um það mikla rof sem hér varð í ljóðagerð um miðja 20. öldina þegar skyndilega var varpað fyrir róða mörghundruð ára gömlum aðferðum.

Við megum samt ekki gera of lítið úr forminu: íslensk skáld hafa frá elstu tíð verið formdýrkendur og litið svo á að staka eða ljóð skuli vera fögur smíði í sjálfu sér. Andri Snær Magnason rithöfundur, ljóðskáld og íslenskufræðingur hélt erindi á Hugvísindaþingi árið 1999 um það hversu gjörtæk þessi bylting var. Þar minnir hann á það hversu litlar breytingar höfðu orðið á ljóðagerðinni í mörg hundruð ár þegar skáld tóku skyndilega upp á því að varpa stuðlum og höfuðstöfum fyrir róða. Að sögn Andra Snæs var með þessu „verið að leggja niður heilan menningarheim […] Ég held að það sem kæmist næst því að vekja álíka viðbrögð og tilfinningar hjá fólki nú væri ef ungu skáldin tækju sig öll til, gæfu út bækur sínar á ensku og hrópuðu: Nú er íslenskan loksins dauð.“14Andri Snær Magnason: „Ég er 900 ára gamall. Ég er 15 ára gamall. Fyrirlestur um gamalt og nýtt í íslenskri menningu frá Grýlu til Bónuss, fluttur á Hugvísindaþingi í okt. 1999.“ Sjá Íslenska bókmenntasögu V, Reykjavík 2006, bls 43 og 713.

Var Steinn þá form/ljóðbyltingarmaður? Það fer svolítið eftir því hvað við teljum vera nútímaljóð. Hannes Pétursson skáld lýsir býsna vel ákveðinni grundvallarbreytingu á ljóðlistinni sem varð með kvæðinu Sorg eftir Jóhann Sigurjónsson:

Með þessu kvæði roðar í rauninni fyrir nýjum tíma, þegar skáldin hætta að segja hug sinn, heldur sýna hann, birta hugarástand sitt með því að velja þær sýnir í kvæðin sem bezt gefa það til kynna. […] Ljóðið er ekki lengur hugsað sem eins konar samtal við lesandann, heldur eins og bygging sem skáldið reisir á víðavangi, hverfur síðan frá og lætur lesandann um að leita þangað og dvelja þar.15Hér vitnað eftir bók Þorsteins Þorsteinssonar: Ljóðhús, JPV útgáfa, 2007, bls 35.

Byggingarlíking Hannesar á sérlega vel við Tímann og vatnið. En eins og fyrr var nefnt þá var Steinn skáld annarrar persónu eintölu. Eftirlætisstílbragð hans er ávarp, hann ýmist ávarpar lesandann eins og í trúnaði, spyr hann, ráðgast við hann, móðgar hann, huggar hann — og ruglar hann í ríminu með torskildum spurningum og þversögnum, sem gerðu lesandann þeim mun ringlaðri vegna þess að hann hafði staðið í þeirri trú að hann fylgdi þræðinum fram að lokum kvæðisins; en skyndilega er eins og kippt undan honum merk— ingarlegum grundvelli hans. Hann er sem sagt sífellt að ná sambandi við lesandann — fram að Tímanum og vatninu þegar hann hverfur inn í sitt fullsmíðaða ljóð. Það sem þó gerir Stein Steinarr á endanum að nútímaljóðskáldi er ekki fjarlægð frá lesendum eða notkun hans á rími, hrynjandi og ljóðstöfum, samþjöppun í máli eða frjálslegt myndmál — ekki einu sinni notkun á samlíkingum fremur en beinum myndum — þó að allt þetta skipti vissulega máli. Það sem gerði Stein að nútímaskáldi var ósköp einfaldlega þetta: hann fékkst við nútímann.

Það sem umfram allt veldur því að hann náði svo mjög eyrum ungs fólks sem var að alast upp á seinni hluta 20. aldar var að hann tókst á við knýjandi tilvistarlegar spurningar nútímans af meiri einurð en ýmsir aðrir. Hann færði okkur tilgangsleysið. Með þversögnum sínum og hálfkveðnu vísum tókst hann á við nýja heimsmynd þar sem öll gildi og verðmæti voru á hverfanda hveli.

Silja Aðalsteinsdóttir bendir á það í grein sinni í Skírni árið 1981 að rauður þráður í ljóðum Steins hafi verið exístensíalískur.16Silja Aðalsteinsdóttir: Þú og ég sem urðum aldrei til. Existensíalismi í verkum Steins Steinarr. Skírnir 1981, 29–51. Eitt helsta einkenni þeirrar stefnu er einmitt að hún getur naumast talist stefna fremur en nokkurs konar viðhorf og laustengdar hugmyndir uppreisnargjarnra heimspekinga sem aðhylltust einstaklingshyggju og gengu út frá þeirri forsendu að maðurinn hefði frjálsan vilja, gæti valið um það hvert líf hans stefndi. Sumir existensíalistar voru trúaðir — Dostojevski og Kierkegaard til að mynda — en aðrir eins og Jean-Paul Sartre, Heidegger og Camus gengu út frá því að maðurinn stæði einn í guðlausum heimi og þyrfti að hefjast handa um að finna sér nýjan tilvistargrundvöll að standa á. Maðurinn er það sem hann gerir úr sér, ekkert annað — það er, eins og Sartre skrifaði, sjálf frumregla existensíalismans.17Jean-Paul Sartre: „Existensialism is Humanism“. Existentialism from Dostojevsky to Sartre. New American Library 1956, bls 349. Sú kvöð skapar hins vegar kvíða og jafnvel þá tilfinningu að staðið sé frammi fyrir hengiflugi.

