Ekki til söngs

eftir Kristján B. Jónasson. Birtist áður í Aldarminning Steins Steinarr — Lesbók Morgunblaðsins 2008

Íslensk ljóð verða helst sígild ef hægt er að tengja þau lögum. Tónsetningar hafa haft meiri áhrif á hvort almenningur kannast við vísuorð en flest annað og þótt íslenska sönglagið sé ekki lengur slíkur meginpóstur að börn og unglingar þessa lands fá söngbók þess afhenta með öðrum skilríkjum upp á fullnaðarkunnáttu í að vera Íslendingur er merkilegt hvað skólakerfinu tekst að sía ofan í sinnið. Þótt Steinn Steinarr hafi fengið á sig hjarðir angurværra vísnasöngvara á vissu skeiði í veraldarsögunni. Ljúfra radda sem stilltu réttlætisáköll hans úr Rauður loginn brann (1934) saman við gítarstrengi og útsettu kaldhamraðar og lífsspakar hálfkæringsvísur úr Sporum í sandi (1940) fyrir blokkflautu, bassa og söngrödd hefur ekkert lag orðið eftir í söngbókinni sem bróðurpartur þjóðarinnar telur sig geta raulað saman í kór. Í ljósrituðum söngheftum félagsheimilanna eru þær stöllur Dagný Tómasar, Erla Stefáns og Dísa Davíðs og enn skín þar Maístjarna Halldórs og enn setjast menn í sólskinsblett í heiði og eru jafnvel farnir að syngja um að nóttin hafi augu eins og fluga ef ég þar að segja drukkna, drukkna ekki í nótt. Steinn er þar ekki.

Það er alltof dramatískt að mana heilt félagsheimili í að kyrja Barn. Við kunnum það að vísu þegar eftir er gengið en þetta er lag og kvæði fyrir einstaklinga, ekki hópa, eitthvað sem maður getur stolist til að spreyta sig á um leið og Íslandslagadiski Björgvins Halldórssonar er smellt í tækið eða bestu lögum Ragga Bjarna. Nú eru það heldur ekki flautur og gítarhljómar sem fylgja okkur eftir ævibrautinni þar sem tvö hlæjandi börn ganga framhjá og kalla: „Gott kvöld, gamli maður, gott kvöld“, heldur stórsveit og básúnan dimma blæs til angurværrar íhugunar yfir skömmum ævigangi: Maður fær kannski það sem nú er kallað aulahrollur, en hét áður að fyrirverða sig. Þetta er eiginlega algerlega banalt kvæði. En það er í því íslenskur þungi, eðliseigindir sem eitt sinn fylgdu megninu af því sem ritað var á íslensku, ekki síst ef það var rímað og stóð í hljóðstaf. Þessi blýsökkulega kennd fyrir forgengileikanum og því flöktandi skari sem lífið er í öllum stórviðrum heimsins. Smám saman höfum við vanist af því að hugsa þannig um okkur sjálf, að við séum á valdi mikilla forlaga, ólæknandi sjúkdóma, ömurlegrar fátæktar, úrræðaleysis og líkamlegs vanmáttar. Kjötát, kaupleigulán og líkamsrækt hafa gert okkur ónæmari fyrir því sem er veikt og vanburða og þar með okkar eigin veikleikum, því sem hægt tifar inni í okkur sjálfum og mun að síðustu yfirbuga okkur. Það er aðeins þegar Raggi Bjarna eða Bjöggi eru komnir á fóninn að það læðist að okkur sú hugsun að þetta einfalda kvæði við þetta mikla lag Herberts H. Ágústssonar sé að segja okkur svo einfaldan hlut að hann stingi. Einn daginn verðum við gömul. Við horfum á lífið renna hjá, hörmum það og deyjum svo. Þetta er ekki flóknara en það. Lítið kvæði, þrjú erindi: Fyrst er sá sem talar barn, síðan ungur maður, loks gamall. Svo búið.

„Það bjargast ekki neitt, það ferst, það ferst.“: Jafnvel mitt í myndflaumi Tímans og vatnsins (1948) glittir stöðugt í harða lendinguna, steininn sem hlær. Þessi myndasýning í ljóði, þessi æfing í óræðni er eðlilegt framhald af sérstakri náðargáfu Steins við að spinna upp röklegar tengingar sem leiða til eindreginnar niðurstöðu sem maður þó ekki skilur til fulls. Steinn líkist í þessu engu innlendu skáldi nema það væri Sigfúsi Daðasyni sem kunni líka þá list að hanna samhengi sem hann kynnti lesendum sem pottþétta rökleiðslu sem leiddi til eindreginnar en fullkomlega ljóðrænnar niðurstöðu. Tíminn og vatnið er séð frá þessu sjónarhorni æfing í ljóðrænni rökvísi. Fyrst fáum við að vita að tíminn jafngildir vatni, síðan að vatnið sé eins og vitund mannsins. Þetta jafngildir því þó ekki að vitundin jafngildi tímanum. Vatnið er kalt og djúpt og við drögum þá ályktun að það sé kuldinn og dýpið sem sé það sem einkenni vitund mannsins, ekki tíminn með viðkomu í vitundinni. En samt ekki. Í næsta erindi er sagt að tíminn jafngildi vitund mannsins og vatnsins, 50–50. Sum sé við erum með samhengi sem minnir á miðaldalega rökleiðslu að sönnun á þríeiningu Guðs. Tími, vatn og vitund eru aðskildar einingar sem þó jafngilda hver annarri og verða að lokum eitt. Hvað á þetta að segja okkur? Við vitum það ekki en þessi uppstilling á jafngildi og sérgildi og óljós aðgreining þessa tveggja er sérgrein Steins í ljóðlistinni, það sem í raun heillar lesendur enn í dag ásamt úrdrættinum, hinu ástsæla stílbragði hans.