Eiginlega er ábending Silju um áhrif exístensíalisma á heimsmynd Steins Steinars svo augljós að hún blasir við um leið og einhver hefur orð á þessu. Ekki þarf að benda á annað en ljóð eins og Dimmur hlátur úr annarri bók Steins sem hefst á línunum: „Hæ! / Ég er maðurinn, / hinn eilífi maður / án takmarks og tilgangs…“ (Kvæðasafn og greinar, bls 81). Og kannski má það heita einkennilegt að enginn skyldi verða til að setja ljóð hans í þetta alþjóðlega hugmyndasamhengi á undan henni. Hinn glöggi bókmenntaskýrandi Kristján Karlsson fjallar nokkuð um heimspeki Steins í inngangi sínum að Kvæðasafni og greinum og opnar augu lesenda á snjallan hátt fyrir aðferð Steins að beita þversögnum og röksemdafærslu ímyndunarafls og tilfinninga, opnar ljóð á borð við Utan hringsins með snjallri túlkun — en meira að segja hann segir um heimspeki Steins að hún sé „…heimatilbúin, hún er nakið mál tilfinninga hans, og þess vegna skírskotar hún beint til tilfinninga lesandans. Hún á ekki stoð í menningarlegri hefð eða hugmyndakerfi. Steinn var ekki menntaður maður í formlegum skilningi; hann sá og skildi beint og milliliðalaust.“18Kristján Karlsson: Inngangur að Kvæðasafni og greinum, Helgafell 1964, bls XVII.

Ef til vill ofmetur Kristján hér hlut háskóladvalar í menntun íslenskra skálda.

Uppgangur existensíalismans í Evrópu átti rót í tveimur hryllilegum styrjöldum og þeirri vá sem grúfði yfir mannkyni í köldu stríði þar sem kjarnorkuvopn gátu þá og þegar farið að fljúga milli andstæðra fylkinga — þetta var líka tíska og fylgdi jafnvel viss fatnaður, músík og fas slíkum viðhorfum. Hér á landi var tilvistarvandinn að nokkru leyti af öðrum toga en engu að síður ærinn. Með þjóðflutningunum sem stóðu mestalla 20. öldina úr sveit í þéttbýli hafði átt sér stað meira rof í tilveru þorra Íslendinga en dæmi voru um: Meira að segja Steinn Steinarr af öllum mönnum var fullur sektarkenndar yfir því að hafa ekki gerst bóndi.

VI

Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar segir frá því að kölski hafi veðjað við Kolbein Jöklaskáld um að sá þeirra sem ekki gæti botnað vísu hins skyldi steypast ofan af „þúfubjargi undir Jökli þegar brim geingi þar hæðst“ og vera „þaðan í frá í valdi hins.“

Erfitt er að sjá fyrir sér að skáld rati í öllu meiri lífsháska en þennan: að sitja í myrkrinu og kveðast á við kölska yfir hengifluginu. Kolbeinn botnar allt sem kölski hefur fram að færa en þegar kemur að honum sjálfum að hafa frumkvæði bregður hann á það ráð að taka hníf úr vasanum, og heldur honum „fyrir framan glyrnurnar á kölska svo eggin bar við túnglið“. Hann sigrar svo með rímbrellu: varpar fram fyrripartinum: „Horfðu í þessa egg egg / undir þetta túngl túngl“. Skratttinn er ráðalaus gagnvart þessu og þá kemur botninn: „Eg steypi þér þá með legg legg / lið sem hrærir úngl—úngl“. Brelluna þekkja öll leirskáld sem lent hafa í vandræðum: að taka í sundur orð, snúa upp á það og hafa á því endaskipti og bjarga sér þannig. Hann finnur leið út úr ógöngunum. Hann bjargast undan hengifluginu. Hann gerir sjálfan kölska sér undirgefinn með bragðvísi.19Kolbeinn og kölski. Þjóðsögur Jóns Árnasonar II, Leipzig 1864, bls 18–19.

Þetta er í stuttu máli þjóðsagan sem liggur að baki þeirri kynningu Steins á sjálfum sér að hann hafi kveðist á við fjandann. Ljóðabókin Ferð án fyrirheits geymir þá rimmu. Fjandinn sem pundar á hann hverjum fyrripartinum á fætur öðrum er hlutskipti hans í heiminum. Botninn sem hann nær jafnharðan að hrista fram úr erminni er að horfast undanbragðalaust í augu við þetta hlutskipti; lokasigurinn er að snúa upp á þetta hlutskipti — taka það í sundur svo að segja og hafa á því endaskipti.

Guðmundur Andri Thorsson

Guðmundur Andri Thorsson (F. 31. desember 1957) er íslenskur rithöfundur og alþingismaður. Guðmundur Andri hefur starfað sem blaðamaður, gagnrýnandi, ritstjóri og þáttagerðarmaður. Hann var ritstjóri bóka hjá Forlaginu og ritstýrði jafnframt Tímariti Máls og menningar. Fyrsta skáldsaga hans, Mín káta angist, kom út árið 1988 og síðan hefur hann sent frá sér nokkrar skáldsögur og hlotið fyrir þær ýmsar viðurkenningar. Hann var tilnefndur til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir Íslenska drauminn 1991, Íslandsförina 1996 og Sæmd 2013. Valeyrarvalsinn var lögð fram til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 2012. Hann hefur einnig þýtt allmargar bækur, skrifað formála og annast ritstjórn ýmissa bóka. Árið 2008 hlaut hann barnabókaverðlaun Menntaráðs Reykjavíkur fyrir þýðingu sína á Bangsímon eftir A.A. Milne.

Tilvísanir

1. Steinn Steinarr: Kvæðasafn og greinar, Helgafell 1964, bls 329. Í viðtalinu segir hann meðal annars: „Í fljótu bragði virðist mér vanta lífsháskann í þessa bók, ef ég mætti orða það svo. Menn verða ekki mikil skáld, nema því aðeins, að þeir komist í mikinn lífsháska, séu leiddir út undir högg eins og Þórir jökull eða flæði á skeri suður í Kópavogi eins og Jón gamli í Digranesi.“
2. Um Tímann og vatnið sjá Kristín Þórarinsdóttir: „Og líf mitt stóð kyrrt eins og kringlótt smámynt“: líf og listsköpun Steins Steinarr á tilurðarárum Tímans og vatnsins. Skírnir 2008 vor. bls 41–81.
3. Kvæðasafn og greinar, bls 161.
4. Sex ára gömlum var Aðalsteini Kristmundssyni komið fyrir hjá Kristínu Tómasdóttur sem varð fóstra hans og hann hafði í miklum metum alla tíð. Þá hafði barnið upplifað hreppaflutning, fátækt og aðskilnað frá móður sem ekki virðist hafa haft aðstæður til að hugsa sómasamlega um barnið og föður sem ekki taldi sig eiga það. Sjá Gylfi Gröndal: Steinn Steinarr, leit að ævi skálds I, JPV Forlag, 2000, bls 53 og bls 105–6 þar sem fjallað er um samband Steins við Etilríði móður sína og meðal annars haft eftir honum sem barni: „Mér er sagt að þetta sé móðir mín. Ég þekki hana ekkert.“
5. Sjá Gylfi Gröndal: Steinn Steinarr, leit að ævi skálds I, JPV útgáfa, 2000, bls 173–174.
6. Magnús Á. Árnason: Gamanþættir af vinum mínum, Reykjavík 1967, bls 125–126.
7. Kristján Karlsson: Inngangur, Kvæðasafn og greinar, Helgafell 1964, bls XI.
8. Sjá Gylfi Gröndal: Steinn Steinarr, leit að ævi skálds I, bls 157.
9. Í bók sinni Atómskáldin tilgreindi Eysteinn Þorvaldsson þrjú mikilvæg einkenni nútímaljóða: Óbundið form, samþjöppun í máli og loks „frjálsleg og óheft tengsl myndmáls“. Sjá Atómskáldin, Hið íslenska bókmenntafélag 1980, bls 196.
10. Birtíngur 4/1955, bls 38.
11. Kvæðasafn og greinar, bls 322–326.
12. Sveinn Skorri Höskuldsson: Að yrkja á atómöld, Reykjavík 1970, bls 25.
13. Hér vitnað eftir Íslenskri bókmenntasögu V, Reykjavík 2006, bls 40.
14. Andri Snær Magnason: „Ég er 900 ára gamall. Ég er 15 ára gamall. Fyrirlestur um gamalt og nýtt í íslenskri menningu frá Grýlu til Bónuss, fluttur á Hugvísindaþingi í okt. 1999.“ Sjá Íslenska bókmenntasögu V, Reykjavík 2006, bls 43 og 713.
15. Hér vitnað eftir bók Þorsteins Þorsteinssonar: Ljóðhús, JPV útgáfa, 2007, bls 35.
16. Silja Aðalsteinsdóttir: Þú og ég sem urðum aldrei til. Existensíalismi í verkum Steins Steinarr. Skírnir 1981, 29–51.
17. Jean-Paul Sartre: „Existensialism is Humanism“. Existentialism from Dostojevsky to Sartre. New American Library 1956, bls 349.
18. Kristján Karlsson: Inngangur að Kvæðasafni og greinum, Helgafell 1964, bls XVII.
19. Kolbeinn og kölski. Þjóðsögur Jóns Árnasonar II, Leipzig 1864, bls 18–19.