En harða lendingin er alltaf þarna, niðurstaðan úr Barni. Steinn líkist í þessu skáldum expressjónismans þar sem kerskni, hástemmd lýrík og tilfinning fyrir yfirvofandi endalokum eru allt sterkir stofnar. En þessi þráður í kvæðum Steins hefur smám saman vikið úr vitund íslenskra lesenda og í staðinn komið áhersla á kersknina og hið kaldhamraða háð. Þegar nánar er að gætt er Steinn Steinarr hins vegar í grunninn stöðugt að yrkja um vegginn sem rás atburðanna skellur á sama hvað hver segir. Þessi tónn forgengileikans er margreyndur í íslenskum bókmenntum og Steinn þekkti vel hvaðan hann kom eins og má sjá í paródískum æfingum hans í stílbrögðum fortíðar. Þetta var tóninn úr skáldskap kirkjunnar, sálmunum og hinum andlegu kvæðum. Þetta er þó ekki „trúarlegur“ tónn eins og nú er alltaf sagt ef menn órar fyrir að skáld vísi til frumspekilegs samhengis í verkum sínum, þetta er einfaldlega heimssýn sem lá til grundvallar bróðurhlutanum af því sem var skrifað á Íslandi í einar þrjár aldir og íslenskir rithöfundar voru orðnir gríðarlega þjálfaðir í meðferð þessa tóns. Steinn tók hann og heimfærði upp á aðstæður þar sem efnisleg hrörnun fór hönd í hönd við vangetu mannsins til að standa með því sem honum þótti dýrmætast. Mælandinn hjá Steini hefur týnt möguleikanum á að endurheimta draum sinn og það sem meira er, draumurinn hefur afvegaleitt hann inn í öngstræti þar sem endalokin bíða. Þessi endalok eru ekki göfug eða leiða til nýs lífs handan við hina frumspekilegu markalínu, heldur þýða þau skipbrot fyrir viljann til að verða meira en maður sjálfur, hefja sig upp. Þessi neikvæða endurritun rómantískrar leitar að fögrum táknum, mikilúðlegum örlögum og dularfullu heildarsamhengi er skrumskælt með röklegum æfingum sem að endingu leiða ekki neitt. Tíminn og vatnið er rökleg æfing í að leiða aldrei að stóru ídeunni, stóra tákninu á bak við heildina. Í staðinn er myndum hlaðið upp og þær látnar búa til umsnúna heildarmynd þar sem meginhugtök á borð við vitund, vatn, tíma, jafnvel Guð, eru ósamstæðar eindir sem bera upp mynd og mynd, áhrifamiklar í sjálfu sér, en án þeirrar endanlegu lausnar sem rómantísk skáld gerðu ráð fyrir og raunar skáld löngum eftir það. Séu kvæði Davíðs Stefánssonar eða jafnvel skáldskapur Jóhannesar úr Kötlum borin saman við Stein þá sést vel hvað átt er við.

Raunar er það þannig að Tíminn og vatnið hefur verið tónsettur af Atla Heimi Sveinssyni, hinum ástsæla tónsyni þjóðarinnar. En sú tónsetning hefur enn ekki ratað inn á söngblöð þorrablótanna. Þar eins og annars staðar er Steinn ekki að berja upp stemninguna. Hann er skáld skipbrotsins og kaldhæðins úrdráttar þess sem horfir upp á niðurbrot draumanna. Um leið og blokkflauturnar þagna og gítararnir slá ekki lengur hljóm af streng situr þetta eftir. Og þetta er magnaður skáldskapur. Opnið fermingar- og útskriftargjafabækurnar ykkar, ritsöfnin í hillunni, og styrkið ykkur með Steini.

Kristján B. Jónasson

Kristján Bjarki Jónasson (F. 23. nóvember 1967) er íslenskur bókaútgefandi og rithöfundur og fyrrverandi formaður Félags íslenskra bókaútgefanda. Hann er eigandi bókaútgáfunnar Crymogeu og er kvæntur skáldinu Gerði Kristnýju.